Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2018 Lindargata Skúlagötusvæði

Árið 2019, fimmtudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðunum Smiðjustíg 10, Smiðjustíg 11 og 11b, Smiðjustíg 12, Klapparstíg 16 og Lindargötu 11 í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. maí 2018.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986, en 17. nóvember 2005 var gerð breyting á deiliskipulaginu vegna staðgreinireits 1.151.5, sem afmarkast af Lindargötu, Klapparstíg, Hverfisgötu og Smiðjustíg.

Hinn 5. apríl 2017 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Í breytingunni fólst að fasteignin að Lindargötu 10 yrði gerð upp og færð sem næst í upprunalegt horf. Ný viðbygging yrði byggð milli Lindargötu 10 og Lindargötu 12 og nýtt hús yrði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Var tillagan auglýst til kynningar í fjölmiðlum 9. maí 2017 með athugasemdarfresti til 20. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Beytingartillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 23. ágúst 2017 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 12. október s.á. Skipulagsstofnun var send deiliskipulagsbreytingin í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í bréfi stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 1. nóvember 2017, voru gerðar athugasemdir við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. Var á það bent að fjalla þyrfti um og bregðast við athugasemdum Minjastofnunar Íslands frá 18. september 2017, þar sem athygli væri vakin á óútskýrðu misræmi í hæðarkótum, ósamræmi í grunnmynd og sniðmyndum að nýju húsi við Smiðjustíg 14, auk þess sem fyrirhugaður kjallari væri of nálægt brunagafli Smiðjustígs 12. Þá gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við að fara þyrfti almennt yfir gögn m.t.t. skýrleika skilmála og gæta þyrfti að innbyrðis samræmi. Kótar hámarkshæðar þyrftu að koma fram auk mænis- og brunagaflshæðar húsanna að Lindargötu 12 og Smiðjustíg 12.

Í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar voru gögn yfirfarin m.t.t. skýrleika, kjallari tekin út af sniðmynd nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12 og tilteknar aðrar breytingar gerðar í tilefni af athugasemdum Minjastofnunar og Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í borgarráði 21. desember 2017 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda í fyrsta lagi á að við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu virðist borgaryfirvöld hafa talið sér heimilt að taka lóðarskika af lóðinni við Smiðjustíg 12 án þess að eiga um það nokkuð samtal við eiganda lóðarinnar. Slík eignatilfærsla sé óheimild enda séu lóðarréttindi lóðarhafa Smiðjustígs 12 friðhelg eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Engar lagaheimildir séu til staðar fyrir færslu greindra eignaréttinda til lóðarhafa Lindargötu 10 með breyttu deiliskipulagi.

Í öðru lagi sé bent á að bygging einbýlishúss/parhúss við Smiðjustíg 14 hafi veruleg fjár­hag­s­­­­­­leg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Megi jafna slíkri ákvörðun við eignaupptöku og sé hún því að fullu bótaskyld, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við mat á þessu sé óhjákvæmilegt að vísa til þess að þær deiliskipulagsbreytingar sem ákveðnar hafi verið byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Einu hagsmunirnir sem séu til staðar séu fjárhagslegir hagsmunir eiganda fasteignarinnar að Lindargötu 10.

Í þriðja lagi sé fundið að því að á skorti að skýrleiki þeirra gagna sem umþrætt deiliskipulagsbreyting byggi á sé nægjanlegur. Kærendur vísi í þessu sambandi til bréfs Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2017 þar sem fram komi að hæðarkótar á svæðinu séu óskýrir, einkum þegar komi að því að bera saman hæðarkóta fyrir og eftir væntanlegar breytingar á húsunum samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í umsögnum hagsmunaaðila til skipulagsyfirvalda hafi ítrekað verið vísað til þess að hæðarkótar séu ekki réttir. Ekkert hafi verið gert með þær ábendingar.

Í fjórða lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að nýtingarhlutfall á skipulagsreitnum aukist frá því sem samþykkt hafi verið árið 2005, úr 0,9 í 2,2, en núverandi nýtingarhlutfall reitsins sé 0,4. Byggingarmagn frá núverandi fyrirkomulagi sé því rúmlega fimmfaldað. Eðli málsins samkvæmt hafi slík breyting mikil áhrif á skipulag lóðarinnar Lindargötu 10 og á næstu lóðir. Breytingin feli enn fremur í sér inngrip í götumyndir beggja gatnanna sem lóðin standi við, þ.e. Lindargötu og Smiðjustíg. Það sé ekki í anda þess sem unnið hafi verið að undanfarin ár með friðun götumyndar Smiðjustígs. Þá falli timburhúsin sem þar standi undir lög um menningarminjar.

Að lokum geri kærendur athugasemdir við stjórnsýslu Reykjavíkurborgar við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar. Ekki hafi verið rætt við hagsmunaaðila eða þeim gefinn kostur á að koma að undirbúningi málsins á fyrri stigum. Þá hafi vakið athygli kærenda að eigandi hússins að Lindargötu 10 sé hlutafélagið Minjavernd ehf., sem sé m.a. í eigu ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Af þessum sökum sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún kanni sérstaklega hvort og þá hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að deiliskipulag sé ekki alltaf hárnákvæmt varðandi lóðastærðir en lóðarblað hafi verið nákvæmara þegar það hafi verið gert, en við gerð slíks blaðs sé litið til fyrirliggjandi gagna um viðkomandi lóð. Lóðum sé ekki breytt í hinni umþrættu deiliskipulagstillögu heldur sé byggt á deiliskipulagi frá árinu 2005. Lóðarblað gert af landupplýsingadeild Reykjavíkurborgar frá 28. september 2015 standi óbreytt eftir deiliskipulagsbreytinguna.

Í 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þeim sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði. Verðmæti fasteignarinnar verði að skerðast meira en almennt gerist á skipulagssvæðinu. Telji kærendur að sveitarfélagið hafi með samþykkt skipulagsáætlunar valdið þeim tjóni sé vakin athygli á því að kröfu um bætur skuli beint að sveitarfélaginu sem taki afstöðu til kröfunnar þegar og ef hún berist.

Kærendur telji að óskýrleiki gagna sem deiliskipulagsbreytingin grundvallist á eigi að leiða til ógildingar umræddrar skipulagsbreytingar og vísi þeir í því sambandi til athugasemda Skipulagsstofnunar við hina samþykktu deiliskipulagsbreytingu. Skipulagsyfirvöld hafi brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar og hafi uppdráttur skipulagsins og greinargerð verið uppfærð eftir ábendingum stofnunarinnar. Þá hafi Minjastofnun gefið út tvær umsagnir í málinu á vinnslutíma skipulagsbreytingarinnar, hina fyrri, dags. 1. júlí 2015. Í umsögninni hafi áformum um að endurbyggja Ebenezershús í nær upprunalegu horfi verið fagnað, en gerð hafi verið athugasemd við útfærslu nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12. Brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Í seinni umsögn Minjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við tillöguna að öðru leyti en að mælt hafi verið með því að veggbrún framhliðar og mænir þaks yrðu í sömu hæð og á Smiðjustíg 12. Þriðja umsögn Minjastofnunar hafi borist eftir að búið hafi verið að samþykkja umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda í umhverfis- og skipulagsráði og málið komið á dagskrá borgarráðs. Ekki hafi þótt ástæða til að bregðast við ábendingum stofnunarinnar í þriðju umsögninni vegna stjórnsýslulegrar stöðu málsins. Sömuleiðis hafi Skipulagsstofnun átt eftir að fjalla um málið og gera athugasemdir, sem og stofnunin hafi gert. Búið hafi verið að yfirfara gögn m.t.t. skýrleika, uppsetningar á töflu um byggingarmagn og skýringar varðandi fjölda hæða á grunnmyndum og sniðum. Það misræmi sem fram komi á hæð hússins að Lindargötu 12 skv. deiliskipulagsuppdrætti og byggingarnefndarteikningum, skýrist af því að „gerð var mæling á staðnum og raunhæð hússins skráð á deiliskipulaginu, ásamt skýringum um að um raunhæð húss sé að ræða.“

Þá hafi Minjastofnun mælt með því að vegghæð og mænishæð nýbyggingar við Smiðjustíg 12 yrði sú sama og byggingarinnar við hliðina. Tillöguhöfundar hafi lagt mikinn metnað í útfærslu nýbyggingarinnar. Brugðist hafi verið við óskum Minjastofnunar um að vegghæð yrði sú sama, en ekki hafi verið brugðist við ósk stofnunarinnar um að færa mænishæð nýbyggingarinnar í sömu hæð og húss nágrannans. Tillöguhöfundar hafi, máli sínu til stuðnings, einnig bent á að örlítið mismunandi mænishæð skapi uppbrot í götumynd og mörg dæmi þess séu í lifandi götumyndum eldri borgarhluta. Að öðru leyti hafi verið búið að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Kærandi telji að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð við lóðarhafa þeirra lóða sem liggi að þeim lóðum sem breytt hafi verið með deiliskipulagsbreytingunni. Reykjavíkurborg bendi í þessu sambandi á að deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst samkvæmt 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulagslaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 9. maí 2017, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu s.d. Þessar bréfasendingar séu umfram lagalega tilkynningarskyldu sveitarfélaga, eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Hafi málsmeðferðin  uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Vegna athugasemdar kærenda um að úrskurðarnefndin eigi að skoða hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar sé á það bent að sveitarstjórn borgarinnar sé fjölskipað stjórnvald sem beri ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags samkvæmt 38. gr. skipulagslaga. Sé ákvörðunarvaldið hjá sveitarstjórninni en ekki hjá einstaka embættis–mönnum. Sé því  vísað á bug að afstaða borgarinnar hafi við deiliskipulagsbreytinguna byggt á því hvaða hlutafélag sé skráð fyrir lóðinni eða að um hagsmunaárekstra hafi verið að ræða.

 Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kærenda verði hafnað. Lóðarhafi tekur undir rök Reykjavíkurborgar í málinu og gerir að sínum.

Mótmælt sé villandi framsetningu  í kæru,  en þar sé látið sem niðurrif á bíslagi við Lindargötu 10 og stækkun hússins með byggingu tengibyggingar upp að brunavegg við Lindargötu 12 sé grundvallarbreyting sem gerð hafi verið með hinu nýja deiliskipulagi.

Þá telji lóðarhafi að kærendur uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur hafi kosið að bera fram eina kæru án nánari útlistunar á lögvörðum hagsmunum hvers kærenda um sig. Eins og kæran sé úr garði gerð og framsett verði ekki komist hjá því að vísa henni í heild sinni frá úrskurðarnefndinni.

Lóðarhafi telji jafnframt nauðsynlegt að leiðrétta misskilning í kæru varðandi stöðu götu–myndar Smiðjustígs. Götumyndin sé ekki friðuð heldur hafi hún fengið umfjöllun sem „vernduð“ götumynd. Sú afgreiðsla hafi hins vegar ekkert lögformlegt gildi heldur sé hún frekar hugsuð sem vinnugagn þegar til breytinga eða óska þar um komi. Meðal annars af þeim ástæðum hafi ítrekað verið leitað umsagnar Minjastofnunar við vinnslu skipulagstillögunnar og ekki hafi verið gerðar efnislegar athugasemdir við nýbyggingu upp að brunagafli Smiðjustígs 12.

Lóðarhafi mótmæli umfjöllun kærenda um stærð lóðarinnar að Smiðjustíg 12. Kærendur hafi reynt að færa rök fyrir því að lóðin hafi af einhverjum ástæðum minnkað frá árinu 1905 úr 165,5 m², fyrst í 160,2 m² árið 1921 og síðan í 158,05 m² í dag. Enginn vafi sé uppi um að húsið standi á lóðarmörkum við Lindargötu 10. Hafi eigandi Smiðjustígs 12 á hverjum tíma haft þessi viðhorf um ótalda áratugi felist í hans aðgerðaleysi ígildi afsals eða samþykki og hafi hann vitað af þessu frá 2014 þá hefði að sama skapi verið eðlilegt að koma athugasemdum á framfæri þá þegar við rétta aðila.

Lóðarhafi bendi enn fremur á að nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 hafi verið langt fyrir neðan öll viðmið og að eðlilegt sé að bæta þar verulega við samræmi við umhverfi og aðliggjandi lóðir. Þótt nýtingarhlutfallið fari upp í 2,2. sé það langt fyrir neðan nýtingarhlutfall aðliggjandi lóða og meðaltal nýtingarhlutfall reitsins í heild. Hafi það verið 2,37 áður en samþykktar hafi verið breytingar á deiliskipulagi vegna Smiðjustígs 10 og Klapparstígs 16, sem fari fram úr þessu marki. Þétting byggðar hafi átt sér stað í öllu Skuggahverfi og það sé markviss stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð.

Að lokum telji lóðarhafi að í kæru sé vegið  að embættismönnum og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með ósmekklegum hætti. Sé það vart svaravert af hálfu lóðarhafa. Öllum vangaveltum í kæru um óeðlilega afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu og hefur m.a. verið gerð krafa um frávísun málsins sökum skorts á kæruaðild.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það ákvæði skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærumál lýtur að.

Að kærumáli þessu standa lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðum í næsta nágrenni við Lindargötu 10, ýmist innan umrædds skipulagsreits eða við nærliggjandi götur. Í ljósi staðsetningar fasteigna kærenda geta framkvæmdir þær sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu snert grenndarhagsmuni þeirra. Þykja kærendur því eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og verður kæru þeirra því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem m.a. öryggi landsmanna sé haft að leiðarljósi, sbr. a-lið ákvæðisins. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem tók gildi 26. febrúar 2014, er lóðin nr. 10 við Lindargötu á skilgreindu miðborgarsvæði. Þar er lóðin sett í flokk þróunarsvæða þar sem gert er ráð fyrir mögulegri þéttingu íbúðarbyggðar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir að húsið að Lindargötu 10 verði gert upp, ný viðbygging verði reist á milli Lindargötu 10 og 12 og að nýtt hús verði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting gangi gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem og þeir gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem Reykjavíkurborg tók til afgreiðslu og brást við eins og rakið er í málavöxtum. Ekki liggur fyrir að aðkoma starfsmanna Reykjavíkurborgar hafi verið með óeðlilegum eða ómálefnalegum hætti við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar, svo sem kærendur byggja á. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 úr 0,9 í 2,2, en meðalnýtingarhlutfall nærliggjandi lóða er 2,37, sem er svipað og á öðrum lóðum á Skúlagötusvæðinu.

Í skipulagslögum er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi fasteignaeiganda tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. laganna, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki tekið til skoðunar hvort bygging húss við Smiðjustíg 14 hafi fjárhagsleg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Þá verður eignarréttarlegur ágreiningur um lóðamörk við Smiðjustíg 12 ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann sömuleiðis undir lögsögu dómstóla. Hins vegar er rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geta til ógildingar hennar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.