Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2015 Suðurlandsbraut

Árið 2015, föstudaginn 11. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 23/2015, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að krefjast þess að lagnir á lóðinni Suðurlandsbraut 46-54 verði myndaðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Húsfélagið Suðurlandsbraut 46-54, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 19. mars 2015 að krefjast þess að lagnir á lóðinni Suðurlandsbraut 46-54 verði myndaðar til að unnt verði að staðfesta hvaðan fita berist inn í frárennslislagnir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að nefndin úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi Reykjavíkurborgar, standi lagaheimildir til þess.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 18. maí 2015.

Málavextir: Kærandi er húsfélag fyrir eigendur fasteigna á lóðinni nr. 46-54 við Suðurlandsbraut. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærandi léti mynda lagnir á viðkomandi lóð þar sem ummerki um fitu og fitumengað vatn hefðu fundist í frárennslisbrunni við skoðun heilbrigðiseftirlitsins og starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur fyrr í sama mánuði. Var gefinn frestur til 16. mars s.á. til að skila gögnum um niðurstöðu myndunarinnar. Frá árinu 2012 hafði kærandi átt samskipti við heilbrigðiseftirlitið vegna endurtekinna stíflna í skolplögnum á lóðinni, sem kærandi rakti til veitingastaða á svæðinu. Hafði kærandi kvartað yfir kostnaði og tjóni vegna flóða og hreinsunar lagna, síðast með bréfi dags. 11. febrúar 2015, og krafist þess að heilbrigðiseftirlitið gengi úr skugga um hvort fituskiljur væru í frárennslislögnum frá nefndum veitingastöðum. Kemur fram í bréfi kæranda að fyrirtæki hafi verið fengið til að hreinsa fitu úr lögnum á lóðunum frá því að flætt hefði í byrjun árs 2015.

Með bréfi, dags. 4. mars 2015, mótmælti kærandi fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins á þeim forsendum að ekki hvíldi skylda á fasteignareigendum að framkvæma rannsóknina á lögnunum. Með bréfi, dags. 19. s.m., var krafa heilbrigðiseftirlitsins ítrekuð og nýr frestur veittur til 7. apríl s.á. til að skila umræddum gögnum. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 15. apríl s.á., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður forsögu málsins vera þá að frá byggingu þeirra fimm húsa sem standi á lóðinni 46-54 við Suðurlandsbraut hafi þrír veitingastaðir fengið starfsleyfi í húsunum. Ýmis vandamál hafi fylgt veitingarekstrinum og meðal þeirra hafi verið ítrekuð fitusöfnun í lögnum á lóðinni, með tilheyrandi stíflum og flóðum. Þrisvar sinnum hafi orðið mjög erfiðar stíflanir, síðast í upphafi þessa árs. Í janúar og febrúar á þessu ári hafi farið fram viðamikil og kostnaðarsöm hreinsun ásamt myndatöku á öllum lögnunum utan stutts leggs, sem ekki hafi verið unnt að komast að. Hafi Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur verið greint frá þessu. Kærandi hafi kvartað ítrekað við heilbrigðiseftirlitið frá árinu 2012 yfir því að ekki væri gengið úr skugga um hvort fitugildrur væru á útrennsli frá áðurnefndum veitingastöðum í samræmi við lög og reglur. Heilbrigðiseftirlitið hafi eftirlitsskyldu með því að fyrrnefndu sé sinnt en treglega hafi gengið að fá heilbrigðiseftirlitið til að sinna því eftirliti. Kærandi hafi sent enn eitt bréfið, dags. 11. febrúar 2015, þar sem greint hafi verið frá stíflum í frárennsliskerfi lóðarinnar og hreinsun á þeim. Þá hafi borist bréf frá heilbrigðiseftirlitinu, dags. 23. s.m.,  þar sem einungis hafi verið farið fram á að lagnir á lóðinni yrðu myndaðar. Það sé fyrst með bréfi heilbrigðiseftirlitsins 19. mars sl. þar sem „krafan“ sé ítrekuð að líta megi á að einhvers konar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu eftirlitsins. Sé sú ákvörðun kærð þar sem kærandi telji ekki að kostnaður við myndun lagnanna eigi að leggjast á hann.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að  krafa hafi verið gerð um myndun lagna á umræddri lóð í kjölfar vettvangsskoðunar 20. febrúar 2015, sem leitt hafi í ljós að fita væri í frárennslisbrunnum á lóðinni. Sú krafa hafi verið gerð í samráði við Orkuveitu Reykjavíkur, sem einnig hefði komið að málinu, til að afla gagna um ástand lagna og uppfylla rannsóknarskyldu skv. stjórnsýslulögum til að geta gengið að þeim aðilum sem væru að valda skaða á lögnunum.

Krafan hafi fyrst verið sett fram með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, og verið ítrekuð með bréfi, dags. 19. mars s.á. Fyrst hafi verið veittur frestur til 16. mars og síðan aftur til 7. apríl til að mynda lagnir og senda gögn til heilbrigðiseftirlitsins. Kærandi hafi óskað eftir auknum fresti í tölvupósti 31. mars s.á. og hafi fresturinn enn verið framlengdur til 21. apríl s.á. Heilbrigðiseftirlitinu hafi síðan borist bréf frá kæranda, dags. 15. þess mánaðar, þar sem fram hafi komið að búið væri að kæra umrædda ákvörðun. Í sama pósti hafi komið fram að búið væri að mynda allar lagnir nema stuttan legg og því sæi kærandi ekki ástæðu til að mynda aftur. Fram að þessu hefði heilbrigðiseftirlitinu ekki verið gerð grein fyrir að lagnir hefðu verið myndaðar heldur aðeins að þær hefðu verið hreinsaðar. Óskað hafi verið eftir því við kæranda að hann léti heilbrigðiseftirlitinu í té gögnin sem aflað hefði verið með mynduninni. Kærandi hafi orðið við þeirri beiðni og teljist því krafa sú sem kærð sé í málinu uppfyllt. Í ljósi þessa telji heilbrigðiseftirlitið að vísa beri kærunni frá þar sem kæruefni sé ekki lengur til staðar.

Athugasemdir kæranda við málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Kærandi telur frávísunarkröfu heilbrigðiseftirlitsins byggða á röngum lagaforsendum, málið sé engan veginn útkljáð. Heilbrigðiseftirlitið hafi hvorki afturkallað, leiðrétt né breytt ákvörðun sinni, sem þó sé heimild til að gera samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kærandi hafi hagsmuni af því að fá efnisúrskurð í málinu um það álitaefni hvort heilbrigðiseftirlitinu hafi verið heimilt að lögum að skylda kæranda til að leggja út í kostnaðarsamar myndatökur í þágu þeirrar rannsóknarskyldu sem á heilbrigðiseftirlitinu sjálfu hvíli.

——————–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um skyldu kæranda til að verða við þeirri kröfu um að láta mynda lagnir á lóðinni við Suðurlandsbraut 46-54, en kærandi er húsfélag fasteignareigenda á þeirri lóð. Krafan var sett fram af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur sér um að framfylgt sé ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim, sbr. t.a.m. 13. og 15. gr. laganna.
 
Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt gögnum málsins er fyrra bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda dagsett 23. febrúar 2015. Þar er farið fram á myndun á nefndum lögnum og frestur veittur til 16. mars s.á. Síðara bréf heilbrigðiseftirlitsins, þar sem krafan er ítrekuð, er dagsett 19. mars s.á. og er þar jafnframt veittur nýr frestur til 7. apríl 2015, sem samkvæmt gögnum málsins var síðan framlengdur til 21. apríl s.á. Í báðum bréfum heilbrigðiseftirlitsins til kæranda voru veittar leiðbeiningar um kæru til úrskurðarnefndarinnar og er því rétt að miða við seinna bréfið við útreikning kærufrests. Telst kæran því hafa borist innan lögmælts frests.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í málinu kemur fram að eftir að hin umdeilda ákvörðun hafi verið tekin hafi komið í ljós að nýlegar myndir af lögnum þeim sem um ræddi lægju fyrir. Hafi heilbrigðiseftirlitið fengið aðgang að þeim gögnum og þar með hafi krafa sú um myndir af lögnunum, sem fólst í hinni kærðu ákvörðun, verið uppfyllt. Gögn málsins styðja þessar málalyktir en af þeim má ráða að heilbrigðiseftirlitinu hafi verið greint frá fyrirliggjandi myndefni sama dag og málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Telst hin kærða ákvörðun samkvæmt framangreindu ekki lengur hafa réttarverkan að lögum, enda er kæruefni ekki lengur til staðar. Verður því ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir