Árið 2012, föstudaginn 27. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 23/2011, kæra húsfélagsins að Austurströnd 14 á afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 14. og 18. mars 2011 um erindi þess efnis að grindverk á þaksvölum greinds húss verði fjarlægt.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið að Austurströnd 14 afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 14. og 18. mars 2011 á beiðni kæranda um að grindverk á þaksvölum fjölbýlishússins að Austurströnd 14 skuli fjarlægt.
Kærandi krefst þess að byggingaryfirvöldum verði gert skylt að sjá til þess að umrætt grindverk verði þegar í stað fjarlægt. Jafnframt er þess krafist að áréttað verði að byggingaryfirvöldum beri að fylgja þeirri reglu að engar breytingar á nefndri húseign er snerti nýtingarmöguleika íbúa á eignum sínum, útliti hússins eða öðrum kostum verði heimilaðar án samþykkis núverandi eigenda.
Málsatvik og rök: Húsið að Austurströnd 14 er sex hæða fjölbýlishús er stendur milli Austurstrandar og Kirkjubrautar á Seltjarnarnesi. Eru fjórar efstu hæðirnar íbúðarhæðir og meðfram norður- og austurhlið og hluta suðurhliðar eru um þriggja metra breiðar þaksvalir. Að sögn kæranda mun á árinu 2006 hafa verið sett upp netgirðing þvert á þaksvalirnar, við aðalinngang. Á aðalfundi húsfélags fjölbýlishússins hinn 8. febrúar 2011 var samþykkt að nefnd girðing skyldi fjarlægð og var stjórn þess falið að fylgja þeirri kröfu eftir. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar, dags. 15. s.m., fór húsfélagið fram á að bæjaryfirvöld hlutuðust til um að rita eiganda íbúðar, þar sem umrædd netgirðing var sett upp, bréf með fyrirmælum um að girðingin yrði fjarlægð. Í bréfi, dags. 8. mars 2011, beindi skipulags- og byggingarfulltrúi þeim tilmælum til viðkomandi íbúðareiganda að girðingin skyldi fjarlægð innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins. Skipulags- og byggingarfulltrúi afturkallaði þau tilmæli með bréfi, dags. 14. s.m., með skírskotun til þess að svo virtist sem girðingin væri í samræmi við samþykktan aðaluppdrátt hússins. Var húsfélaginu að Austurströnd 14 sent samrit bréfsins og í framhaldi af því sendi félagið með bréfi, dags. 17. s.m., skipulags- og byggingarfulltrúa nokkrar spurningar og ábendingar um málið og var tekið fram að því væri treyst að fylgt yrði eftir kröfu húsfundar um að girðingin yrði fjarlægð. Skipulags- og byggingarfulltrúi svaraði bréfi þessu með bréfi, dags. 18. mars 2011, þar sem m.a. var áréttað að gert væri ráð fyrir grindverki á umræddum stað.
Kærandi skírskotar m.a. til þess að umræddar þaksvalir séu í sameign íbúðareigenda að Austurströnd 14. Með uppsetningu nefndrar girðingar sé öðrum íbúum gert ókleift að komast eftir svölunum þótt brýna nauðsyn beri til. Valdi það erfiðleikum, t.d. við viðhald og umhirðu á efri hæðum hússins. Þá sé um flóttaleið úr húsinu að ræða.
Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að á grunnmynd 3. hæðar, sem samþykkt hafi verið 1998, sé gert ráð fyrir grindverkum á milli þaksvala þriðju hæðar. Það sé því heimilt og beinlínis gert ráð fyrir að reist séu þil á milli svala upp að sömu hæð og steyptur hluti annarra handriða. Sé um nauðsynlega bráðabirgðaframkvæmd að ræða til að hindra óviðkomandi umferð enda hafi húsfélagið ekki sinnt þeirri skyldu sinni að reisa þau grindverk.
Eiganda þeirrar íbúðar sem umdeild netgirðing fylgir var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en ekki hafa borist athugasemdir af hans hálfu.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. nú 1. mgr. nefndrar greinar, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar. Er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. Ákvörðun um hvort mannvirki skuli fjarlægt og eftir atvikum um beitingu þvingunarúrræða, þarf að vera skýr og ótvíræð, fela í sér viljaafstöðu stjórnvalds og vera tekin með formlegum og lögmæltum hætti.
Í máli þessu er tekist á um afturköllun skipulags- og byggingarfulltrúa, sem sett var fram í bréfi, dags. 14. mars 2011, á tilmælum hans um að netgirðing á þaksvölum fjöleignarhússins að Austurströnd 14 yrði fjarlægð. Þau tilmæli komu fram í bréfi embættisins frá 8. mars 2011 með svohljóðandi orðalagi: „Eru það vinsamleg tilmæli um að það verði fjarlægt hið fyrsta…” Rafpóstur byggingarfulltrúa frá 18. mars 2011, sem sendur var í tilefni af bréfi kæranda, sem sent var í kjölfar fyrrgreindrar afturköllunar, fól í sér svör við fyrirspurnum kæranda og áréttingu á þeirri skoðun byggingarfulltrúa að umdeild girðing væri í samræmi við samþykktar teikningar hússins. Slík afturköllun tilmæla og afstaða skipulags- og byggingarfulltrúa til málsins fela ekki í sér ákvarðanir sem sætt geta kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum skipulagslaga og stjórnsýslulaga og kröfum um meðferð og framsetningu stjórnvaldsákvarðana. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ómar Stefánsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson