Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2013 Fluggarðar

Árið 2015, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2013, kæra á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að leggja á fráveitugjald á árinu 2013 vegna fasteignarinnar Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 10. febrúar 2013, mótteknu 12. s.m., sem framsent var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og barst henni 25. s.m., kærir K Háaleitisbraut 139, Reykjavík, þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur frá 14. janúar 2013 að leggja fráveitugjald á fasteignina Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur 11. mars 2013 og viðbótargögn bárust 10. mars sl.

Málavextir: Með álagningarseðli, dags. 14. janúar 2013, var kæranda tilkynnt um álagningu vatns- og fráveitugjalda 2013 vegna fasteignar hans að Fluggörðum 26, að fjárhæð kr. 261.753, þar af fráveitugjöld kr. 164.033. Fluggarðar 26 er flugskýli sem er 448 m² að stærð.

Árin 2011 og 2012 gerði kærandi athugasemdir við álagningu samskonar gjalda en fékk þau svör frá Orkuveitu Reykjavíkur að álagningin væri í samræmi við lög.

Málsrök kæranda:
Kærandi skírskotar til þess að hann hafi kært álagningu vatns- og fráveitugjalda vegna Fluggarða 26 til Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011, 2012 og nú 2013 en svar vegna síðastnefnds árs hafi ekki borist. Flatarmál flugskýlisins sé 448 m² og skýlið sé nýtt til geymslu á flugvélum. Aðeins um 15% af skýlinu sé upphitað. Eitt salerni með handlaug sé í skýlinu og eldhúsvaskur í kaffistofu. Vísi kærandi í 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til stuðnings því að greiðsla miðist við vatnsnotkun á köldu vatni. Hann hafi keypt löggiltan vatnsrennslismæli árið 2011 sem komið hafi verið fyrir á innrennsli kalda vatnsins. Ljóst sé að 261.753 króna gjald fyrir eitt salerni sé hrein eignaupptaka og sé óskað eftir því að gjöldin verði leiðrétt svo langt aftur í tímann sem lög frekast leyfi.

Málsrök Orkuveitu Reykjavíkur: Orkuveita Reykjavíkur vísar til þess að skv. 15. gr. laga nr. 9/2009 skuli stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. laganna. Fram komi að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar. Heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Gjaldskrá fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur, sem birt sé á heimasíðu fyrirtækisins, miðist við fast gjald og breytilegt vegna flatarmáls húsnæðis. Ekki sé gert ráð fyrir gjaldtöku vegna mældrar notkunar nema vegna atvinnurekstrar og þá sem viðbót við framangreinda gjaldtöku. Þar sem um mælda notkun sé að ræða séu mælar settir upp á vegum Orkuveitunnar. Í kæru komi fram að salerni ásamt handlaug og eldhúsvaskur sé í flugskýlinu. Því sé óumdeilt að vatnslögn og fráveita sé tengt við skýlið. Álagning og innheimta hins umdeilda fráveitugjalds sé í samræmi við ákvæði laga nr. 9/2009 og gjaldskrá fyrirtækisins fyrir fráveitu, nr. 1190/2012.

Símtöl í þjónustuver og mál er varði vatns- og fráveitugjöld séu skráð sérstaklega en ekkert sé að finna í gögnum Orkuveitunnar vegna hinnar kærðu álagningar á árinu 2013. Líti fyrirtækið svo á að athugasemdir við hina kærðu álagningu hafi ekki borist það ár og sé á það bent að í stjórnsýslulögum sé gengið út frá því að kærur séu settar fram skriflega, sbr. orðalag 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tölur yfir rekstur fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011, 2012 og 2013 séu eftirfarandi:

                                           2011              2012          2013

Heildartekjur                 3.441.047        4.228.195     4.674.380
Rekstrarkostnaður           802.976          896.016        865.464
Afskriftir                         1.439.929        1.295.793     1.257.365
EBIT                              1.198.142        2.036.386     2.551.551
Fjármagnskostnaður     3.520.787        2.358.975     1.234.360
Afkoma                        -2.322.645         -322.589      -1.317.191

Arður                                           0                     0                      0

Niðurstaða: Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur vegna álagðra fráveitugjalda á fasteign kæranda fyrir árin 2011 og 2012 var því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 25. febrúar 2013. Því verður einungis kæra vegna álagningar umrædds gjalds fyrir árið 2013 tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærandi heldur því fram að hann hafi gert athugasemdir símleiðis við álagningu ársins 2013 en Orkuveita Reykjavíkur segir ekkert koma fram um það í gögnum hennar. Þar sem ekki verður ráðið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi hafi sannanlega gert athugasemdir við álagningu ársins 2013 einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við álagninguna samkvæmt álagningarseðli.

Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna skal það sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt er skv. tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 14 gr. laganna er að finna heimild fyrir innheimtu fráveitugjalda en þar segir í 1. mgr.: „Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.“ Í 2. mgr. kemur fram að heimilt sé að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli þar sem frárennsli sé veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélags. Í 15. gr. áðurnefndra laga er kveðið á um gjaldskrá og gjaldstofn en í 1. mgr. ákvæðisins segir að stjórn fráveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Heimilt er að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði með sérstaka gjaldskrá skv. 3. mgr. 15. gr. og hefur Orkuveitan nýtt sér þá heimild og sett sérstaka gjaldskrá fyrir veitusvæði I, sem tekur til Reykjavíkurborgar. Í 1. ml. 2. mgr. 15. gr. laganna segir um gjaldheimildina að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Í 2. ml. segir um álagningargrundvöllinn að heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Gjaldskrá nr. 1190/2012 vegna fráveitugjalda fyrir árið 2013 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember 2012. Miðar gjaldskráin við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar.

Hin kærða álagning miðar við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar sem almennan gjaldstofn í samræmi við gjaldskrá nr. 1190/2012, sbr. 2. ml. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. Fráveitur og rekstur þeirra eru hluti af lögbundnu hlutverki sveitarfélaga og eitt af meginverkefnum í grunnþjónustu sveitarfélags í þágu íbúa þess. Er því mikilvægt að starfsemi þeirra sé í föstum skorðum, eins og endurspeglast í lögum nr. 9/2009, þar sem kveðið er á um heimild fráveitna til innheimtu fráveitugjalds af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags, eins og vísað var til hér að framan. Óumdeilt er að fasteign kæranda er tengd fráveitu og ber honum því að greiða gjald vegna hennar. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Þarf gjaldtaka hvers og eins notanda þannig ekki að vera í samræmi við notkun hans á fráveitukerfinu heldur er heimilt að byggja gjaldtöku á þeim heildarkostnaði sem almennt hlýst af að veita þjónustuna, en grundvöllur kostnaðarins er tíundaður í 1. ml. 2. mgr. 15. gr. sem áður er rakin. Samkvæmt gögnum málsins eru heildartekjur fráveitunnar ekki hærri en kostnaður af þjónustunni og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 1. ml. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að leggja á fráveitugjald á árinu 2013 vegna fasteignarinnar Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon