Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2004 Sólvellir

Ár 2004, fimmtudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2004, kæra eiganda landspildu úr landi Sólvalla í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004 um að hafna erindi kæranda um skipulag byggðarkjarna á nefndri landspildu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2004, er barst nefndinni hinn 13. apríl sama ár, kærir I, Faxaskjóli 24, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004 að hafna tillögu að skipulagi byggðarkjarna á landspildu í eigu kæranda, úr landi Sólvalla, Mosfellsbæ.  Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi hinn 3. mars 2004.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að fjögurra hektara landspildu í landi Sólvalla, Mosfellsbæ.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og gildir því Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 um landnotkun þess.  Aðalskipulagið var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí sama ár.

Við kynningu gildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar á árinu 2002 fór kærandi fram á að í skipulaginu yrði gert ráð fyrir íbúðabyggð eða blandaðri byggð á fyrrgreindri landspildu.  Ekki var fallist á þá tilhögun af hálfu bæjaryfirvalda.  Á haustdögum 2003 bar kærandi undir bæjaryfirvöld hugmynd um uppbyggingu byggðarkjarna á landspildunni þar sem gert var ráð fyrir 76 íbúðum.  Tillaga að skipulagningu þessa byggðarkjarna var síðan lögð formlega fyrir skipulags- og byggingarnefnd bæjarins með bréfi, dags. 20. febrúar 2004.

Tillaga kæranda var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 2. mars 2004 og afgreidd með svofelldri bókun:  „Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á þessari spildu á skipulagstímabilinu, þar sem landið er skilgreint sem opið óbyggt svæði.  Samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar er þar almennt ekki gert ráð fyrir neins konar mannvirkjagerð að stígum frátöldum.  Í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið er gert ráð fyrir að umrætt svæði sé til uppbyggingar eftir 2024.  Hugað verður því að uppbyggingu á þessari spildu í tengslum við heildarskipulag þess svæðis sem þá væri í uppbyggingu.  Því getur nefndin ekki fallist á erindið að svo komnu máli.”  Kærandi sætti sig ekki við þessi málsúrslit og hefur nú skotið greindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi átt umrædda landspildu í um 25 ár og við kaupin á sínum tíma hafi í engu verið getið um hömlur á framkvæmdum á landinu.  Á kynningartíma núgildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar hafi hann komið að athugasemdum og farið þess á leit með bréfi, dags. 14. júní 2002, að jafnræðis yrði gætt við ákvörðun um landnotkun landspildu hans og lands Sólvalla og Akra, þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarbyggð og blandaðri byggð.  Hafi þessari málaleitan kæranda verið hafnað af bæjaryfirvöldum.  Síðar hafi verið leitað til bæjaryfirvalda með mótaða tillögu um nýtingu landspildunnar en sú tillaga ekki hlotið brautargengi svo sem hin kærða ákvörðun beri með sér.

Á því er byggt að engin rök séu til þess að undanskilja eignarland kæranda frá uppbyggingu sem gert sé ráð fyrir á sambærilegum svæðum í landi Sólvalla og Akra.  Með hinni kærðu ákvörðun sé því ekki gætt jafnræðis.  Umrædd landspilda geti vart talist opið óbyggt svæði þar sem herstöð hafi verið reist á landinu í seinni heimstyrjöldinni, sem menjar séu um, og vegur sem þá hafi verið lagður sé notaður enn í dag sem aðkoma að frístundahúsi í heilsársnotkun sem fyrir sé á landspildunni.  Dregur kærandi það í efa að skipulagsreglugerð standi því í vegi að uppbygging eigi sér stað á landspildu hans.

Loks skírskotar kærandi til þess að hörgull sé á íbúðalóðum í Mosfellsbæ og að tillaga hans um uppbyggingu á landspildunni kalli á óverulega breytingu á tengivegi þeim er ætlað sé að liggja um land Sólvalla og Akra.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er gerð sú krafa að hin kærða synjun skipulags- og byggingarnefndar bæjarins standi óhögguð.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fari skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og sé eitt af meginverkefnum skipulagsnefnda að annast gerð aðalskipulags, sbr. 1. mgr. 16. gr. nefndra laga.  Nefndarmenn sveitarstjórna séu einungis bundnir af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar m.a. um landnotkun og þróun byggðar með þarfir sveitarfélagsins og markmið skipulags- og byggingarlaga í huga.

Allar ákvarðanir skipulags- og byggingarnefnda sveitarfélags verði að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag en landareign kæranda sé á svæði sem skilgreint sé sem opið óbyggt svæði í gildandi aðalskipulagi.  Slík svæði séu ætluð til almennrar útivistar og skuli mannvirkjagerð vera þar í lágmarki skv. gr. 4.13.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Með því að heimila kæranda að skipuleggja blandaða byggð, á svæði sem skipulagt hafi verið sem opið óbyggt svæði, væri farið gegn skýrum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar, auk þess sem ætla mætti að slík ákvörðun yrði kærð af hálfu þeirra fasteignaeigenda að landi Sólvalla og Akra, sem nú hafi verið skipulagt undir blandaða byggð.  Þeir aðilar hafi réttmæta ástæðu til að vænta þess að aðalskipulag sé virt og ekki sé hróflað við útivistarsvæði við eignir þeirra, a.m.k. til ársins 2024.

Bent er á að umrætt svæði sé jafnframt hluti af Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, en þar sé gert ráð fyrir að landsvæði kæranda ásamt nálægum lóðum við Úlfarsfell og Hafravatn byggist ekki upp fyrr en eftir árið 2024.

Af framangreindu megi ljóst vera að hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar og fylgi stefnu gildandi aðal- og svæðisskipulags.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað ósk kæranda um skipulag 76 íbúða byggðarkjarna á fjögurra hektara eignarlandi hans í Mosfellsbæ, en í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga er landeiganda heimilað að gera slíka tillögu til sveitarstjórnar.

Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og gildir því Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 um landnotkun á svæðinu, en þar er landspilda kæranda merkt sem opið óbyggt svæði.  Kærandi gerði athugasemdir við áætlaða landnotkun spildu sinnar á kynningartíma aðalskipulagsins, sem ekki voru teknar til greina, en ekki hefur verið gerður reki að því að fá aðalskipulaginu hnekkt.  Verður því greint aðalskipulag lagt til grundvallar í máli þessu, enda ekki í valdi úrskurðarnefndarinnar að endurskoða og meta hallkvæmni ákvarðana sem staðfestar hafa verið af umhverfisráðherra eins og hagar til um aðalskipulagið.

Deiliskipulag skal gera á grundvelli aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verða svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi skv. 7. mgr. 9. gr. laganna.  Tillaga kæranda um uppbyggingu á landspildu hans á ekki stoð í gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar og var bæjaryfirvöldum af þeim sökum óheimilt að samþykkja tillöguna að óbreyttu aðalskipulagi. 

Með vísan til þessa verður krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar ekki tekin til greina.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004, að hafna ósk um skipulag byggðarkjarna á landspildu í eigu kæranda úr landi Sólvalla, Mosfellsbæ, er hafnað.

_______________________________ 
Ásgeir Magnússon

______________________________               _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir