Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 20/2009, kæra á samþykktum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 6. s.m., kærir A, lóðarhafi Lautarvegar 2, Reykjavík, samþykktir skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg.
Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi. Þá er og gerð krafa um að framkvæmdir sem hafnar séu verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Málsatvik og rök: Á árinu 2007 samþykkti borgarráð deiliskipulag neðan Sléttuvegar í Fossvogi þar sem m.a. var gert ráð fyrir að á lóð C myndi rísa 70 íbúða fjölbýlishús fyrir námsmenn. Hinn 27. ágúst 2008 samþykkti skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi þessu er heimilaði að íbúðum í fjölbýlishúsinu yrði fjölgað um fimm eða úr 70 í 75. Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2008. Á fundi skipulagsráðs 17. desember s.á. var síðan samþykkt að íbúðir í húsinu yrðu 80. Birtist auglýsing um gildistöku þeirrar samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2009.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hinna kærðu samþykkta hafi verið andstæð ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem tillögur um breytt deiliskipulag hafi hvorki verið auglýstar né grenndarkynntar. Með samþykktunum sé gengið gegn grenndarhagsmunum hans en skipulagsreiturinn neðan Sléttuvegar myndi eina heild og séu íbúðafjöldi, íbúafjöldi og umferð veigamiklir þættir í skipulagsgerðinni. Í upphaflegu deiliskipulagi svæðisins hafi verið gert ráð fyrir sameiginlegu grænu svæði og leiksvæði er liggi að lóð kæranda og með auknum íbúðafjölda verði væntanlega fleiri um notkun svæðanna.
Reykjavíkurborg hefur ekki skilað sérstakri greinargerð í málinu en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að borgaryfirvöld hafi ekki talið þörf á að grenndarkynna umdeildar deiliskipulagsbreytingar þar sem þær fælu aðeins í sér fjölgun íbúða í húsinu sem ekki hefðu áhrif á hagsmuni nágranna.
Niðurstaða: Hinar kærðu ákvarðanir heimila fjölgun íbúða í fjölbýlishúsi með leiguíbúðum fyrir námsmenn úr 70 í 80 á lóð C við Sléttuveg. Ekki var gerð breyting á ytra byrði hússins eða grunnfleti þess heldur var fjölguninni náð fram með breytingu á innri hönnun þess. Umrætt fjölbýlishús stendur norðan við lóð kæranda, í nokkurri fjarlægð, og er aðkoma bíla að fjölbýlishúsinu og lóð kæranda ekki um sömu götu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á milli fasteignanna verði göngustígur, leikvöllur, fjölbýlishús með tuttugu íbúðum og útivistarsvæði.
Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður ekki séð, með hliðsjón af áðurgreindum staðháttum, að umdeild fjölgun íbúða snerti einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hinar umdeildu ákvarðanir. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
______________________________
Ómar Stefánsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson