Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2013 Ástún Kópavogi

Árið 2013, fimmtudaginn 24. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 2/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Jafnframt eru kærðar ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Loks eru kærðar samþykktir byggingarfulltrúa Kópavogs frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs og um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á nefndri lóð.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Daltúni 14, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 varðandi lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Jafnframt kæra þau ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6. Með bréfi sömu aðila, dags. 25. febrúar 2013, og móttekið sama dag, eru kærðar ákvarðanir byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs hússins á lóð nr. 6 við Ástún og um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðar-nefndinni.  Með hliðsjón af því að hús það sem fyrir var að Ástúni 6 hefur þegar verið rifið og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 13. nóvember 2007 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 vegna lóðar nr. 6 við Ástún í þá veru að á lóðinni yrði íbúðarsvæði í stað blandaðrar landnotkunar þjónustustofnana og opins svæðis til sérstakra nota.  Staðfesti ráðherra þá breytingu og öðlaðist hún gildi í janúar 2008.  Í kjölfar þessa var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. janúar s.á. samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð er gerði ráð fyrir að á lóðinni risi 12 íbúða fjölbýlishús á þremur hæðum með bílageymslu.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008.

Ný tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var lögð fyrir skipulagsnefnd Kópavogs hinn 21. mars 2012.  Lutu breytingar frá gildandi deiliskipulagi m.a. að lögun byggingarreits, hækkun byggingar um 0,8 m, formi þaks og fjölda íbúða.  Þá var fyrirhuguð bílageymsla felld út og gert ráð fyrir tveimur íbúðum og geymslum í kjallara.  Bílastæði á lóð yrðu 21.  Var samþykkt að auglýsa fram lagða tillögu og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 27. s.m.  Komu kærendur og íbúar að Daltúni 13 á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og héldu skipulagsyfirvöld fund með þeim aðilum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. nóvember 2012 var málið til umfjöllunar og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsett sama dag, um fyrirliggjandi athugasemdir.  Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna, ásamt  umsögn, með þeim breytingum að aðkomukóti og hámarkshæð fyrirhugaðs fjölbýlishúss voru lækkuð, bílastæðum fjölgað í 28 og þar af 14 stæði í bílskýli austan við fyrirhugað fjölbýlishús.  Var tillögunni vísað
til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 27. nóvember 2012.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2012, að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hinn 28. desember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um niðurrif húss að Ástúni 6 með vísan til þess að það ætti að víkja samkvæmt skipulagi á lóðinni.  Jafnframt var tekið fyrir erindi um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð, sem og beiðni lóðarhafa um undanþágu frá 6. til 16. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012.  Var erindið samþykkt og talið samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslur byggingarfulltrúa án umræðu á fundi hinn 8. janúar 2013. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að húsið að Ástúni 6 sé eitt reisulegasta og jafnframt síðasta heillega bóndabýlið í Fossvogsdalnum.  Beri að varðveita það en ekki virðist hafa verið haft samráð við Húsafriðunarnefnd um niðurrif hússins.  Taki hús í hverfinu mið af gamla bænum þannig að hverfið hafi yfir sér sérstakan heildstæðan blæ með tilvísun til eldri tíðar.

Kynning á breytingu á deiliskipulagi á árinu 2007 hafi verið ábótavant.  Hafi kærendur farið skriflega fram á það við bæjaryfirvöld að grenndarkynning yrði endurtekin og þeim veittur kostur á að tjá sig um breytingarnar en því erindi hafi aldrei verið svarað.  Þá hafi engar nothæfar teikningar verið til svo unnt væri að átta sig á skuggavarpi vegna fyrirhugaðs fjölbýlishúss samkvæmt skipulagsbreytingunni.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem hlotið hafi gildi árið 2012, sé verið að auka við skipulag sem ólöglega hafi verið staðið að frá upphafi og sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 138/2012 í því sambandi.

Með bréfi til bæjaryfirvalda, dags. 29. september 2012, hafi kærendur farið fram á fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar.  Hafi þeim á fundi nokkru síðar verið kynnt útfærsla að lítið eitt lægri nýbyggingu og þar gefið í skyn að ef ekki yrði fallist á þá útfærslu myndi eldri útfærslan gilda.  Ekki hafi fengist fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp hússins.  Það hafi fyrst verið með bréfi skipulagsyfirvalda, dags. 19. desember 2012, sem upplýst hafi verið hvaða teikning að húsinu yrði notuð ásamt upplýsingum til að reikna skuggavarp nýbyggingarinnar.  Einnig hafi verið sendar óljósar teikningar af skuggavarpi hússins miðað við 21. júní og 21. september, er sýni að á hádegi 21. september verði lóð kærenda að mestu í skugga.  Í erindi til bæjaryfirvalda, dags. 28. desember 2012, hafi kærendur sent upplýsingar um skuggavarp.  Komi þar fram að samkvæmt útreikningum sem þeir hafi látið gera muni ekki sjá til sólar í Daltúninu frá lokum september fram til aprílbyrjunar og yfir hásumarið muni sólar aðeins gæta til kl. 17.  Húsið að Daltúni 14 muni verða í skugga í nærfellt 95 daga hvern vetur.  Hafi kærendur farið fram á að ekkert yrði aðhafst í málinu er skert gæti rétt þeirra, en ekkert svar hafi borist við þeirri beiðni.
 
Á síðasta fundi skipulagsyfirvalda á árinu 2012 hafi verið fallist á umsókn um niðurrif eldra húss að Ástúni 6.  Jafnframt hafi leyfishafa verið veitt undanþága frá lögum sem tekið hafi gildi um áramót og fjalli m.a. um fjölda bílastæða við fjölbýlishús og framkvæmd öryggismála á byggingarsvæðum.

Telja verði að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 vegna grenndaráhrifa, s.s. skuggavarps og aukinnar umferðar.  Nú þegar skorti bílastæði við götuna, þrengsli séu mikil og umferð sé vandamál.  Auk þess sé um að ræða þéttingu byggðar í hverfi sem þegar sé þéttbyggt. 

Kærendur hafi komið sér upp notadrjúgum og skjólgóðum reit sunnan við hús sitt, þar sem sé heitur pottur og sólbaðsstétt ásamt blóma- og matjurtagarði.  Þetta hafi kostað talsvert fé og fyrirhöfn.  Verði lóðin í skugga hálft árið sé líklegt að ræktun matjurta verði ómöguleg og að sólar muni ekki gæta eftir almennan vinnutíma þannig að búast megi við að verð húseignarinnar muni skerðast án þess að nokkrar bætur komi fyrir.  Þá muni kostnaður vegna upphitunar hússins aukast.  Skipulagsyfirvöld hafi bent á að skuggavarp verði litlu meira en það sem íbúar ofar og neðar við götuna búi við, en bent sé á að nágrannar kærenda hafi kvartað undan skuggavarpi enda sé talað um það sem afleiðingu 40 ára gamals skipulagsslyss.  Þá bendi kærendur á að um nauðvörn þeirra sé að ræða þar sem þeir hafi ekki enn fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar.  Þannig hafi aðeins t.d. verið svarað einni af þremur skriflegum fyrirspurnum þeirra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er farið fram á að kröfu kærenda vegna ákvörðunar um niðurrifs hússins að Ástúni 6 verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Niðurrif mannvirkisins raski ekki með nokkrum hætti hagsmunum kærenda svo að þeir geti átt kæruaðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun.  Þá heyri friðun mannvirkja skv. lögum nr. 104/2001 um húsafriðun ekki undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt beri að vísa þeim þáttum kærunnar frá er lúti að ógildingu ákvörðunar um breytingu á aðalskipulagi fyrir lóðina Ástún 6 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 22. janúar 2008 um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, en samsvarandi ákvæði hafi verið í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Komi fram í kæru að kærendum hafi orðið kunnugt um umræddar breytingar í júní 2008.  Kærufrestur vegna þessara ákvarðana sé því löngu liðinn.

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 sé hvorki að formi né efni haldin annmörkum.  Hún sé í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2002-2012, sem og markmið þess um þéttingu byggðar og nýtingu á stofnkerfi bæjarins.  Í þágildandi deiliskipulagi hafi byggingarreitur fyrirhugaðs húss á lóðinni verið því sem næst ferningur í stað þess að vera ílangur eins og eigi við um þegar byggð hús við Ástún.  Með tillögunni sé leitast við að útfæra mannvirkið að heildargötumyndinni og þeim fjölbýlishúsum sem fyrir séu við götuna þannig að um sambærilegan byggingarstíl sé að ræða.  Yfirbragð og ásýnd byggðarinnar verði talsvert betri við skipulagsbreytinguna. 

Fullyrðingar kærenda um skuggavarp eigi ekki við rök að styðjast en breytingin muni leiða til þess að skuggavarp minnki sé tekið mið af deiliskipulagi frá 2008.  Fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar að skugginn sé áþekkur en þó grennri sem helgist af því að grunnfleti hússins hafi verið breytt.  Hækkun á mænishæð með 15º þakhalla hafi ekki áhrif á skuggavarp.  Hafi fyllilega verið tekið tillit til hagsmuna kærenda í máli þessu og málefnaleg sjónarmið legið að baki umræddri ákvörðun.  Í kjölfar samráðsfundar sem haldinn hafi verið með þeim er mótmælt hafi skipulags-breytingunni hafi sú ákvörðun verið tekin að lækka vegghæð hússins úr 49,85 m í 48,35 m, eða um 1,5 m, vegna hækkunar á mænishæð úr 39,85 m í 50,65 m (svo).  Stafi þessi munur af því að þakformi hússins hafi verið breytt úr flötu þaki í valmaþak.  Einnig hafi aðkomuhæð hússins verið lækkuð til að koma til móts við sjónarmið andmælenda.  Málið hafi fengið umtalsverða umfjöllun og vandaða málsmeðferð og leitast hafi verið við að eiga fullt samráð við þá aðila sem gert hafi athugasemdir.

Þá telji Kópavogsbær ekki efni til að fjalla sérstaklega um gildi byggingarleyfis sem gefið hafi verið út fyrir byggingu fjölbýlishúss að Ástúni 6.  Leyfið hafi verið gefið út í kjölfar samþykktar og auglýsingar á breyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð og sé því gefið út á lögmætum forsendum.

– – – –

Lóðarhafa Ástúns 6 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kæru-máls þessa en engar athugasemdir af hans hálfu hafa borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Eins og fyrr greinir er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Í þágildandi 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því væri háð staðfestingu ráðherra, en skv. 5. mgr. 8. gr. þeirra laga var ekki unnt að skjóta slíkum ákvörðunum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. nú 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður kæru á nefndri breytingu á aðalskipulagi Kópavogs því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt áðurgreindri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga var kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæru skal vísa frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt þyki að hún hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru skal þó ekki sinnt berist hún ári eftir að ákvörðun er tilkynnt aðila.  Kæra á ákvörðun um breytt deiliskipulag lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi árið 2008, barst úrskurðarnefndinni 18. janúar 2013, eða nokkrum árum eftir að hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda, og ber með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni. 

Hús það sem heimilað var niðurrif á hinn 28. desember 2012 og stóð á lóðinni að Ástúni 6 var rifið fyrri hluta árs 2013.  Af þeim sökum hefur ekki þýðingu að taka afstöðu til fyrirliggjandi kröfu kærenda um ógildingu þeirrar ákvörðunar og verður kröfu þess efnis þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag vegna lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi 21. desember 2012, og ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 28. desember s.á., um niðurrif hússins að Ástúni 6 og um heimild til að reisa nýtt hús á lóðinni, bárust úrskurðar-nefndinni innan kærufrests og verða þær ákvarðanir því teknar til efnismeðferðar enda verður að telja að þær ákvarðanir geti snert lögvarða hagsmuni kærenda með hliðsjón af nálægð fasteignar þeirra við umrædda lóð.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, fundur haldinn með þeim aðilum sem gerðu athugasemdir, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun.  Var tillagan í kjölfarið send Skipulagsstofnun og hún birt í Stjórnartíðindum innan lögbundins frests.  Með skipulagsbreytingunni var m.a. íbúðum að Ástúni 6 fjölgað um tvær, lögun byggingarreits breytt frá því að vera sem næst ferningur í ílangan rétthyrning og breytingar gerðar á hæð hússins.  Þá var gert ráð fyrir valmaþaki í stað slétts þaks.  Í máli þessu koma aðeins til skoðunar þessar breytingar en ekki byggingarheimildir þær á lóðinni sem fyrir voru í deiliskipulagi frá árinu 2008.

Lóð kærenda liggur norðan við lóðina Ástún 6 og liggur gata á milli þeirra.  Af málatilbúnaði kærenda má ráða að þeir hafi einkum áhyggjur af skuggavarpi gagnvart fasteign sinni vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 og hafa þeir lagt fram frekari gögn um skuggavarp vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við meðferð málsins voru gerðar breytingar frá auglýstri tillögu, þannig að aðkomukóti var lækkaður úr 37,15 í 36,20 og kóti hámarkshæðar úr 50,65 í 49,06 en í deiliskipulagi frá 2008 var gert ráð fyrir að kóti hámarkshæðar væri 49,85.  Samkvæmt þessu lækkar heimiluð hámarkshæð hússins við hina kærðu breytingu um 79 cm.  Þá veldur breyting á lögun og legu byggingarreitar einhverjum breytingum á skuggavarpi.  Fela þessar breytingar og fjölgun íbúða um tvær ekki í sér veruleg grenndaráhrif frá því sem verið hefði að óbreyttu skipulagi.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.

Rétt þykir að benda á að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var eða að hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði, eða eftir atvikum úr ríkissjóði, eða að sveitarsjóður leysi fasteignina til sín, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ákvarðanir um bótarétt og fjárhæð bóta eiga hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrirmælum nefnds ákvæðis um málsmeðferð.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um um nýbyggingu fjölbýlishúss á lóðinni Ástúni 6 stoð í gildu deiliskipulagi.  Þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar séu á málsmeðferð umræddrar ákvörðunar sem valdið geti ógildingu hennar verður kröfu þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007, um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 og um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Ástúns 6 frá 22. janúar 2008, auk kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012, um að heimila niðurrif húss á nefndri lóð, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún og á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um að veita leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni að Ástúni 6 í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson