Ár 2004, fimmtudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2003, kæra eiganda fasteignarinnar að Smáragötu 13 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. desember 2002 um að hafna umsókn kæranda um endurnýjun bílskúrs á greindri fasteign.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. janúar 2003, er barst nefndinni hinn 10. janúar s.á., kærir S, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. desember 2002 að hafna umsókn kæranda um niðurrif eldri bílskúrs og byggingu nýs og stærri skúrs á lóð hans að Smáragötu 13. Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti þá afgreiðslu hinn 19. desember 2002.
Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.
Málavextir: Í aprílmánuði árið 2002 sótti kærandi um leyfi til að rífa 22,8 fermetra bílskúr er fyrir var á lóð hans að Smáragötu 13 í Reykjavík og byggja nýjan 71,2 fermetra skúr í hans stað í samræmi við teikningar, dags. 16. apríl 2002. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. apríl og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Bakhlið hins nýja skúrs átti að ná að lóðarmörkum Laufásvegar 72 þar sem bílskúr þeirrar lóðar liggur að lóðarmörkum kæranda, en vegna landhalla lóðar yrði umsótt bygging um 70 sentimetra yfir lóðaryfirborði við lóðamörkin.
Næstu mánuði var málið nokkrum sinnum á dagskrá á fundum skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Leitað var umsagnar Árbæjarsafns vegna fyrirhugaðrar byggingar og var ekki gerð athugasemd við hana af hálfu safnsins í umsögn þess, dags. 9. maí 2002. Hins vegar kom fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. maí 2002, að fyrirhugaður bílskúr og aðkeyrsla að honum þætti full stór og lagt til að bílskúrinn og aðkeyrsla að honum yrði minnkuð.
Í júní og júlí 2002 kynnti kærandi eigendum nágrannafasteigna umsóttar framkvæmdir en engar athugasemdir komu fram að öðru leyti en því að bréf barst frá skrifstofu forseta Íslands vegna Laufásvegar 72 til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, dags. 21. ágúst 2002, þar sem gerð var grein fyrir nýtingu hússins að Laufásvegi 72 sem gestabústaðar opinberra gesta og var þar vakin athygli á ákvæðum laga um grenndarkynningu og óskað upplýsinga um framvindu málsins. Kærandi fékk afrit þessa bréfs. Í svarbréfi skipulagsfulltrúa til forsetaembættisins, dags. 2. september 2002, voru málavextir reifaðir og tekið fram að ef umsóknin yrði grenndarkynnt og ekki lægi fyrir samþykki nágranna yrði umsókninni hafnað með vísan til 75. gr. byggingarreglugerðar um fjarlægðir bygginga að lóðarmörkum ef athugasemdir kæmu fram við grenndarkynninguna.
Kærandi gerði þá breytingu á umsókn sinni að framhlið fyrirhugaðs bílskúrs var minnkuð úr 8,9 í 7,2 metra, en áður hafði aðkeyrsla verið þrengd frá upphaflegum teikningum. Voru teikningar svo breyttar teknar fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. september 2002 og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Málið var á dagskrá skipulagsfulltrúa hinn 10. og 16. október 2002 og samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 70, 72 og 74. Var umsóknin grenndarkynnt frá 21. október með athugasemdafresti til 19. nóvember 2002 sem framlengdur var til 26. nóvember að ósk forsetaembættisins. Andmæli bárust frá skrifstofu forseta Íslands og forsætisráðuneytinu í bréfum, dags. 25. nóvember 2002. Þar var vísað til þess að vegna notkunar hússins að Laufásvegi 72 fyrir opinbera tignargesti væri ekki unnt að fallast á bílskúr á lóðarmörkum. Var skírskotað til þess að fyrirhuguð bílskúrsbygging myndi torvelda öryggisgæslu og valda ónæði í húsinu og suðurgarði þess.
Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember og 4. desember 2002, en afgreiðslu þess frestað. Málið var loks til lykta leitt á fundi nefndarinnar hinn 11. desember 2002 með því að umsókn kæranda var synjað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember 2002, þar sem a og b liður greinar 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, um fjarlægð bygginga frá lóðamörkum, þótti standa því í vegi að unnt væri að samþykkja erindið.
Kærandi undi ekki þeim málalokum og skaut ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi telur engin efnisleg rök mæla gegn umsóttri bílskúrsbyggingu að Smáragötu 13. Um sé að ræða stóra lóð og muni bílskúrinn að mestu verða niðurgrafinn og hafa lítil sem engin grenndaráhrif. Hafi kærandi komið til móts við athugasemdir skipulagsfulltrúa og minnkað framhlið skúrsins og þrengt aðkomu að honum til samræmis við ábendingar þar um. Hönnun skúrsins taki mið af útliti íbúðarhúss og falli vel að umhverfi sínu og götumynd.
Þau andmæli sem einungis hafi komið fram vegna einnar nágrannalóðar við grenndarkynningu fyrirhugaðs bílskúrs eigi ekki við rök að styðjast. Vandséð sé að bílskúrinn geti torveldað nýtingu Laufásvegar 72 þar sem hann verði niðurgrafinn og og lítt eða ekki sýnilegur frá því húsi vegna legu sinnar og gróðurs á lóðamörkum. Þar að auki gnæfi bílskúr að Laufásvegi 72, sem nái að lóðarmörkum kæranda, um 6 metra yfir helming fyrirhugaðs bílskúrs en hann muni ekki ná upp fyrir botnplötu bílskúrsins að Laufásvegi 72.
Þá er á það bent að lóðin að Smáragötu 13 sé eignalóð og engar kvaðir hvíli á henni hvað nýtingu snerti umfram það sem almennt gerist um íbúðarlóðir. Hugsanleg notkun fasteignarinnar að Laufásvegi 72 geti því ekki rýrt notkun nágrannalóða, enda hafi sú lóð engin réttindi umfram nágrannalóðir er gæti leitt til slíkrar niðurstöðu.
Kærandi telur að ekki hafi verið gætt jafnræðis við hina kærðu ákvörðun og ekki verið tekið tillit til þeirrar staðreyndar að þegar sé til staðar bílskúr að Laufásvegi 72, 11,3 x 4,2 metrar að stærð, sem liggi að lóðarmörkum kæranda og gnæfi 6 metra yfir yfirborði lóðar hans.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð sú krafa að hin kærða synjun byggingarleyfis standi óröskuð og er vísað til fyrirliggjandi gagna og einkum umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember 2002, til stuðnings þeirri kröfu.
Í tilvitnaðri umsögn skipulagsfulltrúa kemur fram að þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag af svæðinu sé samþykkt byggingar á lóðamörkum háð samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Í gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé kveðið á um lágmarksfjarlægðir bygginga frá lóðarmörkum. Samkvæmt a og b lið greinarinnar verði fjarlægð að lóðarmörkum að vera a.m.k. hálf hæð húss eða að lágmarki 3 metrar að vissum skilyrðum uppfylltum um brunaþol útveggja.
Samkvæmt þeim uppdráttum sem fyrir liggi sé umsótt bílgeymsla staðsett á lóðarmörkum. Hún uppfylli því ekki lágmarksfjarlægð frá lóðarmörkum eftir ákvæðum a og b liðar fyrrgreindrar 75 gr. byggingarreglugerðar. Í gr. 75.4 í nefndri reglugerð sé mælt fyrir í hvaða tilvikum heimilt sé að veita undanþágu frá ákvæðum greinar 75.1. Þar sé heimilað að víkja frá fyrrgreindum lágmarksfjarlægðum bygginga frá lóðarmörkum í deiliskipulagi eða með þinglýstum samningi milli lóðarhafa en hvorugu sé til að dreifa í umdeildu tilviki.
Af þessum sökum hafi ekki verið hægt að fallast á byggingu bílgeymslu að Smáragötu 13 að lóðarmörkum Laufásvegar 72.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er loks upplýst að nú sé unnið að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði, m.a. vegna máls kæranda, og sé í deiliskipulagstillögunni gert ráð fyrir heimild til byggingar bílskúrs á lóð hans.
Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um niðurrif eldri bílskúrs og byggingu nýs skúrs að lóðamörkum lóðar hans að Smáragötu 13 og Laufásvegar 72 hafnað.
Synjun á byggingarleyfisumsókn kæranda er einungis studd þeim rökum að grein 75.1 í byggingarreglugerð um lágmarksfjarlægðir bygginga frá lóðarmörkum standi í vegi fyrir samþykki umsóknarinnar. Ekki er teflt fram af hálfu borgarinnar að umrædd bílskúrsbygging hafi í för með sér efnislega röskun eða óhagræði fyrir nágranna kæranda sem leitt gæti til synjunar á umræddri umsókn.
Fallast verður á það með borgaryfirvöldum að gr. 75 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 taki til umsóttrar bílskúrsbyggingar þótt hún rísi að óverulegu leyti upp úr yfirborði lóðar við lóðarmörk að Laufásvegi 72, enda tekur 4. kafli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um mannvirki til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Krafa nefndrar greinar byggingarreglugerðar um fjarlægð bygginga frá lóðarmörkum stendur því í vegi fyrir samþykkt umsóknar kæranda á meðan ekki er fyrir hendi þinglýst samþykki viðkomandi lóðarhafa um byggingu að lóðamörkum eða sú tilhögun ákveðin með gildistöku deiliskipulags, sbr. gr. 73 og gr. 75.4 í byggingarreglugerð.
Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. desember 2002, að hafna umsókn kæranda um niðurrif eldri bílskúrs og um byggingu nýs skúrs á lóð hans að Smáragötu 13 í Reykjavík.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir