Ár 2002, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2001, kæra eins eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 19, Reykjavík, á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. desember 2000 að leyfa byggingu stigagangs á baklóð hússins að Ránargötu 6 og 6a í Reykjavík.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. janúar 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir M, einn eigenda fasteignarinnar að Vesturgötu 19, Reykjavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. desember 2000 að leyfa byggingu stigagangs á bakhlið hússins að Ránargötu 6 og 6a í Reykjavík. Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn hinn 4. janúar 2001. Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á lóðinni nr. 6-6a við Ránargötu stendur tvílyft hús með rishæð og ber það götunúmerin Ránargata 6 og Ránargata 6a. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Vegna fyrirhugaðra endurbóta og breytinga á húsinu lögðu Sporhamrar ehf. inn umsókn til byggingarfulltrúa um leyfi til að innrétta sex íbúðir í húsinu og færa stigagang milli fyrstu og annarrar hæðar út úr húsinu og byggja í þess stað sameiginlegan stiga fyrir íbúðirnar á baklóð hússins auk svalagangs. Var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 23. ágúst 2000 en afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulags- og umferðarnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.
Skipulags- og umferðarnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 28. ágúst og var þar ákveðið að grenndarkynna umbeðnar framkvæmdir fyrir hagsmunaaðilum og þ.á.m. kæranda með athugasemdafresti til 28. september 2000. Bréf var sent hagsmunaaðilum af því tilefni, dags. 29. ágúst 2000, þar sem fram kom að fyrirhugaðar framkvæmdir væru aðallega í því fólgnar að innréttaðar yrðu 3 íbúðir í húsinu að Ránargötu 6 og að stigar yrðu færðir út úr húsinu og byggður sameiginlegur stigi fyrir húsið í bakgarði þess. Athugasemdir bárust frá íbúum að Vesturgötu 19 í bréfi, dags. 6. september 2000, þar sem fyrirhuguðum stiga í bakgarði var mótmælt.
Breytt byggingarleyfisumsókn vegna Ránargötu 6 og 6a var lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. september 2000 og hafði íbúðum hússins þá verið fækkað úr sex í fjórar og stigi hafður upp á aðra hæð í stað rishæðar. Var afgreiðslu málsins frestað þar sem grenndarkynningu fyrri tillögu var ólokið. Málið var síðan tekið á dagskrá á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 4. október 2000 þar sem m.a. lá frammi umsögn Borgarskipulags frá 2. október 2000 vegna framkominna athugasemda íbúa að Vesturgötu 19. Í þeirri umsögn var lagt til að hljóðdempun yrði á þrepum fyrrgreinds stiga. Nefndin bókaði að hún gerði ekki athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi fyrir umbeðnum framkvæmdum þegar teikningar væru komnar í rétt horf og var málinu vísað til byggingarfulltrúa.
Byggingarfulltrúi tók erindið fyrir á fundi hinn 10. október 2000 en frestaði afgreiðslu þess og lagði til að umræddar tröppur yrðu úr steinsteypu með hitalögn. Var umsóknin síðan samþykkt á fundi byggingarfulltrúa hinn 24. október 2000 en þá hafði tröppum verið breytt á þann veg sem lagt hafði verið til. Borgarstjórn frestaði staðfestingu á afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 16. nóvember 2000. Af hálfu embættis byggingarfulltrúa var haldinn fundur með kæranda þar sem fram komu hugmyndir um að skerma stigann af en skipulags- og byggingarnefnd ítrekaði fyrri afstöðu sína til málsins á fundi hinn 20. desember 2000 og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 4. janúar 2001.
Kærandi sætti sig ekki við þessi málalok og kærði útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi gerir þær athugasemdir við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að bréf íbúa að Vesturgötu 19 frá 6. september 2000, þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt, hafi ekki legið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar er hin umdeilda ákvörðun var tekin. Þá hafi kæranda og öðrum íbúum er athugasemdir gerðu ekki verið kynnt þau gögn sem lágu frammi á þeim fundi og í tilkynningu byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins hafi þess ekki verið getið að veitt hafi verið leyfi fyrir umdeildum tröppum í bakgarði hússins að Ránargötu 6 og 6a.
Baklóðir húss kæranda og hússins að Ránargötu 6 og 6a liggi saman og muni stigagangur á baklóð þess síðarnefnda augljóslega raska hagsmunum hans. Umgangur íbúa og gesta um bakgarðinn að degi sem nóttu muni valda miklu ónæði en á það sé ekki bætandi þar sem reynslan sýni að mikið glymji í steinhúsum þeim er umlyki svæðið. Auk þess sé stiginn til verulegrar óprýði.
Með ólíkindum sé að samþykkja breytingu á gömlu húsi á þann veg að færa umgang húsráðenda og gesta þeirra inn í bakgarð hússins og skapa með því fordæmi um alla borg. Stiginn muni blasa við íbúum að Vesturgötu 19 úr vistarverum þeirra og garði. Með framkvæmdinni sé verið að taka tillit til hagnaðarsjónarmiða byggingaraðila á kostnað nágranna og muni vafalaust hafa áhrif á endursöluverð fasteignar kæranda.
Málsrök skipulags- og byggingarnefndar: Á það er bent að hinar umdeildu framkvæmdir hafi verið grenndarkynntar í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag á svæðinu. Við meðferð málsins hafi framkomnar athugasemdir kæranda verið kynntar í skipulags- og byggingarnefnd í umsögn Borgarskipulags frá 2. október 2000 og með upplýsingum byggingarfulltrúa um fund hans með kæranda vegna málsins. Komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir um mögulegan hávaða vegna umgangs með því að hafa umdeildar tröppur úr steinsteypu í stað stálgrindarvirkis. Þá hafi útgefið byggingarleyfi heimilað minni tröppur en hin grenndarkynnta tillaga kvað á um og íbúðum hússins fækkað úr sex í fjórar. Heimilaðar framkvæmdir hafi því ekki teljandi áhrif á hagsmuni nágranna.
Niðurstaða: Umdeildar framkvæmdir að Ránargötu 6 og 6a í Reykjavík voru grenndarkynntar samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var íbúum að Vesturgötu 19 m.a. gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við þær. Komu fram mótmæli af þeirra hálfu gegn því að reistur yrði stigi á baklóð hússins að Ránargötu 6 og 6a.
Kynningu fyrirhugaðra framkvæmda gagnvart kæranda verður að telja nægilega þótt nokkurrar ónákvæmni gæti í bréfi borgaryfirvalda, dags. 29. ágúst 2000, þar sem framkvæmdum er lýst. Kærandi kynnti sér málavöxtu og var fundur haldinn með honum af hálfu embættis byggingarfulltrúa vegna framkominna mótmæla við fyrirhugaðar framkvæmdir. Athugasemdir kæranda voru kunnar skipulags- og byggingarnefnd áður en hin kærða ákvörðun var tekin og þykir ekki skipta sköpum hvort bréf íbúa að Vesturgötu 19 frá 6. september 2000 hafi legið frammi þegar afstaða var tekin til byggingarleyfisumsóknarinnar. Þá verður ekki fallist á að tilkynning byggingarfulltrúa um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar, til þeirra sem athugasemdum komu á framfæri við grenndarkynninguna, hafi verið ábótavant. Ekki verður gerð krafa um að í tilkynningunni hafi átt að geta sérstaklega um einstök atriði byggingarleyfisins enda var aðilum kunnugt um efni umsóknarinnar sem að baki lá. Verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi sökum annmarka á málsmeðferð.
Umdeildar tröppur á baklóð hússins að Ránargötu 6 og 6a og göngusvalir er þeim tengjast eru aðeins ætlaðar sem inngangur inn í tvær íbúðir á annarri hæð. Samkvæmt teikningum ná þær nokkuð út á baklóðina og er fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum um 5 metrar en fjarlægð þeirra frá húsi kæranda um 21 metri. Tröppurnar eru um 2,5 metrar á hæð og eru úr steinsteypu. Á mörkum lóðanna að Vesturgötu 19 annars vegar og Ránargötu 6 og 6a hins vegar er steinveggur og trjágróður er byrgja nokkuð sýn milli húsanna. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að umdeildar tröppur gangi ekki svo á hagsmuni kæranda að réttlæti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður ekki séð að meira ónæði skapist vegna inngangs í fyrrgreindar tvær íbúðir frá baklóðinni en gera má ráð fyrir vegna eðlilegrar nýtingar á bakgarði húss.
Með skírskotun til þess sem að framan er rakið verður krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar ekki tekin til greina.
Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega sökum þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. desember 2000, að leyfa byggingu stigagangs á bakhlið hússins að Ránargötu 6 og 6a í Reykjavík, er hafnað.
___________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir