Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/1999 Suðurgata

Ár 1999,  miðvikudaginn 7. apríl  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/1999; kæra eiganda Suðurgötu 3, Reykjavík á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 12 nóvember 1998 um að skylda kæranda til að rífa timburskúr á lóðinni að Suðurgötu 3,  Reykjavík innan 30 daga, að viðlögðum dagsektum.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 13. janúar 1999, sem barst nefndinni sama dag, kærir B, Garðatorgi 7, Garðabæ ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 12. nóvember 1998 um að honum sé gert skylt að rífa skúr á lóðinni Suðurgötu 3, Reykjavík innan 30 daga, að viðlögðum dagsektum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 24. nóvember 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir:  Í sundi milli húsanna nr. 3 við Suðurgötu og nr. 4 við Tjarnargötu í Reykjavík er timburskúr sem byggður hefur verið á lóðinni nr. 3 við Suðurgötu og er talinn tilheyra því húsi.  Ekki liggur fyrir hvenær skúr þessi var byggður og verður ekki séð að sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir honum.  Hinn 30. ágúst 1995 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf frá eiganda fasteignarinnar nr. 4 við Tjarnargötu í Reykjavík þar sem vakin er athygli á timburkofa þessum. Telur bréfritari mikla eldhættu stafa af kofanum og er óskað eftir því að embætti byggingarfulltrúa sjái til þess að sundið milli brunagafla húsanna verði hreinsað. Erindi þetta var ítrekað með bréfi dags. 22. maí 1997 og í ágúst 1998 barst byggingarfulltrúa kvörtun frá tveimur íbúðareigendum að Suðurgötu 3 vegna starfsemi á 1. hæð hússins. Við skoðun, sem byggingarfulltrúi gerði á staðnum hinn 2. september 1998 kom í ljós að nýlega var búið að setja göngudyr á skúrinn að framanverðu og koma þar fyrir uppgöngutröppum að dyrunum.  Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 7. september 1998, sem birt var  kæranda hinn 16. september, var honum tilkynnt að allar framkvæmdir við frekari breytingar á skúrnum væru stöðvaðar og að þegar gerðar breytingar skyldu fjarlægðar.  Jafnframt var kæranda tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist leggja til við byggingarnefnd að fyrirskipað yrði að fjarlægja skúrinn að viðlögðum dagsektum og var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um þessa fyrirætlan.  Með bréfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík dags. 7. október 1998 gerði kærandi grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu og fór þess á leit að ekki yrði gerð krafa um að skúrinn yrði rifinn. Ekki var fallist á þessi tilmæli kæranda.   Þess í stað ákvað byggingarnefnd Reykjavíkur á fundi sínum hinn 12. nóvember 1998 að gefa kæranda 30 daga frest  til þess að rífa skúrinn að viðlögðum dagsektum.  Er það sú ákvörðun, sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að hinn umdeildi skúr hafi staðið við húsið að Suðurgötu 3 í einhverja áratugi og sé raunar órjúfanlegur hluti hússins. Telur kærandi hefð hafa skapast fyrir tilvist skúrsins. Gamlar teikningar, sem fylgt hafi umsókn um leyfi fyrir íbúð á 1. hæð, sýni tilvist þessarar yfirbyggingar og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við yfirbygginguna en umsókninni um íbúðina hafi verið hafnað. Skúrinn sé nú í betra ástandi en verið hafi um áraraðir og hafi verið orðið við kröfum um úrbætur varðandi eldvarnir. Hann standi á um 60 cm. háum palli og geti slysahætta skapast verði hann fjarlægður og pallurinn með því gerður aðgengilegur.  Þá geti skapast vandamál við að komast niður í kjallara undir skúrnum verði hann rifinn auk þess sem vandamál skapist varðandi leka, aðgengi og innbrotahættu.  Skúrinn nýtist hins vegar mjög vel sem anddyri eða geymsla jarðhæðar hússins, hann byrgi ekki fyrir útsýni og sé ekki á lóð annarra en eiganda 1. hæðar Suðurgötu 3.  Þá kveður kærandi sér ekki hafa verið kunnugt um að vankantar kynnu að vera á um tilvist skúrsins þegar hann eignaðist húsið að Suðurgötu 3.  Þurfi að koma til niðurrifs skúrsins eigi það að gerast á kostnað borgaryfirvalda enda séu liðnir meira en sex mánuðir frá því byggingarfulltrúa varð kunnugt um að ekki væri allt með felldu varðandi skúrinn.

Málsrök byggingarnefndar:  Í greinargerð byggingarnefndar Reykjavíkur um málið er rakinn aðdragandi þess og hvernig staðið var að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar.  Telur byggingarnefnd að enda þótt kæranda kunni að hafa verið ókunnugt um það að skúrinn hafi verið byggður án leyfis, afsaki það ekki þá ákvörðun hans að láta vinna í óleyfi umsóknarskyldar framkvæmdir við skúrinn, svo sem klæðningu hans að utan, breytingu á hurð og að setja upp útitröppur yfir á næstu lóð, ásamt óútskýrðum breytingum innanhúss.  Skúrinn hafi verið byggður, og honum síðan breytt, án leyfis byggingarnefndar.  Við undirbúning og ákvörðun um niðurrif hafi byggingarnefnd í einu og öllu farið að þeim lögum og reglugerðum sem við eigi í málinu.  Sé ekki unnt að fallast á kröfu kæranda um að skúrinn fái að standa áfram á lóðinni.

Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar er tekið fram að um sé að ræða skúr, sem byggður hafi verið án tilskilinna leyfa byggingaryfirvalda í Reykjavík.  Einnig hafi verið framkvæmdar á skúrnum leyfisskyldar breytingar, án þess að sótt hafi verið um byggingarleyfi, og megi ráða af gögnum málsins að vinnu við breytingarnar hafi verið haldið áfram eftir að byggingarfulltrúinn í Reykjavík fyrirskipaði stöðvun framkvæmda við þær.  Telur stofnunin að eftir að aðgerðir hófust af hálfu byggingaryfirvalda vegna skúrbyggingarinnar hafi ákvæðum 56. og 57. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verið réttilega fylgt og beri ekki að verða við kröfum kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar í málinu.

Niðurstaða:  Engin gögn liggja fyrir í máli þessu um það hvenær hinn umdeildi skúr hefur verið byggður.  Hinn 26. febrúar 1942 er samþykkt teikning af viðbyggingu við bakhlið Suðurgötu 3 og myndar viðbygging þessi aðra hlið sunds þess, sem skúrinn hefur síðar verið byggður í, en ekki er gert ráð fyrir yfirbyggingu sundsins á þessari teikningu.  Á mæliblaði skrifstofu borgarverkfræðings, staðfestu af lóðarskrárritaranum í Reykjavík hinn 9. ágúst 1989, er ekki sýnd bygging í sundi því, sem skúrinn er nú í.  Á mæliblaði þessu er gerð grein fyrir tillögu að sameiningu suðurhluta lóðar Suðurgötu 3 og lóðanna nr. 5 við Suðurgötu og 8 við Tjarnargötu og er uppdrátturinn með þessum breytingum samþykktur á fundi byggingarnefndar hinn 28. september 1989.  Hafa lóðir þær, sem sameinaðar voru, verið lagðar undir bílastæði en kvöð er um umferð meðfram suðurhlið hússins nr. 3 við Suðurgötu.  Nær húsið eftir þessar breytingar alveg  að lóðarmörkum að sunnanverðu.  Gafl hins umdeilda skúrs er og á lóðarmörkum og ná tröppur þær, sem kærandi lét koma fyrir við nýjar dyr á gafli skúrsins, út fyrir lóðarmörk og inn á spildu þá sem bundin er kvöð um umferð.  Verður ekki séð að kærandi hafi haft heimild til þess að byggja tröppur þessar utan lóðarmarka.

Eins og að framan getur hafa eigendur Tjarnargötu 4 haft áhyggjur af eldhættu, sem stafað gæti frá skúrnum.  Ljósmyndir, sem teknar voru af gafli skúrsins 6. september 1995 og 6. ágúst 1998, sýna ljóslega að skúrinn er byggður úr timbri og hefur verið klæddur tjörupappa, sem að hluta til hefur rifnað af. Sorptunnur eru í námunda við skúrgaflinn og verður ekki annað séð en að áhyggjur nágranna af eldhættu hafi verið á rökum reistar miðað við ástand skúrsins á þessum tíma.

Kærandi hóf framkvæmdir við breytingar og lagfæringar á skúrnum án þess að hafa fengið leyfi fyrir þeim, en breytingar þessar eru háðar byggingarleyfi skv. 1. mgr. 43. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 11. grein byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þessum framkvæmdum virðist kærandi hafa haldið áfram eftir að byggingarfulltrúi hafði fyrirskipað stöðvun þeirra.  Allar þessar athafnir kæranda stríddu gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi og var byggingarfulltrúa rétt að krefjast þess að framkvæmdir við breytingar á skúrnum yrðu stöðvaðar sbr. 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá var byggingarnefnd og heimilt að mæla fyrir um að skúrinn skyldi fjarlægður í heild sinni á kostnað eiganda, sbr. 5. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, enda hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu kæranda að bygging skúrsins hafi nokkru sinni verið leyfð eða að réttur fyrir skúrnum hafi með einhverjum hætti stofnast.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt  kæranda kunni að hafa verið ókunnugt um að skúrinn var án byggingarleyfis þá er hann eignaðist fasteignina að Suðurgötu 3.  Ákvörðun byggingarnefndar um dagsektir á sér stoð í 1. mgr. 57. greinar laga nr. 73/1997.   Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var, að mati úrskurðarnefndarinnar, gætt réttrar aðferðar og undirbúnings í hvívetna.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur hafi verið lögmæt og beri því að hafna kröfu kæranda um ógildingu hennar.  Með tilliti til réttar kæranda til þess að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndarinnar verða áfallnar dagsektir þó felldar niður og ber að veita kæranda 45 daga frest frá móttöku úrskurðar þessa til þess að ljúka framkvæmdum við niðurrif skúrsins að viðlögðum  þeim dagsektum, sem mælt er fyrir um í hinni kærðu ákvörðun.  Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd að leggja mat á hugsanlega slysahættu, sem kann að vera fyrir hendi eftir niðurrif skúrsins.  Verði um slysahættu að ræða skal byggingarnefnd hlutast til um að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til þess að fyrirbyggja hana.

Uppsaga úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna forfalla tveggja nefndarmanna.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, B, um að ógilt verði ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 12. nóvember 1998 um að skylda kæranda til þess að rífa skúr á lóðinni nr. 3 við Suðurgötu í Reykjavík.  Kæranda skal veittur 45 daga frestur frá móttöku úrskurðar þessa að telja til þess að ljúka verkinu að viðlögðum dagsektum, kr. 20.000,- fyrir hvern dag, sem verkið kann að dragast fram yfir framangreindan frest.  Lagt er fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að leggja mat á hugsanlega slysahættu, sem kann að vera fyrir hendi eftir niðurrif skúrsins.  Verði um slysahættu að ræða skal byggingarnefnd hlutast til um að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til þess að fyrirbyggja hana.