Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2016 Gvendargeisli 16

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Gvendargeisla 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð í húsinu að Gvendargeisla 16. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust 16. mars 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Grafarholts austur frá árinu 2002. Í almennum skilmálum þess kemur fram að uppgefnar fermetratölur tiltekinna húsagerða séu viðmiðunartölur og að bílgeymslur og sameign reiknist ekki með í íbúðastærðum. Uppgefið nýtingarhlutfall lóða sé einnig til viðmiðunar, en miðist við heildarstærð bygginga. Fyrir einbýlishús af þeirri gerð sem hér um ræðir (H-hús) gildir þeir sérskilmálar að þau skuli vera ein til tvær hæðir, viðmiðunarflatarmál sé 215 m2 og nýtingarhlutfall lóðar 0,3. Þakform sé frjálst en mælst til þess að þök séu lágreist svo byggingar skerði ekki útsýni og varpi ekki skugga á næstu hús að óþörfu. Hámarkshæð slíkra húsa sé 7,7 m og meðalhæð norðurveggja skuli ekki vera umfram 6 m.

Með umsókn, dags. 26. október 2015, var óskað eftir leyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem veitti umsögn með bréfi, dags. 7. janúar 2016. Í henni kemur fram að stækkunin sé innan hæðartakmarkana bæði hvað varði heildarhæð og meðalhæð norðurveggjar. Stærð hússins eftir stækkun án bílskúrs verði 213,5 m2 og því innan viðmiðunarmarka. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun verði 0,34, sem sé yfir viðmiðunarhlutfalli. Til þess beri þó að líta að nýtingarhlutfall nálægra lóða sé á bilinu 0,28 til 0,40 þrátt fyrir viðmið deiliskipulags um nýtingarhlutfall upp á 0,30. Því verði að telja stækkunina innan gildandi deiliskipulagsheimilda. Ekki verði séð að stækkunin skerði útsýni eða sólarbirtu næstu húsa að þarflausu. Ekki séu því gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Með vísan til þessarar umsagnar skipulagsfulltrúa var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi samþykkt.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja hina kærðu ákvörðun brjóta stórlega gegn hagsmunum sínum og vera í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg lét málið ekki til sín taka en vísaði til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda hafi úttekt skipulagsfulltrúa staðfest að stækkunin sé innan hæðartakmarkana og innan gildandi heimilda um nýtingarhlutfall. Vísað sé til röksemda skipulagsfulltrúa. Kærendur hafi ekki rökstutt með hvaða hætti hin kærða ákvörðun brjóti gegn hagsmunum þeirra og því sé ekki unnt að taka frekari afstöðu til kærunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er hæð hússins að Gvendargeisla 16, eftir hækkun þaks, innan hæðarmarka gildandi deiliskipulags og er flatarmál hússins að frádregnum bílskúr einnig innan viðmiða deiliskipulagsins. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun telst 0,34, sem er yfir uppgefnu viðmiði í skilmálum skipulagsins um nýtingarhlutfall fyrir umrædda húsagerð, sem er 0,30.

Til þess ber að líta að nýtingarhlutfall sambærilegra lóða á skipulagssvæðinu er nú þegar á bilinu 0,28 til 0,40 og er nýtingarhlutfall lóðar kærenda, sem liggur að lóð leyfishafa, 0,33. Eins og framkvæmd skilmála skipulagsins um nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hefur verið háttað er nýtingarhlutfall lóðarinnar Gvendargeisla 16 í samræmi við það sem heimilað hefur verið á deiliskipulagssvæðisins. Í ljósi þessa, og einnig þess að um viðmiðunarhlutfall er að ræða, verður nefnt frávik ekki talið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um samþykkt byggingarleyfis fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16.