Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 19/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2007, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Hinn 10. ágúst 2006 samþykkti bæjarráð Kópavogs að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10. Fól tillagan í sér að umrædd lóð yrði stækkuð úr 7.700 fermetrum í 17.400 fermetra og heimild til að byggja 10 hæða verslunar- og þjónustuhúsnæði ásamt tveggja hæða bílgeymslu norðan við byggð þá sem fyrir var. Heildarbyggingarmagn færi úr 3.200 fermetrum í 11.300 fermetra. Þá var gert ráð fyrir inn- og útakstri að fyrirhuguðu bílgeymsluhúsi frá nýrri hliðargötu, samsíða Fífuhvammsvegi, auk breytts fyrirkomulags bílastæða. Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, þ.á m. frá kæranda. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti hina auglýstu tillögu óbreytta, ásamt umsögn vegna framkominna athugasemda, hinn 28. nóvember 2006 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.
Kærandi skírskotar m.a. til þess að umrætt svæði þoli ekki heimilaða stækkun, ekkert tillit sé tekið til nærliggjandi svæða og umferðarmannvirki anni ekki þeirri umferð sem fylgja muni auknu byggingarmagni og fyrirhugaðri uppbyggingu á nærliggjandi svæðum. Ekki hafi verið haft samráð við íbúa hverfisins sem þurfi að nýta umræddar akstursleiðir og svörum við framkomnum athugasemdum við skipulagstillöguna sé áfátt.
Af hálfu bæjaryfirvalda Kópavogs er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað. Hin kærða deiliskipulagsbreyting snerti ekki grenndarhagsmuni kæranda. Breytingunni fylgi ekki skuggamyndun gagnvart kæranda, sjónmengun, útsýnisskerðing né annað ónæði eða skerðing á beinum hagsmunum hans. Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina við meðferð tillögunnar.
Ekki verði séð að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og skorti hann því kæruaðild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Niðurstaða: Hús kæranda að Krossalind 35 er í rúmlega 800 metra fjarlægð frá því svæði sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til. Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar. Lúta efnisleg andmæli kæranda við skipulagsbreytingunni fyrst og fremst að skipulagslegum atriðum, svo sem auknum byggingarheimildum og umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.
Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.
Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun. Hefur og verið áréttuð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.
Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður ekki séð að umdeild deiliskipulagsbreyting snerti grenndarhagsmuni kæranda eða aðra lögvarða hagsmuni hans. Tilhögun umferðar og skipulag umferðarmannvirkja, svo sem stofn- eða tengibrauta í vegakerfi sveitarfélags, verður ekki talin tengjast einstaklegum lögvörðum hagsmunum heldur fremur almannahagsmunum. Einungis kæmi til álita að telja slíka einstaklega hagsmuni vera fyrir hendi ef um væri að ræða bein grenndaráhrif aukinnar umferðar eða tilhögunar umferðarmannvirkja varðandi einstakar fasteignir.
Að framangreindum atvikum virtum verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild í máli þessu og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
__________________________
Hjalti Steinþórsson
________________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson