Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. mars 2022, kærir Þ. P., arkitekt og löggiltur hönnuður, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 17. mars 2022.
Málavextir: Með tölvupósti 14. maí 2021 kom byggingarfulltrúi Múlaþings þeim leiðbeiningum á framfæri við umsækjanda um byggingarleyfi vegna Vallnaholts 8 að einungis hönnuðir með samþykkt gæðakerfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mættu skila inn aðaluppdráttum. Höfundur þess uppdráttar er fylgt hefði umsókninni hefði ekki samþykkt gæðakerfi og væri honum því ekki heimilt að skila inn uppdráttum til leyfisveitanda. Er höfundur uppdráttarins kærandi þessa máls.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvorki átt sér stoð í lögum né reglugerð. Ákvörðunin hafi að auki brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þar sem brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu og gegn ákvæði um að tilkynna beri um íþyngjandi ákvörðun og benda á kæruleiðir. Byggingarfulltrúi hafi neitað að taka við einfaldri grunnmynd af herbergjaskipan hússins að Vallnaholti 8.
Í júlí árið 2016 hafi kærandi mælt upp milliveggi og herbergjaskipan í húsinu að Vallnaholti 8, en hönnun hússins hafi ekki verið á hans könnu. Mælingunum hafi hann skilað til húseiganda, sem hafi lagt þær fyrir byggingarfulltrúa þáverandi Fljótsdalshéraðs án þess að athugasemdir væru gerðar. Í febrúar árið 2021 hefði húseigandinn á ný leitað til kæranda og tjáð honum að í einu af rýmum hússins hefði verið bætt við millivegg og hann jafnframt beðið kæranda um að færa þessa breytingu inn með sama hætti og áður. Kærandi hafi því farið á staðinn með málband og laser fjarlægðamæli og bætt þessum vegg inn á sama riss og hann hafi áður gert. Sem fyrr hafi kærandi engan hlut átt að því hvar eða hvernig þessum vegg væri komið fyrir heldur aðeins skráð orðinn hlut. Þetta nýja riss hafi ekki hlotið náð fyrir augum byggingarfulltrúa Múlaþings þar sem kærandi hafi ekki verið með skráð gæðastjórnunarkerfi. Ekki hafi verið um að ræða hönnun eða forsögn um framkvæmdir af hálfu kæranda heldur einungis staðfestingu á einfaldri mælingu með málbandi sem færð hafi verið á A4-örk. Hafi kærandi sem hönnuður ekki komið nærri framkvæmdum í húsinu að Vallnaholti 8. Ekki hafi því verið um að ræða verk sem hafi krafist hönnuðar með gæðastjórnunarkerfi eða starfsábyrgðartryggingu. Vegið sé að starfsheiðri kæranda og langri starfsreynslu hans með því að dæma hann óhæfan til að fara með einfalt málband. Kærandi sé arkitekt og löggiltur hönnuður á eftirlaunum og hafi sagt upp starfsábyrgðartryggingu sinni árið 2019 en aldrei komið sér upp gæðastjórnunarkerfi. Kærandi hafi fullan skilning á því að þeir sem stundi hönnun eða séu hönnunarstjórar verði að hafa gæðastjórnunarkerfi og ábyrgðartryggingu í gildi, en að fara fram á slíkt þegar gamall arkitekt taki upp á því að aðstoða nágranna sína með notkun málbands og skrá annarra manna verk sé of langt gengið. Kærandi vilji ekki sitja uppi með það að mega ekki hafa samskipti við byggingarfulltrúa út af neinu máli, jafnvel þótt þau hafi ekkert með hönnun að gera.
Málsrök Múlaþings: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að taka við gögnum sem séu grunnur að útgáfu byggingarleyfis þegar hönnuður hafi ekki samþykkt gæðastjórnunarkerfi. Málið hafi varðað breytingu á notkun Vallnaholts 8 úr leikskóla í gistiheimili. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um byggingarleyfi þegar um breytingu á notkun mannvirkis sé að ræða. Engar stórvægilegar breytingar hafi verið gerðar innanhúss en þó einhverjar. Kærandi hafi skilað inn teikningu að húsinu sem hafi verið ófullgerð. Sveitarfélagið hafi ráðfært sig við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um hvort það hefði heimild til að taka við gögnum til skráningar og varðveislu frá hönnuði sem ekki hefði samþykkt gæðakerfi. Túlkun stofnunarinnar hefði verið sú að samkvæmt reglugerð nr. 271/2014 um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra væri ekki skilyrði að hönnuður hefði gæðastjórnunarkerfi en að viðkomandi gæti þá ekki skilað inn teikningum vegna byggingarleyfis, sbr. gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð.
Niðurstaða: Í kærumáli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt áritaðan af kæranda. Sveitarfélagið hefur upplýst að eigandi Vallnaholts 8 hafi í febrúar 2022 fengið byggingarleyfi á grundvelli uppdrátta frá öðrum hönnuði vegna sömu byggingaráforma. Hins vegar verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun varði atvinnuréttindi kæranda sem arkitekts og löggilts hönnuðar og hefur hann því lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fyrr er rakið tilkynnti byggingarfulltrúi Múlaþings eiganda Vallnaholts 8 með tölvupósti 14. maí 2021 að kærandi hefði ekki samþykkt gæðakerfi og mætti því ekki skila inn uppdráttum til leyfisveitanda. Kærandi hefur upplýst að eigandi Vallnaholts 8 hafi „nokkuð fljótt“ upplýst hann um greinda ákvörðun. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. mars 2022 og verður að framangreindu virtu talið að lögbundinn kærufrestur hafi þá verið liðinn.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að byggingarfulltrúi Múlaþings hafi hvorki tilkynnt kæranda um hina kærðu ákvörðun né leiðbeint honum um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem ákvörðunin varðaði ekki aðeins hagsmuni eiganda Vallnaholts 8 af því að fá byggingaráform sín samþykkt heldur jafnframt atvinnuréttindi kæranda bar byggingarfulltrúa að veita honum slíkar leiðbeiningar. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu hönnuðir og hönnunarstjórar hafa gæðastjórnunarkerfi í samræmi við nánari fyrirmæli í reglugerð. Er nánar kveðið á um þá skyldu í gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar er í 4. mgr. kveðið á um skyldu hönnuða og hönnunarstjóra til að tilkynna Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til samþykktar og skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Þá kemur þar fram að sé gæðastjórnunarkerfi hönnuðar ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skuli Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð þess og virkni. Að öðrum kosti sé leyfisveitanda óheimilt að taka til afgreiðslu gögn sem hönnuðir leggi fram til samþykktar. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki vottað gæðastjórnunarkerfi í samræmi við lög nr. 160/2010 og byggingarreglugerð og var byggingarfulltrúa þegar af þeirri ástæðu rétt að neita að taka til afgreiðslu umræddan uppdrátt sem áritaður var af kæranda. Þá skal bent á að í 6. mgr. gr. 4.1.1. í byggingarreglugerð er kveðið á um að hafi hönnuður ekki lengur fullnægjandi ábyrgðartryggingu sé honum ekki lengur heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfisveitanda, en svo sem greint er frá í kæru sagði kærandi upp ábyrgðartryggingu sinni árið 2019.
Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.