Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2021 Fjárborg

Árið 2021, þriðjudaginn 25. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2021, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna tveggja gáma við gripahús á lóðinni Fjárborg 10d, Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Fjárborgar 10d, Snæfellsbæ, álagningu stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 146.000. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Snæfellsbæ 5. mars 2021.

Málavextir: Hinn 2. júní 2020 sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir tvo gáma á lóðinni Fjárborg 10d í Snæfellsbæ. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar 12. s.m. var umsókn kæranda um stöðuleyfi samþykkt tímabundið fram að áramótum og var kæranda gert að greiða kr. 72.000 vegna leyfisins. Í janúar 2021 sótti kærandi að nýju um stöðuleyfi vegna gámanna og var umsókn hans samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 21. s.m. Hinn 5. febrúar s.á. var lagt á kæranda stöðuleyfisgjald að fjárhæð kr. 146.000.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um hátt gjald sé að ræða vegna einungis tveggja gáma. Ekki komi fram í stöðuleyfinu hve lengi hann megi hafa gámana á lóðinni. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé lóðin Fjárborg 10d ekki skráð sem hesthúsalóð heldur iðnaðar- og athafnalóð.

Málsrök Snæfellsbæjar: Snæfellsbær vísar til þess að fram komi á umsóknareyðublaði um stöðuleyfi að slíkt leyfi sé mest veitt til 12 mánaða nema skipulagsákvæði mæli fyrir um annað. Sveitarfélagið vinni samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 við útgáfu stöðuleyfa. Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé sveitarstjórn heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, þ.m.t. vegna útgáfu stöðuleyfa. Ár hvert sé gjaldskráin yfirfarin og endurbætt eftir aðstæðum hverju sinni. Bent sé á að í nágrannasveitarfélögum sé gjald vegna stöðuleyfa kr. 91.985 í Stykkishólmi og kr. 74.304 í Grundarfirði.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur það ekki koma málinu við hvað önnur sveitarfélög innheimti fyrir stöðuleyfi gáma. Gámarnir séu á lóð í eigu kæranda.

Viðbótarathugasemdir Snæfellsbæjar: Í tilefni af fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar er af hálfu Snæfellsbæjar bent á að meðferð stöðuleyfa taki samtals um 230 mínútur. Kostnaður vegna útseldrar vinnu starfsmanns tæknideildar á klukkustund sé kr. 17.750, án virðisaukaskatts. Nemi kostnaður við vinnu stöðuleyfis því alls kr. 68.402, án virðisaukaskatts, eða kr. 84.372, með virðisaukaskatti. Mikill tími fari í utanumhald vegna stöðuleyfa hjá tæknideild. Síðustu ár hafi eftirlit með stöðuleyfum aukist, farið hafi verið í fjölda eftirlitsferða og fjöldi bréfa verið send og fólk hvatt til að sækja um stöðuleyfi. Hjá tæknideildinni starfi þrír einstaklingar sem eyði töluverðum tíma í eftirlit og utanumhald stöðuleyfa. Árið 2017 hafi bæjarráð beint því til umhverfis- og skipulagsnefndar að takmarka leyfisveitingar fyrir gáma eins og hægt væri. Eingöngu ætti að veita tímabundin leyfi fyrir gáma í kringum nýbyggingar eða stórframkvæmdir. Mikill kraftur hafi verið settur í að skrá lausafjármuni undanfarin ár. Kostnaður vegna stöðuleyfa sé því töluvert hærri en tekjurnar sem komi inn til sveitarfélagsins vegna lausafjármuna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 sé lóðin Fjárborg 10d á skipulögðu landbúnaðarsvæði þar sem gert sé ráð fyrir tómstundarbúskap, en þar sé hestamennskan í fyrirrúmi. Í samþykktu deiliskipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir að sveitarfélagið geti sett samþykkt um hreinsun og umgengni sem geti verið strangari en reglugerð. Strangt litaval sé á húsum, þar sem lögð sé áhersla á jarðliti, en bláir og rauðir gámar falli ekki undir það. Gámahald sé í engum takti við skipulag svæðisins. Kærandi hafi fengið ítrekunarbréf vegna gáma í leyfisleysi sem geri feril vegna máls hans dýrari en gangi og gerist. Samkvæmt loftmyndum hafi gámarnir staðið a.m.k. frá árinu 2017 án leyfis og greiðslu stöðuleyfisgjalda. Aðeins hafi verið greitt fyrir stöðuleyfi fyrir árið 2020, en umsókn um stöðuleyfi og greiðsla hafi borist eftir bréfaskriftir tæknideildar til kæranda.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 73.000 vegna hvors gáms kæranda fyrir sig á lóðinni Fjárborg 10d, eða samtals kr. 146.000.

Að meginstefnu til er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með skattheimtu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög þó einnig m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Er mælt fyrir um í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að sveitarstjórnum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og útvistunar eftirlits, útgáfu byggingarleyfis byggingarfulltrúa, útgáfu stöðuleyfa, útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Hinn 10. desember 2020 samþykkti bæjarstjórn Snæfellsbæjar gjaldskrá nr. 1594/2020 fyrir byggingarleyfis-, þjónustu- og framkvæmdaleyfisgjöld og tók hún gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars 2021. Með samþykkt gjaldskrárinnar féll úr gildi samnefnd gjaldskrá nr. 1184/2015, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. desember 2015. Í 3. gr. gjaldskrár nr. 1594/2020 kemur fram að gjald fyrir stöðuleyfi án byggingarleyfis vegna 20 feta gáma, báta o.fl. sé kr. 73.000 en í gjaldskrá nr. 1184/2015 var upphæð sama þjónustugjalds í 3. gr. þeirrar gjaldskrár kr. 48.000.

Um svokallað þjónustugjald er að ræða en um ákvörðun slíkra gjalda gilda ýmis sjónarmið. Það er m.a. skilyrði að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald. Fjárhæð þjónustugjalds verður að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Undir rekstri máls þessa aflaði úrskurðarnefndin frekari skýringa á útreikningi þess gjalds sem lagt var á kæranda. Kom fram í svörum sveitarfélagsins að meðferð stöðuleyfa fari fram í níu mismunandi liðum og taki í heildina um 230 mínútur. Tímafrekasti liðurinn felist í því að taka erindið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar, eða 90 mínútur, en einnig kom fram í svarinu að 20 mínútur fari að jafnaði í vinnu vegna lausafjármuna án leyfis, s.s. að senda áskorun á eiganda lausafjármuna um að sækja um stöðuleyfi og að fjarlægja lausafjármuni.

Svo sem fyrr greinir segir í 51. gr. laga nr. 160/2010 að upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Telja verður að í gjaldtökuheimildinni felist ekki heimild til að innheimta gjald vegna kostnaðar sem leiðir af fundi umhverfis- og skipulagsnefndar, enda um að ræða lögbundið verkefni sveitarfélags sem inna skal af hendi endurgjaldslaust. Þá verður heldur ekki talið að í ákvæðinu felist heimild til að innheimta gjald vegna kostnaðar við að beita þvingunarúrræðum þótt þau kunni að leiða til umsóknar um stöðuleyfi.

Að framansögðu virtu verður ekki talið að hið álagða gjald uppfylli skilyrði 51. gr. mannvirkjalaga, þess efnis að upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þá þjónustu sem um ræði, enda voru kostnaðarliðir að baki gjaldinu ranglega lagðir því til grundvallar. Þá verður gjaldtökuheimild nefndrar lagagreinar ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist fortakslaust af stærð eða fjölda lausafjármuna sem leyfið tekur til. Liggja ekki fyrir í málinu nein þau rök eða gögn sem rennt geta stoðum undir nauðsyn þess að leggja á tvöfalt stöðuleyfisgjald þótt um tvo gáma hafi verið að ræða. Loks voru hin kærðu gjöld lögð á kæranda 5. febrúar 2021 á grundvelli gjaldskrár nr. 1594/2020, en sú gjaldskrá öðlaðist ekki lögformlegt gildi fyrr en 17. mars s.á. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun um álagningu stöðuleyfisgjalds felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi kærð álagning stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 146.000 vegna tveggja gáma kæranda við gripahús á lóðinni Fjárborg 10d, Snæfellsbæ.