Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2017, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2017, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Bílrúðuþjónustan ehf., Grófinni 15c, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Þess er krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 10. mars 2017.
Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Iðavalla 5b, Reykjanesbæ samkvæmt afsali, dagsettu 3. desember 2015. Stærð lóðar fasteignarinnar samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi, dags. 8. febrúar 1980, er 2.310 m2. Fyrrum eigendur Flugvalla og Iðavalla 5b skrifuðu undir samkomulag, dags. 10. september 2008, þar sem kveðið var á um breytingu á lóðamörkum, þannig að þau yrðu 15 m frá vesturgafli hússins á lóð nr. 5b við Iðavelli. Lóðin Flugvellir 6 minnkaði við þá breytingu um 350 m2 og lóðin Iðavellir 5b stækkaði að sama skapi. Framangreindu samkomulagi var ekki þinglýst og ákvæðum lóðarleigusamnings ekki breytt í samræmi við samkomulagið. Þáverandi eigandi Iðavalla 5b, sem gerði áðurnefnt samkomulag, seldi fasteignina ásamt lóðarréttindum með afsali, dags. 14. október 2009. Í afsalinu er skráð stærð lóðar 2.310 m2. Eigninni var afsalað til Landsbanka Íslands með afsali, dags. 8. október 2015, þar sem vísað var til lóðarleigusamnings og var eigninni síðan afsalað til kæranda eins og fyrr greinir. Samkomulags um lóðabreytinguna var ekki getið í nefndum afsölum.
Áður en kærandi gekk frá afsali vegna kaupa á Iðavöllum 5b hafði hann samband við skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjanesbæ til að fá staðfestingu á stærð lóðarinnar. Byggingarfulltrúinn staðfesti með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2015, að lóðamörk væru í samræmi við framangreint samkomulag og fylgdi lóðarblað af Iðavöllum 5, sem uppfært var 20. nóvember 2015. Var nýtingarhlutfall lóðarinnar skráð á lóðarblaðið og stærð hennar talin 5.220 m2.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. desember 2015 var tekin fyrir beiðni um stækkun lóðar Flugvalla 6, þar sem bókað var að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag um svæðið en stefnt væri að því að ljúka því á næsta ári. Breytingar á svæðinu yrðu ekki leyfðar fram að því. Tillaga að deiliskipulagi fyrir Flugvelli var auglýst til kynningar 12. apríl 2016 og gerði kærandi athugasemdir við tillöguna og fór m.a. fram á að lóðamörk milli Iðavalla 5b og Flugvalla 6 yrðu áfram í samræmi við áðurgreint samkomulag. Bæjaryfirvöld svöruðu athugasemdum kæranda með bréfi dags. 27. júní 2016 og kváðust tilbúin til færa lóðamörkin úr 3,15 m í 10 m frá vesturgafli húss hans. Var jafnframt tekið fram að bæjarráð hefði samþykkt bókun um að samkomulagið frá 10. september 2008 væri ógilt þar sem einungis annar eigenda Iðavalla 5b hefði skrifað undir það.
Reykjanesbær sendi Skipulagsstofnun deiliskipulag Flugvalla til yfirferðar 24. júní 2016 og gerði stofnunin athugasemdir við það með bréfi, dags. 11. júlí 2016. Var m.a. gerð athugasemd við að ekki væri tekin afstaða til allra efnisatriða athugasemda lóðareigenda Iðavalla 5b. Deiliskipulagsuppdrætti og skipulagsskilmálum var í kjölfarið breytt með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar og tillagan svo breytt auglýst til kynningar að nýju frá 18. ágúst 2016 til 29. september s.á. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti deiliskipulagið á fundi 1. nóvember 2016 og tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 17. nóvember s.á., að ekki væri gerð athugasemd við að hið nýja deiliskipulag Flugvalla yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 2017.
Málsrök kæranda: Byggir kærandi kröfu sína á því að réttaröryggi hans hafi ekki verið tryggt við meðferð málsins og því fari deiliskipulagið m.a. gegn 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi málsmeðferðin farið gegn stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Reykjanesbær hafi ekki breytt afmörkun lóðanna í þinglýstum gögnum þrátt fyrir undirritun yfirlýsingar þess efnis, en það hafi verið í höndum sveitarfélagsins, sbr. 48. gr. skipulagslaga. Reykjanesbæ hafi borið að leiðbeina kæranda um stöðu mála, þ.e. að framangreindu samkomulagi hefði ekki verið þinglýst, og hafi þannig brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því sé mótmælt að samkomulagið frá 10. september 2008 sé ógilt, enda hafi sveitarfélaginu borið að leiðbeina aðilum máls svo að rétt væri staðið að undirritun skjalsins. Þá hafi sveitarfélagið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að leggja til lóðamörk í deiliskipulagstillögu, þvert gegn undirrituðum gögnum og betri vitund.
Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að umrætt deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og þinglesnar heimildir og ekki haldið neinum efnisannmörkum. Gætt hafi verið viðeigandi ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 við gerð og undirbúning þess. Benda bæjaryfirvöld á að yfirlýsing, dags. 21. júlí 2008, um stækkun lóðar Flugvalla 6 úr 6.076 m2 í 6.426 m2, hafi verið aflýst af sýslumanni fyrir mistök, en þau mistök hafi nú verið leiðrétt.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Er ágreiningur um stærð lóðanna Flugvalla 6 og Iðavalla 5b og hvernig mörkum þeirra skuli hagað.
Umrædd skipulagstillaga var auglýst til kynningar með almennum hætti í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað. Tillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 42. gr. laganna og í kjölfar athugasemda stofnunarinnar var tillögunni breytt og hún auglýst að nýju. Bæjarstjórn samþykkti hina breyttu skipulagstillögu og var hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar að nýju og var ekki gerð athugasemd af hálfu stofnunarinnar við að deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Samkvæmt þinglýstum gögnum er lóðin Iðavellir 5b 2.310 m2 að stærð en lóðin Flugvellir 6 er 6.426 m2. Eru stærðir lóða í hinu kærða deiliskipulagi í samræmi við þinglýstar heimildir sem ekki hefur verið hnekkt.
Í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda frá 25. janúar 2017 kemur fram að málsmeðferð skipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 44. gr. laganna sem fjallar um grenndarkynningu. Þessi rangfærsla raskar þó ekki gildi ákvörðunarinnar enda liggur fyrir að meðferð málsins var í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og með hliðsjón af því að deiliskipulag getur ekki ráðstafað eignaréttindum með bindandi hætti liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag Flugvalla í Reykjanesbæ.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson