Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2 til 12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14.
Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik og rök: Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi. Andmæli komu fram af hálfu nágranna sem telja að með umræddum breytingum sé í raun verið að skipta eigninni að Löngumýri 14 upp í fleiri íbúðir. Slíkt fái ekki staðist. Þá hafi málsmeðferð verið áfátt þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning.
Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Umræddar framkvæmdir séu ekki sýnilegar kærendum og geti því á engan hátt raskað hagmunum þeirra. Auk þess muni þeim vera lokið og þjóni stöðvun þeirra því engum tilgangi.
Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá. Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram. Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi sem í engu snerti hagsmuni nágranna. Krafist sé stöðvunar framkvæmda en ekki geti komið til álita að fallast á slíka kröfu þar sem framkvæmdum samkvæmt hinu umdeilda leyfi sé lokið.
Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi húss. Ekki þykir útilokað að kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu byggingarleyfishafa eins og málið liggur nú fyrir. Ekki er hins vegar líklegt að framkvæmdir samkvæmt leyfinu raski hagsmunum kærenda svo verulega að rétt sé að fallst á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda, enda eru þær alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan ekki liggur fyrir endanlegur úrskurður í málinu. Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við breytingar á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14 í Garðabæ meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson