Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2009, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009 á umsókn um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2009, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ó, Barmahlíð 54, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009 á umsókn um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54. Borgarráð staðfesti nefnda ákvörðun skipulagsráðs hinn 26. mars 2009. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að í apríl 2007 barst embætti byggingarfulltrúa erindi þess efnis að yfir stæðu óleyfisframkvæmdir við fasteignina að Barmahlíð 54. Verið væri að saga í sundur svalahandrið til að komast út á þak bílskúrs við hlið hússins. Ætlunin væri að setja upp skjólvegg og nýta þakið sem svalir eða sólverönd. Kæranda barst bréf byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2007, þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda enda um óleyfisframkvæmdir að ræða. Var kærandi með bréfinu krafinn skýringa innan 14 daga og bent á úrræði byggingaryfirvalda í tilefni af óleyfisframkvæmdum.
Í kjölfar þessa sendi kærandi fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að setja upp handrið og festingar fyrir færanlegan skjólvegg á bílskúrsþak að Barmahlíð 54, ásamt færanlegri brú af bílskúrsþaki að svölum á suðvesturhlið 1. hæðar fjölbýlishússins á lóðinni. Yrði þessi umbúnaður aðeins notaður á tímabilinu frá apríl til október. Var erindið tekið fyrir á fundi embættisins hinn 8. maí 2007 og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra. Af hans hálfu var ekki gerð athugasemd við erindið svo framarlega sem samþykki meðlóðarhafa og lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi fyrir og sótt yrði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem yrðu grenndarkynntar. Kærandi sendi þrjár aðrar fyrirspurnir til byggingarfulltrúa varðandi umræddar framkvæmdir á árinu 2007 og 2008. Var tekið jákvætt í málið en ítrekuð krafa um að byggingarleyfisumsókn yrði lögð fram ásamt samþykki meðlóðarhafa og samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 fyrir handriði á þaki bílskúrs. Að öðrum kosti yrði kæranda gert að koma hlutum í fyrra horf að viðlögðum dagsektum.
Hinn 24. júní 2008 var byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir brú af svölum íbúðar á fyrstu hæð yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð hússins að Barmahlíð 54, tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum hinn 4. júlí 2008 með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir. Var málið á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 8. júlí 2008 og eftirfarandi bókað: „Samþykki lóðarhafa í Barmahlíð 52 liggur ekki fyrir vísað er til bókunar byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi þann 20. maí 2008 en þar sagði: Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“ Var umsókninni svo synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með svohljóðandi bókun: „Enn vantar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar í Barmahlíð 52 en það er forsenda þess að samþykkja megi málið. Er vísað til fyrri bókana skipulags- og byggingarsviðs vegna þessa.“ Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 27. nóvember 2008 þar sem á þótti skorta rökstuðning fyrir ákvörðuninni og að grenndarkynna hefði þurft byggingarleyfisumsókn kæranda.
Ný umsókn kæranda var síðan tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. janúar 2009 þar sem sótt var um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið nr. 54 við Barmahlíð. Erindinu fylgdi samþykki meðeigenda Barmahlíðar 54 og eigenda Barmahlíðar 56. Byggingarfulltrúi vísaði málinu til umsagnar skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu og ákvað skipulagsfulltrúi að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaðilum að Mávahlíð 43, 45 og 47 ásamt Barmahlíð 50, 52 og 56.
Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 25. mars 2009 þar sem m.a. lágu fyrir framkomnar athugasemdir og umsögn skipulagsstjóra, dags. 26. febrúar 2009. Var umsókninni hafnað með eftirfarandi bókun: „Synjað með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra…“ Staðfesti borgarráð afgreiðsluna 26. mars 2009. Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er því andmælt að þær framkvæmdir sem um er sótt muni valda útsýnisskerðingu, skuggavarpi eða óþægindum af návist svo nokkru nemi fyrir þá nágranna sem grenndarkynning umsótts byggingarleyfis hafi náð til.
Ljóst sé að umræddar framkvæmdir muni að mjög litlu leyti skerða útsýni úr glugga íbúðar fyrstu hæðar að Barmahlíð 52 og þá helst inn um glugga á íbúð kæranda. Engin fagleg úttekt hafi verið gerð á hugsanlegu skuggavarpi vegna framkvæmdanna, en að mati kæranda hafi þær engin áhrif á birtu inn um glugga hússins að Barmahlíð 52 við sumar- og vetrarsólstöður. Óþægindi íbúa greindrar fasteignar af návist ættu ekki að verða meiri en þau séu nú þegar þótt fallist yrði á þær breytingar að Barmahlíð 54 sem sótt sé um. Nýting garðs til útivistar hljóti alltaf að hafa í för með sér einhver óþægindi fyrir íbúa næstu lóðar, en þó ekki meiri en búast megi við í þéttbýlu íbúðarhverfi sem Hlíðunum í Reykjavík.
Hagsmunir kæranda séu miklir af því að fá að hagnýta eign sína og koma upp viðunandi flóttaleiðum úr íbúð sinni í samræmi við 205. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hagsmunir þessir vegi þungt í ljósi greindra aðstæðna og ekki síður þess að eignarréttindi séu stjórnarskrárvarin.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kæranda í máli þessu verði hafnað.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. maí 2009 hafi verið tekin fyrir og samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að saga úr svalahandriði, byggja timburstiga af svölum niður í garð, að útbúa hlið milli bílskúrs og húss og að útbúa sólpall í garðinum við fjölbýlishúsið á lóð nr. 54 við Barmahlíð. Þar sem kærandi hafi þannig fengið samþykkta sambærilega ákvörðun og þá sem undir sé í máli þessu að undanskyldum þaksvölum á bílskúr, snúist mál þetta nú einungis að því hvort synjun skipulagsráðs varðandi nefndar þaksvalir verði staðfest eða felld úr gildi. Sé því rétt að efni hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verði séð að kærandi hafi lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar í því efni.
Það sé mat Reykjavíkurborgar að skipulagsráði hafi verið heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert hafi verið. Byggðamynstrið á svæðinu sé í meginatriðum þannig að íbúðarhús séu tvær hæðir, kjallari og ris, en bílskúrar á einni hæð með flötu þaki standi á milli húsanna, innst eða innarlega á lóðum. Þegar heimilaðar séu breytingar á svæðum sem þessum sé horft til þess að þær falli sem best inn í byggðamynstrið. Sé þess m.a. gætt, þegar heimiluð sé bygging bílskúra, að þeir séu litlir og lágir með tilliti til áhrifa á umhverfið og þá einkum ef þeir standi innarlega í görðum. Um sé að ræða gróið og þéttbýlt svæði þar sem fólk búi við mikla nálægð. Ef heimila eigi notkun á þaki mannvirkis sem standi í slíku umhverfi þurfi að ríkja um það víðtæk sátt við þá aðila sem mestra grenndarhagsmuna eigi að gæta. Fjöldi athugasemda hafi borist við grenndarkynningu á umsókn kæranda er lotið hafi að útliti og umhverfisáhrifum. Þá hafi borist hafi athugasemd frá eigendum Barmahlíðar 52 um að samþykki þeirra skorti fyrir girðingu ofan á bílskúrsþaki kæranda á lóðarmörkum Barmahlíðar 52. Af framangreindum ástæðum hafi umdeildri umsókn kæranda verið synjað.
Málsástæðu kæranda, um að synjun skipulagsráðs brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sé hafnað af þeirri ástæðu að ákvarðanataka í skipulags- og byggingarmálum sé í höndum sveitarfélaga en ekki einstakra lóðarhafa. Skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir að samþykkis skipulagsyfirvalda sé krafist fyrir framkvæmdum þeim sem hér um ræði, en við afgreiðslu slíkra umsókna sé m.a. litið til skipulags- og grenndarsjónamiða. Grenndarkynning sé lögboðin aðgerð sem framkvæmd sé í því skyni að fá fram viðbrögð þeirra er kunni að eiga hagsmuna að gæta vegna umsóttra breytinga.
Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst uppi það álitaefni hvort heimila eigi gerð þaksvala á bílskúr á lóðinni að Barmahlíð 54 í Reykjavík. Fyrir liggur að kærandi fékk leyfi fyrir opi á svalahandriði íbúðar sinnar og stiga þaðan niður í garð og sólpalli þar, eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu.
Nýting þakflatar bílskúrs undir svalir er óhefðbundin og getur eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir næstu lóðir. Verður að telja að slík nýting á þaki bílskúrs að Barmahlíð 54 snerti grenndarhagsmuni lóðarhafa Barmahlíðar 52 enda stendur bílskúrinn á mörkum þeirrar lóðar. Er það álit úrskurðarnefndarinnar að þegar nýting þakflatar bygginga til útivistar hafi áhrif á grenndarhagsmuni þurfi hún að hafa stoð í deiliskipulagi, en svæði það sem hér um ræðir hefur ekki verið deiliskipulagt.
Af framangreindum ástæðum var borgaryfirvöldum rétt að hafna umsókn kæranda um nýtingu þakflatar áðurgreinds bílskúrs og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. Raskar sú niðurstaða þó ekki gildi þess leyfis sem síðar var veitt fyrir hluta þeirra framkvæmda sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009, sem borgarráð staðfesti 26. mars sama ár, um að hafna umsókn kæranda um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri, og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54 í Reykjavík.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson