Ár 2007, föstudaginn 30. mars kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2006, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0, er afmarkast af Óðinsgötu, Bjargarstíg, Grundarstíg og Spítalastíg, og á breytingu á því deiliskipulagi er skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006 og 7. mars 2007, er bárust nefndinni 7. mars 2006 og 8. mars 2007, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6, og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0, er afmarkast af Óðinsgötu, Bjargarstíg, Grundarstíg og Spítalastíg, og á breytingu á því deiliskipulagi er skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
Með bréfi, dags. 7. mars 2007, kærðu kærendur fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu ásamt veittu byggingarleyfi fyrir flutningi húss að Bergstaðastræti 16. Í ljósi þess að deiliskipulag svæðisins er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni vegna fyrra málskots kærenda þykir rétt að sameina kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar því máli sem er nr. 18/2006.
Málavextir: Á árinu 2003 voru unnin drög að deiliskipulagi staðgreinireita 1.184.0 og 1.184.1 og voru þau kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu. Að þeirri kynningu lokinni var lögð fram tillaga að uppbyggingu lóðarinnar Bergstaðastræti 16-18 á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. apríl 2004 og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. maí 2004 var tillagan til umfjöllunar ásamt athugasemdum er borist höfðu, m.a. frá öðrum kærenda. Á fundinum var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 6. maí 2004, og var samþykkt að auglýsa framlagða skipulagstillögu til kynningar. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 18. maí 2004.
Hinn 10. janúar 2005 var haldinn fundur með hagsmunaaðilum þar sem kynnt var ný tillaga að deiliskipulagi umædds reits. Fólst breytingin frá fyrri tillögu aðallega í því að dregið var úr byggingarmagni á lóðinni nr. 16-18 við Bergstaðastræti vegna framkominna athugasemda íbúa um að fyrirhugað byggingarmagn væri of mikið. Á kynningartíma fyrri tillögunnar komu fram athugasemdir frá fjölda íbúa og hagsmunaaðila, m.a. frá kærendum. Ákvað skipulagsráð á fundi sínum hinn 23. febrúar 2005 að fela skipulagsfulltrúa að láta vinna nýja tillögu að deiliskipulagi þar sem gert væri ráð fyrir allt að þremur flutningshúsum á umræddri lóð. Urðu lyktir mála þær að skipulagsráð ákvað hinn 13. apríl 2005 að kynna nýja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.184.0 þar sem gert var ráð fyrir tveimur flutningshúsum á lóðinni að Bergstaðastræti 16-18 og að nýtingarhlutfall þeirrar lóðar yrði 1,2. Athugasemdir við tillöguna bárust frá kærendum og nokkrum öðrum en skipulagsráð samþykkti auglýsta tillögu hinn 9. nóvember 2005 með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa og lögfræði og stjórnsýslu og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði hinn 24. nóvember. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006. Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.
Hinn 26. september 2006 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16 og var hún samþykkt. Skutu kærendur máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 29. desember 2006 í kjölfar þess að byggingaryfirvöld afturkölluðu umdeilt leyfi. Var ástæða afturköllunarinnar sú að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 16 samkvæmt veittu leyfi yrði hærra en heimilað var í deiliskipulagi reitsins.
Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 17. nóvember 2006 var lögð fram tillaga að „leiðréttingu“ á deiliskipulagi umdeilds reits er fól í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 úr 1,2 í 1,5 og var sú tillaga grenndarkynnt. Athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum við grenndarkynninguna, þar á meðal frá kærendum. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna hinn 17. janúar 2007 með þeirri breytingu að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 18 yrði 1,35 í stað 1,5. Tók breytingin gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. febrúar 2007. Skutu kærendur þeirri ákvörðun einnig til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kærenda: Hvað varðar deiliskipulagið er borgarráð samþykkti hinn 24. nóvember 2005 benda kærendur á að með því hafi verið varpað fyrir róða fyrri skipulagshugmyndum um nýbyggingu að Bergstaðastræti 16-18, en í staðinn gert ráð fyrir flutningshúsum sem væru hærri en fyrrgreind nýbygging. Þá væri byggingarréttur kærenda á baklóðum minnkaður verulega með hinni kærðu ákvörðun.
Málsmeðferð deiliskipulagsins hafi brotið gegn ákvæðum 6. kafla skipulagsreglugerðar, þar sem borgarráð Reykjavíkur hafi ekki fengið athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar til umfjöllunar. Sveitarstjórn hafi með því verið svipt möguleikanum til að sinna lögbundinni skyldu til að fjalla um athugasemdirnar. Skipulagsráð hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að breyta framlagðri tillögu, fella hana síðan niður og leggja fram nýja í staðinn. Auglýsing nýju tillögunnar sé auk þess í andstöðu við ákvæði skipulagsreglugerðar þar sem segi að sveitarstjórn skuli samþykkja að auglýsa tillögu áður en kemur að auglýsingu. Það hafi hvorki verið gert þegar tillögunni hafi verið breytt né þegar ný tillaga hafi verið gerð.
Að mati kærenda hafi varaformaður skipulagsráðs verið vanhæfur við afgreiðslu skipulagstillögunnar þar eð hann hafi gefið út yfirlýsingar á opinberum vettvangi, á kynningarfundi með íbúum, sem bendi til að hann hafi þá þegar verið búinn að taka afstöðu í málinu kærendum í óhag. Leiði það til að ákvörðunin sé ógildanleg og beri að fella hana úr gildi.
Gerðar séu athugasemdir við mat á vægi andmæla vegna umdeilds deiliskipulags. Hluti þeirra 217 hagsmunaaðila sem skrifað hafi undir andmælabréf í september 2004 hafi ekki haft hagsmuna að gæta og ekki liggi fyrir hverjir hafi skrifað undir eða komið að þeim andmælum. Það brjóti gegn því markmiði skipulagsreglugerðar að tryggja réttaröryggi að taka ekki tillit til athugasemda kærenda sem eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu, svara ekki erindum þeirra en leggja þess í stað til grundvallar sjónarmið annarra sem jafnvel eigi engra hagsmuna að gæta. Með þessari málsmeðferð sé kærendum mismunað með ómálefnalegri afstöðu skipulagsyfirvalda.
Markmiði skipulagsins um verndun byggðamynsturs megi ná fram með öðrum hætti en með flutningshúsum og hafi því verið gengið lengra en nauðsyn krafði til að ná fram þeim markmiðum og sama eigi við um takmörkun á byggingarmagni á baklóðum kærenda þar sem mögulegt hafi verið að koma til móts við sjónarmið þeirra án þess að raska hagsmunum annarra.
Hið kærða deiliskipulag sé haldið slíkum form- og efnisannmörkum að leiða eigi til ógildingar þess. Breyting sú á deiliskipulaginu er skipulagsráð hafi samþykkti hinn 17. janúar 2007 sé einnig ólögmæt.
Ekki hafi verið heimilt að fara með breytingartillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda slíkt aðeins heimilt þegar breytingar verði á mælipunktum eða minni háttar breyting á einstökum húsum. Hækkun nýtingarhlutfalls um 25% sé ekki óveruleg í ljósi þess að lóðir í nágrenninu hafi nýtingarhlutfall innan við 1,0.
Því sé andmælt að skipulagsbreytingin hafi falið í sér leiðréttingu á gildandi skipulagi, enda hafi tillögunni verið breytt við meðferð hennar með því að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 18 hafi verið lækkað úr 1,5 í 1,35 án þess að rök séu fyrir því að nýtingarhlutfall þeirrar lóðar skuli vera lægra en lóðarinnar að Bergstaðastræti 16.
Ætla megi að umdeild skipulagsbreyting sé til komin vegna byggingarleyfis fyrir flutningshúsi að Bergstaðastræti 16 sem hafi verið afturkallað þar sem það hafi stangast á við gildandi skipulag. Hafi framkvæmdir þá verið hafnar við grunn hússins. Byggja kærendur á því að ekki sé heimilt, sbr. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, að breyta skipulagi þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en jarðrask hafi verið afmáð.
Með umdeildu deiliskipulagi hafi verið mörkuð sú stefna að hafa byggingarmagn hlutfallslega lítið miðað við fyrri hugmyndir og verði ekki séð að umrædd hækkun nýtingarhlutfalls samræmist þeirri stefnu. Hið aukna byggingarmagn valdi auk þess ójafnvægi milli lóða innan deiliskipulagsreitsins.
Andmæli Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg byggir á því að meðferð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu, er samþykkt hafi verið í borgarráði hinn 24. nóvember 2005, hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga. Þá hafi samráð við hagsmunaaðila við undirbúning hennar að öllu leyti verið í samræmi við vinnureglur Reykjavíkurborgar um nýskipulagningu í eldri byggð. Í þeim tilvikum fái allir hagsmunaaðilar á reitnum senda tilkynningu um að deiliskipulagsgerð sé vændum, auk þess sem viðhöfð hafi verið sérstök hagsmunaaðilakynning á tillögunni sjálfri áður en hún hafi verið auglýst á lögformlegan hátt. Tveir opnir kynningarfundir hafi verið haldnir á meðan vinnan stóð yfir og séu þá ótalinn fjöldi funda embættismanna með hagsmunaaðilum sem hafi viljað kynna sér málið betur. Þá sé því eindregið mótmælt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið deiliskipulagsgerð og að hið samþykkta deiliskipulag brjóti gegn nokkrum ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. meðalhófsreglu og/eða jafnræðisreglu laganna.
Tvívegis hafi verið auglýstar tillögur að deiliskipulagi reitsins og í bæði skiptin í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt í skipulagsráði og af sveitarstjórn, þ.e. borgarráði Reykjavíkur, sem hafi yfirfarið framkomnar athugasemdir í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Eðli máls samkvæmt taki tillögur að deiliskipulagi ýmsum breytingum í málsmeðferð, enda geri skipulags- og byggingarlög beinlínis ráð fyrir því að svo geti farið. Ákvæði laganna um samráð við íbúa, kynningar og auglýsingar á tillögum væru markleysa ef ekki væri unnt að taka tillit til athugasemda og ábendinga sem fram komi við lögbundna málsmeðferð. Sé því vandséð á hvaða hátt kærendur telji skipulagsráð hafa gengið framhjá sveitarstjórn eins og haldið sé fram í kæru, en í ákvæðum samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og samþykktar um skipulagsráð séu ráðinu veittar allrúmar heimildir til að annast um stjórnsýslu skipulagsmála í umboði borgarráðs, sbr. samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001, 6., 38. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga og heimild í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Minnt sé á að tillagan hafi verið yfirfarin af Skipulagsstofnun sem hafi ekki gert athugasemdir við málsmeðferðina né við svör skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda.
Athugasemdir kærenda um meint vanhæfi varaformanns skipulagsráðs vegna þátttöku hans á kynningarfundi séu óskiljanlegar. Varaformaður skipulagsráðs hafi stýrt fundum ráðsins við meðferð málsins vegna vanhæfis formanns og hafi því verið viðstaddur áðurnefndan kynningarfund sem haldinn hafi verið 27. júní 2006. Umdeilt mál hafi fengið venjubundna meðferð og á greindum fundi hafi komið fram að ætíð væri leitað eftir athugasemdum hagsmunaaðila í samræmi við lög og leitast væri við að taka tillit til þeirra að því marki sem mögulegt væri.
Að gefnu tilefni sé tekið fram að Reykjavíkurborg telji sig ekki hafa heimildir til að undanskilja einhvern hluta athugasemda sem berist við kynningu skipulags. Hafa verði í huga að verið sé að auglýsa í fjölmiðlum eftir athugasemdum þeirra sem einhverjar hafi og ekki sé í lögum að finna takmarkanir á því hverjir mega gera athugasemdir, s.s. með kröfu um lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Leitast sé við í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna að meta allar athugasemdir sem berist og gera grein fyrir þeim og svara, þó að sumir teljist að sjálfsögðu eiga meiri hagsmuna að gæta en aðrir.
Hvað varði athugasemdir kærenda, um að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra og erindum þeirra ekki svarað, sé vísað til umsagnar lögfræðideildar og skipulagsfulltrúa sem skipulagsráð hafi gert að sinni við samþykkt deiliskipulagsins. Þar sé athugasemdum kærenda svarað ítarlega. Á það sé minnt að skipulagsyfirvöld geti ekki farið eftir öllum skoðunum og ábendingum sem komi fram við meðferð skipulagstillagna og beri ekki skylda til þess. Skipulagsyfirvöldum beri aftur á móti að fara málefnalega yfir allar athugasemdir og svara þeim, hvort sem unnt sé að koma til móts við þær eða ekki.
Málsástæður í kæru virðist byggja á því að hið kærða deiliskipulag Bergstaðastrætisreits, þar sem gert sé ráð fyrir flutningshúsum á lóð nr. 16-18 við Bergstaðastræti, skerði á einhvern hátt hagsmuni kærenda. Ekki verði séð til hvaða hagsmuna sé verið að vísa en nefnd lóð sé í eigu Reykjavíkurborgar og geti byggingarheimildir á þeirri lóð aldrei skert beina hagsmuni kærenda. Ætla megi að verið sé að vísa til framlagðra hugmynda kærenda um samnýtingu lóða þeirra og lóðar Reykjavíkurborgar sem fyrri skipulagstillaga hafi gert ráð fyrir. Þær hugmyndir hafi þótt heppilegar ef unnt yrði að samnýta umræddar lóðir en í ljósi mikillar andstöðu íbúa hafi þótt rétt að staldra við og athuga hvort möguleiki væri að koma til móts við þær athugasemdir. Ekki sé unnt að fallast á það sjónarmið að breyting á byggingarheimildum á lóð í eigu Reykjavíkurborgar í deiliskipulagsferli geti á einhvern hátt verið skerðing á hagsmunum kærenda sem í raun hafi ekki orðið fyrir öðru en því að von þeirra um úthlutun umræddrar lóðar og uppbyggingu hafi brugðist.
Með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið dregið úr byggingarmagni á lóðinni nr. 16-18 við Bergstaðastræti frá fyrri tillögu og sé nú gert ráð fyrir tveimur reitum fyrir aðflutt hús. Reitirnir hafi verið hafðir tiltölulega rúmir svo unnt væri að koma þar fyrir reisulegum timburhúsum. Leyfileg hámarkshæð samkvæmt tillögunni sé í samræmi við hæð þeirra timburhúsa í nágrenninu sem reisulegust þyki. Telji kærendur að hagsmunum þeirra sé með þessu raskað geti þeir eftir atvikum átt rétt á bótum samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ákvörðun í því efni eigi ekki undir úrskurðarnefndina.
Nauðsynlegt sé að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
Hvað hina kærðu leiðréttingu deiliskipulagsins varði sé vísað til samantektar skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2007, um framkomnar athugasemdir og svör við þeim, en þar hafi einungis verið um að ræða breytingu á nýtingarhlutfalli lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 og hafi málsmeðferð verið í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Í greindri samantekt segi m.a: „Þegar umsókn barst um flutning hússins að Hverfisgötu 44 á lóðina nr. 16 við Bergstaðastræti var hún afgreidd jákvætt þar sem talið var að húsið samræmdist markmiðum deiliskipulagsins varðandi stór og reisuleg timburhús fyrir umrædda lóð. Eftir að byggingarleyfi hafði verið gefið út kom í ljós að n.hl.f. lóðarinnar reyndist vera hærra en kveðið var á um í skilmálum skipulagsins. Ekki er ástæða til að rekja frekar ástæður þess að svo fór, á þessu stigi málsins, en staðfest hefur verið að um mannleg mistök var að ræða. Árið 2002 fór fram breyting á þágildandi skipulagsreglugerð sem fékk númerið 420/2002, þannig að í stað þess að nýtingarhlutfall væri hlutfall milli heildargólfflatar á lóð eða reit og flatarmáls lóðar, kom ný regla þess efnis að nýtingarhlutfall væri nú hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingahluta í lokunarflokkum A og B sbr. ÍST 50: 1998 á lóð eða reit og flatarmáls lóðar. Af þessu leiðir að allir fermetrar í húsi, t.a.m. gólfflötur í risi sem er undir 180 cm lofthæð og sem áður voru undanskildir við útreikninga á flatarmáli húss, voru nú teknir með í brúttóflatarmáli skv. nefndum stöðlum. Svo virðist sem að við ákvörðun um nýtingarhlutfall umræddra lóða í gildandi deiliskipulagi hafi ekki verið tekið tillit til þessarar reglugerðarbreytingar og er því uppgefið nýtingarhlutfall lóðanna í ósamræmi við markmið deiliskipulagsins um flutning stórra og reisulegra reykvískra timburhúsa á lóðirnar. Þegar brúttóflatarmál þeirra húsa sem sýnd eru á skýringarmynd á deiliskipulagsuppdrættinum er reiknað, kemur í ljós að nýtingarhlutfall þeirra er í ósamræmi við uppgefið nýtingarhlutfall skv. deiliskipulaginu, heldur nokkru hærra. Þetta ósamræmi er nú, með kynntri tillögu, verið að leiðrétta, þannig að samræmi verði á milli markmiða deiliskipulagsins, skýringarmynda, hæðarkóta og samþykktu nýtingarhlutfalli lóðanna. Það er því verið að leiðrétta útreikninga og eins og bréfritari bendir á telst það vera minni háttar breyting á deiliskipulagi reitsins og er því grenndarkynnt sem slík. Ekki er fallist á að breytingin sé þess eðlis að hana beri að auglýsa, enda væri slík málsmeðferð í andstöðu við venjubundna túlkun formreglna skipulags- og byggingarlaga.“
Niðurstaða: Á fundi sínum hinn 13. apríl 2005 samþykkti skipulagsráð að auglýsa til kynningar nýja tillögu að deiliskipulagi reits 1.184.0, en fallið hafði verið frá eldri tillögu sem áður hafði verið auglýst fyrir reitinn. Var þessari afgreiðslu vísað til borgarráðs. Ekki verður séð að borgarráð hafi fjallað um tillöguna á þessu stigi en hún var allt að einu auglýst til kynningar og var í auglýsingunni vísað til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsráð samþykkti síðan auglýsta tillögu hinn 9. nóvember 2005 með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa og lögfræði og stjórnsýslu og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði hinn 24. nóvember 2005. Var auglýsing um gildistöku skipulagsins loks birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006.
Málsmeðferð sú sem að framan er lýst samræmist ekki ákvæði 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem áskilið er að sveitarstjórn skuli samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samkvæmt ákvæðinu. Er það ekki á færi skipulagsráðs að taka ákvörðun um auglýsingu nýrrar skipulagstillögu og breytir þar engu um þótt áður hafi verið samþykkt og auglýst skipulagstillaga að sama svæði sem síðar hefur verið fallið frá. Verður ekki heldur séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til ákvarðana um að auglýsa tillögur að nýju deiliskipulagi, enda er slíkra ákvarðana ekki getið í 12. gr. gildandi samþykkta fyrir ráðið en þar eru talin þau verkefni sem ráðinu er falið að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Brast skipulagsráð þannig vald til þess að ákveða, án staðfestingar borgarráðs, að auglýsa hina umdeildu skipulagstillögu og að auki var þessi málsmeðferð til þess fallin að hafa áhrif á síðari afstöðu borgarráðs til málsins. Þykir þessi annmarki eiga að leiða til ógildingar hinnar umdeildu tillögu og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt borgarráð hafi staðfest skipulagið eftir kynningu þess og með þeim breytingum sem þá höfðu verið á því gerðar.
Með hinni kærðu ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur 17. janúar 2007 var nýtingarhlutfalli lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18, sem eru innan umrædds skipulagsreits, breytt úr 1,2 í 1,5 fyrir lóðina að Bergstaðastræti 16 og úr 1,2 í 1,35 fyrir lóðina að Bergstaðastræti 18. Var sú breyting gerð með svonefndri leiðréttingu á skipulaginu sem var grenndarkynnt fyrir hagsmunaðilum með stoð í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Um heimild stjórnvalda til leiðréttingar á tilkynntum eða birtum stjórnvaldsákvörðunum er fjallað í 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verða slíkar leiðréttingar aðeins gerðar þegar um bersýnilegar villur er að ræða og er þá þeim er málið varðar tilkynnt um leiðréttinguna. Ekki verður séð af gögnum málsins að nýtingarhlutfall umræddra lóða hafi átt að vera 1,35 og 1,5 í stað 1,2 og getur því hér með engu móti verið um leiðréttingu að ræða eins og það hugtak er skýrt í stjórnsýslurétti. Þess í stað verður að telja að ætlan skipulagsráðs hafi verið að gera óverulega breytingu á deiliskipulagi því sem þegar hafði verið samþykkt fyrir reitinn, enda var málsmeðferðin í samræmi við það.
Áform skipulagsyfirvalda voru kynnt sem leiðrétting og var sú framsetning til þess fallin að valda misskilningi. Þá var á kynningaruppdrætti sýnt sem núverandi ástand sú byggð sem fyrir var á reitnum áður en deiliskipulagið sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006 kom til sögunnar. Varð helst ráðið af kynningargögnum að nýtt skipulag með umræddri leiðréttingu ætti að koma í þess stað. Sagði raunar í bréfi skipulagsfulltrúa til hagsmunaaðila, dags. 21. nóvember 2006, að með samþykkt umræddrar leiðréttingar félli úr gildi uppdráttur sem samþykktur hefði verið í borgarráði 24. nóvember 2005. Verður að telja að umræddri grenndarkynningu hafi verið svo verulega áfátt að ekki hafi verið unnt að leggja hana til grundvallar við ákvörðun um þá skipulagsbreytingu sem að var stefnt. Verður sú ákvörðun því einnig felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0 er felld úr gildi. Einnig er felld úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur um breyting á nefndu deiliskipulagi er samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _________________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson