Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2024 Brattahlíð

Árið 2024, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar 2024 um álagningu dagsekta vegna lóðarinnar nr. 16–22 við Bröttuhlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Tré-búkki ehf. ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar s.á. um álagningu dagsekta. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 28. febrúar 2024.

Málavextir: Með tölvupósti 14. febrúar 2023 hafði kærandi samband við skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar og óskaði eftir heimild til að flytja krana og vinnubúðir, sem staðsett voru á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð, á nánar tilgreindan reit. Var fyrirspurnin ítrekuð 27. s.m. Með tölvu­pósti, dags. 28. s.m., upplýsti skipulagsfulltrúi að hann hefði framsent erindið til umhverfis­stjóra þar sem fyrirspurnin væri ekki innan hans verksviðs. Þá óskaði skipulagsfulltrúi eftir frekari upplýsingum um erindið.

Umhverfissvið Mosfellsbæjar sendi kæranda bréf, dags. 12. júní 2023, þar sem fram kom að staðsetning gáma og byggingarefnis á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð væri ólögleg. Var gerð krafa um að gámarnir og byggingarefnið yrði fjarlægt og leiðbeint um að ef ekki yrði orðið við kröfu um úrbætur fyrir 26. s.m. mætti búast við að beitt yrði heimildum 3. og 4. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 3. ágúst s.á. þar sem fram kom að hann hefði skoðað aðstæður á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð og niðurstaða skoðunar­innar hefði verið að notkun lóðarinnar væri ekki í samræmi við skilmála skipulags, ákvæði í kafla 2.9. byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 sem og ákvæði gildandi lóðarleigu­samnings. Var gerð krafa um að gámar og lausamunir sem tilheyrðu byggingarstarfsemi yrðu fjarlægðir innan 20 daga en ella yrði þvingunarúrræðum beitt samkvæmt 56. gr. laga nr. 160/2010. Kæranda var send ítrekun með bréfi, dags. 12. september s.á., þar sem gerð var krafa um að þrír gámar og lausa­munir tengdir byggingarstarfsemi yrðu fjarlægðir. Var gefinn 20 daga frestur til að bregðast við áður en þvingunarúrræðum yrði beitt.

Kærandi svaraði erindi byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 6. október 2023, þar sem vísað var til samnings kæranda við sveitarfélagið, dags. 7. janúar 2007, og viðauka, dags. 30. ágúst s.á., varðandi uppbyggingu og fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Þá var bent á að framkvæmdum á svæðinu væri ekki alveg lokið og að gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar legði skyldur á byggingaraðila að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingar­vinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Þá lægi fyrir að kærandi hefði forgang við úthlutun lóða og/eða byggingarheimildum og stæði til að hann myndi hefja framkvæmdir á lóð vestan við raðhús við Bröttuhlíð 24–30 þegar skipulagsvinnu lyki. Sendar hefðu verið ítrekaðar fyrirspurnir til bæjarins sem ekki hafi verið svarað um staðsetningu gámanna þar til framkvæmdir myndu hefjast, en þeir væru notaðir vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22 sem vinnuaðstaða fyrir starfsfólk. Kærandi teldi að skilyrði 56. gr. laga nr. 160/2010 um beitingu dagsekta væru ekki til staðar þar sem ekki væri heimilt að leggja á dagsektir væri notkun lóðar í ósamræmi við skipulag sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 3. ágúst 2023, og því væru ekki lagalegar forsendur fyrir kröfunni. Óskaði kærandi eftir því að umræddir gámar fengju að standa á umræddri lóð og/eða samtali við sveitarfélagið um hvar væri hægt að koma þeim fyrir þar til framkvæmdir á nýskipulögðu svæði myndu hefjast. Þá var bent á að kærandi hefði þegar komið til móts við bæinn með því að flytja bæði „klósett­gám“ og krana af svæðinu og eftir stæðu einungis þrír gámar sem væru í notkun.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 16. janúar 2024, þar sem bent var á að lóðin Bratta­hlíð 16–22 væri inni á skilgreindu þéttbýlissvæði/íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Mosfells­bæjar 2011–2030. Í byggingarreglugerð kæmi fram í gr. 2.6.1. að sækja skuli um stöðu­leyfi ef gámar eigi að standa lengur en tvo mánuði utan svæðis sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu slíkra lausafjármuna. Umrædd lóð væri íbúðarhúsalóð og því ekki skipulögð sem geymslusvæði fyrir gáma til lengri tíma. Því væri notkun lóðarinnar til geymslu gámanna ólögmæt í skilningi laga nr. 160/2010. Þau sjónarmið ættu einnig við um aðra lausafjármuni sem geymdir væru á lóðinni og tengdust byggingarframkvæmdum á öðrum lóðum. Var vísað til þess að í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 kæmi fram að ef ásigkomulagi, frá­gangi, umhverfi húss eða lóðar sé ábótavant og ekki sé gengið frá því samkvæmt reglu­gerðum skuli gera eiganda aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Það hafi verið gert í þeim bréfum sem byggingarfulltrúi og starfsmenn hans hafi sent kæranda. Í 2. mgr. 56. gr. greindra laga sé heimild til handa byggingarfulltrúa til að beita dagsektarúrræðum til að knýja kæranda til að láta af því ólögmæta atferli að geyma umrædda gáma á lóðinni án til­skilinna leyfa. Þá var vísað til að samkvæmt gr. 4.11.4. í byggingarreglugerð verði aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustað ekki komið upp án þess að samþykki leyfisveitanda liggi fyrir en ekki hafi verið sótt um slíkt leyfi. Þá gæti umrædd lóð ekki talist byggingarvinnustaður þar sem þar stæði fullbyggt íbúðarhús þar sem ekki stæðu yfir neinar framkvæmdir sem sótt hafi verið um leyfi fyrir hjá embættinu eða því sé kunnugt um. Hvað varðaði beiðnir kæranda um að flytja krana og vinnubúðir hafi skipulagsfulltrúi svarað póstinum og óskað eftir frekari upplýsingum. Því erindi hafi ekki verið svarað heldur hafi kærandi óskað eftir fundi með bæjarstjóra vegna málsins. Á þeim fundi hafi ósk kæranda verið rædd og í tölvupósti frá bæjarstjóra, dags. 19. september 2023, til kæranda hafi komið fram að ekki yrði fallið frá kröfum byggingarfulltrúa um að gámarnir skyldu fjarlægðir. Í lóðarleigusamningi milli bæjarins og kæranda hafi þess sérstak­lega verið getið að óheimilt væri að staðsetja gáma á lóðinni nema að fengnu leyfi byggingar­fulltrúa og sé staðsetning þeirra á lóðinni því brot á skilmálum hans. Var kæranda til­kynnt að ef gámarnir og lausafjármunir yrðu ekki fjarlægðir fyrir 15. febrúar 2024 myndu verða lagðar á hann dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 sbr. heimild í 56. gr. laga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að engar lagalegar forsendur séu fyrir álagningu dagsekta vegna umræddra gáma, en auk þess hafi fjölmargar reglur stjórnsýsluréttar verið brotnar við afgreiðslu málsins.

Álagning dagsekta sé þvingunarráðstöfun og verði beiting slíkra sekta að eiga sér skýra stoð í lögum. Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki komi fram að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Bregðist umráðamaður ekki við geti HMS eða byggingarfulltrúi við­komandi sveitarfélags lagt á dagsektir eða látið framkvæma það sem áfátt sé á kostnað þess sem hafi vanrækt verkið. Ekkert í lögunum veiti hins vegar byggingarfulltrúa heimild til að leggja á dagsektir vegna þess að vanrækt hafi verið að sækja um stöðuleyfi vegna gáma, það út­runnið eða farið hafi verið út fyrir ákvæði skipulags eða lóðaskilmála líkt og haldið sé fram.

Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 16. janúar 2024, hafi komið fram að samkvæmt ákvæði 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 12/2012 skuli sækja um stöðuleyfi fyrir gáma ef þeir eigi að standa lengur en í tvo mánuði utan svæðis sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu slíkra lausafjármuna. Ákvæðið segi hins vegar ekkert um að beita megi dagsektum sé ekki farið eftir ákvæðinu. Í gr. 2.6.2. byggingarreglugerðar sé kveðið á um hvað skuli gera ef vanrækt hafi verið að sækja um stöðuleyfi vegna gáma, það útrunnið eða að farið hafi verið út fyrir ákvæði skipulags- eða lóðaskilmála. Þar komi fram að séu lausafjármunir staðsettir án stöðuleyfis skuli leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja þá innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda. Það sama eigi við þegar handhafi stöðuleyfis uppfylli ekki þær kröfur sem fram komi í grein 2.6.1. eða önnur skilyrði stöðuleyfis og skuli þá leyfisveitandi jafnframt krefjast þess að lausafjármunirnir verði fjarlægðir innan hæfilegs frests, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir á kostnað handhafa stöðu­leyfis. Hvorki í byggingarreglugerð né í lögum um mannvirki sé nokkuð sem heimili byggingar­­­fulltrúa að leggja á dagsektir vegna þess að reglur um stöðuleyfi séu brotnar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að álagning dagsekta af hálfu byggingarfulltrúa skortir lagastoð og sé ólögmæt.

Byggingaraðila sé skylt samkvæmt gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mann­virkja­gerð. Hefði aðstaðan ekki verið til staðar hefði byggingarfulltrúi ekki gefið út byggingarleyfi á öllum þeim húsum sem kærandi hafi byggt á svæðinu. Framkvæmdum á svæðinu sé ekki lokið en jafnframt liggi fyrir að skipulag svæðis sem hafi verið afhent Mosfellsbæ á grund­velli viðauka við samning kæranda við sveitarfélagið sé á lokametrunum. Kærandi eigi forgang að úthlutun lóða og/eða byggingarheimildum á því svæði og standi til að hefja framkvæmdir á lóð vestan við raðhús við Bröttuhlíð 24–30 þegar skipulagsvinnu ljúki. Sendar hafi verið ítrekaðar fyrirspurnir til bæjarins um staðsetningu gámanna þar til fram­kvæmdir hæfust á um­ræddu svæði en í millitíðinni væru þeir notaðir sem vinnuaðstaða fyrir starfs­fólk vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22­. Þeim fyrirspurnum hafi ekki verið svarað.

Mosfellsbær sé bundinn af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Í því sambandi sé bent á að frágangi við Bröttuhlíð 17, sem sé ekki í eigu kæranda, virtist ekki vera lokið án þess að gerðar séu kröfur til þess að eigandi þess húsnæðis fjarlægi lausafé af sinni lóð, m.a. byggingarefni. Byggingar­­framkvæmdum fylgi rask meðan á þeim standi, sem m.a. felist í því að geyma þurfi nauðsynlegt byggingarefni og koma upp lögbundinni aðstöðu. Hafi það verið væntingar bæjarins við útgáfu byggingarleyfis að framkvæmdir við Bröttuhlíð hefðu ekki slíkt rask í för með sér, séu það afar óraunhæfar væntingar. Fyrir liggi að framkvæmdum kæranda ljúki á næstu mánuðum, en einnig hafi verið framkvæmdir annarra í gangi við Bröttuhlíð 17. Í til­kynningu bæjarins hafi komið fram að bærinn sæi ekki hvaða vægara úrræði hann gæti beitt en vægara úrræði væri t.d. að heimila kæranda að klára framkvæmdir innan eðlilegra tímamarka og gámarnir yrðu fjarlægðir innan ákveðins tíma frá því þeim lyki. Ekki sé hægt að sjá að aðrir hafi ríkari hagsmuni á meðan á framkvæmdunum standi en ljóst sé að byggingarframkvæmdir í íbúðarhverfi hafi ónæði í för með sér á meðan á þeim stendur. Áréttað sé að sveitarfélagið hafi skuldbundið sig til þess að tryggja að kærandi hefði forgang til lóða á svæði sem hann afhenti bænum endurgjaldslaust með undirritun á nefndan viðauka.

Sendar hafi verið ítrekaðar fyrirspurnir um hvort og/eða hvar gámarnir fengju að standa tíma­bundið. Svör hafi borist seint og illa og loks þegar þau hafi borist hafi gámarnir verið færðir að gamla húsinu, þ.e. Bröttuhlíð 16–22, þar sem þeir séu nú. Komið hafi verið til móts við bæinn með því að flytja bæði klósettgám og krana af svæðinu og því hafi einungis staðið eftir þrír gámar sem séu nauðsynlegir vegna aðstöðusköpunar vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22.

Þá sé einkennilegt að byggingarfulltrúi láti sér loftlagsmarkmið bæjarins í léttu rúmi liggja í framangreindri tilkynningu, þar sem hann haldi því fram að þau komi ekki byggingar­framkvæmdum kæranda við. Bærinn hafi sett sér loftlagsstefnu í samræmi við lög nr. 70/2012 um loftlagsmál en af bréfi byggingarfulltrúa megi ráða að loftlagsmarkmið bæjarins séu orðin tóm og ekki nokkur ásetningur eða vilji sé til að fylgja þeim eftir. Með því að skylda kæranda til óþarfa flutnings á gámunum muni það hafa í för með sér notkun á eldsneyti með tilheyrandi út­blæstri gróðurhúsaloftegunda sem sé vandséð hvernig samræmist loftslagamarkmiðum bæjarins.

Málsrök Mosfellsbæjar: Vísað er til þess að ekki sé hægt að telja tölvupóst kæranda til bæjarins 14. febrúar 2023 um byggingarkrana og gáma sem umsókn um stöðuleyfi enda komi fram í gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hvað skuli koma fram í slíkri umsókn. Umsókn um stöðuleyfi hafi aldrei borist frá kæranda vegna staðsetningar umræddra gáma á lóðinni Brattahlíð 16–22. Í samræmi við greint ákvæði byggingarreglugerðar hafi fulltrúi bæjar­ins óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda áður en hægt væri að taka málið lengra. Óskað hafi verið eftir upplýsingum með tölvupósti um hvaða framkvæmdum eða útgefnu byggingar­leyfi kraninn hafi tengst en póstinum hafi aldrei verið svarað. Þar sem engin svör hafi borist hafi byggingarfulltrúi sent bréf, dags. 12. júní 2023, til kæranda þar sem tilkynnt var að um­rædd notkun lóðarinnar væri óheimil og að honum bæri að fjarlægja umrædda muni innan til­skilins frests. Byggingarfulltrúi hafi ítrekað erindið með bréfi, dags. 3. ágúst s.á., Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir fundi með bæjarstjóra sem hafi farið fram um miðjan ágúst þar sem málið hafi verið rætt. Fundurinn hafi hins vegar ekki leitt til þess að fyrri ákvörðun byggingar­fulltrúa um ólögmæta notkun lóðarinnar yrði breytt og var kæranda því send ítrekun 12. september s.á.

Varðandi fullyrðingar að umrætt lausafé væri tilkomið vegna tilrauna kæranda til „aðstöðusköpunar“ vegna framkvæmda er bent á að kærandi hafi upphaflega sett sig í samband við bæinn og óskað eftir að fá að geyma krana og gáma á bæjarlandi. Bærinn heimili ekki afnot af bæjarlandi til slíkrar geymslu en hafi þó leyft tímabundin afnot af bæjarlandi í tengslum við framkvæmdir í samræmi við útgefið byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Ráðstöfun bæjarlands sem geymslu undir lausafé byggingarverktaka milli verkefna falli ekki undir slíkt en eðlilegt sé að byggingarverktakar geri sjálfir nauðsynlegar ráðstafanir varðandi geymslu tækja og búnaðar sem þeir noti í tengslum við rekstur fyrirtækja sinna. Lausafé það sem hin kærða ákvörðun snúi að samanstandi af gámum, efnishrúgum, vinnupöllum, steypumótum o.fl. Eftir af­skipti byggingarfulltrúa af ástandi lóðarinnar hafi byggingarkrani og salernisgámur verið fluttur af henni. Hin kærða ákvörðun varði því ekki byggingarkrana sem tíðrætt hafi verið í kærunni.

Lóðir húsa í íbúðarhverfum bæjarins séu ekki geymslustaður undir búnað sem notaður sé vegna verkefna sem staðið sé í annarsstaðar. Slíkt gangi í berhögg við skipulagsskilmála gildandi Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030, skilmála gildandi deiliskipulags sem gildi um lóðina og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þá brjóti slík notkun lóðarinnar einnig gegn ákvæðum lóðarleigusamnings.

Í gr. 6.2. skipulagsreglugerðar sé hugtakið íbúðarhúsnæði skilgreint sem svæði fyrir íbúðar­húsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Augljóst sé að geymsla kæranda á því lausafé sem eigi sér stað á lóðinni falli ekki undir skilgreininguna og sé því ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hvergi í byggingarreglugerð sé að finna heimild fyrir svokallaðri aðstöðusköpun vegna framkvæmda utan þeirrar lóðar sem framkvæmdir fari fram á. Í gr. 4.11.4. byggingar­reglugerðar komi fram að skylt sé að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnu­stöðum en þar komi einnig fram að staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu sé háður samþykki leyfisveitanda. Lóðin Brattahlíð 16–22 sé hvorki byggingarvinnustaður né hafi kærandi leitað eftir samþykki byggingarfulltrúa hvað varðaði staðsetningu umræddra gáma á lóðinni. Óum­deilt sé að vinnupallar, steypumót, spítnabrak eða efnishaugar geti nokkru sinni talist til aðstöðu fyrir starfsmenn. Þá hafi í röksemdum kæranda verið ítrekað vísað til þess að hin svokallaða aðstöðusköpun væri tilkomin vegna framkvæmda kæranda á svæðinu eða í bænum. Hvergi hafi hins vegar komi fram á hvaða svæði þær séu né af hverju kærandi eigi að fá að geyma byggingarefni og tæki á umræddri lóð vegna framkvæmda hans annars staðar í bænum. Kærandi sé ekki með neinar framkvæmdir á lóð Bröttuhlíðar 16–22 sem kalli á allan þann búnað sem þar sé geymdur. Þá sé hafnað þeim fullyrðingum að aðstaða fyrir starfsmenn sé nauðsynleg á lóðinni vegna framkvæmda innanhúss þar sem byggingarfulltrúa sé fullkunnugt um að engar slíkar framkvæmdir standi þar yfir heldur sé húsið notað sem gistiaðstaða fyrir starfsmenn á vegum kæranda.

Ábending kæranda um að íbúi við götuna geymi byggingarefni á lóð sinni sé málinu óvið­komandi auk þess sem umrætt byggingarefni sé þar vegna framkvæmda lóðarhafa á eigin lóð og tengist ekki atvinnurekstri viðkomandi og sé af allt annarri stærðargráðu. Geymsla gáma brjóti gegn skilmálum lóðarleigusamnings um lóðina, dags. 30. september 2020, en þar komi fram að óheimilt sé að staðsetja gáma á lóðinni án leyfis byggingarnefndar, en byggingarfulltrúi fari með valdheimildir nefndarinnar. Lokaúttekt Bröttuhlíðar 24–30 sé annað og óskylt mál sem hafi ekkert með þetta mál að gera en rétt sé að benda á að byggingarfulltrúi hafi samþykkt að framkvæma lokaúttekt sem hafi ekki enn getað farið fram vegna atvika er varði kæranda sjálfan.

Í 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki felist skýr heimild byggingarfulltrúa til að beita dagsektum sem þvingunarúrræði í því skyni að knýja fram breytingar á ólögmætu ástandi. Samkvæmt ákvæði laganna sé heimil álagning dagsekt í því skyni að knýja á um fjarlægingu stöðuleyfisskylds lausafjár sem ekki hafi tilskilin leyfi og augljóst sé að fái ekki leyfi. Úrskurðarnefndin hafi áður kveðið upp úrskurð í sambærilegu máli sem staðfest hafi lögmæti ákvarðana byggingarfulltrúa um að beita dagsektum í því skyni að knýja á um að farið sé að lögum og byggingarreglugerð er verði lausafé sem sé stöðuleyfisskylt. Hvað varði samkomulag það er kærandi hafi lagt fram með kæru sinni sé bent á að það atriði sé óviðkomandi ástandi lóðarinnar sem hin kærða ákvörðun snúi að og varði ekki lögmæti ákvörðunar um álagningu dagsekta. Þá snúi rökstuðningur kæranda hvað þetta atriði varði einungis að hluta málsins, eða margnefndum gámum, en ekkert sé minnst á annað lausafé á lóðinni sem hin kærða ákvörðun nái einnig til.

Þrátt fyrir samkomulag kæranda við bæinn um forgang að lóðum í nágrenni við lóðina Bröttuhlíð 16–22 þá hafi skipulagsgögn ekki enn verið fullunnin og engin tillaga til deili­skipulags hafi verið auglýst. Óvíst sé hvenær kærandi muni geta hafið framkvæmdir á því svæði sem umrætt samkomulag nái til en forsendur umræddrar skipulagsvinnu hafi ekki verið fullmótaðar af skipulagsnefnd. Ef veittir væru frestir í samræmi við rök kæranda væri í raun verið að veita ótímabundna fresti fyrir geymslu á umræddu lausafé inni á íbúðarsvæði sem væri mjög óeðlilegt með hagsmuni annarra lóðarhafa við Bröttuhlíð í huga. Kærandi hafi fengið fyrstu tilkynningu byggingarfulltrúa um ólögmæta notkun lóðarinnar 12. júní 2023. Tilkynning um álagningu dagsekta hafi ekki borist kæranda fyrr en 16. janúar 2024, en þá hafi kæranda í tvígang verið sendar ítrekanir auk fundar hans með bæjarstjóra. Kærandi hafi þegar fengið ríflegt svigrúm til að fjarlægja umrætt lausafé af lóðinni.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að ekkert komi fram í lögum eða reglugerð sem kveði á um að umsókn um stöðuleyfi verði að vera á tilteknu formi. Sveitarfélagið virðist stað­festa fullyrðingar kæranda þess efnis að umsókn hafi verið send þótt form hennar hafi þótt ábóta­vant.

Kærandi hafi ítrekað í alllangan tíma óskað eftir að fá að flytja gámana og umræddan krana á tiltekið svæði. Reynt hafi verið að fá stöðuleyfi sem næst raðhúsunum að Bröttuhlíð 24–30 á meðan framkvæmdir kláruðust. Þær fullyrðingar sveitarfélagsins að óljóst hafi verið hvaða fram­kvæmdum umsóknin hafi tengst séu haldlausar eftir á skýringar enda hafi öllum verið ljóst að þær tengdust framkvæmdum að Bröttuhlíð 24–30. Fyrirspurnum bæjarins hafi verið svarað í fjölmörgum samtölum við starfsmenn bæjarins og því rangt að engin svör hafi borist. Brattahlíð 16–22 sé ekki notuð sem gistiaðstaða fyrir starfsmenn á vegum kæranda heldur sé fasteignin í útleigu. Yfir standi framkvæmdir varðandi þá þeirri fasteign og séu umræddir gámar nauðsynleg aðstöðusköpun vegna framkvæmdanna.

Umrætt land hafi tilheyrt kæranda en honum hafi verið gert að afhenda bænum það sem hluta af samkomulagi um að fá svæðið deiliskipulagt. Kærandi hafi aldrei farið fram á að nokkuð land yrði notað sem geymsla heldur hafi legið fyrir frá upphafi að um aðstöðu væri að ræða fyrir starfsmenn og/eða lausafé vegna tímabundinna byggingarframkvæmda. Kærandi hafi aldrei geymt efnishrúgur eða spýtnabrak á umræddu svæði og þær myndir sem sveitarfélagið hafi lagt fram tilheyri ekki kæranda og hafi ekki verið sett á umræddan stað af honum né með hans leyfi. Aðrir aðilar í götunni séu að setja efni á lóð kæranda að honum forspurðum og einkennilegt sé að bærinn hyggist leggja dagsektir á kæranda vegna lausafjár sem sé honum alls óviðkomandi.

Sveitarfélagið hljóti að þurfa að tilgreina með nákvæmum hætti hvaða lausafé það vilji að sé fjarlægt. Þá sé ljóst að húseigendum sé ekki óheimilt að geyma lausafé á lóðum. Þannig séu til að mynda bílar og hjól lausafé og því sé hæpið að leggja á dagsektir vegna ótilgreinds lausafjár sem kæranda sé ætlað að fjarlægja án þess að tilgreina nákvæmlega til hvaða lausafjár sé verið að vísa, sérstaklega þar sem megnið af því lausafé tilheyri honum ekki. Sveitarfélaginu beri að rannsaka málið nánar sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sjá til þess að málið sé nægjan­lega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, einkum þegar um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða. Þá sé einkennilegt að réttlæta athugasemdir við byggingarefni á lóð annars lóðar­hafa á sama svæði með þeim rökum að viðkomandi lóðarhafi sé á eigin lóð að framkvæma í sam­ræmi við byggingarleyfi. Öll sömu sjónarmið eigi við um kæranda og því sé bærinn að viður­kenna brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar um álagningu dagsekta á kæranda að fjárhæð kr. 20.000 til að knýja fram brottflutning gáma og lausa­muna af lóð hans.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingarfulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt sam­þykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem byggingarfulltrúa er m.a. veitt heimild til að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja eigendur eða umráðamenn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki.

Lóðin Brattahlíð 16–22 er staðsett á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Hulduhólasvæðis, með síðari breytingum. Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011–2030 er um að ræða íbúðarsvæði. Kærandi gerði samning við sveitarfélagið um lóðina sem var innfærður í þinglýsingarbók sýslumanns 23. nóvember 2020. Í samningnum kemur meðal annars fram að óheimilt sé að staðsetja gáma á lóðinni nema með leyfi byggingarnefndar, sbr. 2. mgr. 71. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Heldur kærandi því fram að í bréfi byggingarfulltrúa hafi ekki verið nægilega skýrt kveðið á um hvaða lausafjármuni væri um að ræða sem og að byggingarefni á lóðinni tilheyri öðrum lóðarhöfum í Bröttuhlíð sem hafi sett það á lóðina án samþykkis kæranda. Í tölvupósti byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2023 og bréfum, dags. 12. september s.á. og 16. janúar 2024, kemur fram að kæranda sé gert að fjarlægja lausafjármuni sem tilheyri byggingarstarfsemi. Verður að telja að tilkynning byggingarfulltrúa hafi verið nægilega skýr til að kærandi gæti gert sér grein fyrir því hvaða lausafjármuni væri um að ræða.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar viðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Ber kærandi sem lóðarhafi ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar.

Ágreiningur er um hvort kærandi hafi sótt um stöðuleyfi fyrir gámum þeim er standa á lóð Bröttuhlíðar 16–22. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins, dags. 14. febrúar 2023, óskaði hann eftir að flytja krana og vinnubúðir á tiltekinn stað á annarri lóð samkvæmt meðfylgjandi teikningu. Kærandi ítrekaði beiðnina 27. s.m. og var honum svarað degi síðar af skipulags­fulltrúa. Frekari samskipti áttu sér stað milli kæranda og starfsmanna sveitarfélagsins en ljóst er að ekki hefur verið gefið út stöðuleyfi vegna umræddra gáma skv. 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Þrátt fyrir að erindi kæranda til sveitar­félagsins hafi ekki tiltekið sérstaklega að verið væri að sækja um stöðuleyfi bar það með sér að kærandi óskaði eftir að staðsetja gámana á tilteknum stað á annarri lóð. Bar sveitarfélaginu eins og atvikum var háttað að leiðbeina kæranda um að sækja þyrfti um stöðuleyfi vegna umræddra gáma og skorti því á að gætt væri leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Erindi kæranda frá 14. febrúar 2023 sneri hins vegar ekki að leyfi til að staðsetja gámana á lóð Bröttuhlíðar 16–22 heldur á annarri lóð og verður því ekki talið að framangreindur annmarki hafi áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Í gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar kemur fram að skylt sé að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu er háður samþykki leyfisveitanda. Fyrir liggur að staðsetning umræddra gáma sem notaðir hafa verið undir aðstöðu fyrir starfsmenn hefur ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda.

Verður í ljósi framangreinds að fallast á að notkun umræddrar lóðar hafi verið ólögmæt með þeim hætti að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að beita dagsektum til að knýja fram úrbætur. Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar 2024 um álagningu dagsekta vegna lóðarinnar nr. 16–22 við Bröttuhlíð.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.