Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 17/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 um veitingu leyfis fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins nr. 20 við Vesturbrún í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2004, er barst nefndinni hinn 2. mars s.á., kæra Þ og K, eigendur húseignarinnar að Vesturbrún 39, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík. Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn hinn 5. febrúar 2004. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Með umsókn, dags. 18. nóvember 2003, sóttu eigendur fasteignarinnar að Vesturbrún 20 í Reykjavík um leyfi fyrir tveggja hæða 80 fermetra viðbyggingu við hús sitt. Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa á fundi sínum hinn 25. nóvember 2003. Skipulagsfulltrúi afgreiddi málið 28. nóvember 2003 með eftirfarandi bókun: „Jákvætt að grenndarkynna erindið þegar samþykki lóðarhafa á lóð nr. 22 liggur fyrir vegna fjarlægðar frá lóðarmörkum. Grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Vesturbrún 18, 22 og 39.“
Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 4. febrúar 2004 þar sem fyrir lá athugasemdabréf frá kærendum, dags. 20. janúar 2004, og umsögn skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir, dags. 29. janúar s.á. Var umsótt viðbygging samþykkt. Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að með hinni samþykktu viðbyggingu, sem muni rísa um metra hærra en húsið að Vesturbrún 20, muni útsýni frá húsi þeirra að Vesturbrún 39 skerðast verulega og útsýni yfir Laugardalinn hverfa að mestu. Á sínum tíma hafi þau valið sér lóð með tilliti til útsýnis og hafi hús þeirra verið skipulagt með það í huga og stofur þess vegna hafðar á efri hæð hússins. Viðbyggingin muni rýra notagildi og verðmæti fasteignar þeirra.
Benda kærendur á að þak hússins að Vesturbrún 20 hafi áður verið hækkað án nokkurrar umfjöllunar og nú hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt hina kærðu breytingu rúmri viku eftir að athugasemdir kærenda hafi borist nefndinni og að því er virðist án nokkurrar skoðunar eða umfjöllunar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.
Húsið við Vesturbrún 20 liggi lægra við götu heldur en hús á aðliggjandi lóðum. Vesturbrún 20 skyggi því mun minna á útsýni byggðar austan götu heldur en önnur hús í sömu línu. Sú útsýnisskerðing sem verði vegna viðbyggingarinnar sé ekki meiri en vænta megi í borgarumhverfi. Telja verði að hagsmunir umsækjanda við að geta byggt við hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið með hinni kærðu umsókn séu meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar. Benda megi á að réttur til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög og að íbúar í borg geti ávallt átt von á að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum.
Fullyrðingar kærenda um rýrnun á notagildi húss þeirra frá fagurfræðilegum- og hagkvæmnisjónarmiðum séu með öllu órökstuddar og vandséð hvernig verðgildi eignar þeirra rýrni vegna viðbyggingarinnar.
Andmæli byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafar taka fram að vegna leka og aldurs þaks húss þeirra hafi verið nauðsynlegt að endurnýja það og hafi lögboðin leyfi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum á sínum tíma. Í kjölfar breytinga sem ráðist hafi verið í á húsinu að Vesturbrún 22 hafi þau ákveðið að kanna hvort heimiluð yrði viðbygging við hús þeirra enda það orðið æði lágreist í samanburði við næstu hús.
Góð sátt hafi náðst um framkvæmdirnar við næstu nágranna en kærendur hafi verið ósáttir vegna ætlaðrar útsýnisskerðingar frá húsi þeirra. Taka beri fram að 45 ára gamalt grenitré á lóð byggingarleyfishafa, sem hafi verið umtalsvert hærra en umdeild viðbygging, hafi verið fellt við upphaf framkvæmda og megi halda því fram að nokkurt viðbótarútsýni hafi skapast á móti þeirri takmörkuðu útsýnisskerðingu sem stafi af viðbyggingunni, en hús kærenda snúi gafli að Vesturbrún 20. Þrátt fyrir það að viðbyggingin verði einum metra hærri en álma sú sem hún tengist sé byggingin tveimur til þremur metrum lægri en húsin beggja vegna við og hús byggingarleyfishafa verði í meira samræmi við götumynd eftir breytinguna.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.
Niðurstaða: Hús kærenda stendur gegnt húsinu að Vesturbrún 20 handan götunnar. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt en breytingar og stækkanir munu hafa verið heimilaðar við hús á svæðinu.
Með hinni kærðu viðbyggingu hækkar hluti hússins að Vesturbrún 20 um einn metra og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,34. Húsin beggja vegna við það hús standa mun hærra við götu en húsið að Vesturbrún 20, þótt tekið sé mið af umdeildri viðbyggingu, og er nýtingarhlutfall þeirra lóða 0,4 og 0,32 en nýtingarhlutfall lóðar kærenda mun vera 0,6. Fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. janúar 2004, vegna grenndarkynningar umdeildrar breytingar að nýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé frá 0,12 til 0,8.
Eins og hæðarlegu hússins að Vesturbrún 20 er háttað í samanburði við aðliggjandi hús verður ekki séð að umdeild viðbygging hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum eða að húsið svo breytt raski núverandi götumynd. Þá verður nýtingarhlutfall lóðarinnar ekki annað og meira en fyrir er á nágrannalóðum við umdeilda breytingu.
Að þessu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á ógildingu hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 5. s.m., um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ásgeir Magnússon