Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2003 Sogavegur

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2003, kæra 15 íbúa og eigenda fasteigna að Sogavegi 103, 105, 107, 116, 120 og 122 og Hamarsgerði 8 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 16. mars 2003, sem barst úrskurðarnefndinni 17. sama mánaðar, kæra 15 íbúar og eigendur fasteigna að Sogavegi 103, 105, 107, 116, 120 og 122 og Hamarsgerði 8 í Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarráði Reykjavíkur í umboði borgarstjórnar 2. júlí 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Jafnframt kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við nýbyggingu að Sogavegi 112 yrðu stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefði kærumál þetta til meðferðar.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði, uppkveðnum 16. apríl 2003.

Gagnaöflun er nú lokið og er málið tekið til efnisúrlausnar.

Málsatvik:  Á vordögum árið 2001 sótti lóðarhafi að Sogavegi 112 um leyfi byggingaryfirvalda til að rífa gamalt hús á lóðinni og byggja þar í þess stað tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með fjórum íbúðum.  Jafnframt var sótt um breytingu á mörkum lóðanna nr. 112 og 108.  Var umsókn þessi til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum um alllangt skeið og var á þeim tíma unnið að frekari útfærslu á byggingaráformum lóðarhafa.  

Í desember 2001 var ákveðið að kynna nágrönnum erindið og stóð grenndarkynning frá 14. desember 2001 til 14. janúar 2002.  Athugasemdir bárust frá fjölda nágranna og lutu þær í höfuðatriðum að hæð fyrirhugaðrar byggingar, fjölda íbúða, fjölda bílastæða og því að taka ætti tillit til gróðurs á lóðinni.  Í kjölfar þessa vann skipulagsfulltrúi umsögn um athugasemdirnar, dags. 17. janúar 2002.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann 18. janúar 2002 voru athugasemdirnar kynntar, sem og umsögn skipulagsfulltrúa um þær.  Málið var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarnefndar þann 23. og 30. janúar 2002, ásamt athugasemdunum og umsögn skipulagsfulltrúa.  Var afgreiðslu málsins frestað á báðum fundunum.  Enn var málið lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 13. febrúar 2002.  Samþykkti nefndin á þeim fundi breytingu á mörkum lóðanna nr. 112 og 108 við Sogaveg en frestaði afgreiðslu umsóknarinnar að öðru leyti.  Óskaði nefndin eftir því við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að útlitshönnun og hönnun þaks yrði bætt og að málið yrði að því loknu lagt á ný fyrir nefndina.  Eftir að umbeðnar lagfæringar höfðu verið gerðar var umsóknin, ásamt athugasemdum nágranna og umsögn skipulagsfulltrúa, lögð á ný fyrir nefndina þann 24. júní 2002.  Samþykkti nefndin þá byggingarleyfi það sem kært er í máli þessu.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu í umboði borgarstjórnar þann 2. júlí 2002.

Af misgáningi mun hafa láðst að senda þeim nágrönnum, sem gert höfðu athugasemdir, svör við þeim ásamt lögboðinni tilkynningu um lyktir málsins.  Komu þessi mistök ekki í ljós fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni í byrjun mars 2003.  Var þeim sem gert höfðu athugasemdir í tilefni af grenndarkynningu umsóknarinnar sent bréf, dags. 12. mars 2003, þar sem þeim var gerð grein fyrir málalokum og athygli vakin á kæruheimild.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 16. mars 2003, svo sem að framan greinir.

Áður en krafa kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðbirgða var tekin til úrlausnar leitaði úrskurðarnefndin umsagnar Skipulagsstofnunar með, bréfi dags. 9. apríl 2003, um þau álitaefni, sem til úrlausnar eru í málinu.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 14. apríl 2003, er gerð grein fyrir aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar, en síðan segir: 

„Í dómi Hæstaréttar frá 20. september 2001 í málinu nr. 114/2001 kemur fram að við afmörkun undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., gagnvart meginreglu 2. mgr. sömu greinar, beri að skýra ákvæðin til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. laganna.  Þannig beri að deiliskipuleggja byggð hverfi áður en byggingarleyfi eru veitt, nema þau leiði til óverulegrar breytingar á byggðamynstri hverfisins.

Á lóðinni nr. 112 við Sogaveg var fyrir 77,4 m²  hús byggt árið 1932.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er nú heimilt að byggja þar 329,6 m²  hús á 2 hæðum, auk þess sem lóð hússins var stækkuð úr 684 m²  í 808 m² .  Skipulagsstofnun telur að þrátt fyrir að íbúar viðkomandi svæðis hafi mátt vænta þess að nýtt hús yrði byggt á viðkomandi lóð í stað þess sem fyrir var, verði að gera þá kröfu að svo veruleg breyting á nýtingu lóðarinnar sé skoðuð í nánu samhengi við þá byggð sem fyrir er á reitnum og hann deiliskipulagður í heild í samráði við íbúa svæðisins.  Stofnunin telur að undirbúningur veitingar hins kærða byggingarleyfis hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga eins og hún er skýrð í framangreindum dómi Hæstaréttar hefði átt að vinna deiliskipulag af viðkomandi svæði áður en byggingarleyfi var veitt.“

Var málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig um þau sjónarmið sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar og rakin eru hér að framan.  Bárust nefndinni athugasemdir um umsögnina frá lögmanni byggingarleyfishafa og frá borgaryfirvöldum, eins og rakið verður hér að neðan.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að þeim hafi ekki verið send lögboðin tilkynning um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar svo sem áskilið sé í 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Hafi þeim því ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en framkvæmdir hafi verið hafnar á lóðinni hinn 8. mars 2003, en eftir það hafi þeim verið send umrædd tilkynning.  Að auki hafi grenndarkynningu í málinu verið áfátt þar sem ekki hafi með skýrum hætti verið gerð grein fyrir stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 á kostnað grannlóðar.

Kærendur telja rétt sinn skertan verulega með fyrirhugaðri byggingu.  Húsið sé allt of stórt og hátt og með of mörgum íbúðum.  Rýri það útsýni og auki á umferð og bílastæðavandamál.  Virðist þeim byggingarmagn nýbyggingar á lóðinni vera umfram það sem lög leyfi og hafi byggingin í för með sér verðrýrnun eigna í nágrenninu.  Raunar sé fyrirhuguð nýbygging svo stór að hún hafi ekki rúmast á lóðinni og hafi því verið gripið til þess ráðs að stækka lóðina á kostnað grannlóðar, en af henni hafi þó ekkert mátt taka vegna skorts á bílastæðum.  Hafi nágrannar ekki mátt vænta slíkra ráðstafana samfara endurbyggingu húss á lóðinni að Sogavegi 112.  Sé ljóst að fyrirhuguð bygging hafi í för með sér meiri umferð og bílastæðavanda en verið hefði ef á lóðinni hefði verið byggt einbýlishús eða parhús í stað einbýlishúss þess sem fyrir hafi verið á lóðinni.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar mótmælt.  Fráleitt sé að ógildingu varði þótt láðst hafi að senda kærendum tilkynningu um samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi það ekki leitt til neinna réttarspjalla.

Umrætt hús sé ekki frábrugðið mörgum öðrum húsum í nágrenninu og sé því í samræmi við byggðamynstur hverfisins, sem reyndar sé ósamstætt.  Húsið valdi ekki meiri grenndaráhrifum en almennt megi gera ráð fyrir í þéttbýli og hafi kærendur ekki sýnt fram á að hagsmunir þeirra hafi verið skertir með ólögmætum hætti.  Þá sé þess að gæta að jafnvel þótt um eitthvert tjón kynni að vera að ræða þurfi það eitt ekki að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Nýtingarhlutfall og hæð nýbyggingar sé hvort tveggja innan viðmiðunarmarka.  Fjöldi íbúða í húsinu sé ekki meiri en dæmi séu um á viðkomandi reit, en þar sé að finna fjölmörg hús með fleiri en einni íbúð og allt upp í sjö íbúðir.  Umferðaraukning vegna íbúðanna sé ekki mælanleg og ónæði af aukinni umferð að sama skapi ekki heldur.  Vel sé séð fyrir bílastæðum innan lóðar í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá sé skuggavarp óverulegt og alls ekki meira en gera megi ráð fyrir í þéttbýli.  Kærendum hljóti að hafa verið ljóst að til þess gæti komið að hús það sem áður hafi staðið á lóðinni yrði rifið og þar byggt að nýju, enda hafi gamla húsið, sem byggt hafi verið sem sumarhús árið 1932, einungis verið 77,4 m².

Fyrir liggi að umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi hafi hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ótvírætt sé að borgaryfirvöldum hafi verið heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina á grundvelli 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem húsið sé í samræmi við nýtingarhlutfall og byggðamynstur á svæðinu.

Hinn 16. apríl 2003 bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir Reykjavíkurborgar, þar sem mótmælt var áliti Skipulagsstofnunar í málinu.  Var niðurstöðu stofnunarinnar mótmælt sem rangri og því hafnað að tilvitnaður dómur Hæstaréttar gæfi tilefni til svo þröngrar túlkunar á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 eins og talið væri í álitinu.  Slík túlkun gengi einnig gegn áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998, sem tilvitnaður dómur hefði í engu raskað og byggði í raun á. 

Með bréfi, dags. 23. október 2003, áréttar talsmaður borgaryfirvalda sjónarmið borgarinnar, sem að framan eru rakin.  Að auki er í bréfinu mótmælt fullyrðingu í úrskurði til bráðbirgða frá 16. apríl 2003 um að lóðin að Sogavegi 112 hafi verið stækkuð til þess að koma hinni umdeildu byggingu fyrir á lóðinni.  Hafi  meginástæðan fyrir stækkun lóðarinnar verið sjónarmið um umferðaröryggi og hafi tilgangurinn verið sá að koma í veg fyrir að bakka þyrfti úr bílastæðum við húsið út á Sogaveginn, en þannig hefði verið hægt að koma stæðum fyrir án þess að stækka lóðina.

Í tilvitnuðu bréfi er því ennfremur haldið fram að sú niðurstaða að ógilda hið umdeilda byggingarleyfi fæli í sér stefnubreytingu af hálfu úrskurðarnefndarinnar miðað við fyrri úrlausnir, t.d. í málum varðandi byggingarleyfi að Þórsgötu 2 og byggingu barnaspítala á lóð Landspítalans.  Niðurstaða af því tagi hefði í för með sér verulega og ástæðulausa skerðingu á nýtingarrétti fasteigna. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt.  Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og Reykjavíkurborg, sem að framan eru rakin.  Hefur hann einnig komið á framfæri athugasemdum við umsögn Skipulagsstofnunar í málinu.  Hafnar hann því að tilvitnaður dómur Hæstaréttar hafi slíkt fordæmisgildi sem talið sé í umsögninni.  Aðstæður séu að auki ólíkar í því máli sem hér sé til meðferðar og sé því hafnað að fyrirhuguð nýbygging samræmist ekki byggðamynstri hverfisins. 

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2003, reifar lögmaður byggingarleyfishafa sjónarmið hans hvað varðar efnishlið málsins.  Bendir hann á að kærendur hafi í kæru sinni vísað til þess að með því að leyfa byggingu hins umdeilda húss yrði eignaréttur þeirra skertur og myndi verðmæti eigna þeirra rýrna að sama skapi.  Engin viðhlítandi rök hafi verið færð fram fyrir þessum fullyrðingum, en á hinn bóginn sé ljóst að verði byggingarleyfið fellt niður muni byggingarleyfishafinn sannanlega verða fyrir gríðarlegu tjóni.  Hann hafi ráðist í að rífa niður hús það sem verið hafi á lóðinni þar sem hann hafi talið byggingarleyfið endanlegt, enda kærufrestir löngu liðnir er framkvæmdir hafi hafist.  Hafi honum þá ekki verið kunnugt um þau mistök er átt hefðu sér stað.  Hann hafi og gert verksamninga, sem rift hafi verið vegna vanefnda þar sem verkið hafi verið stöðvað.  Einnig hafi hann haft verulegan kostnað að því að tryggja öryggi við lóðina.  Telur hann að hagsmunir hans við halda áfram við bygginguna vegi mun þyngra heldur en óvíst tjón kærenda, en kærendum hafi mátt vera fullljóst að byggt yrði á lóðinni hús er hefði svipað nýtingarhlutfall og þeirra eigin hús, en umrætt hús hafi verið byggt fyrir rúmum 70 árum og þá sem sumarhús.

Við úrlausn málsins beri einnig að horfa til þess að byggingarleyfishafinn styðjist við gilt leyfi, útgefið af þar til bæru stjórnvaldi, er veiti honum rétt til byggingar hússins. Slíkt ívilnandi leyfi verði ekki fellt niður, nema það megi vera leyfishafa án tjóns, en því sé ekki fyrir að fara í þessu máli.  Niðurfelling leyfisins myndi og hafa í för með sér mikla skerðingu á atvinnufrelsi leyfishafa, en bygging fyrirhugaðs húss sé þáttur í atvinnustarfsemi hans.  Til þess að skerða atvinnufrelsi, sem varið sé af stjórnarskránni, þurfi mun meira til en þá hagsmuni er kærendur vísi til.

Þá telur byggingarleyfishafi að vegna þeirra mistaka sem orðið hafi við afgreiðslu leyfisins, verði kærendur að sækja rétt til sinn til bóta hjá Reykjavíkurborg, hafi þeir orðið fyrir tjóni, en hann verði í engu látinn sæta ábyrgð, hvorki til bóta, né niðurfellingu leyfisins.

Af hálfu byggingarleyfishafa er því ennfremur haldið fram að við afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar á máli þessu, beri henni að fjalla um ástæður kærenda fyrir kærunni og afgreiða þær á málefnalegan hátt. Geti nefndin ekki farið út fyrir málsástæður kærenda að þessu leyti.  Hafi byggingarleyfishafi áður fjallað um og afgreitt málsástæður kærenda og sömuleiðis það stjórnvald er veitt hafi honum leyfið.  Hafi þar verið tekið á því á málefnalegan hátt og í samræmi við góðar stjórnsýsluvenjur.

Loks gerir byggingarleyfishafi kröfu til þess að þeir nefndarmenn, sem kveðið hafi upp úrskurð um stöðvun framkvæmda, víki sæti við efnisúrlausn málsins vegna vanhæfis, en í forsendum úrskurðarins komi fram umfjöllun um efnisatriði, sem á engan hátt hafi þá verið til úrlausnar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið láðist borgaryfirvöldum að tilkynna nágrönnum niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar um hina kærðu ákvörðun, svo sem skylt var að lögum, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Var lögboðin tilkynning um ákvörðunina fyrst send kærendum með bréfi, dags. 12. mars 2003.  Áttu þeir málskotsrétt frá viðtöku þeirrar tilkynningar og var málinu því vísað til úrskurðarnefndarinnar innan tilskilins frests.  Verður einnig að telja að kærendur eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Hefur úrskurðarnefndin því tekið mál þetta til úrlausnar.

Auk atriða er varða efni máls og að framan eru rakin er nú af hálfu lögmanns byggingarleyfishafa á því byggt að nefndarmönnum í úrskurðarnefndinni beri að víkja sæti þar sem þeir hafi orðið vanhæfir við uppkvaðningu úrskurðar til bráðabirgða í málinu.  Þá sé úrskurðarnefndinni óheimilt að fara út fyrir málsástæður kærenda við meðferð málsins.

Úrskurðarnefndin hafnar málsástæðu byggingarleyfishafa um vanhæfi.  Verður ekki á það fallist að nefndarmenn verði vanhæfir fyrir það eitt að rækja lögbundin skyldustörf sín með því að kveða upp úrskurð í máli til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda og rökstyðja niðurstöðu sína um þann þátt máls að einhverju lágmarki.  Eru slík atvik ekki heldur meðal þess sem að stjórnsýslulögum eru talin valda vanhæfi.  Hefur þetta álitaefni þegar komið til úrlausnar dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. mars 2003 í máli nr. 367/2002.

Um þá málsástæðu að úrskurðarnefndin sé bundin af málatilbúnaði kærenda vísast til þess að úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu.  Er það hlutverk nefndarinnar að skera úr ágreiningi um lögmæti kærðrar ákvörðunar og er nefndin ekki bundin af málatilbúnaði aðila við úrlausn máls.  Hefur þetta álitaefni einnig komið til kasta dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar frá 20. september 2001, í máli nr. 114/2001, þar sem sambærilegri málsástæðu var hafnað.
   
Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð allstór nýbygging að Sogavegi 112 með fjórum íbúðum í stað eldra húss sem var ein íbúð.  Til þess að koma húsinu og bílastæðum fyrir á lóðinni með viðunandi hætti, var gripið til þess að stækka lóðina, en jafnframt var minnkuð lóð granneignanna að Sogavegi 108 og Réttarholtsvegi 1-3.  Hefur sú breyting í för með sér hækkun á nýtingarhlutfalli þeirrar lóðar.  Var þessi ráðstöfun, að sögn borgaryfirvalda, gerð með tilliti til umferðaröryggis, svo ekki þyfti að bakka úr stæðum við húsið út á Sogaveginn.

Þegar litið er til smæðar og aldurs húss þess er stóð á lóðinni nr. 112 við Sogaveg verður að fallast á að kærendur og aðrir íbúar umrædds svæðis hafi mátt búast við því að endurbyggt yrði á lóðinni.  Hins vegar telur úrskurðarnefndin að þeir hafi ekki mátt vænta þess að lóð hússins yrði stækkuð um rúmlega 18% og á henni reist fjöleignarhús með 4 íbúðum án þess að áður væri unnið deiliskipulag fyrir  viðkomandi götureit, sérstaklega þegar litið er til þess að í breytingunni felst einnig hækkun á nýtingarhlutfalli og fækkun mögulegra bílastæða fyrir lóðina nr. 108 við Sogaveg og nr. 1 og 3 við Réttarholtsveg, sem þó er verslunar- og þjónustulóð.   

Byggðamynstur umrædds götureits er sérstakt að því leyti að tvær raðir baklóða eru á honum með aðkomu frá Sogavegi um botnlanga á lóðamörkum framlóða.  Veldur þetta því, að mati úrskurðarnefndarinnar, að vandasamt er að leysa skipulagsmál svæðisins svo vel fari, og að óvarlegt er að gera þar umtalsverðar breytingar, án þess að unnið sé deiliskipulag fyrir svæðið í heild, einkum þegar um er að ræða breytingar á lóðastærðum, lóðamörkum og fyrirkomulagi umferðar og bílastæða, sem í eðli sínu varða skipulag.

Úrskurðarnefndin hafnar staðhæfingum borgaryfirvalda um að aðstæður í máli þessu séu sambærilegar og t.d. að Þórsgötu 2 eða lóð Landspítalans.  Í fyrra tilvikinu var um að ræða nýbyggingu sem var sambyggð granneign eins og ráðgert hafði verið, en nýbyggingin rúmaðist að öllu leyti innan viðkomandi lóðar og var bílastæðaþörf hússins einnig fullnægt innan lóðar þess.  Að auki er umrædd bygging á svæði innan Hringbrautar-Snorrabrautar, sem haft hefur nokkra sérstöðu í aðalskipulagi Reykjavíkur.  Að vísa til Landspítalalóðar til samanburðar við aðstæður í þessu máli telur úrskurðarnefndin ekki rökrétt þegar litið er til þess að þar var um framkvæmdir á stofnanalóð að tefla, sem ekki voru taldar aðrar eða meiri en gera mætti ráð fyrir samkvæmt skilgreindri landnotkun aðalskipulags.

Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa hefur verið mótmælt þeirri túlkun, sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar, að vinna hefði átt deiliskipulag fyrir umrætt svæði áður en unnt væri að taka afstöðu til umsóknar um hið umdeilda byggingarleyfi.  Hafna þessir aðilar því að tilvitnaður dómur Hæstaréttar gefi tilefni til svo þröngrar túlkunar á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 eins og talið sé í umsögninni.  Slík túlkun gengi einnig gegn áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998, sem tilvitnaður dómur hefði í engu raskað og byggði í raun á. 

Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Telur nefndin að á svæði því sem hér um ræðir megi vænta frekari umsókna um leyfi til endurbyggingar húsa á einstökum lóðum.  Því eigi við í máli þessu röksemdir sem fram komi í tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis þar sem segir: „Þegar til afgreiðslu kemur hvort veita eigi byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi, sem ekki hefur verið deiliskipulagt, og búast má við frekari umsóknum um framkvæmdir á reitnum, er almennt rétt að gera fyrst deiliskipulag fyrir reitinn áður byggingarleyfi er veitt.  Sú hætta fylgir, þegar veitt er eitt byggingarleyfi í einu, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, að tvö eða fleiri byggingarleyfi á reit hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins enda þótt hvert byggingarleyfi eitt og sér hafi ekki slík áhrif.  Þegar svo stendur á þróast byggð ekki í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, sem grundvalla ber á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis eru sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að fá færi á því að koma að sjónarmiðum sínum og hafa áhrif við gerð deiliskipulags.  Slík byggðaþróun verður að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi án þess að deiliskipulag væri áður unnið fyrir viðkomandi götureit, enda er það niðurstaða nefndarinnar að með leyfinu hafi byggingaryfirvöld heimilað breytingar og framkvæmdir sem séu meiri að umfangi en rúmast geti innan marka undantekningarheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eins og heimildin hafi verið skýrð.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík. 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir