Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

167/2016 Hótel í landi Grímsstaða

Árið 2017, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 167/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 10. október 2016 um að samþykkja stöðuleyfi fyrir vinnubúðir við hótel á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 10. október 2016 að samþykkja stöðuleyfi til eins árs fyrir vinnubúðir við hótel á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 28. desember 2016.

Málavextir: Hinn 29. apríl 2016 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsókn um leyfi til að hefja framkvæmdir við jarðvinnu og vegagerð og lagnir í jörðu vegna byggingar hótels á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða. Með umsókn, dags. 25. maí 2016, var sótt um leyfi til að reisa hótel á umræddri lóð. Framkvæmdir við byggingu hótelsins munu hafa hafist 8. september s.á., en sveitarfélagið gerði kröfu um að þær yrðu stöðvaðar þar sem ekki væru fyrir hendi tilskilin leyfi til framkvæmda. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti 10. október 2016 umsókn um stöðuleyfi fyrir vinnubúðum á hótellóðinni vegna framkvæmda við hótelbygginguna, með nánar tilgreindum skilyrðum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.
   
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að kæra á stöðuleyfi sé í beinum tengslum við kæru hans frá 5. desember 2016 á þremur öðrum ákvörðunum er tengist byggingu hótels á Flatskalla. Hafi kæranda ekki verið kunnugt um umrætt stöðuleyfi fyrr en 14. s.m. og sé því kæra sett fram innan kærufrests. Um kæruheimild sé vísað til 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Tengist hinar kærðu ákvarðanir innbyrðis og varði eina og sömu framkvæmd.

Bent sé á að ekki hafi verið lögð fram skrifleg eða undirrituð umsókn um nefnt stöðuleyfi, svo sem áskilið sé í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Byggi skipulags- og byggingarfulltrúi ákvörðun sína um leyfisveitingu á gr. 2.6.1. í nefndri reglugerð. Vinnubúðir þessar hafi í raun verið settar upp að einhverju leyti vorið og sumar 2016, þegar framkvæmdir hafi hafist við hótelbygginguna. Séu umræddar vinnubúðir, líkt og hótelbyggingin, á svæði sem verndað sé skv. 2. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Séu allar framkvæmdir á verndarsvæði laganna háðar leyfi Umhverfisstofnunar, en stofnunin hafi ekki veitt leyfi fyrir nefndum vinnubúðum eða frárennsli frá þeim. Hafi skipulags- og byggingarfulltrúa því brostið heimild til að veita leyfið. Þá hafi verið óheimilt að veita stöðuleyfi með vísan til skilyrðis um að einungis þurfi ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa á frárennsli sé það meira en 50 persónueiningar að meðaltali á starfstímanum. Loks hafi borið að líta til 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, en samkvæmt því séu byggingar óheimilar.

Málsrök sveitarfélagsins: Sveitarfélagið gerir kröfu um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Byggi frávísun á því að kæra hafi ekki verið sett fram innan lögbundins kærufrests, kærandi eigi ekki kæruaðild og byggi að auki á málsástæðum er heyri undir Umhverfisstofnun. Sé í því sambandi tekið fram að umrætt stöðuleyfi hafi verið veitt á grundvelli munnlegrar umsóknar, sem sett hafi verið fram í samhengi við fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn vegna hótelbyggingar. Skrifleg umsókn, dags. 15. desember 2016, til staðfestingar á munnlegri umsókn, hafi verið lögð fram til sveitarfélagsins. 

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun máls þessa. Skýrt megi ráða af lögskýringargögnum með lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að aldrei hafi staðið til að veita umhverfisverndarsamtökum heimild til að kæra leyfi til framkvæmda nema þær séu matsskyldar. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 um að framkvæmdirnar séu ekki matsskyldar. Af því leiði að hin kærða ákvörðun sæti ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Umræddar vinnubúðir hafi ekkert viðbótarrask í för með sér en þær verði svo eðli máls samkvæmt fjarlægðar og valdi engum óafturkræfum neikvæðum áhrifum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, að kæra t.d. ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr.

Byggingarfulltrúar viðkomandi sveitarfélaga veita byggingarleyfi vegna framkvæmda við mannvirki skv. ákvæðum 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þeir veita einnig stöðuleyfi fyrir lausafjármunum í samræmi við gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Nánar tiltekið skal sækja um stöðuleyfi til að láta tilgreinda lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Samkvæmt ákvæðinu er um að ræða hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí, sbr. a-lið, og gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld, sbr. b-lið. Hugtakið mannvirki er skilgreint í 12. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga og er þar m.a. tekið fram að til mannvirkja teljist einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar séu til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.
Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps að samþykkja stöðuleyfi til eins árs fyrir vinnubúðum á hótellóð í landi Grímsstaða vegna framkvæmda við hótelbyggingu á lóðinni. Fram kemur í umsókn leyfishafa, dags. 15. desember 2016, að nefndar vinnubúðir hafi verið reistar úr 52 gámaeiningum og séu samtengdar að stórum hluta. Í þeim séu 51 herbergi fyrir starfsmenn til að gista í, tvær setustofur, skrifstofur, mötuneyti, þvottahús, salerni og sturtuaðstaða. Umræddar vinnubúðir séu tengdar við 10.000 l rotþró, sem tengd sé við siturlögn og grjótpúkk. Ekki sé gert ráð fyrir að notkun vinnubúðanna fari yfir 50 persónueiningar að meðaltali á framkvæmdartímanum.

Vafi um það hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi verður borinn undir úrskurðarnefndina skv. 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga, sbr. og 59. gr. laganna, en til að svo verði gert þarf að sýna fram á lögvarða hagsmuni í samræmi við meginreglu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi er hins vegar umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á undantekningunni frá þeirri meginreglu að lögvarða hagsmuni þurfi til kæruaðildar. Bendir hann á að kæra í máli þessu sé í beinum tengslum við aðra kæru hans, er varði byggingu umrædds hótels á Flatskalla. Með úrskurði kveðnum upp fyrr í dag, í kærumáli nr. 161/2016, var felld úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 að bygging hótels í landi Grímsstaða skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun þess efnis að mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram og kærandi á ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu telst hann ekki eiga aðild að kærumáli vegna hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir

             
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                 Ásgeir Magnússon