Fyrir var tekið mál nr. 165/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2016, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Landssamband veiðifélaga, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. til ársframleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.
Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, fór fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015, ásamt greinargerð. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.
Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að Umhverfisstofnun hafi ekki heimildir að lögum til að víkja frá skýru orðalagi reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna, um að við leyfisveitingar skuli miða við að sjókvíaeldisstöðvar skuli ekki vera nær laxveiðiám en 15 km ef um er að ræða 500 laxa meðalveiði í á eða meira. Undanskilið sé ef notaðir séu stofnar af nærliggjandi svæðum eða geldstofnar í eldinu.
Í greinargerð Umhverfisstofnunar með hinu kærða starfsleyfi sé vísað í skýrslur Veiðimálastofnunar og til þess að meðalársveiði í tveimur veiðiám, þ.e. Langadalsá og Hvannadalsá, sé 503 laxar. Umhverfisstofnun hafi borið að rökstyðja að orðalag gr. 4.2. í reglugerðinni tæki aðeins til þeirra tveggja veiðivatna sem nefnd séu í greinargerðinni en ekki til annarra veiðivatna, sem þó séu innan friðunarsvæðis þess sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu.
Kærandi telji að Umhverfisstofnun sé skylt að fara eftir fyrirmælum laga um náttúruvernd við ákvarðanir sínar. Í II. kafla náttúruverndarlaga nr. 60/2013 sé kveðið á um meginreglur og sjónarmið er stjórnvöld skuli taka mið af við töku ákvarðana. Kærandi vísi þar sérstaklega til 8. gr., um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku, og enn fremur til varúðarreglu 9. gr.
Að lokum verði ekki séð að Umhverfisstofnun hafi gætt andmælaréttar kæranda samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um sérstaka túlkun gr. 4.2. í reglugerð nr. 105/2000.
Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.
Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem hann eigi að viðhafa í sínum rekstri.
Kærandi haldi því fram að Umhverfisstofnun hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 við töku hinnar kærðu ákvörðunar og vísi þar einkum til 8. gr. laganna. Þessu hafni stofnunin. Þær meginreglur sem skrifaðar hafi verið í II. kafla náttúruverndarlaga hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Vert sé að benda á í því samhengi að ekki hafi verið sett sértæk viðmið um málsmeðferð ákvarðana varðandi framkvæmd nefndra meginreglna.
Starfsleyfistillagan hafi verið auglýst opinberlega og með tryggum hætti, sbr. lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999. Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki gætt andmælaréttar varðandi útgáfu starfsleyfis.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig en nýtti sér ekki þann möguleika í máli þessu.
Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Ásgeir Magnússon