Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2011 Bergstaðastræti

Ár 2011, föstudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2011 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir fjögurra hæða viðbyggingu við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík, með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. febrúar 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfi fyrir fjögurra hæða viðbyggingu við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík, með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi. 

Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir við heimilaða byggingu yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en nefndin hafnaði þeirri kröfu með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2011. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008, fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Kærandi, ásamt öðrum, kærði veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði, uppkveðnum 6. október 2010, felldi hana úr gildi, þar sem notkun íbúðarhæða heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafnasvæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúi veitti hinn 14. desember 2010 leyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingarinnar að Bergstaðastræti 13 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 16. sama mánaðar.  Veiting þessa byggingarleyfis var kærð til úrskurðarnefndarinnar og krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda. 

Með bréfi, dags. 17. janúar 2011, tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg að það gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulagsuppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli. 

Úrskurðarnefndin kvað hinn 24. janúar 2011 upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda samkvæmt leyfinu sem byggingarfulltrúi veitti hinn 14. desember 2010 á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. 

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin hafði ógilt hinn 6. október 2010.  Það skilyrði var sett fyrir útgáfu byggingarleyfisins að eignaskiptayfirlýsingu vegna breytinga í húsinu yrði þinglýst fyrir útgáfu þess.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að aðalskipulagsbreyting sú sem Skipulagsstofnun staðfesti hinn 17. febrúar 2011 sé ólögmæt og hafi staðfestingu stofnunarinnar verið skotið til umhverfisráðherra til ógildingar hinn 23. febrúar 2011.  Farið hafi verið með umdeilda breytingu eftir 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem óverulega breytingu á aðalskipulagi, en að mati kæranda hafi skilyrði fyrir þeirri málsmeðferð ekki verið fyrir hendi.  Málsmeðferðin hafi hins vegar átt að fara eftir meginreglum 30. og 32. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg fer fram á að kröfu kæranda verði hafnað.  Áður en hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt, hafi tekið gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem landnotkun umrædds götureits hafi verið breytt í íbúðarsvæði í stað athafnasvæðis.  Í gildistökuauglýsingu breytingarinnar komi fram að á prentuðum uppdrætti aðalskipulagsins hafi íbúðarbyggð á svæðinu ranglega verið merkt sem athafnasvæði.  Breytingin hafi lotið að leiðréttingu á uppdrætti en ekki  breytingu landnotkunar sem fyrir sé.  Hafi því verið farið með breytinguna sem óverulega í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Í kjölfarið hafi verið samþykkt og gefið út hið umþrætta byggingarleyfi og jafnframt hafi fallið brott hið takmarkaða byggingarleyfi sem gefið hafi verið út fyrir uppsteypu annarar hæðar byggingarinnar.  Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og gildandi landnotkun samkvæmt aðalskipulagi. 

Vegna málatilbúnaðar kæranda sé rétt að benda á að úrskurðarnefndina bresti vald að lögum til að úrskurða um breytingar á aðalskipulagi og sama eigi raunar við um umhverfisráðherra varðandi þær breytingar sem Skipulagsstofnun hafi samþykkt. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Hinn 18. febrúar 2011 tók gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem landnotkun götureits þess sem Bergstaðastræti 13 tilheyrir var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Kærumál þetta snýst fyrst og fremst um það álitaefni hvort hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi landnotkun á umræddu svæði.  Staðfesting Skipulagsstofnunar á nefndri aðalskipulagsbreytingu var af hálfu kæranda í máli þessu skotið til umhverfisráðherra með kröfu um ógildingu breytingarinnar. 

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 6. október 2010 var til umfjöllunar gildi byggingarleyfis sama efnis og það leyfi sem tekist er á um í máli þessu.  Í þeim úrskurði var ekki fallist á að leyfið færi í bága við ákvæði gildandi byggingarreglugerðar eða deiliskipulag svæðisins að öðru leyti en um landnotkun, en um það efni var í deiliskipulaginu vísað til gildandi aðalskipulags Reykjavíkur.  Hinn 17. mars 2011 vísaði umhverfisráðuneytið fyrrgreindri kæru kæranda máls þessa frá með þeim rökum að umdeild aðalskipulagsbreyting fæli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg væri til ráðherra.  Stendur greind aðalskipulagsbreyting því óhögguð. 

Samkvæmt því sem rakið hefur verið fór hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við gildandi deiliskipulag eða ákvæði aðalskipulags um landnotkun.  Að þeirri niðurstöðu fenginni, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem áhrif gætu haft á gildi hennar, verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2011, sem borgarráð staðfesti hinn 24. sama mánaðar, um að endurnýja byggingarleyfi fyrir fjögurra hæða viðbyggingu við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

 

______________________________
Ómar Stefánsson

 

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson