Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

158/2021 Vesturgata

Árið 2022, föstudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­­­­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 158/2021, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 9. september 2021 um innkeyrslu frá hringtorgi að Vesturgötu 4 í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, f.h. Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, þá framgöngu umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðarbæjar að minnka lóðina Vestur­götu 4 um 93,8 m² og taka þar með alla aðkeyrslu og bílastæði af lóðinni. Jafnframt er kærð sú ákvörðun að steypa kant á gangstétt framan við Vesturgötu 4 þannig að lokað sé fyrir aðkeyrslu úr hringtorgi yfir gangstéttina að lóðinni. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að fyrrnefndar ákvarðanir bæjaryfirvalda verði felldar úr gildi. Þá er gerð krafa um að nefndum lóðarhluta verði skilað og að aðkoma að Vesturgötu 4 verði eins og hún hafi verið til margra ára. Enn fremur að opnað verði fyrir aðkeyrslu úr hringtorginu og að bílastæðum verði komið fyrir á umræddum lóðarhluta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 11. nóvember 2021 og viðbótar-gögn bárust 15. og 23. febrúar 2022.

Málavextir: Lóðin Vesturgata 4 í Hafnarfirði er á horni Vesturgötu og Reykjavíkurvegar en á mótum gatnanna er hringtorg sem nefnt er Bæjartorg. Til fjölda ára hefur verið starfræktur veitingastaðurinn A. Hansen að Vesturgötu 4, en á Vesturgötu 6 eru svonefnt Pakkhús og Sívertsenhúsið sem eru hluti af Byggðasafni Hafnarfjarðar. Framan við húsin er svæði sem mun hafa verið nýtt að hluta sem bílastæði, með innkeyrslu annars vegar frá Vesturgötu og hins vegar frá Bæjartorgi.

Á árinu 2020 mun umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðarbæjar hafa mælt upp lóðina Vesturgötu 4. Í kjölfarið mun kærandi máls þessa hafa gert athugasemdir við sveitarfélagið um að skráðri stærð lóðarinnar hefði verið breytt úr 629,8 m² í 536 m² og mun skráð stærð hennar hafa verið færð til fyrra horfs í apríl 2021. Hinn 8. september sama ár kom kærandi á framfæri mót­mælum sínum við sveitarfélagið um að steyptur hefði verið kantur á gangstéttina framan við húsið og þar með hefði verið lokað fyrir aðkeyrslu úr hringtorginu að veitingastaðnum. Með þessu væri aðkoman færð út á götu, en þörf væri á aðkomu að lóðinni þar sem snjóbræðsla væri við veitingastaðinn sem og bílastæðum fyrir þá er hygðust sækja veitingastaðinn og Byggðasafnið.

Erindi kæranda var svarað af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs með tölvu­pósti 9. september 2021. Í svarinu kom m.a. fram að ekki væri hægt að bjóða upp á inn- eða útkeyrslu að og frá hringtorgi þar sem mögulega yrði t.d. bakkað út. Jafnframt var vísað til niðurstöðu skipulagsfulltrúa er taldi að ekki væri unnt að verða við beiðni um aðkomu frá hringtorgi.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt lóðarleigusamningi um Vesturgötu 4 sé lóðin 629,8 m² að stærð, en hún hafi verið minnkuð um 93,8 m² eftir að umhverfis- og skipulags­svið hafi mælt upp lóðina. Tekin hafi verið öll lóðin framan við húsið og þar með  aðkoma að húsinu og bílastæði. Þegar lóðarstærðin hafi verið leiðrétt hafi verið búið að deili­skipuleggja svæðið þar sem hvorki væri gert ráð fyrir aðkeyrslu að húsinu frá hringtorginu né bílastæðum á lóðinni.

Kærandi bendir á að þinglýst eign hans hafi verið gerð upptæk án nokkurs samráðs við hann eða leyfis. Mikilvægt sé að eignarrétturinn sé virtur og að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafi verið verði ekki látin viðgangast. Opinberir aðilar eigi ekki að fara gegn lögum. Það að ekki sé hægt að keyra að inngangi hússins hafi veruleg óþægindi í för með sér fyrir gesti staðarins og skapi hættu, m.a. fyrir þá sem þurfi að komast leiðar sinnar að húsinu í hálku, en kvartanir hafi borist vegna þessa. Einnig bæti það ekki umferðaröryggi þegar bílstjórar þurfi að stoppa í hringtorginu til að hleypa fólki út sem hyggist sækja veitingastaðinn. Rekstrargrundvöllur veitingahússins hafi í raun verið eyðilagður.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Hvorki sé verið að kæra stjórnvaldsákvörðun né ágreiningsmál vegna annarra úrlausnaratriða, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, auk þess sem óljóst sé hver hin kærða ákvörðun sé.

Enginn þinglýstur lóðarleigusamningur sé til staðar um lóðina Vesturgötu 4. Til sé afsal sem sé ranglega skráð sem lóðarleigusamningur í þinglýsingarbókum og verði óskað leiðréttingar hjá sýslu­manni varðandi þá skráningu. Í óþinglýstum samningi frá árinu 1925 sé kaup­manninum F. Hansen leigð lóðin á erfðafestu undir og umhverfis sölubúðar- og íveruhús hans að Vestur­götu 4. Lóðin sé sögð 629,8 m² og í samningnum sé tekið fram að felldur sé úr gildi erfða­festu­­samningur frá 7. júní 1911. Þar komi fram að leigutaka sé heimilt að fylla út í fjöruna jafnt upp­­­fyllingu Aug. Flygenrings gegn því að hann láti hluta af lóðinni endurgjaldslaust til breikkunar Vestur­­­götu. Í nóvember 1960 hafi 93,2 m² verið teknir af lóðinni með vísan til lóðarleigusamningsins, en aldrei verið gefinn út nýr samningur í kjölfarið. Virðist lóðarstærðin hafa verið skráð 536,6 m² í fast­eigna­­­skrá allt þar til hún hafi verið leiðrétt í samræmi við þinglýstan „lóðarleigu­samning“. Lóðar­­­hafi Vesturgötu 4 hafi aldrei átt gangstéttina framan við húsið en í mesta lagi hafi hann átt lóðina 1,5 m frá hús­vegg. Gangstéttin sé fyrir utan mörk lóðarinnar eins og sjá megi á mæli­blöðum frá fyrstu tíð. Sé umræddur kantsteinn á gangstéttinni í fullu samræmi við skipulag. Samkvæmt aðaluppdráttum fyrir Vesturgötu 4 sé gert ráð fyrir aðkomu að lóðinni frá Kirkjuvegi.

 Niðurstaða: Í kæru máls þessa er vísað til þess að kærð sé framganga umhverfis- og skipulags­sviðs Hafnarfjarðarbæjar um að taka hluta af lóð kæranda og loka aðkeyrslu að veitingahúsi því sem stendur á lóðinni. Af kæru verður ráðið að kæruefni málsins lúti annars vegar að lögmæti þeirrar ákvörðunar Hafnarfjarðarbæjar að steypa gangstéttarkant framan við Vesturgötu 4, og loka þar með fyrir innkeyrslu úr Bæjartorgi yfir gangstéttina að húsinu, og hins vegar að minnka lóðina um 93,8 m².

Fyrir liggur að 9. september 2021 var erindi kæranda frá 8. s.m., þar sem því var mótmælt að búið væri að loka fyrir aðkeyrslu úr hringtorginu, svarað af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs sem vísaði jafnframt til niðurstöðu skipulagsfulltrúa um málið. Í svarinu kom m.a. fram að ekki væri hægt að bjóða upp á inn- eða útkeyrslu að og frá hringtorgi þar sem mögulega yrði t.d. bakkað út. Jafnframt hefðu borist margar kvartanir vegna bifreiða sem lagt hefði verið á göngu­leið eða lokað á gönguleiðir. Í umfjöllun skipulagsfulltrúa kom fram að á samþykktum aðal­uppdrætti væri hvorki gerð grein fyrir bílastæðum á lóð Vesturgötu 4 né aðkomu að lóðinni frá að­liggjandi umferðargötum. Þá væri í deiliskipulagi umrædds svæðis ekki heldur gerð grein fyrir eða heimiluð aðkoma inn á lóð Vesturgötu 4 frá hringtorgi. Var niðurstaða skipulags­fulltrúa því sú að ekki væri unnt að verða við beiðninni. Úrskurðarnefndin telur að líta verði svo á að í greindum svörum hafi falist synjun á beiðni kæranda um að opið yrði fyrir innkeyrslu frá hringtorginu inn á lóð Vesturgötu 4. Verður þá jafnframt að skilja málatilbúnað kæranda á þá leið að hann sé að kæra nefnda synjun og sætir sú afgreiðsla því lögmætis­athugun nefndarinnar.

Í 1. gr. viðauka 2.3 með samþykkt nr. 240/2021 um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundar­sköp bæjarstjórnar segir að skipulagsfulltrúi afgreiði, án staðfestingar bæjarstjórnar, verkefni sem séu á verkefnasviði skipulags- og byggingarráðs, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og  42. gr. samþykktarinnar. Meðal þess sem honum er heimilt að gera er að framsenda, vísa frá eða synja erindum sem beint er til skipulags- og byggingarráðs og eru ber­sýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, sbr. k-lið 2. gr. viðaukans. Samkvæmt 2. og 3. gr. viðaukans skulu málin tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og þau kynnt á næsta reglulega fundi skipulags- og byggingarráðs. Svo sem fyrr greinir vísaði skipulagsfulltrúi m.a. til þess í svari sínu að í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði væri hvorki gerð grein fyrir né heimiluð aðkoma inn á lóð Vesturgötu 4 frá hringtorgi.

Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Norðurbakka frá 2005. Hinn 22. febrúar 2007 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 25/2005 þar sem hafnað var kröfu kæranda máls þessa um ógildingu nefnds deiliskipulags. Byggði kærandi málatilbúnað sinn m.a. á því að með hinni kærðu ákvörðun væru bílastæði við veitingahús hans lögð af, en úrskurðarnefndin taldi að ekki yrði séð af gögnum um fyrra skipulag svæðisins að bílastæði hefðu fylgt fasteign kæranda að Vesturgötu 4 sem lögð væru af með hinni kærðu ákvörðun.

Hinn 2. október 2020 tók gildi breyting á fyrrgreindu deiliskipulagi. Í breytingunni fólst m.a. að á uppdrætti voru markaðar þrjár lóðir. Ein þessara lóða var lóðin Vesturgata 4 og var stærð hennar tilgreind 629,8 m2, svo sem í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Af skipulagsuppdrætti og greinargerð deiliskipulagsins verður hvorki séð að gert sé þar ráð fyrir innkeyrslu frá hringtorginu yfir gangstétt framan við Vesturgötu 4 né bílastæðum á lóð­inni. Aðkoma að lóðinni er hins vegar sýnd frá Vesturgötu og einnig frá Kirkjuvegi. Verður því að telja að efnisrök hafi legið að baki fyrrgreindri synjun skipulagsfulltrúa og að sjónarmið  umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins um umferðaröryggi hafi verið málefnalegt.

Sem fyrr segir liggur fyrir að stærð lóðarinnar er skráð 629,8 m² í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, eins og í gildandi deiliskipulagi Norðurbakka. Kærandi hefur gert athugasemd við að sveitarfélagið hafi beðið með að tilkynna leiðréttingu á tilgreindri stærð umræddrar lóðar til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands þar til nýtt deiliskipulag fyrir lóðina hefði tekið gildi og vísað til þess sem hluta af kæruefni málsins. Þar sem hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að megin­stefnu til að úrskurða um lögmæti ákvarðana stjórnvalda fellur það utan valdheimilda hennar að taka afstöðu til greinds ágreinings, eða taka nýja ákvörðun, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála. Verður kröfum kæranda að þessu leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess. Verður ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi og túlkun samninga í því sambandi, svo sem um lóðarréttindi, ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, en slíkur ágreiningur gæti eftir atvikum átt undir dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 9. september 2021 um innkeyrslu frá hringtorgi að Vesturgötu 4 í Hafnarfirði.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.