Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 154/2007, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir M, framkvæmdarstjóri Reykjagarðs hf., þá ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir og rök: Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra hinn 14. júní 2007 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi gámasvæðis á Hellu. Var tillagan tekin fyrir í hreppsnefnd hinn 4. júlí 2007 og samþykkt að auglýsa hana. Birtist auglýsing um tillöguna m.a. í Lögbirtingarblaðinu og bárust hreppsnefnd athugasemdir. Á fundi skipulagsnefndar 10. október 2007 var fjallað um athugasemdirnar og á fundi hreppsnefndar sama dag var tillagan samþykkt. Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar hefur ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrirhugað gámasvæði sé staðsett beint á móti húsi sem hann reki í sláturhús og kjötvinnslu. Um matvælavinnslu sé að ræða og mikilvægt að forðast alla lyktar- og sýklamengun.
Af hálfu hreppsnefndar er vísað til þess að hin kærða samþykkt hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu þar sem auglýsing um gildistöku hennar hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Slík auglýsing sé gildistökuskilyrði og marki upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. Því sé ekki unnt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar eða ógilda ákvörðun hreppsnefndar sem ekki hafi öðlast gildi að lögum. Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulag, er hreppsnefnd samþykkti hinn 10. október 2007, hefur ekki öðlast gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. sömu laga, sem kveður á um að upphaf kærufrests miðist við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting sé lögmælt. Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson