Árið 2021, fimmtudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 152/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 3. júní 2021 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðis landi Kotru.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Neringa ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 3. júní 2021 að samþykkja deiliskipulag fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðis í landi Kotru. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er þar að auki krafist að framkvæmdir við gatnagerð verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar verði frestað.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðasveit 8. október 2021.
Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 14. janúar 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðisins í landi Kotru í Eyjafjarðarsveit. Skipulagstillagan tók til sex nýrra íbúðarlóða, auk þess sem fyrri áfangar íbúðabyggðar í Kotru voru felldir undir hið nyja skipulag. Tillagan var auglýst 4. febrúar 2021 í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fresti til að skila athugasemdum til 18. mars s.á. Á fundi skipulagsnefndar 31. maí 2021 var fjallað um innsendar athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar og á fundi sveitastjórnar 3. júní s.á. var tillaga að deiliskipulagi fyrir Kotru samþykkt. Öðlaðist skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2021.
Kærandi krefst þess að framkvæmdir við gatnagerð verði stöðvaðar og að réttaráhrifum deiliskipulagsins skuli frestað þar til leyst hefur verið efnislega úr hinni kærðu ákvörðun. Staðsetning vegar samkvæmt umræddu deiliskipulagi muni skerða notagildi fasteigna hans og valda hávaða og óþægindum. Vegtenging sé ekki í samræmi við skilyrði í greinargerð deiliskipulagsins þar sem fram komi að allur frágangur lóða eigi að vera í samræmi við ákvæði gildandi byggingarreglugerðar og að landhæð á lóðamörkum skuli vera skv. náttúrulegri landhæð. Jafnframt komi fram að sú landhæð skuli ná að lágmarki 1m inn á hvora lóð samliggjandi lóða nema um annað sé samið. Þá hafi deiliskipulagið ekki verið kynnt kæranda líkt og kveðið sé um í 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda í málinu verði hafnað. Ekki hafi verið gefið út leyfi til gatnagerðar eða annarra framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi haft samband við landeigenda vegna upplýsinga frá kæranda um framkvæmdir á svæðinu og lagt fyrir hann að aðhafast ekki frekar. Þar sem ekki hafi verið tekin ákvörðun um framkvæmd eða gefið út byggingaleyfi hafi kærandi ekki lögvarða hagsuni af kæru sinni gagnvart sveitarfélaginu og beri því að vísa málinu frá. Verði kærunni ekki vísað frá þá verði að hafna kærunni þar sem engin stjórnvaldsákvörðun sé í gildi sem úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform eða leyfi til framkvæmda verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið. Í ljósi atvika málsins er og rétt að benda á að telji kærandi framkvæmdir eiga sér stað án tilskilinna getur hann eftir avikum beint því til byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum skv. mannvirkjalögum.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.