Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

151/2021 Úlfarsbraut

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2021, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 7. júlí 2021 um að samþykkja deiliskipulagsbreytingu vegna lóðanna Úlfarsbrautar 100-110.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. september 2021, kærir eigandi, Úlfarsbraut 98, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipu­lags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 7. júlí 2021 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu vegna lóð­anna Úlfarsbrautar 100-110. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og ef við eigi að samþykki byggingaráforma á lóðunum verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2021.

Málsatvik og rök: Auglýsing vegna samþykktar skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur­borgar á til­lögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021 og var leiðrétting birt 17. ágúst s.á. Kom þar m.a. fram að breytingin væri vegna lóðanna Úlfars­­­­­­brautar 84-88, 90-94, 100-104 og 106-110 og hefði verið samþykkt án staðfestingar borgar­­­­ráðs með vísan til a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgöngu­­­­ráðs. Í auglýsingunni frá 9. júlí 2021 kom m.a. fram að „[auk] þess eru byggingar­reitir færðir um 1 metra frá götunni og innar á lóðina.“ Í leiðréttingunni frá 17. ágúst s.á. kom fram að í stað tilvitnaðs texta kæmi „[a]uk þess færast byggingarreitir á lóðum 84-88 og 90-94 við Úlfars­­­braut um 1 m frá götu og innar á lóðina og byggingarreitir á lóðum 100-104 og 106-110 um 70 cm í átt hvor að öðrum.“ Byggingaráform fyrir fjölbýlishús hafa verið samþykkt með áritun byggingarfulltrúa á aðal­upp­drætti vegna Úlfarsbrautar 100 og 106, 31. ágúst 2021 vegna fyrrnefndu lóðarinnar og 14. desember s.á. vegna þeirrar síðarnefndu.

Kærandi telur hagsmuni íbúa að Úlfarsbraut 98 hafa verið fyrir borð borna með því að þvingaðar hafi verið fram sömu breytingar „á nágrannalóð“ þeirra og fyrir þegar byggð hús á lóðunum Úlfarsbraut 84-94. Hús á þeim lóðum hafi verið byggð í trássi við deiliskipulag. Þau hafi verið rangt staðsett miðað við byggingarreiti, stigahús þeirra hafi verið opin og fyrir utan byggingarreiti, sem ekki hafi verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi fyrir svæðið. Þá vísar kærandi til stuðnings kæru sinni til andmæla íbúa til borgaryfirvalda vegna fyrirhugaðrar breytingar á deili­­­skipulagi.

Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndar­innar einn mánuður. Auglýsing um breytingu á deiliskipulagi hafi verið birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 9. júlí 2021 og leiðrétting 17. ágúst s.á. en kæra ekki borist fyrr en 27. september s.á.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auð­linda­­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opin­­­berri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021 og leiðrétting 17. ágúst s.á. Rétt þykir að miða kærufrest við birtingu leiðréttingar 17. ágúst 2021 enda laut hún að efni ákvörðunarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar barst úrskurðarnefndinni 27. september 2021 og því ljóst að kærufrestur var þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni að því er varðar umdeilda deiliskipulagsbreytingu enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Þá er jafnframt í málinu deilt um ákvarðanir byggingarfulltrúa að samþykkja byggingaráform á umræddum lóðum. Líkt og áður greinir voru byggingaráform fyrir fjölbýlishús samþykkt hinn 31. ágúst 2021 vegna Úlfarsbrautar 100 og 14. desember s.á. vegna Úlfarsbrautar 106. Sam­kvæmt sam­þykktum aðaluppdráttum eru byggingarnar í samræmi við gildandi deili­skipu­lag Úlfarsárdals. Voru hin kærðu byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mann­virkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvarðana um hin umdeildu byggingarleyfi, verður gildi þeirra ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar vegna lóðanna Úlfars­brautar 100-110 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvarðana byggingarfulltrúans í Reykjavík um sam­þykkt byggingaráforma frá 31. ágúst 2021 og 14. desember s.á. á lóðunum Úlfarsbraut 106 og Úlfars­braut 110.