Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

150/2017 Elliðabraut og Norðlingaholt

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 22. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Bjallavaði 7, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts, sem felur í sér að landnotkun lóðanna Elliðabrautar 4-6, 8-10 og 12 verði breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. febrúar 2018.

Málatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. júlí 2017 var tekin fyrir tillaga um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut. Breytingin fól í sér að í stað þess að gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði á lóðunum yrði gert ráð fyrir 1 – 4 hæða íbúðarhúsnæði. Tekið var fram að byggingarmagn mannvirkjanna yrði óbreytt. Að lokinni kynningu breytingarinnar, þar sem kærandi kom að athugasemdum, og frekari meðferð málsins samþykkti borgarráð deiliskipulagsbreytinguna 21. desember 2017. Tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðina 12. janúar 2018.

Kærandi bendir á að með breytingu landnotkunar úr léttum iðnaði í íbúðarbyggð muni bílaumferð stóraukast á álagstímum, en á stofnæðum í kringum Norðlingaholt séu nú þegar langar raðir bíla á þeim tíma. Engar hugmyndir séu uppi um bættar samgöngur til að mæta þessari fjölgun, sem verði á bilinu 250-550 bílar. Þá sé Norðlingaskóli nú þegar komin í aukahúsnæði vegna fjölda nemenda og óljóst hvernig leysa eigi húsnæðismál hans þegar nemendafjöldinn muni aukast enn frekar vegna umræddrar íbúðarbyggðar. Loks séu fyrirhugaðar byggingar einni hæð hærri en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir, auk þess sem byggingarmagn sé stóraukið. Slíkt muni hafa áhrif á ásýnd hverfisins, rýra útsýni og auka skuggamyndun.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs vegna athugasemda við tillögu aðalskipulagsbreytingar Norðlingaholts, sem vörðuðu Elliðabraut 4-13, hafi m.a. komið fram að núverandi gatnakerfi ætti að ráða við þá auknu umferð á álagstímum sem breytingin myndi hafa í för með sér þó svo að biðtími gæti aukist, en ástæða væri til að fylgjast með þróun umferðar á svæðinu. Þá mætti ætla, í ljósi reynslunnar um þróun nemendafjölda í öðrum skólahverfum, að fjölgun íbúða gæti styrkt skólahverfið til lengri tíma og fjölgun íbúa gæti styrkt rekstrargrundvöll verslunar og þjónustu í hverfinu. Byggingarreitur Elliðabrautar 4-6 verði svipaður að gerð samkvæmt fyrra deiliskipulagi fyrir utan það að vera breiðari til að ná birtu inn í inngarða. Ekki sé um að ræða aukningu á heimiluðu byggingarmagni á lóðunum.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögðvarða hagsmuni sem eiga beinna einstaklegra hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem kæra á og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kæran byggir á sambærilegum athugasemdum og kærandi kom á framfæri við borgaryfirvöld á athugasemdartíma tillögunnar. Hann byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á því að með deiliskipulagsbreytingunni muni byggingarmagn verða aukið og húsin sem um ræðir hækkuð um eina hæð, sem hafi m.a. áhrif á útsýni og skuggamyndun. Að auki muni umferð aukast og nemendum fjölga við grunnskólann.

Kærandi er búsettur á deiliskipulagssvæðinu. Við mat á því hvort hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu verður að líta til þess að hús hans er staðsett í um 450-500 m fjarlægð frá þeim stað sem fyrirhugað er að umrædd hús við Elliðabraut muni rísa og þar á milli standa önnur hús. Í ljósi þessa og staðhátta að öðru leyti verður ekki séð að breyting sú sem hér um ræðir muni í neinu hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda. Þá verður að telja að málsrök kæranda sem varða aukningu umferðar og fjölgun nemenda í skólanum lúti fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna en ekki persónulegra hagsmuna hans umfram aðra íbúa hverfisins. Á það skal bent að þótt kærandi hafi átt rétt á að koma að athugasemdum við málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir það honum ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga kæruaðild vegna ágreinings um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.