Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 15/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stararima 25, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar s.á. að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. mars 2019 og 5. mars 2020.
Málavextir: Hinn 24. nóvember 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Íslenska gámafélaginu ehf. um fyrirhugaða jarðgerð í Gufunesi, Reykjavík, til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Laut fyrirspurn framkvæmdaraðila að því hvort fram þyrfti að fara mat á umhverfisáhrifum jarðgerðar hans á lífrænum eldhúsúrgangi. Úrgangurinn væri notaður til moltuvinnslu en sú vinnsla framkvæmdaraðila hefði verið smá í sniðum eða um 500 tonn á ári. Gert væri ráð fyrir að hún gæti orðið um 2.500 tonn á ári. Vegna aukins umfangs hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur farið fram á að sótt yrði um sérstakt starfsleyfi til moltu-gerðarinnar. Matvælastofnun Íslands hefði verið tilkynnt um framleiðsluna og væru öll tilskilin leyfi stofnunarinnar í gildi. Fram kom að starfsemi félagsins í Gufunesi væri á skipulögðu iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en þar sem hún væri víkjandi á gildistíma þess væri gert ráð fyrir að starfsemin yrði flutt af svæðinu í árslok 2022. Öll vinnsla í tengslum við jarðgerðina, þ.m.t. kurlun timburs, myndi fara fram á staðnum. Með aðferðinni sem framkvæmdaraðili notaði væri komið í veg fyrir myndun metans.
Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins.
Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Ítrekað hafi borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá framleiðslunni og magnið sem fyrirhugað sé að vinna sé meira en fimmfalt meira en framkvæmdaraðili hafi unnið á svæðinu undanfarin ár. Vísað var til minnisblaðs Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. nóvember 2017, um lyktarónæði frá starfseminni í Gufunesi og tekið fram að líklegt þætti að lyktarmengun myndi aukast. Einnig gætu aukin umsvif aukið hávaða á svæðinu, m.a. vegna kurlunar timburs og annarrar starfsemi tengdri vinnslunni. Vinnsla lífræns úrgangs laði að fugla og meindýr og óljóst sé hvort það að hylja hauginn með timburkurli nái að halda dýralífi frá, t.d. á meðan múgunum sé snúið. Nýlegt deiliskipulag fyrir hluta af Gufunesi liggi fyrir. Uppbygging sé framundan á svæðinu, m.a. með fjölgun íbúða, en ekki sé vitað hvenær hún hefjist. Ekki fáist séð að aukin umsvif með lífrænan úrgang á svæðinu, umfram það sem nú sé, fari saman við þá uppbyggingu.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, kom fram að undanfarin tvö ár hafi ítrekað borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá athafnasvæðinu í Gufunesi frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar. Auk framkvæmdaraðila séu tveir aðrir aðilar með starfsemi á svæðinu og staðfest hafi verið lyktarmengun frá henni allri á einhverjum tímapunkti. Ekki sé gerð nægilega góð grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna lyktarmengunar í tilkynningu framkvæmdaraðila. Talað sé um að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi, en eftirlitið telji að gera verði þá kröfu að þeim sé snúið eingöngu þegar vindur standi þannig. Krefjast ætti notkunar á lyktareyðandi ensímum til að draga úr lyktarmengun. Eftirlitið telji að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, en þar séu þrjú fyrirtæki sem valdi lyktarmengun.
Umhverfisstofnun taldi í umsögn sinni, dags. 8. janúar 2018, ekki líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér en benti á að helstu umhverfisáhrif framleiðslu af þessu tagi væru lyktar- og örverumengun. Næsta íbúðarbyggð væri í um 800 m fjarlægð frá moltugerðinni en nýleg dæmi úr Hafnarfirði sýndu að lyktarmengunar frá moltugerð gæti gætt í meira en 800 m fjarlægð. Stofnunin teldi brýnt með tilliti til nálægrar íbúðarbyggðar að sett yrðu skilyrði í starfsleyfi um vinnubrögð við moltugerðina til að draga úr lyktarmengun og að fylgst yrði með örverum í moltunni með sýnatöku. Með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Moltugerð framkvæmdaraðila væri í samræmi við landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013-2024 og myndi stuðla að minni losun gróðurhúsa-lofttegunda og auka frjósemi jarðvegs.
Framkvæmdaraðila var gefinn kostur að koma að athugasemdum vegna umsagnanna, sem hann og gerði með bréfi, dags. 31. maí 2018. Var þar m.a. gerð nánari grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna mengunar auk þess sem fjallað var um umfang framkvæmdarinnar. Kom þar fram að þegar jarðgerð hefði byrjað fyrir um 10 árum hefði vinnslan verið um 500 tonn á ári en umfang hennar hefði aukist jafnt og þétt. Árið 2015 hefði magn lífræns eldhúsúrgangs verið 1.500 tonn, árið 2016 hefði það verið 1.260 tonn og árið 2017 verið 1.480 tonn. Ekki væri því um fimmföldun að ræða á því magni úrgangs sem jarðgerður yrði.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 var reifað í hverju fyrirhuguð framkvæmd fælist og tekið fram að framkvæmdaraðili væri með gilt starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til meðhöndlunar úrgangs, m.a. jarðgerðar, og gilti það starfsleyfi til 8. júní 2022. Vísaði Skipulagsstofnun til eðlis framkvæmdarinnar og staðsetningar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og komst að þeirri niðurstöðu að miðað við þau viðmið sem þar væru greind og fyrirliggjandi gögn væri jarðgerð í Gufunesi ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Málsrök kæranda: Kærandi kveðst búa í Rimahverfi í Grafarvogi og hafi hann og fjölskylda hans ítrekað orðið vör við ólykt sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila í Gufunesi. Á sumardögum geti lyktin orðið svo megn að ekki sé hægt að hafast við utandyra. Ástandið sé verst í logni og þegar vind leggi af hafi. Þetta ástand ríki ekki eingöngu á dagvinnutíma heldur allan sólarhringinn. Jarðgerð undir berum himni eigi enga samleið með íbúðarbyggð. Hún eigi að fara fram í lokuðum húsakosti þar sem loft og gufur séu síaðar í burtu áður en þær fari út í andrúmsloftið. Minnstu kröfur sem gera eigi til jarðgerðar séu að hún sé niðurgrafin þannig að vindurinn grípi þessar gufur ekki við minnsta vind og beri áfram. Kærandi telji það lögvarinn rétt sinn að geta notið almennra loftgæða við heimili sitt þannig að hann geti notið útiveru líkt og aðrir borgarbúar. Ólykt teljist vera mengun.
Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að lítill hópur hafi kvartað vegna ólyktar, en það sé ekki marktækt þar sem stór hluti íbúa viti ekki hvert eigi að snúa sér til að kvarta. Einnig sé hverfið sem næst sé framkvæmdinni einbýlishúsahverfi. Fyrst hafi farið að bera á ólykt árið 2016 en um sumarið 2017 hafi kærandi byrjað að kvarta yfir menguninni.
Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvalds-ákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar séu greind. Sé það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eigi einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Kærandi telji það vera lögvarinn rétt sinn og fjölskyldu sinnar að njóta almennra loftgæða í kringum heimili sitt. Almennt varði sjónarmið um loftgæði almannahagsmuni. Samkvæmt upplýsingum séu rúmlega 800 m á milli heimilis kæranda og Gufunessvæðisins þar sem hin fyrirhugaða framkvæmd framkvæmdaraðila eigi að vera. Velti stofnunin fyrir sér hvort kærandi geti átt slíkra grenndarhagsmuna að gæta að hann geti kært ákvörðunina, þ.e. geti átt hina einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra í Rimahverfinu og öðrum nálægum hverfum í Grafarvogi sökum grenndaráhrifa.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum séu framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis og staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laganna. Þar segi að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Eins og skilgreiningin sé úr garði gerð sé ljóst að mikið þurfi til að koma svo að framkvæmd sé talin matsskyld. Ekki sé nægilegt að áhrifin geti verið veruleg og óafturkræf eða að um veruleg spjöll sé að ræða heldur þurfi skilyrðið um að ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum að vera uppfyllt.
Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé að finna lýsingu á mótvægisaðgerðum sem hann hyggist grípa til. Þar komi fram að til að lágmarka hugsanleg lyktaróþægindi íbúa hafi sú vinnuregla verið innleidd að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi. Framkvæmdaraðili hafi lýst því yfir að hann hyggist beita ýmsum mótvægisaðgerðum, t.d. að setja upp úðunarkerfi fyrir múgana til þess að hægt verði að úða lyktareyðandi ensímum yfir þá. Skipulagsstofnun hafi haft fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila í huga þegar hún hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Einnig bendi stofnunin á að í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 8. janúar 2018, komi fram að með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, og Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, sé þeirri afstöðu lýst að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að stofnunin sé ekki bundin af umsögnum umsagnaraðila um matsskyldu, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 12. febrúar 2019 í máli nr. 111/2017, heldur sé öflun umsagna liður í rannsókn máls. Framkvæmdaraðili hafi fallist á þá kröfu að múgum verði einungis snúið þegar vindur standi af landi og í hinni kærðu ákvörðun sé tekið mið af því.
Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins segi að horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, ekki síst í ljósi fyrirhugaðra breytinga á skipulagi og notkun svæðisins. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekið tillit til annarrar starfsemi í Gufunesi. Skipulagsstofnun telji að þótt þrjú fyrirtæki séu á sama svæði og lykt leggi frá starfsemi þeirra leiði það ekki til þess að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda gangi stofnunin út frá þeirri forsendu að mótvægisaðgerðum verði framfylgt. Umsögn heilbrigðiseftirlitsins taki ekki nægilega tillit til þess að framkvæmdaraðili hyggist grípa til mótvægisaðgerða sem dragi úr áhrifunum verði þeim framfylgt.
Í umsögnum heilbrigðiseftirlitsins og Reykjavíkurborgar sé vikið að því að undanfarin ár hafi ítrekað borist kvartanir frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar vegna lyktarmengunar frá athafna-svæðinu í Gufunesi. Í hinni kærðu ákvörðun sé vikið að þeim fjölda fólks sem lyktarmengun frá hinni fyrirhuguðu framleiðsluaukningu og starfsemi hinna tveggja aðilanna á svæðinu kunni að hafa áhrif á og sé þá tekið mið af upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu. Eins og komi fram í hinni kærðu ákvörðun muni hin fyrirhugaða framleiðsluaukning hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á svæðinu verði að ræða.
Samkvæmt breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við hann um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaraðila sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi árið 2022.
—–
Framkvæmdaraðila var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar, en hann nýtti sér það ekki.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að aukin jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kæranda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram vegna ólyktar sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila að nálægðri íbúðarbyggð. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Kærandi er búsettur í um 800 m fjarlægð frá svæðinu þar sem hin kærða starfsemi fer fram og er ekki hægt að útiloka að hann geti orðið var við mengun, þ.m.t. lyktarmengun, vegna starfseminnar. Á kærandi því að mati nefndarinnar þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er samkvæmt greindu lagaákvæði.
Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um hvenær framkvæmd skuli háð slíku mati. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári fellur undir flokk B, sbr. tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Í samræmi við nefnda 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna.
Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, svo sem þeir voru orðaðir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem eðli máls samkvæmt skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felur í sér aukna jarðgerð lífræns úrgangs, en hún hefur áður farið fram á grundvelli gildandi starfsleyfis framkvæmdaraðila til meðhöndlunar úrgangs. Aukningin hefur átt sér stað smátt og smátt og er nú gert ráð fyrir því að allt að 2.500 tonn verði jarðgerð á ári.
Svo sem lýst er í málavöxtum leitaði Skipulagsstofnun umsagna Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins og gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Umhverfisstofnun taldi ekki líklegt að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif en umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, sem og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, töldu að mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fara fram vegna hennar. Var í þeim umsögnum einkum vísað til lyktarmengunar og eðlis starfseminnar sem ekki færi vel með nálægri íbúðarbyggð og frekari uppbyggingu hennar. Í athugasemdum framkvæmdaraðila vegna framkominna umsagna komu fram frekari lýsingar á þeim mótvægis-aðgerðum sem hann hefði þá þegar gripið til eða hygðist grípa til. Kom þar m.a. fram að múgum væri eingöngu snúið þegar vindátt legði frá íbúðarbyggð og að fjárfest hefði verið í lyktareyðandi ensímum sem úðað væri yfir múgana í stillu til að koma í veg fyrir lyktarmengun þegar þeim væri snúið.
Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að þeir þættir sem féllu undir eðli framkvæmdarinnar, staðsetningu eða eiginleika hennar, kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum.
Þannig rekur Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni að taka skuli mið af eðli framkvæmdar, sammögnunaráhrifum með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Fjallar stofnunin um umfang framkvæmdarinnar og einnig er rakið að á svæðinu séu tvö önnur fyrirtæki þar sem annars vegar fari fram móttaka og meðferð úrgangsefna, allt að 150.000 tonn á ári, og hins vegar framleiðsla tæplega 6.000 tonna af mold og moltu, þar sem mold úr húsgrunnum sé látin standa og brjóta sig. Telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af annarri starfsemi í Gufunesi og sammögnunaráhrifum vegna lyktar með þeirri starfsemi séu aukin umsvif framkvæmdaraðila á svæðinu ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif, að því gefnu að mótvægisaðgerðum verði fylgt. Þá sýni áhættumat að ekki sé líklegt að lyktarmengun aukist við aukna framleiðslu moltu hjá framkvæmdaraðila. Tekur stofnunin og fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur geti sett framleiðslunni skilyrði í starfsleyfi til að lágmarka hættu á lyktarónæði og tiltekur m.a. sem nauðsynleg skilyrði þau er áður er rakið að fram hafi komið í athugasemdum framkvæmdaraðila í tilefni af umsögnum vegna matsskyldu.
Einnig er rakið að taka skuli mið af staðsetningu framkvæmdar, svo sem landnotkun sem fyrir sé eða sem sé fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vísar Skipulagstofnun til þess að framkvæmdarsvæðið sé á skipulögðu iðnaðarsvæði en samkvæmt breytingu í ágúst 2018 á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við framkvæmdaraðila um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá félaginu sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi það ár. Loks var um þetta atriði tekið fram að til að lágmarka hættu á ónæði vegna hávaða þyrfti að haga starfseminni þannig að hvorki væri unnið snemma á morgnana né seint á kvöldin.
Þegar kemur að eiginleikum hugsanlegra áhrifa benti Skipulagsstofnun á að huga bæri að umfangi umhverfisáhrifa með tilliti til þess svæðis og fjölda fólks sem ætla mætti að yrði fyrir áhrifum, líkum á áhrifum, tímalengd, tíðni og óafturkræfi áhrifa, sbr. 3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð aukning jarðgerðar feli í sér aukna lyktar-mengun á takmörkuðum tímabilum í núverandi og fyrirhugaðri íbúðarbyggð í nágrenninu. Lyktarmengun kunni að hafa áhrif á lítinn fjölda fólks því samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi á tímabilinu frá 1. júní 2017 til 12. september 2018 borist 88 tilkynningar frá 25 nágrönnum, m.a. vegna starfsemi framkvæmdaraðila. Þar af séu 56 kvartanir frá fimm aðilum. Fyrirhuguð framleiðsluaukning muni hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð, en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á þessu svæði verði að ræða. Skipulagsstofnun telji þó að með mótvægis-aðgerðum eigi að vera unnt að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif framleiðslunnar m.t.t. lyktarónæðis og sé ástæða til að ætla að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir skili tilskildum árangri. Þær þurfi þó að rata inn í starfsleyfi sem skilyrði.
Löggjafinn hefur ákveðið að metið verði hverju sinni hvort endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð séu meira en 500 tonn á ári sé líkleg til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram. Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar studd haldbærum rökum um að svo hátti ekki til um fyrirhugaða jarðgerð, þótt hún sé töluvert yfir því tölulega viðmiði sem tiltekið er í tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Við undirbúning ákvörðunar sinnar lagði Skipulagsstofnunin viðhlítandi mat á þá þætti sem máli skiptu og vörðuðu það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt. Við það mat var og tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga. Stofnunin var ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað var sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og lagði sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfis-áhrifum að rannsökuðu máli. Aflaði stofnunin í því skyni m.a. áhættumats framkvæmdaraðila vegna starfseminnar og úrbótaáætlunar sem unnin var af honum í kjölfar athugasemda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Var vísað til hvoru tveggja í hinni kærðu ákvörðun. Rannsókn málsins var því fullnægjandi og meðferð málsins ekki áfátt að öðru leyti.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.