Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2021 Selvogsgata

Árið 2021, fimmtudaginn 18. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 2. júní 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir geymsluskúr á lóðinni Selvogsgötu 3.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingar­­fulltrúa Hafnarfjarðar frá 2. júní 2021 að samþykkja byggingaráform fyrir skúr á lóðinni Selvogs­­götu 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfirði 7. júlí 2021.

Málavextir: Á lóðinni Selvogsgötu 3 stendur einbýlishús og er skráð byggingarmagn á lóðinni 190,8 m2. Lóðin var stækkuð um 76 m2 með nýju deiliskipulagi fyrir Suðurbæ sunnan Hamars sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2014 og hámarksbyggingarmagn aukið í 200 m2. Lóðirnar Selvogsgata 3 og Brekkugata 25 liggja saman við ­suður­mörk hinnar síðarnefndu. Samkvæmt aðaluppdráttum sem samþykktir voru með áritun byggingarfulltrúa 5. október 1989 stendur bílgeymsla á Brekkugötu 25. Er langhlið hennar í 0,5 m fjarlægð frá framan­­greindum lóðamörkum og skammhlið við útmörk lóðarinnar í austur. Eftir stækkun lóðarinnar er Selvogsgata 3 dýpri til austurs og liggja lóðirnar nú einnig saman við austurmörk Brekku­götu 25 og nær skammhlið bílgeymslunnar því nú að mörkum lóðanna. Ágreiningur hefur verið á milli eigenda lóðanna um framkvæmdir og nýtingu á þeim hluta Selvogs­götu 3 er liggur að skammhlið bílgeymslunnar við austurmörk­ Brekkugötu 25 og felldi úrskurðar­nefndin hinn 2. febrúar 2017­­ úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 9. nóvember 2016 um að veita eiganda Selvogsgötu 3­­ framkvæmdaleyfi fyrir því að steypa upp í vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli þar sem um byggingar­leyfis­skylda framkvæmd væri að ræða.

 Eigandi Selvogsgötu 3 sótti um leyfi til að rífa geymsluskúr á lóðinni hinn 23. október 2015 og sam­þykkti byggingar­­fulltrúi niðurrif skúrsins á afgreiðslufundi skipulags- og byggingar­fulltrúa 4. nóv­ember s.á. Á sama fundi var fært til bókar að umsókn eiganda Selvogsgötu 3 um að breyta skúr á lóð í bílskúr/geymslu væri vísað til umferðarráðshóps hjá umhverfis- og skipulags­þjónustu. Hinn 18. s.m. samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna skv. 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 erindi um að breyta skúr á lóð Selvogsgötu 3 í bíl­skúr/geymslu. Afgreiðslu erindisins var frestað 27. janúar 2016 þar til búið væri að fara yfir athugasemdir. Hinn ­25. júlí 2018 samþykkti skipulagsfulltrúi, með vísan til 2. gr. samþykktar um embættis­afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 4. maí 2004, að grenndar­­kynna umsókn eigenda Selvogsgötu 3 um leyfi til að endurbyggja geymslu með stækkun. Athugasemd barst frá kæranda á kynningartímanum og var erindinu vísað til afgreiðslu skipulags- og byggingar­ráðs 19. september 2018. Í kjölfar þess að nýjar teikningar bárust var erindi um endur­byggingu geymslu með stækkun tekið fyrir að nýju á afgreiðslu­fundi skipulags- og byggingar­­fulltrúa 30. mars 2021. Erindið var ekki talið samræmast deiliskipulagi, en þar sem um óverulega breytingu væri að ræða var ákveðið að grenndar­­­kynna erindið skv. 44. gr. skipulags­­laga, og samkvæmt fundargerð sat skipulags­fulltrúi ekki fundinn. Erindið var grenndar­­kynnt með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga frá 12. apríl 2021 til og með 17. maí s.á. og barst athugasemd frá kæranda 12. maí s.á. Byggingar­áform um að reisa 24 m2 skúr í horni lóðarinnar þar sem áður stóð geymsluskúr voru samþykkt í samræmi við skipulagslög og lög um mannvirki 2. júní ­s.á.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur sveitarfélagið hafa gengið fram með ólögmætum hætti í málinu og vísar m.a. til almennra reglna um grenndarrétt. Kærandi hafi um nokkurra ára skeið reynt að verja réttindi sín gagnvart nágranna sínum sem hyggist byggja bílskúr á lóðamörkum eignanna og nota gafl geymsluskúrs kæranda sem vegg. Ekki geti gengið að samþykkt séu byggingar­­­áform fyrir mannvirki alveg upp að mannvirki á aðliggjandi lóð án samþykkis hlut­að­eigandi. Yrði það talið heimilt gætu menn byggt ofan í eignum annarra sem ekki gætu sinnt viðhaldi á eignum sínum þar sem þeir kæmust ekki að þeim.

Tillaga að núgildandi deili­skipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars hafi verið auglýst 27. mars 2014 en stækkun lóðarinnar Selvogsgötu 3 fyrst verið samþykkt af skipulags- og byggingar­fulltrúa 2. apríl s.á­. og ekki tekið gildi fyrr en við samþykkt bæjarstjórnar 3. september s.á. Hins vegar hafi fyrr­greint deiliskipulag Suðurbæjar sunnan Hamars tekið gildi 7. júlí s.á. með birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda. Til austurs fyrir ofan geymsluskúr á lóð kæranda hafi áður verið bæjarland. Á því hafi ekkert mann­virki staðið og kærandi átt greiðan aðgang að gafli skúrs síns. Lóðin að Selvogs­­götu 3 hafi nú verið stækkuð þannig að hún liggi á tvo vegu að vegg geymsluskúrs kæranda. Ekki hafi verið haft samráð við hann um stækkun lóðarinnar. Þá hafi stækkunin ekki verið afmörkuð í deiliskipulaginu og ekki hefði mátt setja nýtt skipulag með stækkun lóðar­innar án þess að kæranda væri, með kvöðum eða öðrum hætti, tryggð aðkoma að hliðum síns skúrs, sbr. gr. 5.3.2.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Umsókn um niðurrif bílskúrs hafi verið sett fram í blekkingarskyni svo fara mætti framhjá lögum og reglum um deiliskipulag og byggingarleyfi. Þetta hafi verið gert til þess að síðar mætti sækja um „endurbyggingu“ bílskúrs og ekki þyrfti samþykki lóðareiganda Brekkugötu 25, sem hefði þurft ef enginn bílskúr eða geymsla hefði áður staðið þarna. Í deiliskipulagi fyrir svæðið séu skilmálar fyrir bílskúra og heimild til að reisa þá innan byggingarreita lóða sem sýndir væru í skipulaginu fyrir þá. Ekki sé sýndur byggingar­reitur fyrir bílskúr á lóð Selvogs­götu 3.

Hafnarfjarðarbær hafi ekki farið að lögum í málinu heldur grenndarkynnt byggingar­leyfis­um­sóknir án þess að breyta deiliskipulagi fyrst. Hin kærða ákvörðun hafi ekki verið færð í deili­skipulag með breytingu sem birt hafi verið í Stjórnar­tíðindum.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Sveitarfélagið bendir á að hinn umdeildi skúr muni vera fyrir aftan skúr sem fyrir sé á lóð kæranda á lóðamörkum umræddra lóða. Hæðarmunur á lóðunum sé nokkur en hinn fyrirhugaði skúr muni einungis vera 87 cm hærri en skúr sem fyrir sé á lóð kæranda að Brekkugötu 25. Skúrinn muni ekki hafa áhrif á útivistarmöguleika, skuggavarp, inn­sýn eða annað í garðinum á þeirri lóð. Þá hafi áður staðið skúr á umræddum stað og nú hafi verið veitt leyfi til að byggja þar geymsluskúr. Fyrir mistök hafi starfsmaður bæjarins skráð að sótt hefði verið um niðurrif bílskúrs þrátt fyrir að á umsókn hafi komið fram að sótt væri um niður­­rif skúrs. Ómögulegt sé að hafa bílskúr á umræddum stað, innst innan lóðar og útgefið leyfi sé fyrir geymsluskúr.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að bygging skúrs á lóð hans lúti ákvörðunar­­­­­valdi skipulagsyfirvalda og nágranni hans eigi aðeins rétt til að stöðva framkvæmdir vegna svokallaðs smáhýsis.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar frá 2. júní 2021 að samþykkja byggingaráform fyrir skúr á lóðinni Selvogs­götu 3, að undangenginni grenndarkynningu.­

­­­Líkt og fram hefur komið var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingar­fulltrúa 30. mars 2021 ákveðið að grenndarkynna erindi um endurbyggingu á geymslu með stækkun á umræddri lóð þar sem það samræmdist ekki deiliskipulagi en um óverulega breytingu væri að ræða og málsmeðferð færi skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrirhuguð deiliskipulags­breyting hefur hins vegar ekki tekið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og verður því ekki tekin afstaða til gildis hennar. Deili­skipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars frá árinu 2014 er því óbreytt varðandi umrædda lóð. Þar kemur m.a. fram að stærð lóðarinnar Selvogsgötu 3 hafi verið 370 m2 en verði 446 m2, byggingar­magn á lóðinni sé aukið um 10 m2 og hámarksbyggingarmagn verði 200 m2.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samþykkt séu áform fyrir endurbyggingu geymslu, 24 m2 að stærð. Samkvæmt skráningu í fasteignaskrá er stærð þess húss sem stendur á umræddri lóð 190,8 m2. Á aðaluppdrætti með grunnmynd, sem samþykktur var með áritun byggingar­fulltrúa 2. júní 2021, kemur fram að flatarmál íbúðarhluta húss sé 190,8 m2, flatarmál geymslu 24 m2 og að flatarmálið sé alls 214,8 m2. Er því ljóst að samþykkt byggingaráform vegna geymslu eru umfram hámarksbyggingarmagn lóðarinnar samkvæmt gildandi deili­skipulagi.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis upp­fylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Samkvæmt ákvæðinu tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykki byggingaráforma, enda sé fyrir­huguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingar­­­­leyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Voru byggingar­­­áformin því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í fyrr­greindum ákvæðum mannvirkjalaga.

Heimiluð skúrbygging samkvæmt hinni kærðu ákvörðun liggur að hluta til við lóðamörk Selvogs­­­götu 3 og lóðar kæranda og verður fyrirhugaður skúr samkvæmt upplýsingum sveitar­félagsins 87 cm hærri en skúr sá sem fyrir er við lóðamörkin á síðarnefndri lóðinni. Mun byggingin því óhjákvæmilega hafa einhver grenndaráhrif gagnvart lóð kæranda. Eru skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulags­­laga til frávika frá deiliskipulagi af þeim sökum ekki uppfyllt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 2. júní 2021 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir skúr á lóðinni Selvogsgötu 3.