Árið 2024, fimmtudag 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 145/2023, beiðni um að úrskurðað verði hvort framkvæmd vegna þriggja forðatanka, sem geyma eiga söfnunarvatn á vatnstökusvæði ofan Hrísáss í landi Indriðastaða í Skorradal og viðeigandi leiðslu, sé framkvæmdaleyfisskyld.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, óskar Vatnsveitufélag sumarhúsaeigenda í Indriðastaðalandi eftir því að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort að framkvæmd vegna þriggja forðatanka sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum sé framkvæmdaleyfisskyld.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. janúar 2024.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 28. nóvember 2023 var tekin fyrir fyrirspurn Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda Indriðastaðalands. Spurt var hvort framkvæmd sem félagið hyggst fara í til að auka vatnsöflun á vatnstökusvæði félagsins ofan Hrísáss í landi Indriðastaða væri framkvæmdaleyfisskyld. Svar skipulags- og bygginganefndarinnar var að framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld í skilningi 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Af hálfu vatnsveitufélagsins er vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd felist í að koma fyrir þremur forðatönkum sem geyma eigi söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum, bæði brunnum sem þegar séu fyrir hendi og einum nýjum vatnstökubrunni. Þá sé fyrirhugað að leggja nýja vatns-lögn frá nýjum brunni að forðatönkum og frá nýjum forðatönkum að núverandi vatnslögn. Að mati félagsins hafi fyrirhuguð framkvæmd einungis óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess í skilningi 2. mgr. 5. gr reglugerðar nr. 772/2012 og skuli því ekki háð framkvæmdaleyfi. Í ákvæðinu sé t.d. sérstaklega talið upp í dæmaskyni að „óveruleg tilfærsla á veitumannvirkjum“ teljist til þeirra framkvæmda sem undantekningin eigi við um. Vísist til meðfylgjandi ljósmynda af frágangi núverandi safnbrunna og forðatanka, þar sem sjáist að mannvirkin hverfi nær alveg í umhverfið og séu að langmestu leyti neðanjarðar. Þá hafi sveitarfélagið vísað til þess í skipulagsskilmálum að svæðið sem um ræði sé ætlað til vatnstöku. Í greinargerð með deiliskipulagi frístundabyggðar við Skálalæk í landi Indriðastaða komi fram í kafla 3.4. að stofnæðar kaldavatnsveitu séu lagðar frá miðlunartanki og heitt vatn sé fengið frá hitaveitu Skorradals. Lögnum kaldavatnsveitu, heits vatns og rafmagns skuli komið fyrir í vegsvæði og stígum eins og kostur er. Í kafla 1.6. komi fram að grunnvatn komi úr lindum í um 300 m fjarlægð frá núverandi miðlunartanki. Komi þær úr berggrunni sem liggi hærra en 150 m y.s. Vatnsrennsli úr þeim sé talið vera a.m.k. 14 l/s, meginhluta ársins. Auk þessa vatnstökusvæðis spretti vatn tæpum einum km vestar í 180 m y.s. Þar sé líklegt að ná megi einum til þremur sekúndulítrum af lindarvatni. Þetta í heild sinni sé talið nægjanlegt vatn fyrir fyrirhugaða byggð á Indriðastöðum miðað við eðlilega vatnsnotkun.
Í greinargerð á skipulagsuppdrætti fyrir Stráksmýri í landi Indriðastaða komi fram að vatns-, hita- og rafveita séu á svæðinu. Neysluvatn sé tekið úr lind ofan við frístundabyggðina og leitt niður í hverfið. Við lagningu nýrra veitna eða viðhald á núverandi veitum í jörðu skuli miða við að veitur verði í eða við vegsvæði þar sem því verður komið við.
Í athugasemdum Skorradalshrepps til nefndarinnar er tekið fram að miðað við framlögð gögn sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Matið byggi á því að raskað svæði fyrir vatnstöku stækki töluvert frá því sem nú sé, þ.e. tveir vatnstökubrunnar muni bætast við í tveimur óröskuðum giljum, 75 m3 forðatanki verði komið fyrir í hlíð fyrir ofan byggðina og PE ⌀110 slökkvilögn muni liggja ofanjarðar frá öðrum vatnstökubrunninum. Ekki komi fram hvort PE ⌀75 söfnunarpípa sem liggi frá hinum vatnstökubrunninum niður í núverandi forðatank muni verða plægð niður eða grafin, en það hafi áhrif á ásýnd svæðisins til lengri tíma verði hún grafin niður í stað þess að vera plægð. Sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin hafi áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Um sé að ræða framlengingu á stofnlögnum og nýja stofnbrunna og muni framkvæmdin því raska mun stærra svæði en þegar sé raskað.
Niðurstaða: Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglu-gerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutað-eigandi sveitarstjórn eða sveitarfélagi heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.
Samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi leyfi til fram-kvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Dreifi- og flutningskerfi vatnsveitu er undanþegið byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010. Tekið er fram í gildissviðsgrein þeirra að lögin gildi um alla þætti mann-virkja, þ.m.t. lagnir. Þá fellur dreifikerfi vatnsveitna innan hugtaksins mannvirki skv. lögunum.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Hvort framkvæmdir teljist leyfisskyldar samkvæmt þessari grein verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig með hliðsjón af staðháttum.
Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 eru taldar upp framkvæmdir sem talist geta verið óverulegar og séu því ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar. Með óverulegri framkvæmd er átt við framkvæmd sem hefur óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Meðal þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru m.a. óveruleg tilfærsla á veitu-mannvirkjum og óveruleg frávik á framkvæmdum sem þegar hafa fengið útgefið framkvæmda-leyfis og falla ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.
Með fyrirhugaðri framkvæmd er ráðgert að endurbæta vatnsveitu fyrir sumarhúsahverfi með því að koma fyrir þremur forðatönkum sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstökubrunnum, bæði brunnum sem þegar eru fyrir hendi og einum nýjum vatnstökubrunni. Einnig felst í framkvæmdinni að leggja nýja vatnslögn frá nýjum brunni að forðatönkum og frá nýjum forðatönkum að núverandi vatnslögn. Framkvæmdin er fyrirhuguð á svæði þar sem þegar er vatnstaka og er ætluð til að auka afkastagetu. Af gögnum máls þessa má ráða að um tímabundið rask verði að ræða sem ekki er líklegt til að skilja eftir sig varanleg sjáanleg ummerki. Með hliðsjón af því verður að álíta að framkvæmdin sé ekki meiri háttar og verði því ekki álitin háð framkvæmdaleyfi.
Úrskurðarorð:
Fyrirhuguð framkvæmd vegna þriggja forðatanka sem geyma eiga söfnunarvatn úr vatnstöku-brunnum á vatnstökusvæði ofan Hrísáss í landi Indriðastaða í Skorradal og viðeigandi leiðslu er ekki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.