Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

143/2007 Helluhraun

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 143/2007, kæra eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. október 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir J, f.h. eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Með umsókn til sýslumannsins á Húsavík, dags. 25. júlí 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til sölu gistingar á einkaheimilum að Helluhrauni 15 og 16 í Reykjahlíð.  Með leiðréttu bréfi embættis sýslumanns, dags. 20. september 2006, var óskað umsagnar sveitarstjórnar um umsóknina.  Á fundi sveitarstjórnar 12. október 2006 var samþykkt beiðni kæranda er laut að Helluhrauni 15 en varðandi Helluhraun 16 var samþykkt að fela sveitarstjóra að láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bárust þrjár athugasemdir fyrir tilskilinn tíma og ein degi síðar.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 23. ágúst 2007 var eftirfarandi samþykkt:  „Sveitarstjórn getur tekið undir með íbúum Helluhrauns að aukinn gistirekstur í götunni þýði aukna umferð og ónæði.  Þá tekur sveitarstjórn undir með íbúum götunnar að gistirekstur að Helluhrauni 16 getur að óbreyttu teppt aðgengi að Heilsugæslustöðinni.  Sveitarstjórn hafnaði með þremur atkvæðum gegn tveimur að verða við óskum Eldár ehf. um leyfi til reksturs gistingar að Helluhrauni 16.“  Með bréfi, dags. 27. september 2007, var framangreind bókun tilkynnt embætti sýslumanns. 

Hefur kærandi kært framangreinda samþykkt svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að bókun meirihluta sveitarstjórnar sé ekki studd haldbærum rökum ásamt því að vera að öllum líkindum brot á jafnræðisreglu. 

Af hálfu sveitarfélagsins er tekið undir athugasemdir þær er bárust við kynningu á erindi sýslumanns. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lagði fram umsókn hjá sýslumannsembættinu á Húsavík, m.a. um leyfi til sölu gistingar í þremur herbergjum í húsinu að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð, og óskaði embættið eftir umsögn sveitarstjórnar.  Kaus sveitarstjórn að grenndarkynna erindið með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, án þess þó að beiðni um byggingarleyfi eða skipulagsbreytingu lægi fyrir sveitarstjórn.  Var afgreiðsla sveitarstjórnar á umsagnarbeiðni sýslumanns aðeins liður í málsmeðferð á fyrrgreindri umsókn um leyfi til sölu gistingar.  Hin kærða afstaða sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún af þeim sökum ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Máli þessu er því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Aðalheiður Jóhannsdóttir