Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2016 Bræðraborgarstígur

Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Bræðraborgarstíg 23a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2016.

Málavextir:
Hinn 15. nóvember 2011 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 36 m2 bílskúr, sem var 3,5 m á hæð, á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað bílskúrs sem fyrir var á lóðinni. Ekki var farið í þær framkvæmdir og féll byggingarleyfið af þeim sökum úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. febrúar 2016 var tekin fyrir ný umsókn um leyfi til þess að rífa bílskúr á nefndri lóð og reisa í hans stað stærri bílskúr, innar á lóðinni og fjær lóðarmörkum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. júní 2016 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina, með athugasemdafresti frá 24. júní til 21. júlí s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og lagt til að fyrirhugaður bílskúr yrði lækkaður. Hinn 4. október s.á. var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa leyfi fyrir 31,5 m2 bílskúr, 0,6 m frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið farið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Á fyrri stigum málsins hafi andmæla- og upplýsingaréttur ekki verið virtur og ekki verið tekið tillit til óskar kærenda um frest til að kynna sér gögn máls og gera grein fyrir afstöðu sinni. Núverandi bílskúr sé notaður sem geymsla og hafi hann upphaflega verið reistur án heimildar. Því sé haldið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að stækkun bílskúrs sé lítilsháttar, en um sé að ræða rétt tæplega tvöföldun á stærð skúrsins, úr 17 m2 í 31,5 m2, og mjög mikla hækkun. Núverandi bílskúr sé ekki 3 m hár eins og ranglega komi fram í umsögninni. Þar að auki sé verið að samþykkja nýtt bílastæði fyrir framan heimilaðan bílskúr og verði því bílgeymslur meðfram allri lóð kærenda.

Kærendur hafi óskað eftir því að fá að gera athugasemdir við staðsetningu bílskúrsins með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 16. september 2016. Í bréfinu hafi verið gerð tillaga um það að í stað þess að bílastæðið yrði fyrir framan bílskúrinn yrði það áfram við hlið hans. Þessi ósk kærenda hafi hins vegar verið virt að vettugi og aldrei tekin til umfjöllunar. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um afgreiðslu málsins sé lögð áhersla á að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli samþykktar frá árinu 2011, en sú samþykkt sé fallin úr gildi. Nýtt mál verði að meta sjálfstætt. Því sé mótmælt sem fram komi í sama bréfi að kærendur hafi ekki fært fram rök fyrir þeim skaða og því ónæði sem fylgja muni umræddri byggingu. Það sé alrangt. Lóð kærenda sé mjög lítil og fái sitt fagurfræðilega gildi og verðmæti af því græna opna svæði sem þarna sé. Sú breyting sem felist í hinni kærðu ákvörðun muni jafnframt draga úr notagildi lóðarinnar þar sem upplifun verði ekki söm. Í framangreindu bréfi sé látið að því liggja að komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda, en það eigi ekki við rök að styðjast.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 og hagsmunaaðilum hafi verið kynnt fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn. Rétt sé að með tölvupósti hinn 30. júní 2016 hafi kærendur óskað eftir lengri fresti til að kynna sér umsóknina og koma með athugasemdir, en láðst hafi að taka formlega afstöðu til frestbeiðninnar. Ætla verði að þeirri beiðni hefði verið hafnað, enda hafi þess verið óskað að málinu yrði frestað þar til eftir að sumarleyfum kærenda lyki í lok ágústmánaðar, eða um sex vikur. Verði heldur ekki annað sé en að kærendur hafi haft nægan tíma til kynna sér gögn málsins, sem hafi borist þeim 27. júní s.á., og hafi þeir því haft fimm vikur til að kynna sér þau. Almennt sé orðið við óskum um framlengingu athugasemdafrests ef sérstakar ástæður komi til, s.s. að gögn hafi borist of seint, en almennt sé verði ekki framlengt lengur en sem nemi einni viku til tíu dögum. Allt að einu hafi kærendur komið að athugasemdum með tölvupósti 20. júlí 2016 og hafi þær verið teknar til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði lögum samkvæmt.

Engu breyti í máli þessu hvort bílskúrinn sem fyrir sé á umræddri lóð hafi verið reistur í óleyfi eða ekki, enda sé með samþykktinni veitt heimild til að rífa þá skúrbyggingu. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda kærenda hafi komið fram að á árinu 2011 hafi verið samþykkt byggingaráform fyrir um 36 m2 bílskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið byggður. Þar sé fyrir 17 m2 bílskúr, sem teljist frekar lítill samkvæmt byggingarreglugerð. Fallist hafi verið á athugasemdir kærenda við hæð skúrsins og hafi því verið lagt til að hann yrði ekki hærri en samþykkt hefði verið árið 2011, eða 3,5 m, en núverandi skúr væri sagður 3 m á hæð. Dýpt skúrsins ætti ekki að hafa áhrif á ásýnd frá aðliggjandi lóð. Bílskúrinn sé að auki færður fjær lóðamörkum en núverandi skúr, eða um 0,6 m. Ekki sé verið að samþykkja bílastæði á lóðinni en eðlilegt sé að hægt sé að leggja einni bifreið fyrir framan einfaldan bílskúr.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað eldri bílskúrs sem skyldi fjarlægður. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þó svo að láðst hafi að taka afstöðu til beiðni kærenda um framlengingu á athugasemdafresti verður ekki séð að það hafi valdið þeim réttarspjöllum. Þeir komu athugasemdum sínum að við grenndarkynninguna. Þær voru teknar til umfjöllunar og afstaða tekin til þeirra. Kærendum var síðan tilkynnt um niðurstöðu málsins í samræmi við fyrirmæli nefnds ákvæðis skipulagslaga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hinn nýi bílskúr samkvæmt leyfinu 31,5 m2 að flatarmáli með 2,10 m vegghæð og 3,50 m mænishæð. Skúr sá sem fyrir er á lóðinni og skal fjarlægður er 17,25 m2 að flatarmáli, með einhalla þaki, og 2,38 m hár þar sem hann er hæstur. Sá skúr er á mörkum lóða leyfishafa og kærenda, en heimilaður bílskúr mun standa 0,6 m frá nefndum lóðamörkum og um 2 m innar á lóð en sá eldri. Staðsetning bílskúranna er í norð-austur frá lóð kærenda. Að því virtu verður ekki ráðið að hinum nýja bílskúr fylgi merkjanlega aukin grenndaráhrif frá því sem fyrir var á lóð kærenda, svo sem aukið skuggavarp.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkar úr 0,41 í 0,44, eða um 7%, en nýtingarhlutfall á næstu lóðum er sambærilegt eða hærra. Þá eru fordæmi í hverfinu fyrir bílskúrum af svipaðri stærð og hér um ræðir. Hið kærða byggingarleyfi er því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson