Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 140/2016, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Bræðraborgarstíg 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 að synja umsókn um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar kærenda í húsinu að Bræðraborgarstíg 30. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. desember 2016.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2016 var lögð fram umsókn kærenda um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar þeirra í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. s.m. og það afgreitt með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2016“, en í umsögninni var talið að erindið samræmdist ekki markmiðum deiliskipulags fyrir umrætt svæði.
Í nefndri umsögn kom m.a. eftirfarandi fram: „Þann 06.05.2016 var samþykkt hjá byggingarfulltrúa umsögn þar sem að samskonar erindi var ávarpað. Þar kemur m.a. fram: „Vegna forsögu málsins, að óánægja var meðal nágranna um bygginguna og ekki síst vegna þéttleika hverfisins, var talið mikilvægt að húsin sem byggð yrðu, myndu hafa létt yfirbragð. Meðal þess var að byggingarnar að Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Nýtingarhlutfall er nokkuð hátt á lóðinni og var ekki talin ástæða til að auka byggingarmagnið. Því var á fundi skipulagsstjóra 15.5.2009 ekki fallist á að byggja yfir svalirnar.“ Þó svo að þetta erindi fjalli um gustlokun og eigi því ekki að hreyfa við nýtingarhlutfalli deiliskipulagsins, þá er það hinsvegar markmið deiliskipulagsins að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.“
Tók byggingarfulltrúi málið fyrir að nýju 27. september 2016 og synjaði umsókninni með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrri eigendur íbúðar þeirra hafi óskað eftir því að fá að reisa steinsteypta byggingu yfir svalir sem tilheyri íbúðinni. Þeim áformum hafi verið synjað á þeirri forsendu að nágrannar hússins að Bræðraborgarstíg 32 væru mótfallnir slíkri byggingu og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði of hátt. Kærendur hafi hins vegar óskað eftir því að fá leyfi til að setja upp létta svalalokun á milli húsanna nr. 30 og 32. Hafi byggingarfulltrúi tilkynnt þeim að málinu væri lokið þar sem verið væri að sækja um það sama og áður. Þar sem niðurstaða byggingarfulltrúa hafi fjallað um allt aðra og eldri beiðni hafi kærendur farið fram á að mál þeirra fengi efnislega meðhöndlun. Við synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda hafi verið byggt á umsögn sem ekki varði beiðni þeirra, heldur sé vísað til þéttleika, nýtingarhlutfalls og óánægju nágranna frá árinu 2009.
Á teikningum komi fram að fyrirhuguð svalalokun nái ekki að gafli húss nr. 32. Komi hún því ekki til með að hindra aðgengi að gaflinum fremur en nú sé. Af þessu leiði að lokunin varði ekki íbúa hússins að Bræðraborgarstíg 32 og sé hvorki um að ræða aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar né þéttingu hverfisins. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi teikningar verið ranglega túlkaðar. Sé gustlokunin opnanleg endanna á milli þar sem hún liggi meðfram gafli Bræðraborgarstígs 32, í a.m.k. 40 cm fjarlægð. Svalalokunin sé úr gleri og því með létt yfirbragð. Hún muni ekki sjást frá götunni.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa falli umsóknin ekki að markmiðum deiliskipulags Holtsgötureits um að yfirbragð byggðarinnar sé létt og að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) séu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Teikning sem sýni gustlokun meðfram húsvegg aðliggjandi húss og tengi saman nánast alla hlið hússins geti ekki uppfyllt markmið um aðgreindan húskropp né slitið frá. Breyti engu í þessu samhengi þó svalalokunin sé úr gleri. Ekki verði annað af teikningu ráðið en að um sé að ræða lokaðan skála, þótt talað sé um gustlokun, en í umsögn skipulagsfulltrúa sé lokunin þó ávörpuð sem gustlokun. Þótt hún væri opnanleg væri það á hendi kærenda hvort opnað væri á milli.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa er taldi að hin umsótta breyting væri ekki í samræmi við markmið deiliskipulags fyrir umrætt svæði um að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.
Húsið að Bræðraborgarstíg 30 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Holtsgötureits. Þar sem húsið stendur gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir nýbyggingum á sameinaðri lóð. Í skipulagsskilmálum er tekið fram að byggingarreitum á lóðinni sé skipt í einingar og að byggingarlína við götu sé bindandi. Þá er gerður áskilnaður um að í útliti húsanna skuli koma fram mismunandi sérkenni sem undirstriki takt götumyndar og skilji á milli reitanna. Um nánari útlistun á útliti húsanna er vísað til greinargerðar deiliskipulagsins. Þar segir eftirfarandi: „Gerð er krafa um að hvert húsnúmer hafi sérkenni í útliti sem skilur það frá húsum til beggja hliða. Þannig skal hver eining/húsnúmer undirstrika takt í götumynd með því að götuvegg sé skipt upp í lóðréttar einingar. Hver lóðrétt eining er eitt húsnúmer. Mismunandi einkenni geta falist í gluggasetningu, efnisvali, stöllun o.fl. Æskilegt er að höfð sé hliðsjón af frágangi nærliggjandi húsa svo sem dýpt glugga í vegg, hlutfalla í gluggum og þakköntum.“
Þá er að því vikið í almennum atriðum deiliskipulagstillögunnar að markmið hennar sé að gera skilmála fyrir óbyggðar lóðir á skipulagsreitnum og fyrir þau hús sem byggja má við eða breyta þannig að við frekari uppbyggingu á reitnum sé til skýr heildarstefna sem leiði til rökrænnar heildarmyndar á byggðamynstri reitsins. Markmiðið sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Tryggja skuli að nýbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir sé. Leitast skuli við að aðlaga nýbyggingar og viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild. Einnig skuli taka tillit til sérkenna svo sem dýptar glugga í veggjum og hlutfalla í þakköntum.
Er þannig m.a. tekið fram í skipulagsskilmálum sameinaðrar lóðar Holtsgötu 1-3 og Bræðraborgarstígs 32a að „í útlitum húsa skulu koma fram mismunandi sérkenni sem undirstrika takt götumyndar og skilji á milli reitanna.“ Húsið að Bræðraborgarstíg 30 liggur að húsinu nr. 32 við Bræðraborgarstíg, utan fjórðu hæðar hússins nr. 30, sem nýtir einungis hluta þakflatar þriðju hæðar þess. Segir svo á framlögðum byggingarteikningum að gustlokunin sé mynduð með álrömmum með öryggisgleri sem liggi á brautum og sé opnuð með því að renna römmunum til hliðar. Rúmmál sé 45 m³.
Að mati úrskurðarnefndarinnar myndi hin umsótta framkvæmd ekki hafa þau áhrif á götumynd að á svig yrði farið við greind skilyrði deiliskipulagsins. Þá verður hvorki séð að í deiliskipulaginu sé gerður sérstakur áskilnaður um að yfirbragð byggðarinnar sé létt né að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 skuli vera aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32, líkt og segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Erindi kærenda var því synjað með rökum sem byggðust á túlkun skipulagsskilmála á þann veg sem úrskurðarnefndin telur að ekki fái staðist.
Að framangreindu virtu byggði hin kærða ákvörðun á röngum forsendum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.