Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 138/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innan húss að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Búðavegi 24, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði 22. september 2021 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 30. ágúst 2021.
Málavextir: Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var umsókn leyfishafa lögð fram þar sem sótt var um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar, 147,5 m2 og 652,7 m2 að flatarmáli, í kverk austan frystitækjasalar og norðan við núverandi pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði. Kemur fram í umsókninni að bæta eigi við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði í því skyni að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Nefndin samþykkti að grenndarkynna umsóknina. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi 24. júní s.á. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 23. s.m. Þar kom fram að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að útreikningar um að hljóðstig yrði innan tilskilinna marka væru réttir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að hús þeirra sé einbýlishús sem standi á ódeiliskipulögðu svæði innan reitar M1, miðsvæðis, samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Til suðausturs við fasteign kærenda standi vinnslustöð leyfishafa við Hafnargötu, einnig á ódeiliskipulögðu svæði en innan reitar H3/I1, sem sé hafnar- og iðnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Frá suðausturhorni húss kærenda að norðvesturhorni fasteignar leyfishafa séu um 23 m. Hávaði frá vinnslustöðinni hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda sem hafi allt frá því að þau hafi keypt fasteignina árið 2017 gert athugasemdir við hávaða frá starfsemi leyfishafa, án þess að gripið hafi verið til viðeigandi úrræða. Þau hafi því verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta í tengslum við ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem hafi áhrif á umfang starfsemi leyfihafa.
Óumdeilt sé að hávaði frá núverandi starfsemi leyfishafa sé meiri en heimilt sé samkvæmt reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Mestur hávaði berist frá eimsvölum sem staðsettir séu við norðvesturhorn fasteignar leyfishafa gegnt fasteign kærenda. Einnig berist hljóð frá öðrum þáttum starfseminnar, svo sem þegar slegið sé úr frystipönnum, frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks. Samkvæmt mælingum verkfræðistofu sem framkvæmdar hafi verið að beiðni leyfishafa 8. september 2020 hafi jafngildishljóðstig 0,5 m frá húsveggjum kærenda verið á bilinu 57,8-61,9 dB og hámarkshljóðstig farið allt upp í 74,1 dB. Samkvæmt reglugerð um hávaða skuli hávaði frá atvinnustarfsemi ekki vera yfir 50 dB við húsveggi nærliggjandi íbúðarhúsa yfir daginn, 45 dB að kvöldi og 40 dB að nóttu. Umrædd mæling hafi verið gerð að degi til en eimsvalarnir séu í gangi allan sólarhringinn.
Kærendur byggi á því að leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að með hinum umdeildu framkvæmdum verði ráðin slík bót á þeim hávaða sem frá starfseminni berist að hún verði innan leyfilegra marka samkvæmt framangreindri reglugerð um hávaða. Þá telji kærendur að bæjarráð og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Sé ákvörðun um veitingu byggingarleyfis þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.
Hávaði sem berist frá núverandi starfsemi vinnslustöðvarinnar að Hafnargötu 32-36 sé yfir leyfilegum mörkum. Á meðan svo sé ástatt sé brýnt að leyfishafi sýni fram á með óyggjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar muni tryggja að hávaði verði án undantekninga innan þessara marka áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum sem hafi í för með sér stækkun húsnæðis vinnslustöðvarinnar um 147,5 m2 og auki umsvif starfseminnar. Eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina hafi leyfishafi lagt fram minnisblað frá verkfræðistofu þar sem segi m.a.: „Frá fyrirhuguðum breytingum má búast við að hávaði verði að mestu frá eimsvala/kæliviftum. […] Í eftirfarandi útreikningum er gert ráð fyrir að jafngildishljóðstig yfir sólarhringinn frá eimsvala sé 43 dB við 70% afköst skv. framleiðanda. […] Á lóðamörkum í um 10 m fjarlægð frá eimsvala má búast við að hljóðstigið sé um Laeq 46 dB. Jafngildishljóðstigið utan við húsvegg Búðavegar 24 er áætlað um Laeq 39,5 dB.“ Í umsögn eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 20. júlí 2021, sé á því byggt að með þessu minnisblaði sé nægilega sýnt fram á að tryggt verði að hávaði frá starfseminni verði innan marka reglugerðar nr. 724/2008.
Kærendur telji hins vegar skorta verulega á að fyrir liggi fullnægjandi gögn um hver raunverulegur hávaði verði frá starfseminni eftir breytingar. Umrætt minnisblað sé ýmsum annmörkum háð og þær upplýsingar sem það veiti séu alltof takmarkaðar til að á því verði byggð ákvörðun um veitingu byggingarleyfis. Þeir útreikningar sem settir séu fram í minnisblaðinu horfi aðeins til eins hljóðgjafa, þ.e. nýs eimsvala, sem fyrirhugað sé að koma fyrir við vélasal vinnslustöðvarinnar. Útreikningarnir byggi ekki á raunmælingum á þessum búnaði, heldur aðeins á upplýsingum frá framleiðanda um eiginleika hans. Slíkar grunnupplýsingar, svo sem um gerð búnaðarins, stærð hans og hljóðstig sem hann gefi frá sér við mismunandi vinnslu, komi hins vegar ekki fram í minnisblaðinu og verði heldur ekki séð að þær liggi fyrir í öðrum gögnum málsins. Eins komi ekkert fram um fyrirhugaða staðsetningu eimsvalans né hljóðstyrk við uppsprettu hljóðsins. Það sé því engin leið að sannreyna þessa útreikninga eða heimfæra þá á aðstæður við vinnslustöðina.
Þá séu niðurstöður minnisblaðsins um jafngildishljóðstig frá þessum eina hljóðgjafa, nýjum eimsvala, aðeins 0,5 dB undir þeim mörkum sem sett séu í reglugerð um hávaða. Ekkert tillit sé tekið til þess að aðrar hljóðuppsprettur hafi áhrif á heildarhávaða frá starfseminni. Jafnvel þó gengið sé út frá því að hávaði berist „að mestu frá eimsvala/kæliviftum“ eins og lagt sé upp með í umræddu minnisblaði, sé ljóst að afar lítið þurfi að bætast við svo samanlagður hljóðstyrkur fari yfir leyfileg mörk. Með hliðsjón af þessu telji kærendur minnisblaðið engan veginn sýna fram á með fullnægjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar tryggi ásættanlega hljóðvist við fasteign þeirra. Með því að byggja ákvörðun sína alfarið á þessu minnisblaði hafi Fjarðarbyggð brugðist rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærendur telji það eðlilega kröfu að hljóðvist verði bætt og tryggt verði að hávaði sem frá starfseminni berist sé innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir frekari framkvæmdum sem komi til með auka umfang starfseminnar. Uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingaráformum og ekkert sem standi því í vegi að setja þann búnað upp áður en ráðist sé í aðrar framkvæmdir. Nauðsynlegt sé að sannreyna með nýjum hljóðmælingum, framkvæmdum af óháðum aðila, að hávaði frá starfseminni haldist innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir framkvæmdum sem óhjákvæmilega muni auka umfang hans.
Lítið hald sé í þeim almennt orðaða fyrirvara sem settur hafi verið við veitingu byggingarleyfisins „að tryggt verði í hönnunar- og framkvæmdaferli að hljóðvist verði innan tilskilinna marka“. Fyrir liggi að framkvæmdir séu hafnar án þess að gerðar hafi verið mælingar eða lögð fram ítarlegri hönnunargögn sem staðfesti að hljóðvist verði innan leyfilegra marka. Þá hafi ekki verið sett nein skýr skilyrði um eftirlit óháðra aðila eða úttekt að þessu leyti, hvorki fyrir framkvæmdir, meðan á þeim standi né að þeim loknum. Leyfishafa virðist þannig alfarið í sjálfsvald sett hvort og að hvaða leyti þessum óljósa fyrirvara verði fylgt eftir.
Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð við veitingu umdeilds byggingarleyfis hafi verið fullnægjandi og fyrirliggjandi gögn þess eðlis að forsendur hafi verið til að samþykkja framkvæmdirnar. Áréttað sé að meginreglur ógildingarfræða stjórnsýsluréttar feli í sér að ógilding stjórnvaldsákvörðunar komi ekki til greina nema að ákvörðun sé háð efnisannmarka eða að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt og að sá annmarki geti hafa haft áhrif á efni ákvörðunar. Þessi skilyrði ógildingar séu ekki uppfyllt. Þá sé bent á að meðalhófs hafi verið gætt sem birtist m.a. í því að byggingarleyfi hafi verið samþykkt með skilyrðum sem varði hagsmuni kærenda.
Mikilvægt sé að huga að hlutverki stjórnvalda á grundvelli reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Reglugerðin sé sett með stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Eftirlit og þvingunaraðgerðir varðandi hljóðmengun frá atvinnurekstri sé í grunninn hjá eftirlitsstjórnvöldum sem fari með starfsleyfi viðkomandi rekstrar eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga almennt. Það virðist því vera á valdsviði starfsleyfisveitanda að gera kröfur á starfsemi leyfishafa svo hljóðvist verði bætt.
Hins vegar sé ljóst að við útgáfu byggingarleyfa beri að líta til þýðingar framkvæmda varðandi hljóðvist, sbr. m.a. ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, einkum ákvæði 11. kafla og gr. 14.2.10. um hljóðvistarkröfur hita- og kælikerfa. Í gr. 14.2.10. komi m.a. fram að við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði skuli tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingu eða umhverfi hennar og að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. kafla reglugerðarinnar. Reyndar sé tekið fram að umdeilanlegt geti verið hvort ákvæði gr. 14.2.10. eigi við um framkvæmdir vegna uppsetningar nýs eimsvala. Líta megi svo á að þegar byggingarreglugerð vísi til hita- og kælikerfis sé átt við kerfi sem þjóni viðkomandi byggingu. Því eigi möguleg kæli- eða hitakerfi sem séu fremur hluti af þeirri verksmiðjustarfsemi eða iðnaði sem fram fari í byggingu ekki beinlínis undir gr. 14.2. Meginreglur 11. kafla reglugerðarinnar gildi þó í öllu falli. Markmið 11. kafla séu m.a. að byggingar og önnur mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt af völdum hávaða og óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Hávaði sem fólk í mannvirki eða næsta nágrenni skynji skuli vera viðunandi og ekki hærri en svo að það geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.
Það verði eðli máls samkvæmt að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða hönnun bygginga varðandi hljóðvist eða áhrif tækjabúnaðar og almennrar starfsemi á hljóðvist. Áhersla byggingarreglugerðar sé á hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist en ekki eftirlit með þeirri starfsemi sem fari fram eða muni fara fram. Þetta birtist t.d. í c-lið gr. 11.1.3 byggingarreglugerðar þar sem segi: „Sé byggt við hús eða annað mannvirki eða hluti þess eða heild er endurnýjuð ber hönnuði að staðfesta að hljóðvist hins nýja, breytta eða endurnýjaða mannvirkis fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.“
Það sé hins vegar ljóst að huga beri að staðsetningu tækjabúnaðar utanhúss, þ.m.t. kælikerfa, en eftirlit með tækjabúnaði eða virkni verksmiðjutækja, m.a. varðandi hljóðmengun, liggi hjá starfsleyfisveitanda. Hvað sem þessu líði sé sýnt að leyfisveitandi hafi í þessu máli byggt ákvörðun sína á tilliti til áhrifa eimsvala á hljóðvist í umhverfinu. Í umsögn byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2021, sé fjallað um skipulagslega stöðu svæða sem málið varði. Í fasteign leyfishafa hafi um langa hríð verið starfrækt fiskvinnsla. Fasteign kæranda sé á skilgreindu miðsvæði en um Búðaveg séu mörk svæðanna. Ekki sé verið að breyta notkun fasteignar leyfishafa.
Það sé í verkahring þess stjórnvalds sem starfsleyfi leyfishafa heyri undir að fylgja því eftir að hávaði frá starfsemi uppfylli kröfur reglugerðar um hávaða. Leyfisveitandi þurfi hins vegar að taka til umfjöllunar byggingarleyfisumsóknir og leggja mat á þær varðandi kröfur byggingarreglugerðar. Þær kröfur varði einkum hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist og staðsetningu lagna og tæknibúnaðar með tilliti til hljóðvistar. Í þessu tilviki megi líta svo á að leyfisveitandi hafi gengið lengra en kröfur byggingarreglugerðar gangi um hvernig líta skuli til sjónarmiða um bætta hljóðvist þegar hávaða sé að rekja til starfsleyfisskyldrar starfsemi og tækjabúnaðar sem ekki séu hluti af þjónustukerfi viðkomandi byggingar. Leyfisveitanda hafi þó verið heimilt að líta til slíkra þátta og í raun tekið tillit til áhrifa framkvæmda samkvæmt byggingarleyfisumsókn á hljóðvist, bæði vegna framkvæmdarinnar sjálfrar og varðandi heildaráhrif fyrir starfsemi á fasteign leyfishafa.
Í byggingarleyfisumsókn komi fram: „Bæta á við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunar mörkin Laeq07-19 50 dB fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.“ Í minnisblaði verkfræðistofu, dags, 8. júní 2021, sé gerð grein fyrir áhrifum eimsvala á hljóðvist á grunni upplýsinga um hljóðstig tækisins frá framleiðanda. Þar komi fram eftirfarandi niðurstaða: „Miðað við framangreindar forsendur og útreikninga er talið að í öllum tilfellum mun hljóðstig frá eimsvala vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.“
Í afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi svo komið fram að hljóðvist yrði mæld þegar framkvæmdum væri lokið og búnaður kominn í fulla virkni til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí 2021, komi fram bein skilyrði byggingarleyfis samkvæmt bókunum eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarráðs. Í því felist að eftirliti yrði fylgt eftir af hálfu leyfisveitanda og að ráðin yrði bót á hávaða frá starfsemi leyfishafa svo að hún yrði innan leyfilegra marka skv. reglugerð um hávaða. Það verði áfram hlutverk eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfisskyldum rekstri leyfishafa að gæta að því að vélbúnaður og skipulag starfsemi í heild verði með þeim hætti að kröfur reglugerðar um hávaða verði uppfylltar. Ef ástæða sé til frekari úrbóta megi gera ráð fyrir að leyfishafi þurfi þá samkvæmt athugasemdum viðkomandi eftirlitsstjórnvalds með starfsleyfi að leggja til frekari úrbætur sem mögulega geti verið byggingarleyfisskyldar þegar þar að kæmi.
Rannsókn leyfisveitanda hafi verið fullnægjandi og tekið mið af hlutverki hans samkvæmt byggingarreglugerð og þeim framkvæmdum sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir en gæta þurfi að hlutverki og valdsviði eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfi varðandi heildaráhrif vélbúnaðar og skipulags starfseminnar á hljóðvist. Þar fyrir utan liggi fyrir að leyfisveitandi byggi á því með vísan til gagna að framkvæmdir séu til þess fallnar að bæta hljóðvist fyrir starfsemina í heild og setja skilyrði um að það verði kannað og brugðist við ef á þurfi að halda.
Eðlilegt sé að leyfisveitandi leggi til grundvallar upplýsingar sem umsækjandi byggingarleyfis kynni vegna umsóknar sinnar. Það sé þó matsatriði hvort og að hve miklu leyti leyfisveitandi ráðist í heildarendurskoðun slíkra upplýsinga. Löggjöf um mannvirkjagerð á Íslandi byggi með almennum hætti á því að sá sem byggi mannvirki, þ.m.t. byggingarstjóri í hans umboði, og þeir fagaðilar sem komi að hönnun og byggingu mannvirkja beri ábyrgð á þeim. Gögn og útreikningar sem séu settir fram með forsvaranlegum hætti verði því lagðir til grundvallar við leyfisveitingar nema sérstakt tilefni sé til að véfengja þau. Minnisblöðin tvö sem unnin hafi verið af verkfræðistofu séu rökstudd og feli í sér greinilegar niðurstöður sem ekki hafi verið tilefni til að endurmeta. Þá sé einnig óraunhæft að framkvæma raunmælingar á hljóðstigi frá væntanlegum eimsvala áður en hann verði tekinn í notkun. Hins vegar sé gert ráð fyrir raunmælingum eftir að búnaðurinn verði tekinn í notkun.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því mótmælt að hávaði hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda. Þeim hafi verið fullkunnugt um að starfsemi færi fram að Hafnargötu 32 sem myndi framkalla hávaða þegar þau hafi keypt húsið. Bent sé á að ásett verð fasteignar kærenda hafi numið 14,5 m. kr. þegar hún hafi verið sett á sölu í október 2014. Kærendur hafi hins vegar keypt fasteignina á 24 m. kr. þann 24. júní 2017. Fæst því ekki staðist að hávaði hafi haft áhrif á verðgildi fasteignarinnar. Þá taki leyfisveitandi fram að aldrei hafi komið fram í svörum leyfishafa til kærenda að til standi að byggja nýtt hús og vinnslu á öðrum stað. Slík fjárfesting gæti numið á bilinu 5-6 ma. kr.
Eftir að kærendur hafi keypt fasteign sína hafi leyfishafi fundað með þeim og ákveðið að setja hljóðdeyfi á seinni eimsvalann strax í kjölfarið. Áður hefði verið settur hljóðdeyfir á hinn eimsvalann. Einnig sé rétt að benda á að leyfishafa sé ekki kunnugt um að kvartanir vegna hávaða hafi borist til Heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna starfseminnar. Hávaði vegna álpanna vinnslunnar muni verða að engu með plastpönnum í nýju vinnslukerfi. Með sjálfvirkni hinnar nýju vinnslu muni hávaði frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks einnig minnka til mikilla muna.
Hinn nýi eimsvali, svokallaður „low noice“ eimsvali, sé sérstaklega hannaður til að vera hljóðlátur. Auk þess afkasti hann um 77% af heildarþörf frystibúnaðar. Samanlagt sé því nýi eimsvalinn og hinir eldri tveir í yfirstærð, þ.e. 38% yfir þörfinni og þurfi því ekki að keyra eldri eimsvala á eins miklu álagi og þeir séu keyrðir í dag. Hinar nýju frystivélar, eimsvali og annar búnaður sé keyptur í einu lagi og afgreiddur frá sama framleiðanda sem hluti af nýju kerfi. Fullyrðingar kærenda um að uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingaráformum samkvæmt umsókninni eigi því ekki við rök að styðjast.
Minnisblað frá verkfræðistofu liggi fyrir þar sem niðurstaða mælinga tilgreini að í öllum tilvikum muni hljóðstig vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að fyrirliggjandi útreikningar séu rangir. Afstaða kærenda virðist frekar byggja á tilfinningu þeirra án þess að nokkur gögn eða útreikningar styðji fullyrðingar þeirra um að útreikningarnir séu rangir. Að lokum sé því mótmælt að fyrirvari byggingarleyfisins hafi ekkert vægi enda muni umræddar framkvæmdir leiða til þess að hljóðvist verði innan tilskilinna marka. Leyfisveitandi hafi fullar heimildir til að knýja á um að skilyrðum í byggingarleyfi verði framfylgt í hvívetna.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32, en í húsinu er rekin fiskvinnsla. Kærendur byggja málatilbúnað sinn helst á því að hávaði frá starfsemi á fasteigninni verði yfir þeim mörkum sem getið er um í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.
Í 4. gr. reglugerðar um hávaða kemur fram að í viðauka, töflum I-III, séu tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir LAeq 55 dB(A). Á kyrrlátu svæði skal hljóðstig í þéttbýli ekki fara yfir Lden 50 dB(A). Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að rekstraraðilar atvinnustarfsemi skuli miða rekstur sinn við að hljóðstig í byggð, sem verði fyrir áhrifum af starfseminni, verði ekki yfir mörkum í töflu III í viðauka. Í töflu III er fjallað um mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflunni eru mörk fyrir atvinnustarfsemi gagnvart íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum LAeq 55 dB(A).
Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti fyrir Fáskrúðsfjörð í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 er Hafnargata 32 á hafnar- og iðnaðarsvæði, H3/I1, en fasteign kærenda er á miðsvæði M1. Í framkvæmdalýsingu hinnar samþykktu byggingarleyfisumsóknar kemur fram að bæta eigi við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunarmörkin LAeq, (07-19) 50 dB(A) fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða. Jafnframt var tekið fram við afgreiðslu umsóknarinnar að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að útreikningar um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka séu réttir.
Eðli máls samkvæmt er ekki mögulegt að mæla mun á hávaða frá starfseminni fyrir og eftir framkvæmdir fyrr en af þeim afstöðnum. Verður því að telja að með útreikningum á hávaða hafi málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mörk samkvæmt útreikningum eru undir þeim mörkum sem tilgreind eru í töflu III sem fylgir reglugerð um hávaða.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og að ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið form- eða efnisannmörkum verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.
Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum skv. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum skv. 12. gr. sömu reglugerðar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32.