Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

135/2023 Kirkjuvegur

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála:

 Mál nr. 135/2023, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 um að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2023, mótteknu sama dag, kæra eigendur, Kirkjuvegi 3, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varðar lóð kærenda að Kirkjuvegi 3A.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 13. desember 2023.

Málavextir: Hinn 5. október 2021 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Vesturbæjar og samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 13. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. október til 30. nóvember 2021 og athugasemdafrestur síðan framlengdur til 9. desember s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. mars 2022 og uppfærð tillaga ásamt greinargerð samþykkt. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu á fundi 6. apríl s.á. Í kjölfarið var deiliskipulagið sent til Skipulagsstofnunar til lögboðinnar yfirferðar sem taldi að yfirfara þyrfti og skýra nánar tiltekin atriði. Málið var í frekari vinnslu hjá sveitarfélaginu og á fundi skipulags- og byggingarráðs 3. nóvember 2022 voru uppfærð gögn og minnisblað vegna samantektar verkefnastjóra við athugasemdir Skipulagsstofnunar samþykkt. Jafnframt var málinu vísað til staðfestingar bæjarstjórnar sem á fundi 9. nóvember 2022 samþykkti greinda afgreiðslu. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þegar deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar hafi fyrst verið auglýst hafi engar breytingar verið fyrirhugaðar á lóð þeirra. Í greinargerð með uppfærðri tillögu frá febrúar 2022 og mars s.á. komi skýrt fram að engar breytingar séu fyrirhugaðar á lóðinni. Hinn 4. okóber 2023 hafi bæjarlögmaður Hafnarfjarðar haft samband við kærendur og sent þeim skjal með heitinu „tillaga að deiliskipulagi“ og skipulagstöflu þar sem fram hafi komið að lóð kærenda yrði skipt upp í tvær lóðir. Tillagan hafi komið kærendum í opna skjöldu og hafi þeir ítrekað leitað frekari upplýsinga frá bæjarlögmanni á tímabilinu frá 6.–25. s.m. Efnislegt svar hafi borist þeim 6. nóvember 2023 þar sem fullyrt hafi verið að umrædd tillaga hefði tekið gildi og að kærufrestir vegna hennar væru liðnir. Þá hafi kærendum fyrst orðið ljóst að búið væri að taka ákvörðun um skiptingu á lóð þeirra án þess að þeim hafi verið kynnt málið eða gefinn kostur á andmælum.

Hinn 1. desember 2023 hafi lögmaður kærenda sent erindi til bæjarlögmanns þar sem m.a. hafi verið farið fram á að hafist yrði handa við að leiðrétta mistök varðandi lóð þeirra og hafi bæjarlögmaður sent viðkomandi gögn samdægurs og tjáð þeim að bæjarstjóri yrði upplýstur um stöðu mála. Auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022 um deiliskipulagið geti ekki markað upphaf kærufrests gagnvart kærendum þar sem breyting sú er varði lóð þeirra hafi aldrei verið kynnt þeim eða auglýst eftir að upphafleg tillaga að nýju deiliskipulagi hafi verið auglýst sem gerði ekki ráð fyrir breytingum á lóð kærenda. Afsakanlegt verði að telja að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr og að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að hið kærða deiliskipulag sé nokkuð umfangsmikið og hafi tillagan verið ítarlega kynnt bæjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum meðan á vinnu þess hafi staðið. Þó nokkuð af athugasemdum hafi borist á kynningartíma tillögunnar. Skipulagsfulltrúi hafi tekið saman minnisblað vegna þeirra sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar ásamt uppfærðri tillögu. Skipulagsstofnun hafi samþykkt með bréfi, dags. 24. nóvember 2022, að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið lögum samkvæmt.

Athugasemdir eiganda Kirkjuvegar 3A: Bent er á að Kirkjuvegur 3 og 3A séu í raun tvö samliggjandi hús á einni lóð, þ.e. timburhús (sem sé nr. 3A) og steinhús (sem sé nr. 3). Umræddur eigandi hafi búið erlendis í um 1 og ½ ár og þegar hann hafi komið til landsins vorið 2021 hafi verið búið að byggja stóran sólpall undir allri suðvesturhlið beggja húsanna. Hvort sem nágrannarnir séu við leik eða störf, að grilla eða í sólbaði blasi þeir nú við þegar horft sé út um gluggann á húsi eigandans. Byrgi sólpallurinn fyrir kjallaraglugga og ókleift sé að sinna viðhaldi utanhúss á kjallara. Þá stafi aukinn eldhætta af sólpalli úr timbri og grillaðstöðu alveg upp við húsið. Vegna framangreinds hafi þurft að skipta lóðinni upp og hafi Hafnarfjarðarbæ samþykkt erindi eiganda þess efnis. Sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna deiliskipulagsins liðinn.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að umsögn sveitarfélagsins sé illskiljanleg. Ekki sé gerð athugasemd við málsatvikalýsingu kærenda en hún sé um að sveitarfélagið hafi ekki staðið rétt að umræddri skipulagsbreytingu. Þótt upphafleg tillaga hafi verið auglýst þá hafi breytingin sem lotið hafi að eign kærenda ekki verið það og hún hafi ekki verið kynnt kærendum með neinum hætti. Slík framkvæmd sé augljóslega ekki í samræmi við 8. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 1. mgr. 43. gr. laganna sem kveði á um að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi sem nýtt deiliskipulag. Umsögn þess sé því markleysa og sé andmælt sem slíkri.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Hinn 29. nóvember 2022 var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt bæjarstjórnar frá 9. s.m. á endurgerðu og nýju deiliskipulagi Vesturbæjar í Hafnarfirði, þ.e. deiliskipulagi því sem kært er í máli þessu. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna hins umdeilda deiliskipulags barst úrskurðarnefndinni 4. desember 2023 og því ljóst að kærufrestur var þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, en líta verður svo á að það taki jafnframt til þess þegar ákvörðun sætir opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni af framangreindum sökum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.