Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

130/2017 Heimagisting

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2017, er barst nefndinni 31. s.m., kærir íbúi, Lovisenberggata 21 E, Osló, Noregi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 28. nóvember 2017.

Málavextir:
Með breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 66/2017, sem gildi tóku 1. júlí 2017, hætti heimagisting að vera starfsleyfisskyldur rekstur, sbr. viðauka V. starfsemi E í lögunum eftir breytingu. Með umsókn, dags. 17. apríl 2017, sótti kærandi um starfsleyfi fyrir heimagistingu í einni íbúð að Bæjarholti 13, Laugarási. Starfsleyfi var gefið út til kæranda 2. júní s.á. Var kæranda gert að greiða kr. 35.517 í leyfisgjald skv. gjaldskrá nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fyrir útgáfu starfsleyfis og úttekt á gististað.

Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands frá 26. október 2017 þar sem kæranda er tjáð að honum verði ekki endurgreidd þau gjöld sem hann hafi þurft að greiða vegna útgáfu starfsleyfis. Segir í tölvupóstinum að heilbrigðiseftirlitið hafi þegar verið búið að inna af hendi vinnu við úttekt og starfsleyfisgerð þegar reikningur hafi verið gefinn út fyrir vinnunni. Vísað er til samhljóða ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurlands á fundi 10. ágúst s.á. Var kæranda kynnt kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kröfu hans.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafa vitað um yfirvofandi breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þegar starfsleyfi hans hafi verið gefið út og innheimt gjald fyrir það. Ekki hafi átt að framkvæma vinnuna á elleftu stundu, rétt fyrir atkvæðagreiðslu um lagabreytinguna, heldur hefði átt að fresta henni og upplýsa umsækjanda um stöðu mála. Kærandi kveðst hafa fengið tölvupóst 31. maí 2017, þess efnis að starfsleyfi yrði gefið út. Lögin hafi verið samþykkt 1. júní s.á. og hann hafi greitt leyfisgjaldið 9. s.m.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands:
Heilbrigðiseftirlitið bendir á að því hafi borið skylda til að afgreiða umsókn kæranda, dags. 17. apríl 2017, samkvæmt þeim lögum sem þá hafi verið í gildi, óháð því hvort frumvarp væri til meðferðar hjá Alþingi til breytinga á lögunum. Hefðbundin afgreiðsla hafi verið sett af stað þegar umsókn kæranda hafi borist, með því að afla upplýsinga frá byggingarfulltrúa um hvort húsnæðið uppfyllti kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Jákvætt svar hafi borist frá byggingarfulltrúa 2. maí 2017, úttekt farið fram 30. s.m., starfsleyfið gefið út 2. júní s.á. og umræddur reikningur sendur kæranda í kjölfarið. Gjaldtakan sé í samræmi við gjaldskrá nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Númer og heiti viðkomandi fyrirtækjaflokks sé 55.12.0.4 útleiga stakra sumarhúsa/íbúðarhúsnæðis. Reikningur kæranda skiptist í annars vegar útgáfu starfsleyfis, tvö tímagjöld, eða kr. 24.182, og hins vegar eftirlitsgjald viðkomandi fyrirtækjaflokks, eða kr. 11.335, samtals kr. 35.517.

Sambærileg beiðni um endurgreiðslu hafi verið tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 10. ágúst 2017. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið einróma og hafi beiðninni verið hafnað.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um synjun á kröfu kæranda um að endurgreidd verði gjöld vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu, dags. 2. júní 2017, og úttekt á gististað, sem  fram fór 30. maí s.á. Gjöldin voru á lögð á grundvelli gjaldskrár nr. 976/2016 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Gjaldskráin var sett með heimild í þágildandi 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem heimilaði sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, m.a. fyrir eftirlit og útgáfu starfsleyfa. Kom nánar fram að upphæð gjaldsins skyldi byggð á rekstraráætlun, þar sem þau atriði væru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggðist á og að gjaldið mætti ekki vera hærra en sá kostnaður. Starfsemin sem um ræðir hætti að vera leyfisskyld við breytingu á lögum nr. 7/1998, sem tók gildi 1. júlí 2017.

Lögum nr. 7/1998 var breytt með lögum nr. 66/2017 og var þar m.a. felld niður skylda til að afla starfsleyfis fyrir heimagistingu, sbr. nú viðauka V. starfsemi E. Voru lögin samþykkt á Alþingi 1. júní 2017 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 23. s.m. Samkvæmt 47. gr. laganna öðluðust þau gildi 1. júlí 2017, nema k-liður 7. gr. (ný 16. gr. laganna) sem öðlast gildi 1. júlí 2018. Umrætt starfsleyfi var því gefið út fyrir gildistöku laga nr. 66/2017 og fór eftirlit einnig fram fyrir þann tíma.
Samkvæmt almennum lagaskilareglum gilda eldri lög fram að gildistöku laga sem ætlað er að breyta þeim eða fella úr gildi og er meginreglan sú að lög eru ekki afturvirk. Á það einnig við í því tilfelli sem fjallað er um í þessu máli. Af þeim sökum þurfti gilt starfsleyfi fyrir heimagistingu fram að gildistöku laga nr. 66/2017 og var lögmætt að innheimta gjöld í samræmi við eldri ákvæðin til 30. júní 2017. Af þeim sökum voru lögmæt þau gjöld er innheimt voru hjá kæranda fyrir útgefið starfsleyfi og úttekt vegna þess. Bar ekki að endurgreiða þau eftir gildistöku laga nr. 66/2017, enda hafði framangreindur kostnaður fallið til fyrir þann tíma.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 26. október 2017 um að synja endurgreiðslu gjalda vegna starfsleyfis fyrir heimagistingu.