Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2018 Edenreitur

Árið 2018, föstudaginn 9. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 13/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 14. desember 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Edenreit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi að Þelamörk 52-54, Hveragerði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 14. desember 2017 að samþykkja deiliskipulagið Miðbær-Edenreitur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 6. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Nýtt deiliskipulag fyrir Edenreit í Hveragerði var birt  með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir 77 nýjum íbúðum í 2-10 íbúða fjöleignarhúsum á allt að tveimur hæðum. Einnig er gert ráð fyrir torgi/gróðurhúsi innan skipulagssvæðisins.

Kærandi bendir á að fyrirhugaðar byggingar á fjöleignarhúsum á lóðarmörkum lóðar hans, þar sem hann reki gróðurhús og garðplöntusölu, muni hafa veruleg áhrif á rekstur hans og valda honum gríðarlegu fjártjóni. Framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar myndu nánast eyðileggja framtíðarmöguleika lóðar hans og því sé grenndarréttur hans í máli þessu ekki virtur. Kærandi hafi í byrjun janúar 2018 tekið eftir auglýsingu deiliskipulagsáætlunarinnar í B-deild Stjórnartíðinda frá 21. desember 2017, en tilkynningu þar um hafi ekki verið að finna á heimasíðu bæjarins.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er m.a. bent á að deiliskipulagið hafi tekið gildi með auglýsingu nr. 1124/2017 í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Hafi kærufrestur hafi því verið liðinn gagnvart kæranda, enda miðist upphaf hans við þann dag, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Tók kærufrestur því að líða 22. desember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 25. janúar 2018, eða þremur dögum eftir að kærufresti lauk. Með vísan til þess sem að framan er rekið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.