Ár 1999, miðvikudaginn 2. júní kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 13/1999; kæra D, Lindarsmára 7, Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 24. febrúar 1999 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að gegna starfi byggingarstjóra við byggingu eigin íbúðarhúss að Fjallalind 106, Kópavogi.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni hinn 12. mars 1999, kærir D, Lindarsmára 7, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 24. febrúar 1999 um að synja umsókn um leyfi til að gegna starfi byggingarstjóra við byggingu eigin íbúðarhúss að Fjallalind 106, Kópavogi. Hin kærða ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn Kópavogs þann 9. mars 1999. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
Málavextir: Í janúar 1999 sótti kærandi, sem er rekstrartæknifræðingur að mennt, um leyfi byggingarfulltrúans í Kópavogi til þess að vera byggingarstjóri við byggingu eigin íbúðarhúss að Fjallalind 106 í Kópavogi. Með bréfi dags. 8. febrúar 1999 tilkynnti byggingarfulltrúi kæranda að þar sem menntun hans væri ekki á byggingarsviði uppfyllti hann ekki skilyrði til þess að verða byggingarstjóri, auk þess sem starfsreynsla hans væri metin ófullnægjandi. Kærandi óskaði álits byggingarnefndar Kópavogs á afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu. Byggingarfulltrúi sendi byggingarnefnd greinargerð um málið. Kemur þar fram að við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að ekki sé réttlætanlegt að setja það skilyrði að menntun tæknimanna þurfi að vera á byggingarsviði. Hins vegar taldi byggingarfulltrúinn augljóst að kærandi hefði ekki sýnt fram á það að hann uppfyllti kröfur um þriggja ára reynslu af verk- og byggingarstjórn eða byggingareftirliti. Einnig yrði að liggja fyrir að reynsla væri óvéfengjanleg þegar menntunargrunnurinn væri ekki á byggingarsviði. Að fenginni þessari umsögn byggingarfulltrúa hafnaði byggingarnefnd umsókn kæranda með vísan til 2. tl. 51. gr. laga nr. 73/1997. Þessari niðurstöðu skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með ódagsettu bréfi sem barst nefndinni hinn 12. mars 1999. Gögn um hina kærðu ákvörðun bárust nefndinni hinn 23. mars 1999.
Málsrök kæranda: Kærandi telur sig uppfylla skilyrði til þess að gegna starfi byggingarstjóra. Telur hann sig fullnægja skilyrðum bæði um menntun og starfsreynslu og vísar til framlagðra gagna þar að lútandi. Tilgangur hans sé að tryggja að hús hans verði byggt á þann hátt að gæði þess verði tryggð.
Málsrök byggingarnefndar: Byggingarnefnd vísar til greinargerðar byggingarfulltrúa um málið og ákvæða 2. tl. 51. gr. laga nr. 73/1997 þar sem áskilin er þriggja ára reynsla tæknimenntaðra manna af verk- og byggingarstjórn eða byggingareftirliti.
Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um erindi kæranda. Í umsögn stofnunarinnar segir að í 2. tl. 2. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um það að arkitektar, verkfræðingar, tæknifræðingar og byggingarfræðingar með þriggja ára reynslu af verk- og byggingarstjórn eða byggingareftirliti geti orðið byggingarstjórar. Samhljóðandi ákvæði sé í grein 31.1.b. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í gögnum málsins komi fram að kærandi sé rekstrartæknifræðingur, en ekki verði lesið úr lögskýringargögnum að slík menntun sé ekki nægjanleg til að uppfylla skilyrði gildandi lagaákvæða. Hins vegar telji stofnunin að gera verði strangari kröfur til þess að reynsla kæranda sé ótvíræð, þar sem menntun hans sé ekki á sviði byggingarmála. Í vottorði yfirmanns kæranda komi að vísu fram, að kærandi hafi, í samstarfi með iðnaðarmönnum, unnið að viðhaldi og endurbótum á húsnæði vinnuveitanda síns og verið verkstjórnandi, af hálfu vinnuveitandans, að 200 fermetra viðbyggingu. Síðan segir í umsögninni: „Skipulagsstofnun telur, að þessi störf kæranda sýni ekki á nægilega ótvíræðan máta fram á reynslu kæranda, til þess að hann uppfylli skilyrði þau sem fyrrnefnt lagaákvæði setur um reynslu af verk- og byggingarstjórn. Samkvæmt framansögðu er það því álit Skipulagsstofnunar að ekki beri að verða við kröfu kæranda um að fella úr gildi kærða synjun byggingarnefndar Kópavogs frá 25. febrúar 1999.”
Niðurstaða: Eins og að framan greinir er kærandi menntaður rekstrartæknifræðingur. Ekki er í ákvæði 2. tl. 51. greinar laga nr. 73/1997 gerður greinarmunur á menntunarsviðum tæknifræðinga. Fullnægir kærandi því menntunarkröfum, sem gerðar eru til byggingarstjóra. Hins vegar er áskilið í tilvitnuðu ákvæði að arkitektar, verkfræðingar, tæknifræðingar og byggingarfræðingar þurfi að hafa þriggja ára reynslu af verk- og byggingarstjórn eða byggingareftirliti til þess að geta orðið byggingarstjórar. Gögn þau, sem kærandi hefur lagt fram um starfsreynslu, sýna ekki að hann hafi þá starfsreynslu, sem áskilin er að lögum. Engin heimild er í lögunum til þess að víkja frá kröfum um starfsreynslu og verður því ekki litið til sérstakra atvika svo sem þess að um byggingu eigin íbúðarhúss kæranda er að ræða. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði fallist á kröfu kæranda í málinu.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 24. febrúar 1999 um að synja umsókn hans um leyfi til að gegna starfi byggingarstjóra við byggingu íbúðarhúss að Fjallalind 106 í Kópavogi.