Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

129/2020 Hólmasel

Árið 2021, mánudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2020, kæra vegna óhæfilegs dráttar á á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hólmasels 2, Reykjavík, og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kærir eigandi eignarhluta 01-0103 og 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar hans vegna Hólmasels 2 og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að ákvarðanir um álagningu fasteignagjalda verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 18. desember 2017 sótti kærandi um byggingarleyfi vegna eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2 og var með umsókninni sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar.“ Erindi kæranda var hafnað af byggingarfulltrúa þar sem samþykki meðeigenda skorti. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 11. júní 2019 í máli nr. 47/2018. Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og var erindinu vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember s.á.. Hinn 20. s.m. barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 þar sem því var frestað. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 27. febrúar s.á., í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á tafir á afgreiðslu erindi hans hafi staðið yfir í um þrjú ár. Þá hafi það verið mistök hjá embætti byggingarfulltrúa að breyta notkun á eignarhluta 01-0104 í atvinnuhúsnæði en fasteignagjöld í þeim flokki séu 1,47% hærri en hjá íbúðum. Því sé um ólöglega gjaldtöku að ræða. Það sama gildi um eignarhluta 01-0103 en hann eigi að skrá sem ósamþykkta íbúð. Óheimilt sé að innheimta fasteignagjöld af þeim eignarhluta sem atvinnuhúsnæði þar sem engin virðisaukaskattskyld starfsemi fari þar fram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti. Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu erindisins megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns með samþykki byggingarleyfisins. Kærandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefnið hafi nú þegar verið afgreitt. Sé þess því krafist að þeim kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Heimild sveitarstjórnar til álagningar fasteignaskatts fari skv. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Hvorki verði séð að lög nr. 4/1995 hafi að geyma kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar né að álagning fasteignaskatts geti fallið undir málefnasvið umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum sé einnig gerð krafa um að þeim kærulið verði vísað frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu í 2. mgr. 29. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar fyrir breyttri notkun eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmaseli 2, Reykjavík, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 10. nóvember 2020. Hefur því verið bundinn endir á málið en sú afgreiðsla er ekki kærð. Hefur ekki þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi sem hefur þegar verið samþykkt. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Einnig er kærð álagningu fasteignagjalda vegna eignarhluta 01-0103 og 0104 í sömu fasteign. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Um álagningu fasteignaskatts er fjallað í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka kæruefnið til endurskoðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.