Árið 2014, mánudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Þóra Árnadóttir jarðeðlisfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 129/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 23. nóvember 2012 um að fráveita affallsvatns frá orkuveri HS Orku í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2012, er barst nefndinni 14. s.m., kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Sléttuhrauni 24, Hafnarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 23. nóvember 2012, um að lagning fráveitu frá niðurdælingarsvæði fyrir orkuverið í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Með bréfi, dags. 27. desember 2012, er nefndinni barst hinn 28. s.m., kærir jafnframt Fuglaverndarfélag Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, áðurgreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 133/2012, sameinað kærumáli þessu.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Skipulagsstofnun hinn 14. febrúar 2013.
Málavextir: Hinn 24. júlí 2012 tilkynnti HS Orka hf. til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða gerð lagnar fyrir fráveitu frá niðurdælingarsvæði fyrir orkuverið í Svartsengi og til sjávar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og tl. 13. a. í 2. viðauka þeirra laga. Samkvæmt tilkynningunni felst framkvæmdin í því að leggja um hraun niðurgrafna fráveitulögn fyrir affallsvatn og þjónustuveg meðfram henni frá niðurdælingarsvæði orkuversins, vestan við fellið Þorbjörn, og 20 m út fyrir meðalstórstraumsfjöru í Arfadalsvík, vestan Grindavíkur, alls um 4,5 km leið. Tekið var fram að áætlað væri að alls myndi raskast um 15 m breitt belti á lagnaleiðinni en talið væri að framkvæmdin myndi ekki hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif í för með sér.
Skipulagsstofnun leitaði lögbundins álits Grindavíkurbæjar, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar vegna framkvæmdarinnar með bréfum, dags. 25. júlí 2012. Stofnuninni bárust umsagnir og svör álitsgjafa í ágústmánuði s.á. Var það álit Grindavíkurbæjar, Fornleifaverndar ríkisins og Hafrannsóknastofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og Umhverfisstofnun töldu framkvæmdina háða mati á umhverfisáhrifum en Orkustofnun tók ekki afstöðu til matsskyldu. Var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að koma að upplýsingum og athugasemdum vegna umsagnanna og að þeim fengnum taldi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum en Umhverfisstofnun ítrekaði í bréfi sínu, dags. 9. október s.á., að það væri álit stofnunarinnar að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.
Lögbundin ákvörðun Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 23. nóvember 2012. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu, auk umsagna og viðbragða framkvæmdaraðila við þeim, væri ekki líklegt að lagning fráveitu fyrir orkuverið í Svartsengi frá niðurdælingarsvæði og til sjávar hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.
Málsrök Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands: Af hálfu kærenda er bent á að framkvæmdin muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt skilgreiningu laga um mat á umhverfisáhrifum og valda óafturkræfum spjöllum á eldhrauni, auk þess sem lögnin muni fara um tvö svæði sem séu á náttúruminjaskrá. Af því leiði að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. og 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.
Áhrif á jarðmyndanir og náttúruminjasvæði séu umtalsverð, óafturkræf og töluvert alvarlegri en framkvæmdaraðili haldi fram. Lýsing framkvæmdaraðila á fyrirhugaðri lagnaleið á landi, sem Skipulagsstofnun leggi til grundvallar í niðurstöðu sinni, sé bæði villandi og að hluta til röng. Framkvæmdaraðili geri eins mikið og unnt sé úr því raski í hrauninu sem þegar sé orðið og lítið úr þeim köflum hraunsins sem ósnortnir séu. Komist framkvæmdaraðili að því að alls liggi um 1500 m leiðarinnar um ,,lítt snortið og á köflum úfið hraun“ en að mati kærenda liggi nánast öll leiðin um lítt snortið eða ósnortið hraun. Hraunið sé eldhraun og njóti sem slíkt verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og sé hluti þess á náttúruminjaskrá, en sérstaklega beri að líta til þessara atriða við ákvörðun um matsskyldu skv. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Bent sé á að engin sérfræðiskýrsla um jarðmyndanir og verndargildi þeirra hafi verið lögð fram en telja verði að það hefði verið eðlilegt í ljósi þess að bæði framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun álíti að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar snúi einkum að raski á jarðmyndunum. Skipulagsstofnun hafi borið að kalla eftir slíkri skýrslu í ljósi þessa álits stofnunarinnar og þeirrar verndar sem hraun á svæði framkvæmdarinnar njóti skv. 37. gr. náttúruverndarlaga.
Samkvæmt 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi viðmiðana sem þar komi fram, einkum með tilliti til nokkurra þátta, þ.m.t. þess hverjar líkur séu á áhrifum, sbr. lið iii. í 3. lið viðaukans. Að mati kærenda gefi það auga leið að ef óvissa sé mikil ætti það að ýta undir að framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum svo draga megi úr óvissunni með frekari upplýsingaöflun og rannsóknum. Í fyrirliggjandi máli séu fjölmargir óvissuþættir um umhverfisáhrif umræddrar framkvæmdar, þ.e. áhrif á lífríki í fjöru og sjó við útfall fráveitunnar og nærliggjandi svæði vegna efna í affallsvatni og hitastigs þess. Gögn skorti hins vegar til að fullyrða á nokkurn hátt um möguleg umhverfisáhrif affallsvatns á lífríki í Arfadalsvík. Varðandi áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf á svæðinu sé tekið fram að þar finnist m.a. sex fuglategundir á válista og að fyrir liggi of litlar upplýsingar um lífríki svæðisins og of mikil óvissa sé um áhrif affallsvatns á það svo hægt sé að fullyrða að áhrifin verði ekki veruleg. Þá sé erfitt að meta hvaða áhrif hitabreytingar vegna fráveitunnar og efni í affallsvökva muni hafa á lífríkið þar sem lífríki svæðisins hafi ekki verið rannsakað nægilega vel. Hafa beri í huga að þrátt fyrir að styrkur flestra efna í affallsvökvanum sé svipaður og í sjónum sé um gríðarlega mikið magn af vökva að ræða sem renni inn á svæðið daglega og geti safnast upp í lífríkinu. Þá hafi ekki verið getið hitastigsmunar við samanburð á útfalli Reykjanesvirkjunar og útfallsins í Arfadalsvík. Of mikil óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki fjöru og sjávar í Arfadalsvík til að hægt sé að fullyrða að áhrifin séu ekki umtalsverð, líkt og Skipulagsstofnun geri í niðurstöðu sinni.
Tekið sé undir umsagnir Umhverfisstofnunar frá 31. ágúst og 9. október 2012. Stofnunin geri athugasemdir við þau vinnubrögð framkvæmdaraðila að setja umhverfisáhrifin fram sem einfalt flatarmál og telji að áhrifin verði mun umfangsmeiri og einskorðist ekki við lagnarstæðið. Að lokum geri stofnunin alvarlegar athugasemdir vegna óvissu sem ríki um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki í fjöru og sjó og ítreki að Arfadalsvík sé á náttúruminjaskrá.
Ljóst sé af 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar þar um að andi laganna sé á þá leið að skoða skuli fleiri en einn kost framkvæmdar þó að það eigi ekki beint við fyrr en við gerð matsáætlunar og frummatsskýrslu. Ekki verði fallist á þau rök framkvæmdaraðila fyrir hinni völdu lagnaleið að fyrirhugað sé að samnýta leiðina fyrir virkjun í Eldvörpum, sem einnig sé í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar, þar sem mikil óvissa sé um nýtingu þar. Fram komi í fyrirspurnarskýrslu framkvæmdaraðila að aðrar lagnaleiðir hefðu verið skoðaðar lítilsháttar en það hafi ekki talist fýsilegt að leggja lögn með Grindavíkurvegi, m.a. vegna hæðarbreytinga sem myndu kalla á dælingu, auk þess sem lagnaleið yrði lengri miðað við fyrirhugaða útrás í Arfadalsvík. Kærendur leggi áherslu á það að með því að lagnaleiðin fylgi vegi megi koma í veg fyrir spjöll á viðkvæmu og lítt snortnu hrauninu, sem verði fyrir óafturkræfum umhverfisáhrifum á þeirri leið sem framkvæmdaraðili kjósi að setja fram. Lengri og dýrari útfærsla framkvæmdarinnar eigi ekki að koma í veg fyrir að sá kostur sé settur fram. Þá hafi ekki verið kannað hverju það myndi breyta að hafa lögnina ofanjarðar.
Samkvæmt 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum séu tilteknar framkvæmdir ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum og vísi kærendur til 18. liðar sem hljóði svo: ,,Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 sm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi.“ Fyrirhuguð fráveitulögn sé um 4,5 km löng og 50 cm í þvermál og uppfylli hún því stærðarviðmið 18. liðar. Þar að auki sé affallsvökvinn hættulegur umhverfinu, þ.e. skaðlegur lífríki sökum hita og mögulegrar uppsöfnunar efna, sérstaklega arsens, í lífverum. Af því leiði að framkvæmdin eigi ávallt að lúta mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé byggð á því að framkvæmdin heyri undir lið 13.a. í 2. viðauka laganna en kærendur telji ljóst að hún falli undir 1. viðauka, líkt og áður segi. Verði að telja ljóst að framkvæmdin ein og sér sé nægilega stór og umfangsmikil til að uppfylla öll skilyrði 18. liðar 1. viðauka og eigi það að vega þungt sem rökstuðningur fyrir því að framkvæmdin lúti mati á umhverfisáhrifum. Ekki sé tekið tillit til þessa í greinargerð Skipulagsstofnunar. Þá komi Skipulagsstofnun með ákvörðun sinni í veg fyrir að markmið laga um mat á umhverfisáhrifum nái fram að ganga í tengslum við umrædda framkvæmd. Hafi stofnunin með ákvörðuninni gert óvirk þau mikilvægu tæki almennings til áhrifa á stórar framkvæmdir, sem geti haft mikil áhrif á íslenska náttúru og íslenskt samfélag, en það verði að teljast afar bagalegt í ljósi stærðar framkvæmdarinnar og aukins skilnings stjórnvalda á þátttöku fólks í ákvörðunarferlum sem lúti að umhverfismálum, sbr. innleiðingu Árósasamningsins.
Kærendur telji niðurstöðu Skipulagsstofnunar ekki standast nánari skoðun og með henni sé lítið gert með umsögn Umhverfisstofnunar hvað varði áhrif framkvæmdar á jarðminjar og óvissu vegna áhrifa á fjöru- og sjávarlíf. Varúðarregla umhverfisréttar feli í sér þá hugsun að ekki skuli skýla sér á bak við vísindalega óvissu til að forðast varúðarráðstafanir í þágu umhverfisins. Vísað sé til reglunnar í ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland sé aðili að og á nokkrum sviðum íslensks umhverfisréttar sé byggt á reglunni. Skipulagsstofnun gangi þvert á megininntak varúðarreglunnar með ákvörðun sinni en minnka mætti vísindalega óvissu með því að fráveitan frá Svartsengi færi í umhverfismat.
Málsrök Fuglaverndarfélags Íslands: Félagið bendir á að Arfadalsvík sé afar lífríkt svæði á náttúruminjaskrá. Sú ályktun Skipulagsstofnunar, sem ákvörðunin sé byggð á, að líklega verði lítil áhrif af framkvæmdinni á lífríki, séu hreinar ágiskanir og ekki byggðar á neinum haldbærum rökum. Enn vanti lykilupplýsingar um lífríki svæðisins og sé umhverfismat nauðsynlegt áður en nokkrar framkvæmdir verði hafnar. Athuga þurfi hvort fuglategundir á svæðinu séu á válista og taka þurfi tillit til sérstöðu fuglalífs á fartíma og sérstöðu svæðisins sem vetrarbúsvæðis. Þá sé lagt til að annar staður verði fundinn fyrir fráveitu affallsvatnsins, t.d. vestan við svæðið sem sé á náttúruminjaskrá, þar sem sé mun brimasamara og minni hætta á mengun af völdum vatnsins.
Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin bendir á greinargerð með frumvarpi til laga um náttúrvernd, sem lagt hafi verið fram á 141. löggjafarþingi 2012-2013, þar sem fram komi að verndargildi hrauna lækki við veðrun og eldhraun njóti ekki sérstakrar verndar ef þau séu að öllu leyti sandorpin eða hulin jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða. Sé þess getið að frumvarpið hafi tekið mið af umfangsmikilli vinnu fagaðila með þekkingu á náttúru landsins. Ljóst sé að verndargildi eldhrauna sé álitið mismunandi og minnki m.a. við veðrun og hversu hulin þau séu jarðvegi og gróðri eða sandi. Það hafi verið mat stofnunarinnar að apalhraun innan svæðis á náttúruminjaskrá, nyrst að fyrirhugaðri lagnaleið, hefði meira verndargildi en helluhraun á öðrum hluta hennar, sem að lengstum hluta séu þakin mosa og að einhverjum hluta sandorpin. Í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum segi m.a. að meta eigi eiginleika hugsanlegra framkvæmda út frá umfangi þess svæðis sem verði fyrir umhverfisáhrifum. Stofnunin bendi á í ákvörðun sinni að fráveitulögn og þjónustuvegur með henni muni raska rúmlega 2 ha af lítt snortnu og úfnu hrauni á því svæði sem tilheyri svæði nr. 106 á náttúruminjaskrá, en með tilliti til stærðar svæðisins í heild sinni hefði hún ekki talið líklegt að umfang rasksins yrði umtalsvert mikið í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess myndi framkvæmdin ekki raska þeim sérstæðu jarðmyndunum sem tilgreindar séu sérstaklega í tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013. Vegna umfangs rasksins sé ekki líklegt að framkvæmdin hafi umtalsverð áhrif á hraunlandslag svæðisins sem landslagsheildar. Skipulagsstofnun beri að leita álits ýmissa aðila áður en hún taki ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar og leiti stofnunin undantekningarlítið umsagna Umhverfisstofnunar. Það sé hins vegar á ábyrgð Skipulagsstofnunar að taka ákvörðunina eftir að hafa vegið og metið sjónarmið álitsgjafa og sé bent á úrskurði umhverfisráðuneytisins þar sem m.a. sé fjallað um það að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé kveðið á um að þau álit sem Skipulagsstofnun afli séu bindandi. Því leiði efni umsagna ekki til afnáms á hinu skyldubundna mati stofnunarinnar þótt vafalaust geti þær haft meiri eða minni áhrif á niðurstöðu hennar um matsskyldu.
Hvað varði óvissu um áhrif framkvæmdar á lífríki fjöru og sjávar hafi framkvæmdaraðili lagt fram skýrslu Náttúrustofu Reykjaness um samantekt á upplýsingum um fuglalíf vestan Grindavíkur, með sérstöku tilliti til Arfadalsvíkur, þar sem fram komi að fuglafjöldi af flestum tegundum sé meiri vestan Grindavíkur en á öðrum svæðum á Reykjanesskaga og sérstaða svæðisins sé mest á fartímum og á veturna. Sex tegundir á válista Náttúrfræðistofnunar Íslands hafi fundist á svæðinu frá Fornuvík að Stað vestan Grindavíkur. Einnig hafi skýrsla Náttúrustofu Reykjaness og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar, gert grein fyrir kortlagningu fjörunnar við Arfadalsvík með tilliti til vistgerða. Þar komi fram að sjaldgæft sé að finna þangfjörur við suðurströnd landsins og þangfjaran í Arfadalsvík sé auðug af lífi og þar sé mikill lífmassi sem fyrst og fremst felist í massa þangs sem einkenni fjörurnar. Nánast engin dýr hafi fundist ofarlega í fjörunni en fjölbreytni og þéttleiki dýra hafi aukist eftir því sem neðar dró. Engra þeirra tegunda sé getið á válista samningsins um verndun Norðaustur Atlantshafsins sem Ísland sé aðili að. Þá hafi framkvæmdaraðili lagt fram spá um dreifingu affallsvökva í Arfadalsvík með tilliti til styrks arsens og hækkunar sjávarhita í víkinni og byggi straum- og efnisflutningalíkanið m.a. á nýjum gögnum Siglingastofnunar Íslands um dýpi þar. Forsendur fyrir spánni hafi verið 230, 300 og 550 kg/s rennsli, en samkvæmt gögnum málsins verði rennsli um útrás í víkinni að öllu jöfnu 100 til 150 kg/s með 40 µg/l styrk arsens og í undantekningartilfellum geti rennslið orðið tímabundið allt að 300 kg/s. Skipulagsstofnun telji að fyrirliggjandi grunnupplýsingar um lífríki Arfadalsvíkur og dreifispá hafi verið fullnægjandi til að meta möguleg neikvæð áhrif á lífríki í fjöru og sjó og hvort þau séu líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Svo hafi Hafrannsóknastofnun einnig talið, en helstu sérfræðiþekkingu varðandi efnafræði, lífríki og vistfræði sjávar við Ísland og hafstrauma við landið sé þar að finna. Sú stofnun hafi jafnframt bent á að brim og sterkur strandstraumur muni hjálpa til við að blanda og dreifa affallsvatninu til viðbótar hraðri þynningu og uppblöndun samkvæmt því, sem dreifilíkanið segi fyrir um. Skipulagsstofnun hafi einnig haft til hliðsjónar niðurstöður vöktunar á lífríki þar sem útfall frá Reykjanesvirkjun renni um fjöru til sjávar. Þar hafi affallið haft mikil áhrif þar sem það renni um fjöruna. Hins vegar dvíni áhrifin strax þaðan í frá og séu engin í 120 m fjarlægð. Bendi stofnunin í ákvörðun sinni á að affall frá orkuverinu Svartsengi verði í sjó neðan stórstraumfjöru þar sem virk blöndun og þynning taki strax við. Þó styrkur arsens sé hærri í affalli frá Svartsengi en frá Reykjanesvirkjun þá verði rennsli þaðan um 100 til 150 sekúndulítrar en sé um 4400 sekúndulítrar frá Reykjanesvirkjun. Hafi þekking á grunnþáttum lífríkis Arfadalsvíkur, spá um dreifingu mengunar, álit Hafrannsóknastofnunar og reynsla af áhrifum affalls frá Reykjanesvirkjun verið fullnægjandi til þess að spá fyrir um umhverfisáhrif hinnar umdeildu framkvæmdar og hvort líkur væru til þess að hún myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Þegar um sé að ræða matsskylda framkvæmd skuli framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim kostum sem til greina komi og bera saman umhverfisáhrif þeirra en svo sé ekki þegar um ákvörðun um matsskyldu sé að ræða.
Skipulagsstofnun bendi á að í 18. tl. í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum séu tilgreindar leiðslur sem séu 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem séu eldfimir eða hættulegir umhverfi. Hvergi sé að finna útskýringu á töluliðnum, hvorki í lagaskýringum né túlkun Evrópusambandsins á einstökum töluliðum. Þegar fjallað sé um hættuleg efni sé gjarnan vísað til efna sem falli undir reglugerð nr. 390/2009, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, eða reglugerð nr. 236/1990, um flokkun og merkingu eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, en ljóst sé að affallsvatnið falli ekki þar undir. Einnig sé vert að skoða að í síðarnefndu reglugerðinni séu sum efni flokkuð sem hættuleg umhverfinu. Fyrrgreindur affallsvökvi, sem sé heitt vatn, falli ekki í þann flokk. Lög um mat á umhverfisáhrifum eigi sér rætur í tilskipun Evrópusambandsins nr. 85/337/EEC. Fyrirmynd áðurgreinds 18. tl. sé 16. tl. í tilskipuninni en Alþingi hafi notfært sér heimild til að lækka stærðarþröskulda og því miðað við minna þvermál og lengd í íslensku lögunum. Athygli veki hvernig farið sé með hugtakið „chemicals“ í íslensku lögunum. Augljóst sé að í tilskipuninni sé ekki átt við öll efni, því þar með hefði verið óþarft að tilgreina gas og olíu sérstaklega. Mögulegt sé að skoða hvernig hugtakið sé túlkað í 6. gr. tilskipunarinnar, þar sem tilgreind er efnaframleiðsla sem sé háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sé hugtakið notað yfir framleiðslu á tilbúnum efnum af ýmsum toga og það sé því að mati stofnunarinnar langsótt að hugtakið „chemicals“ í tilskipuninni eigi við vatn þó það sé mjög heitt og innihaldi mikið af uppleystum efnum. Teljist frárennslisvatn frá jarðhitavirkjun því ekki hættulegt umhverfinu í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum eða reglugerða sem tilgreini slíkan flokk efna.
Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur ekki efnisleg rök fyrir kærunum. Unnið hafi verið að lausn fráveitumála í Svartsengi í nokkur ár í samræmi við kröfu í starfsleyfi og með hliðsjón af starfsemi Bláa Lónsins. Lausnir hafi verið mótaðar í samvinnu við Grindavíkurbæ sem hafi skipulagsvald á svæðinu. Fráveita til sjávar sé talin sú lausn sem leysi til frambúðar vanda með fráveitu affallvatns. Fráveitumál séu beintengd framleiðslu í orkuverinu í Svartsengi og þar með framleiðslu fyrir hitaveitu þéttbýlis á svæðinu þar sem aukin þörf sé á hitaveituvatni. Brýnt sé því að koma fráveitulögn í framkvæmd eins fljótt og hægt sé. Áréttað sé að útrásarstaður lagnar sé ekki í innsta hluta Arfadalsvíkur, þar sem fuglar spóki sig í tiltölulega kyrru flæðarmáli, heldur nokkuð utarlega í stórgrýttri smávík þar sem brims gæti mun meira og aðstæður fyrir fugla séu mun síðri en innst í víkinni þar sem sjór sé hvað kyrrastur.
Lögnin muni liggja um eldhraun sem njóti verndar en lagnaleiðin sé valin með það í huga að hún liggi eins og kostur er eftir þegar röskuðu landi og þar með talið hrauni. Fylgi lagnaleiðin vegslóða og girðingarstæði á um 1700 m kafla en á um 1500 m kafla um lítt snortið og á köflum úfið hraun. Lagnaleiðin liggi um svæði sem skilgreint sé sem iðnaðarsvæði í Aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030, en á hluta leiðarinnar sé skipulagi frestað. Sé lagnaleiðin í samræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins. Framkvæmdaraðili meti það svo að lagnaleiðin sé í samræmi við viðmið 37. gr. náttúruverndarlaga, þar sem segi að eldhraun skuli njóta sérstakrar verndar og forðast skuli röskun þeirra eins og kostur sé. Frá niðurdælingarsvæðinu sé ekki kostur á lagnaleið sem valda myndi minna raski. Áhrif séu beint óafturkræft rask á hrauninu og nái til um 6 ha lands. Víða á og við lagnaleiðina megi sjá ummerki mannlegra athafna og því ekki hægt að lýsa svæðinu sem ósnortnu, en minnst séu ummerkin um miðbik lagnaleiðarinnar. Sé það mat framkvæmdaraðila að framkvæmdin muni hafa neikvæð áhrif á eldhraun en þess hafi verið gætt að lágmarka raskið eins og kostur sé í samræmi við 37. gr. náttúruverndarlaga.
Lagnaleiðin liggi að hluta um tvö svæði sem séu á náttúruminjaskrá. Á um 1800 m kafla liggi lagnaleiðin innan svæðisins Reykjanes, Eldvörp, Hafnaberg, sem sé um 113 km² að flatarmáli og á náttúruminjaskrá vegna sérstæðra jarðmyndana og fuglalífs við ströndina. Mat framkvæmdaraðila sé að framkvæmdin muni ekki valda verulegum neikvæðum áhrifum á svæðið. Ströndin vestan Grindavíkur sé á náttúruminjaskrá vegna fjölbreytts strandgróðurs og fjölskrúðugs fuglalífs en varanlegt rask verði mjög afmarkað innan svæðisins. Gangandi umferð verði eftir sem áður greið og lítil umsvif fylgi rekstri útrásarinnar. Verði því ekki fallist á að um umtalsvert rask verði að ræða eða neikvæð áhrif á fuglalíf.
Í greinargerð matsskyldufyrirspurnar sé því lýst að nokkur óvissa sé um áhrif affallsins á lífríki sjávar og fjöru og sé þess vegna gert ráð fyrir að sett verði af stað vöktun til að fylgjast með mögulegri uppsöfnun þungmálma í lífríki. Með því sé verið að taka á þessari óvissu um möguleg áhrif og sé undirbúningur slíkrar vöktunar í samráði við Hafrannsóknastofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Þá verði að geta þess að komin sé nokkur reynsla af áhrifum af útrás Reykjanesvirkjunar þar sem affallsvökva sé veitt til sjávar. Hins vegar sé gengið lengra í frágangi affallslagnar frá Svartsengi þar sem útrásarop verði undir stórstraumsfjöruborði og neikvæðra áhrifa gæti síður í umhverfi útrásarstaðar.
Gerð hafi verið grein fyrir því að fráveitulögn frá niðurdælingarsvæði og til sjávar muni hafa neikvæð áhrif á hraun og landslag sem og á tvö svæði á náttúruminjaskrá. Það sé mat framkvæmdaraðila að umhverfisáhrifin geti ekki talist umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum og að mat á umhverfisáhrifum muni ekki veita frekari svör um möguleg umhverfisáhrif en þegar liggi fyrir.
Athugasemdir Grindavíkurbæjar: Bent er á að umrædd framkvæmd sé í samræmi við stefnu í greinargerð gildandi Aðalskipulags Grindavíkur 2010-2030. Jafnframt sé í undirbúningi breyting á aðalskipulagi þar sem gerð sé frekari grein fyrir legu fráveitulagnarinnar á sveitarfélagsuppdrætti og sé sú lega í samræmi við framkvæmdina eins og hún hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar.
Framkvæmdin sé mikilvæg og aðkallandi þar sem hún færi affallsmál Svartsengis og Bláa lónsins til betri vegar með varanlegri lausn. Sveitarfélagið hafi lagt á það áherslu að til framtíðar verði sá hluti affalls orkuversins sem ekki sé dælt niður í djúpkerfi leitt til sjávar. Að því leyti muni áhrif framkvæmdarinnar því verða jákvæð á svæðið í kringum Svartsengi og Bláa lónið.
Um sé að ræða afmarkað framkvæmdarsvæði innan stórra svæða á náttúruminjaskrá og séu áhrif framkvæmdarinnar á alla umhverfisþætti þekkt. Jafnframt sé gert ráð fyrir vöktun á áhrifum á lífríki til lengri tíma. Því sé ekki ástæða til þess að mati sveitarfélagsins að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum.
——–
Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 30. júní 2014.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort lagning um 4,5 km langrar fráveitulagnar, sem er 500 mm að þvermáli og leiða mun affallsvatn frá niðurdælingarsvæði orkuversins í Svartsengi til sjávar, ásamt þjónustuvegi, skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, en í ákvörðun sinni frá 23. nóvember 2012 komst Skipulagsstofnun að því að svo væri ekki.
Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrædd fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.
Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin eru taldar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum en í 2. viðauka eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Er þá metið í hverju tilviki, með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Eru þar á meðal taldar breytingar og viðbætur við framkvæmdir skv. 1. og 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13. a. Tilkynnti framkvæmdaraðili áform sín til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum með vísan til framangreinds tl. 13. a.
Kærendur halda því m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd falli undir 18. tl. 1. viðauka og beri því fortakslaust að meta umhverfisáhrif hennar. Framkvæmdir sem þar eru taldar fela í sér „… leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 sm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi“. Óumdeilt er að lögn sú er hér um ræðir uppfyllir stærðarviðmið ákvæðisins. Þá getur affallsvatn það sem leitt verður með lögninni verið hættulegt umhverfi sínu sökum hita og mettunar. Ýmis þau efni er að finna í náttúrunni sem geta verið skaðleg umhverfi sínu án þess að fullyrt verði að þau falli undir nefnt ákvæði. Í því sambandi verður ekki fram hjá því litið að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum er tekið fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða 16. tl. 1. viðauka tilskipunar Evrópusambandsins nr. 85/337/EEC, eins og henni var breytt með tilskipun nr. 97/11/EB, en ljóst er af hugtakanotkun tilskipunarinnar að tilgangurinn er fyrst og fremst sá að töluliðurinn taki til flutnings efna og efnablanda, sem notuð séu á sértækan efnafræðilegan átt eða búin séu til, t.d. í efnaferlum. Er það álit úrskurðarnefndarinnar að flutningur affallsvatns falli því ekki undir nefndan tölulið og vísar nefndin enn fremur til þess að ekki er að sjá að affallsvatn teljist hættulegt efni í skilningi íslenskrar löggjafar að öðru leyti, enda virðist það ekki að finna á opinberum listum yfir hættuleg efni, sbr. t.d. reglugerð nr. 236/1990, um flokkun og merkingu eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, m.s.br. Var því réttilega staðið að hinni kærðu ákvörðun með því að líta á fyrirhugaða framkvæmd sem viðbót við þegar leyfða framkvæmd, sbr. tl. 13. a. í 2. viðauka laganna.
Hvað varðar athugasemdir kærenda þess efnis að skoða skuli fleiri en einn kost framkvæmdar, að teknu tilliti til anda laga um mat á umhverfisáhrifum, er á það bent að þegar um mat á umhverfisáhrifum er að ræða er tekið fram í 2. mgr. 9. gr. laganna að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Slíka skyldu er hins vegar ekki að finna í lögunum þegar um er að ræða framkvæmd sem ekki er háð mati á umhverfisáhrifum, en það var einmitt niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar. Ber og að athuga að framkvæmdaraðila hefur, m.a. í dómaframkvæmd, verið játað ákveðið forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, að því gefnu að mat hans sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Liggur ekki fyrir annað en að svo sé, að teknu tilliti til þess að tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum fylgdu þær upplýsingar sem 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005, um mat á umhverfisáhrifum, áskilur að grein sé gerð fyrir. Þar er því lýst að ýmsar aðrar leiðir en affallslögn til sjávar hafi verið skoðaðar við förgun affallsvökvans. Hins vegar hafi ekki tekist að tryggja öryggi þeirrar förgunar og aðrar leiðir ekki gefið fyrirheit um árangur til lengri tíma. Þá er öðrum kostum um lagnaleið lýst stuttlega og ástæðum þess að þeir kostir þættu ekki fýsilegir, t.d. vegna þarfar á dælingu og lengri lagnaleiðar. Hvað varðar nefndar ástæður fyrir framkvæmd þeirri er um ræðir er því gerð ítarleg skil í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að ágreiningur sé til staðar á milli Orkustofnunar og framkvæmdaraðila um hvort nýting þess síðarnefnda á frumorku sé meiri en gert hafi verið ráð fyrir í umsókn um virkjunarleyfi. Aflaði Skipulagsstofnun því álits Orkustofnunar um það hvort þörf fyrir hina umdeildu framkvæmd væri alfarið að rekja til meintrar aukinnar upptöku jarðhitavökva umfram leyfi. Með hliðsjón af áliti Orkustofnunar taldi Skipulagsstofnun ljóst að a.m.k. 60% af fráveituvökvanum sem leiða ætti til sjávar væru til komin vegna annarra þátta en mögulegrar upptöku jarðhitavökva umfram leyfi. Verður ekki annað séð en að Skipulagsstofnun hafi með þessu rannsakað hvort að þörf væri á framkvæmdinni, hverjar ástæður lægju þar að baki og komist að rökstuddri niðurstöðu þar um.
Samkvæmt o. lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu, sbr. 1. tl. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og þar skal athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til landnotkunar, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar, sbr. 2. tl. undir liðum i., ii., iii og iv. Vegna verndarsvæða er meðal annars vísað til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum, svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, og falli válistar hér undir, sem og hverfisverndarsvæða. Um álagsþol náttúrunnar er tekið fram að viðkvæmni svæðis skuli athuga með tilliti til m.a. strandsvæða, sérstæðra jarðmyndana, náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá, landslagsheilda, fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra. Loks ber að líta til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar í ljósi áðurnefndra viðmiðana, sbr. 3. tl., einkum með tilliti til umfangs, óafturkræfi og sammögnunar umhverfisáhrifa sem og hverjar líkur séu á þeim o.fl. Ljóst er að áðurgreindir þættir koma til álita í máli þessu, en eins og áður segir afmarkast athugun nefndarinnar við málsmeðferð og lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar.
Óumdeilt er að framkvæmdin mun hafa áhrif á jarðmyndanir, þ.m.t. eldhraun, sem njóta verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Kemur og fram í hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun telur að helstu áhrif framkvæmdarinnar verði einkum á jarðmyndanir og muni um 6 ha af hrauni verða raskað varanlega og óafturkræft. Fyrir liggur að hluti hraunsins, eða 2-2½ af 6 ha, er á náttúruminjaskrá, en skv. 68. gr. náttúruverndarlaga er á henni að finna friðlýstar náttúruminjar, náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun og aðrar náttúruminjar, þ.e. landsvæði, náttúrumyndanir og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem rétt þykir að vernda. Ekki verður séð að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um friðlýsingu umrædds svæðis eða vernd umfram það sem hér er lýst, en í náttúruverndaráætlunum 2004-2008 og 2009-2013 var gerð tillaga um friðlýsingu þess. Í Aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030 kemur fram að Grindavíkurbær er víðlendasta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær það yfir um 445 km². Jafnframt kemur þar fram að mikil auðævi felist í stórbrotinni náttúru landsins og séu um 85% þess háð einhvers konar verndun vegna sérstöðu sinnar. Þá segir í aðalskipulaginu að fráveita frá Svartsengi og Eldvarpasvæði verði leidd í sjó vestan þéttbýlis í Grindavík og muni hún fara um svæði á náttúruminjaskrá. Fyrirhuguð lögn liggur frá niðurdælingarsvæði innan svæðis, sem í aðalskipulaginu er lýst sem iðnaðarsvæði vestan Grindavíkur og Svartsengis (233 ha). Liggur hún að mestu um það svæði sem og annað iðnaðarsvæði sem aðalskipulag staðsetur sunnan þess (100 ha). Þar í milli liggur 208 ha svæði sem merkt er „skipulagi frestað“. Þrátt fyrir að um óafturkræf umhverfisáhrif sé að ræða telur úrskurðarnefndin, með hliðsjón af stærð þess svæðis sem raskað er, ekki ástæðu til þess að hnekkja því mati Skipulagsstofnunar að áhrifin teljist ekki umtalsverð í skilningi o. liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Áréttar úrskurðarnefndin í því sambandi að upplýst er um afleiðingar og umfang fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir, en tilgangur mats á umhverfisáhrifum er einmitt m.a. að slíkt sé upplýst.
Í áliti Umhverfisstofnunar frá 31. ágúst 2012 kemur fram að stofnunin telji að líta beri til sammögnunaráhrifa framkvæmda á nærliggjandi svæðum og tekur Skipulagsstofnun fram í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að áform séu um frekari framkvæmdir til orkuvinnslu við Eldvörp og að fyrirhugaður þjónustuvegur vegna fráveitulagnarinnar verði síðar breikkaður og byggður upp til að þjóna betur umfangsmeiri starfsemi á svæðinu. Þá gerir Aðalskipulag Grindavíkur 2010-2030, sem lá fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ráð fyrir uppbyggingu iðnaðar á svæðinu. Af áðurgreindu er ljóst að Skipulagsstofnun hefur litið til mögulegra sammögnunaráhrifa og haft vitneskju um að búast megi við frekara raski á svæðinu en metið það svo að ekki væri um umtalsverða aukningu umhverfisáhrifa að ræða. Þrátt fyrir að framkvæmdin sé sú fyrsta í mögulegri röð framkvæmda telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að endurskoða það mat stofnunarinnar, einkum með hliðsjón af því að fyrir lágu skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og þar með mat þess á þeim mismunandi hagsmunum sem eiga rætur sínar að rekja til náttúruverndarsjónarmiða annars vegar og nýtingarsjónarmiða hins vegar. Er í því sambandi rétt að árétta að sveitarfélagið er einnig framkvæmdaleyfisveitandi og að mat skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana fór fram vegna aðalskipulagsins.
Í máli þessu er og deilt um möguleg áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á lífríki fjöru og sjávar sem og fuglalíf á svæðinu. Er því haldið fram af hálfu kærenda að of mikil óvissa ríki um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á þessa þætti til að láta megi hjá líða að gera mat á umhverfisáhrifum. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir Skipulagsstofnun gögn framkvæmdaraðila, m.a. um lífríki fjöru og sjávar, samantekt um fuglalíf á svæðinu og spá um dreifingu arsens frá fyrirhugaðri útrás. Þá lágu fyrir lögbundnar umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Umhverfisstofnunar, eins og nánar er í lýst í málavöxtum. Taldi Umhverfisstofnun að meta skyldi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins og Hafrannsóknastofnunar var að svo skyldi ekki vera þrátt fyrir að gerðar væru ýmsar athugasemdir. Tekur Skipulagsstofnun og fram í hinni kærðu ákvörðun að tekið sé undir nánar greindar athugasemdir umsagnaraðila og að full ástæða sé til að gera ráðstafanir til að spilla lífríki eins lítið og mögulegt sé. Er þar jafnframt gerð grein fyrir nefndum álitum umsagnaraðila. Þá er rakið hverjar forsendur lágu að baki þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að fyrirhuguð framkvæmd væri, þrátt fyrir þetta, ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á lífríki sjávar og fjöru við Arfadalsvík. Úrskurðarnefndin telur einsýnt af lestri gagnanna að einhver óvissa ríki um áhrif framkvæmdarinnar. Umsagnaraðilar þeir sem hér um ræðir hafa allir til að bera sérfræðiþekkingu á því sviði sem á reyndi en niðurstöður þeirra voru ekki á sama veg. Af því tilefni er rétt að taka fram að álits umsagnaraðila er almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvílir hins vegar hjá Skipulagsstofnun skv. 2. mgr. 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Með vísan til framangreinds verður ekki annað séð en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið þær upplýsingar um lífríki í fjöru og sjó sem nægjanlegar voru til að meta hvort framkvæmdin myndi hafa í för með sér „[v]eruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“ og teljast þannig umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi o. liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.
Úrskurðarnefndin áréttar að framkvæmd sú er um ræðir er háð framkvæmdaleyfi og starfsleyfi og að aðstæður allar, sem og athugasemdir Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila, geta gefið leyfisveitendum tilefni til að binda slík leyfi skilyrðum um vöktun, mótvægisaðgerðir og viðbragðsáætlanir skv. 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2012, og skv. 15. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Svo sem að framan er rakið er enga þá annmarka að finna á hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar, dags. 23. nóvember 2012, um að lagning fráveitu frá niðurdælingarsvæði orkuversins í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Geir Oddsson
____________________________ ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Þóra Árnadóttir