Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

128/2022 Gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu

Árið 2022, föstudaginn 9. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 128/2022, kæra á ákvörðun  umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 um að samþykkja að Vegagerðinni verði veitt leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 15. nóvember 2022, kærir Húsfélag alþýðu, eigandi fasteigna við Hofsvallagötu 16 og Bræðraborgarstíg 47 og 49, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 að samþykkja að Vegagerðinni verði veitt leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafn­framt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni og verður nú aðeins tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Hinn 12. júlí 2022 sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir lengingu vinstri-beygjureinar til norðurs við gatnamót Hofsvallagötu og Hringbrautar í vesturátt. Fram­kvæmdin felur m.a. í sér malbikun akreina að gatnamótunum, endurgerð miðeyju við gatna­mót og hliðfærslu akreina Hrinbrautar til suðurs vegna endurgerðar miðeyju og endurgerð hluta kantsteina. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík 11. ágúst 2022 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir 87 hagsmunaaðilum og fengu þeir sent bréf, dags. 22. s.m., og var veittur frestur til 21. september s.á. til að koma að athugasemdum. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. október s.á. var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem sam­þykkti umsóknina á fundi sínum 19. s.m. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. októ­ber 2022. Var leyfi fyrir framkvæmdinni gefið út 6. desember s.á.

Kærandi telur m.a. að umhverfis- og skipulagsráð hafi ekki séð til þess að nægjanlega hafi verið upp­lýst um öryggi vegfarenda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en framkvæmda­leyfi var veitt, og hafi í andstöðu við markmið aðalskipulags látið hagsmuni er varða þunga­flutninga vega þyngra en hagsmuni íbúa hverfisins.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kjósi leyfishafi að byrja eða halda áfram með framkvæmdir áður en efnisúrskurður liggi fyrir í málinu geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu.

Vegagerðin hefur upplýst að þrátt fyrir að í útboðslýsingu hafi verið ráðgert að framkvæmdir hæfust í lok árs 2022 væri nú ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við verkið hefjist fyrr en í fyrsta lagi á öðrum ársfjórðungi árið 2023. Verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi sé framkvæmdin afturkræf með tiltölulega einföldum hætti og verði því ekki séð að kærandi verði fyrir nokkru tjóni hljóti málið hefðbundna málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Vegagerðin hafi hins vegar mikla fjárhagslega hagsmuni af því að verk geti hafist á greindum tíma enda sé búið að semja við verktaka um verkið.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kæru­stjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að megin­reglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Svo sem áður greinir hefur Vegagerðin greint frá því að framkvæmdin sé afturkræf með tiltölulega einföldum hætti og að ekki sé fyrirhugað að hefja framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Í ljósi þess eru líkur á að framkvæmdir hefjist ekki fyrr endanlegur úrskurður hefur verið kveðinn upp í málinu. Myndi því stöðvun framkvæmda á þessum tímapunkti ekki þjóna þeim tilgangi sem býr að baki réttarúrræðinu. Þá verður ekki séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kærendur þótt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af hljótist tjón sem erfitt verði að ráða bót á. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar umhverfis- og skipulags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 um að veita leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu.