Fyrir var tekið mál nr. 126/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja við húsið nr. 5 við Þrastargötu í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu við húsið að Þrastargötu 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2016.
Málavextir: Á lóðinni að Þrastargötu 5 stendur einbýlishús, reist árið 1944 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2016, var tekin afstaða til fyrirspurnar um hvort heimilað yrði að byggja við umrætt hús til austurs ásamt því að fjarlægja skúr á lóðinni og reisa lægri viðbyggingu í hans stað. Kom fram í greinargerð skipulagsfulltrúa að hann hefði í tvígang gefið umsögn á árinu 2015 þar sem tekið hefði verið neikvætt í lengingu hússins. Með nýrri tillögu væri komið til móts við athugasemdir hans. Félli viðbyggingin nú undir skilmála deiliskipulags Fálkagötureits, sem í gildi væri á umræddu svæði, og því ekki nauðsyn á að grenndarkynna breytinguna.
Í kjölfar þessa var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og á fundi embættisins 8. júlí 2016 var erindið afgreitt með jákvæðum hætti með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag.
Umsóknin var lögð fram að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst 2016 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda eldvarnareftirlits. Afgreiðslu málsins var enn frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. s.m. og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og á fundi hans 19. s.m. var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 26. s.m. var erindið tekið fyrir á ný og hlaut það jákvæða afgreiðslu með vísan til umsagnar embættisins, dags. sama dag. Byggingarfulltrúi tók erindið fyrir á afgreiðslufundi sínum 30. ágúst 2016. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun muni raska lögvörðum hagsmunum sínum og skerða eignarrétt sinn. Röskun á þeim verði meiri en hann hafi mátt búast við samkvæmt deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.
Skort hafi lagaskilyrði til þess að gefa út byggingarleyfi, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki, en ákvörðun byggingarfulltrúa sé í andstöðu við deiliskipulag Fálkagötureits, sem taki m.a. til lóða við Þrastargötu. Skýrt sé tekið fram í skilmálum skipulagsins að lóðin að Þrastargötu 5 sé fullbyggð. Í skilmálunum sé tilgreint á hvaða lóðum sé heimilt að viðhafa breytingar og auka byggingarmagn og hvergi sé minnst á umrædda lóð í því sambandi. Ekki sé hægt að túlka skilmála deiliskipulagsins með þeim hætti að gr. 1. A, sem fjalli almennt um byggingarmöguleika á lóðum á hinu deiliskipulagða svæði, feli í sér sjálfstæða heimild til að auka byggingarmagn. Þar að auki geti fyrirhuguð viðbygging ekki talist lítil. Húsið á umræddri lóð verði um 85 m² eftir breytingar, sem sé um 30% stækkun. Þá sé viðbyggingin ekki til þess fallin að samræmast byggðamynstri á svæðinu, en um sé að ræða verulega stækkun á húsi sem þétti og breyti ásýnd götunnar. Megi í þessu sambandi vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 20/2014 og úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 56/2008.
Við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Njóti byggðamynstur við Þrastargötu verndar samkvæmt skilmálum fyrrgreinds deiliskipulags og hefði í því ljósi átt að leita álits Minjastofnunar eða annars sérfróðs aðila um stækkunina. Hafi skipulagsfulltrúi t.d. óskað eftir áliti Minjastofnunar við hönnun á mannvirki kæranda að Þrastargötu 7.
Hús kæranda og lóðin að Þrastargötu 5 séu á sameiginlegri lóð Þrastargötu 3-11. Eftir stækkunina eigi byggingarleyfishafi tilkall til tveggja bílastæða á lóðinni í stað eins áður. Verði ekki séð að þetta atriði hafi verið rannsakað við meðferð málsins eða að þetta skjóti styrkum stoðum undir þá fullyrðingu að viðbyggingin geti talist lítil og rúmist þannig innan deiliskipulagsins á grundvelli gr. 1.A.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld skírskota til þess að með því að tiltaka í skilmálum gildandi deiliskipulags að lóðin sé fullbyggð sé verið að segja að ekki sé hægt að stækka húsið verulega eða gjörbreyta því. Skýrt sé hins vegar tekið fram í almennum skilmálum skipulagsins að hægt sé að bæta við litlum viðbyggingum þar sem aðstæður leyfi. Sé það í takt við markmið deiliskipulagsins um hæfilega uppbyggingu og endurnýjun á reitnum. Viðbyggingin sé í samræmi við byggingarstíl hússins og því óveruleg og innan allra heimilda sem kveðið sé á um í skipulaginu. Einnig taki hún mið af því byggðamynstri sem fyrir sé og hafi við hönnun verið tekið tillit til einkenna nærliggjandi byggðar hvað varði efnisval, þakgerð og mælikvarða.
Húsið að Þrastargötu 5 sé með minnstu húsum við botnlangann, eða 67,2 m² samkvæmt fasteignamati, og sé ekki rétt að miða við 30% stækkun þegar um sé að ræða 17,9 m² viðbyggingu á mjög litlu húsi. Hús kæranda sé mun stærra en húsið að Þrastargötu 5 og verði það enn eftir breytinguna.
Því sé vísað á bug að rannsóknarregla og jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Ekki sé um sambærileg mál að ræða varðandi húsið að Þrastargötu 5 og hús kæranda. Í seinna tilvikinu hafi verið farið fram á heimild til að rífa hús sem byggt hafi verið fyrir 1925 og reisa steinsteypt hús í staðinn. Í máli þessu sé um að ræða litla viðbyggingu en hún sé í samræmi við byggðamynstur og hlutfall hússins, sem byggt hafi verið árið 1944. Hafi því ekki verið skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands.
Allir sameigendur að lóðinni séu bundnir af deiliskipulagi fyrir umrætt svæði og geti þeir ekki borið fyrir sig grandleysi um tilvist þess. Megi líta svo á að um sé að ræða framkvæmd sem þegar hafi verið ákveðin þegar núverandi eigendur að Þrastargötu 7 hafi eignast eignarhluta sína. Verði því að leggja það að jöfnu við framkvæmd sem „ráð var fyrir gert í upphafi“, sbr. 27. gr. fjöleignarhúslaga nr. 26/1994. Verði því ekki séð að þörf sé fyrir samþykki allra meðlóðarhafa vegna framkvæmda sem séu í samræmi við skipulag. Þrátt fyrir þetta hafi byggingarfulltrúi leitað eftir samþykki þeirra sem breytingin gæti haft einhver áhrif á og liggi fyrir samþykki eigenda að Þrastargötu 3, 3B, 4 og 7B. Loks sé bent á að með hinni kærðu samþykkt sé eingöngu verið að veita heimild til að byggja við húsið. Ekkert sé þar vikið að bílastæðum og séu þau því óbreytt.
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
Niðurstaða: Húsið að Þrastargötu 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits og afmarkast það af Tómasarhaga, Dunhaga, Hjarðarhaga, Suðurgötu og lóðum við Fálkagötu 1-13 og Tómasarhaga 7. Meðal markmiða skipulagsins, samkvæmt greinargerð þess, er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Skýra skuli og skilgreina byggingarmöguleika og tryggja að ný- eða viðbyggingar falli vel að umhverfinu. Við mótun byggðamynsturs skuli leitast við að laga viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild.
Grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins ber heitið „Byggingarmöguleikar – Almennt“. Samkvæmt ákvæðinu má m.a. byggja kvisti á risþök á helming þakflatar og heimilt er að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna. Þar sem aðstæður leyfa má byggja litlar geymslur/sólstofur á baklóðum, allt að 6 m² að stærð og með 2,5 m hámarkshæð.
Í deiliskipulaginu er Þrastargötu lýst svo að þar séu lág og stakstæð hús sem myndi ákveðna heild. Lóðin að Þrastargötu 3-11, sem húsið Þrastargötu 5 stendur á, er 3.365 m² samkvæmt skilmálum skipulagsins og nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,44. Er tekið fram í skilmálatöflu deiliskipulagsins fyrir hvert húsnúmer þeirrar lóðar að lóðarhlutinn nr. 5 við Þrastargötu sé fullbyggður. Jafnframt eru í töflunni listaðar upp einstakar lóðir og lóðarhlutar og tilgreindar byggingarheimildir þeirra, svo sem að Þrastargötu 4, þar sem tekið er fram að heimilt sé að byggja sólstofu og kvisti samkvæmt skilmálum, og reisa megi litlar viðbyggingar að Þrastargötu 8. Í gr. 1.B í skipulaginu eru tilgreindir byggingarmöguleikar fyrir einstakar lóðir og lóðarhluta á skipulagssvæðinu, t.a.m. að Þrastargötu 1 og 7. Er lagt til að byggðamynstur, m.a. við Þrastargötu, skuli njóta verndar samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur. Skuli breytingar taka mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa og sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga.
Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er umrætt hús 58,9 m² að flatarmáli og geymsla á lóðarhlutanum 8,3 m², eða samtals 67,2 m². Með hinni umdeildu samþykkt byggingarfulltrúa er heimilað að reisa viðbyggingu til norðausturs við húsið og tengja hana fyrrgreindu stakstæðu geymsluhúsi þar sunnan við. Eftir stækkun verður íbúðarrými á fyrstu hæð hússins 61,4 m² og á annarri hæð þess 24,7 m², eða samtals 86,1 m². Hin heimilaða stækkun er því 18,9 m², sem er um 28% aukning frá því sem nú er. Um er að ræða þétta byggð lítilla húsa.
Að framangreindu virtu verður að telja að almennir skilmálar deiliskipulagsins, sbr. gr. 1.A, sem kveða á um að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna, geti ekki tekið til þeirrar stækkunar hússins sem um ræðir í máli þessu. Þá gefur orðalag og framsetning skipulagsins að öðru leyti ekki tilefni til þeirrar túlkunar að hin umdeilda breyting rúmist innan heimilda deiliskipulagsins og ekki verður ráðið af skipulagsuppdrætti að viðbyggingunni sé markaður byggingarreitur.
Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 1.tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Verður hin kærða ákvörðun að þeim sökum felld úr gildi.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja við húsið nr. 5 við Þrastargötu í Reykjavík.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson