Fyrir var tekið mál nr. 125/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur, Hafnarbyggð 23, og 25 og eigandi, Lónabraut 7, Vopnafirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Með ódagsettu bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, er barst 22. september 2016, er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust frá Vopnafjarðarhreppi 26. september og 16. október 2016.
Málavextir: Á fundi hreppsnefndar Vopnafjarðar 20. ágúst 2015 var kynnt hugmynd að strandblakvelli við Lónabraut 4. Á fundinum samþykkti sveitarstjórn gerð strandblakvallar fyrir sitt leyti og vísaði málinu til meðferðar skipulags- og umhverfisnefndar. Á fundi sínum 26. ágúst s.á. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn Vopnafjarðarhrepps um heimild til að staðsetja strandblakvöll á lóð Lónabrautar 4. Meðfylgjandi voru afgreiðsla hreppsnefndar, samþykkt meðlóðarhafa Lónabrautar 4 um staðsetningu vallarins, afstöðumynd og loftmynd ásamt tölvuteikningu. Málið var tekið fyrir að nýju 12. október s.á. á fundi skipulags- og umhverfisnefndar og kom þar fram að athugasemdir hefðu borist varðandi framkvæmdina. Málið hefði því verið nánar kynnt fyrir íbúum með bréfi starfsmanns byggingarfulltrúa, dags. 6. október s.á. Nefndin vísaði málinu til sveitarstjórnar til umfjöllunar vegna innkominna athugasemda. Á fundi hreppsnefndar 5. nóvember 2015 samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.
Hinn 1. júní 2016 var framkvæmdin grenndarkynnt íbúum í næsta nágrenni við völlinn og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Hinn 17. ágúst s.á. var málinu vísað að nýju til skipulags- og umhverfisnefndar sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að lokið yrði við framkvæmdir á núverandi stað. Á fundi hreppsnefndar 1. september s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og var sveitarstjóra falið að ljúka málinu. Með bréfi, dags. 6. s.m., fengu aðilar senda tilkynningu frá sveitarstjóra um að sveitarstjórn hefði samþykkt uppbyggingu strandblakvallar við Lónabraut og var athugasemdum sem fram komu við grenndarkynningu jafnframt svarað.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að þeir kæri umþrætta framkvæmd m.a. vegna sandfoks, sem aldrei verði hægt að koma í veg fyrir, ónæðis vegna hávaða, sem þau þegar hafi reynslu af vegna nærliggjandi sparkvallar, og þess að sækja þurfi bolta í garða fólks lendi hann út af við annan enda vallarins. Útsýni muni skerðast mjög, en það sé einn helsti kosturinn við að búa ofan við þetta svæði. Ef byggður yrði skjólveggur eða girðing tæki það í burtu kvöldsólina sem íbúar neðan við njóti núna. Þar sem verið sé að byggja upp íþróttaaðstöðu með væntanlegu vallarhúsi annars staðar í bænum skilji kærendur ekki staðsetningu blakvallarins.
Annað atriði sem sé ekki síður alvarlegt sé hvernig staðið hafi verið að þessum framkvæmdum og samskiptum við íbúa nálægt vellinum. Framkvæmdin hafi verið samþykkt af sveitarstjóra og samhljóða af sveitarstjórn og ákveðið að hefja þessar framkvæmdir án nokkurrar grenndarkynningar eða annars samráðs við íbúa nærliggjandi húsa.
Eftir margar kvartanir og yfirlýst mótmæli bæði fyrir og á öllum stigum framkvæmdarinnar við bæði sveitarstjóra og oddvita sveitarstjórnar hafi loksins verið farið í grenndarkynningu sem kærendum hafi verið neitað um áður. Þá hafi framkvæmdir verið komnar vel á veg. Send hafi verið bréf til fimmtán aðila vegna kynningarinnar og níu þeirra sem hafi fengið bréf hafi mótmælt staðsetningunni harkalega.
Bréfið, sem innihaldi útlistun á ástæðum þess að ákveðið hefði verið að halda áfram með framkvæmdina, hafi kærendur fengið 6. september 2016. Þar hafi ekki verið tekið fram að kærendur hefðu mánaðar kærufrest og hvert þeir ættu að snúa sér. Þá sé ámælisvert að aðilar í sveitarstjórn sem eigi beinna hagsmuna að gæta í málinu hafi ekki vikið þegar mál þetta hafi verið tekið fyrir.
Málsrök Vopnafjarðarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að sandurinn sem verði í vellinum verði sambærilegur sandi sem notaður sé í slíka velli um allt land. Hafi hann lítið fokgildi. Reynist þörf á að breiða yfir völlinn við ákveðnar aðstæður verði það gert til að hindra enn frekar að sandur berist frá vellinum. Hvað varði ónæði vegna hávaða bendi sveitarfélagið á 6. gr. lögreglusamþykktar nr. 674/2015 fyrir Vopnafjarðarhrepp, þar sem segi að lögregla geti vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valdi vegfarendum eða íbúum í nágrenni ónæði. Ekkert við framkvæmd vallarins muni hafa áhrif á útsýni frá húsum á svæðinu og verði girðing sem sé við skólalóðina framlengd til móts við Austurborg. Muni það koma í veg fyrir að bolti geti farið niður í garða eða valdið tjónum á húsum.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sem samþykkt var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 1. september 2016 fyrir strandblakvelli á Lónabraut 4.
Í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er m.a. kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Í samræmi við þá heimild var umþrætt framkvæmd grenndarkynnt og gerðu m.a. kærendur athugasemdir. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og framkvæmdin samþykkt.
Í nefndri 13. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur fram í 3. mgr. að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Segir um þetta atriði í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi að sá sem óski eftir framkvæmdaleyfi skuli senda skriflega umsókn til hlutaðeigandi leyfisveitanda ásamt nauðsynlegum gögnum um fyrirhugaða framkvæmd. Eru þau gögn tíunduð í 7. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur m.a fram að umsókninni skuli fylgja afstöðumynd, sbr. 1. tl. 2. mgr. Þá þarf að fylgja lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tl. 2. mgr., og skal að auki tilgreina framkvæmdatíma í framkvæmdalýsingu, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmdinni og fleira sem skipti máli. Loks segir í 3. mgr. nefndrar 7. gr. að þegar fyrirhugað er að framkvæma á svæði þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag þurfi einnig að fylgja með yfirlitsmynd í mælikvarða 1:10.000 – 1:2.000, sem sýni staðsetningu og afmörkun framkvæmdasvæðis eða útdráttur úr aðalskipulagi sem sýni afmörkun framkvæmdasvæðis.
Vegna fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um umsókn vegna hinnar kærðu leyfisveitingar tiltók sveitarfélagið að ekki hefði komið formleg beiðni um að gera strandblakvöll heldur hefði áhugafólk komið að máli við sveitarstjóra. Í framhaldi af því hafi tillaga verið lögð fyrir sveitarstjórn hinn 20. ágúst 2015. Samkvæmt framangreindu var ekki til að dreifa skriflegri umsókn sveitarfélagsins um framkvæmdaleyfi skv. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í gögnum málsins má hinsvegar finna tölvupóst iðnfræðings til sveitarstjóra 14. ágúst 2015. Þar var tekið fram að iðnfræðingurinn hefði aðeins skoðað svæðið og að það væri álit hans að það ætti að vera hægt að koma velli fyrir við enda félagsmiðstöðvar, en hæðarmunur væri á landinu sem þyrfti að bæta úr sennilega með þökum. Tekið var fram að gróf mynd fylgdi með helstu málum. Loks sagði að það mætti reikna með að það tæki um það bil einn dag að grafa upp 60 cm og setja möl í botninn, 20 cm. Svo þyrfti að setja sand í og ganga frá köntum. Verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfið hafi verið samþykkt á grundvelli þessarar lýsingar, auk afstöðu- og loftmyndar ásamt tölvuteikningu. Nefnd afstöðumynd er í mælikvarðanum 1:1.000 en meðal gagna málsins er ekki að finna yfirlitsmynd í samræmi við 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þá er hvergi vikið að því hvernig framkvæmd falli að gildandi skipulagsáætlunum. Var hvorki fullnægt kröfum 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, né kröfum 3. tl. 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar. Verður og ekki séð af nefndum ákvæðum að þær kröfur séu aðrar og minni þegar sveitarfélag stendur sjálft að framkvæmdum.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið var undirbúningi hins kærða framkvæmdaleyfis verulega áfátt og voru skilyrði ekki til staðar fyrir veitingu þess. Verður það því fellt úr gildi.
Það athugist að í svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar var tekið fram að ekki hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi og tíðkaðist það ekki þegar sveitarfélagið ætti í hlut líkt og í máli þessu þar sem sveitarfélagið eigi lóðina, sé framkvæmdaraðili og eigi mannvirkið. Gengur þetta í berhögg við fyrirmæli 11. og 12. gr. áðurnefndrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi, þar sem fram kemur að framkvæmdaleyfi skuli gefa út skriflega og hvers efnis það skuli vera að lágmarki.
Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson