Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2021 Valhúsabraut og 124/2021 Melabraut

Árið 2021, fimmtudaginn 25. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2021, kæra á afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 10. júní 2021 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Bakkahverfis vegna lóðarinnar Valhúsabrautar 19.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júlí 2021, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi lóðarinnar Valhúsabrautar 19, þá afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 10. júní 2021 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi Bakkahverfis vegna lóðarinnar Valhúsabrautar 19. Þá er kærð sú afgreiðsla að fara með umsókn kæranda vegna umræddrar lóðar og lóðarinnar Melabrautar 20 sem eina umsókn. Auk þess er kærð sú afgreiðsla að fjalla ekki um eða taka afstöðu til athugasemda sem bárust innan auglýsts frests. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að afgreiðsla um synjun umsóknar hans um breytingu á deiliskipulagi verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að farið verði með umsóknina sem sjálfstæða umsókn og að sveitarfélaginu verði gert að haga máls­meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulega breytingu á deili­skipulagi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júlí 2021, er barst nefndinni 20. s.m., kæra  sameigendur lóðarinnar Melabrautar 20, sömu ákvörðun vegna þeirrar lóðar og gera sömu kröfur að breyttu breytanda. Verður það kærumál, sem er nr. 124/2021, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 13. október 2021.

Málsatvik og rök: Lóðirnar Valhúsabraut 19 og Melabraut 20 eru innan Bakkahverfis á Seltjarnarnesi. Deiliskipulag fyrir svæðið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2010. Lóðirnar liggja samsíða Hæðarbraut, eiga sameiginleg lóðamörk og eru hornlóðir við gatna­mót Val­húsa­brautar og Hæðarbrautar annars vegar og Melabrautar og Hæðarbrautar hins vegar. Umsóknir um breytingu á deiliskipulagi Bakka­­hverfis vegna lóðanna voru gerðar vegna hvorrar lóðar um sig. Á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnes­bæjar 24. mars 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu umsækjanda að breytingu á deiliskipulagi Bakka­hverfis vegna lóðanna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu 17. apríl s.á. og í Lögbirtingablaðinu 19. s.m., frestur til að koma að athugasemdum var veittur til 7. júní 2021 og komu íbúar Melabrautar 18 og 22 og Val­húsabrautar 17 og 21 að athugasemdum sínum við tillöguna innan þess tíma. Skipulags- og umferðarnefnd hafnaði hinn 10. júní s.á. umsókn um breytingu á deiliskipulagi Bakkahverfis vegna lóðanna Mela­brautar 20 og Valhúsabrautar 19 með vísan til þeirra athugasemda sem höfðu borist.

Kærendur telja að með því að skeyta umsóknum þeirra saman hafi sveitarfélagið látið málið líta út fyrir að vera umfangsmeira en hvor umsókn um sig hafi gefið tilefni til. Með hliðsjón af leiðbeininga­blaði Skipulagsstofnunar frá því í mars 2015 megi ráða að þær breytingar á deili­skipulagi sem sótt var um séu í reynd óverulegar og fara hefði átt með skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Þá hafi skipulags- og umferðarnefnd ekki kynnt sér efni fram­kominna athuga­­semda til hlítar enda hefðu aðeins tveir virkir dagar liðið frá því að athugasemda­fresti hafi lokið og þar til málið hafi verið tekið fyrir hjá nefndinni. Athuga­semdirnar varði í reynd gildandi deiliskipulag en ekki tillögu að breytingu á því. Sveitarfélagið hafi ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sem mæli fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Þá orki það tvímælis að formaður skipulags- og umferðarnefndar hafi fengið embætti byggingarfulltrúa til að rökstyðja niðurstöðu nefndarinnar og hafi tölvupóstur embættisins 7. júlí s.á. sem ætlað hafi verið að skýra málið þess í stað búið til frekari spurningar.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að tillögur að breyttu deiliskipulagi hafi verið kynntar sem tvær breytingar en hafi hins vegar verið auglýstar og kynntar samtímis enda liggi lóðirnar saman, um sé að ræða sama eiganda, tillögurnar tengdar og samkynja. Skýringarmyndir hafi t.d. verið sameiginlegar vegna beggja umsóknanna. Auglýsing tillagna að breytingu deiliskipulags sé vandaðri málsmeðferð en grenndarkynning og breyti því ekki lög­mæti endanlegrar afgreiðslu málsins. Þá séu breytingarnar þess eðlis að rétt hafi verið með tilliti til aðstæðna að þær fengju meðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi ekki kynnt sér efni athugasemdanna. Ekki hafi verið þörf á að gera umsögn um athugasemdirnar þar sem þær hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að breytingunum var hafnað, en sú krafa hafi komið fram í öllum athugasemdunum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvald að haga málsmeðferð stjórnsýslumáls með tilteknum hætti. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kærenda þar að lútandi.­­

 Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulags­­­mál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitar­félagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitar­félagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deili­skipulags­áætlana. Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitar­stjórnir skuli gera sérstaka sam­þykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitar­félagið annist. Ákveður sveitarstjórn vald­svið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðar­afgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða sam­þykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari máls­­­meðferð geti sveitarstjórn ákveðið í sam­þykkt um stjórn sveitar­félagsins að fela fastanefnd fullnaðar­­­afgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

Samþykkt um stjórn Seltjarnarnesbæjar nr. 831/2013 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. september 2013. Á vef sveitarfélagsins er að finna tvo viðauka við samþykktina. Annars vegar viðauka 1 um fullnaðarafgreiðslur fastanefnda án staðfestingar bæjarráðs eða bæjarstjórnar sem tekur til íþrótta- og tómstundaráðs og menningar- og safnanefndar. Hins vegar viðauka 2 um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra. Samkvæmt efni þeirra er ljóst að þeir taka ekki til skipulags- og umferðarnefndar. Þá verður ennfremur ekki ráðið að viðaukarnir hafi verið birtir í B-deild Stjórnar­tíðinda.

Í VI. kafla samþykktarinnar nr. 831/2013 er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en bæjarráð. Í 45. gr. hennar er tekið fram að bæjarstjórn geti ákveðið með viðauka við sam­þykktina, sbr. 10. tölul. 5. gr. hennar, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Seltjarnarnes­bæjar fullnaðar­afgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnar­laga. ­­Í 56. gr. samþykktarinnar er að finna upptalningu á þeim nefndum, ráðum og stjórnum sem bæjarstjórn kjósi í til að fara með tiltekin málefni eftir því sem lög eða reglur mæli fyrir um og eru fastanefndir taldar upp í C-lið. Í 6. tl. hans segir að í skipulags- og umferðarnefnd séu skipaðir fimm aðalmenn og jafn margir til vara skv. samþykkt bæjarstjórnar frá 26. júní 2013 og skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki eru frekari upplýsingar um hlutverk og heimildir skipulags- og umferðar­nefndar í samþykktinni.

­Samkvæmt framansögðu hefur bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar ekki framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu skipulagsmála til skipulags- og umferðarnefndar. Brast nefndina því vald til að ljúka endanlega afgreiðslu umsókna um umþrætta breytingu á deili­skipulagi og verður að líta svo á að í synjun hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Ekki liggur fyrir að bæjarstjórn hafi með lögformlegum hætti tekið umsóknir vegna umræddra lóða til umfjöllunar í kjölfar hinnar kærðu afgreiðslu nefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitar­félaginu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.