Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2021 Látrar

Árið 2021, föstudaginn 26. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 15. apríl 2021 vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2021, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfis­framkvæmdir á Látrum. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 15. apríl 2021 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús verði fjarlægð og að gerð sé krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 6. október og 3. nóvember 2021.

Málavextir: Látrar í Aðalvík teljast hluti af friðlandi á Hornströndum, sbr. auglýsingu nr. 332/1985. Á svæðinu eru nokkur hús, þeirra á meðal svonefnt Sjávarhús og svonefndur Ólafsskáli er standa hlið við hlið. Hefur kærandi um langt skeið komið á framfæri athuga­semdum við Ísafjarðarbæ vegna meintrar óleyfisbyggingar Sjávarhússins, viðbyggingar við það og byggingar smáhýsa/áhaldahúsa í fjörukambinum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur áður haft til úrlausnar kærur kæranda er þetta varðar, sbr. úrskurði í málum nr. 116/2016, 66/2019 og 55/2020. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 116/2016, upp­kveðnum 6. september 2018, var vísað frá kröfu kæranda um að Sjávarhúsið skyldi fjarlægt, en lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda að viðbygging við húsið yrði fjarlægð. Einnig var lagt fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða kröfu kæranda um að áhalda­hús í fjörukambinum skyldu fjarlægð.

Veitti skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðar­bæjar á árinu 2019 eigendum Ólafsskála færi á að koma að athugasemdum varðandi þá kröfu kæranda að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Jafnframt mun eigendum Látra hafa verið gefinn kostur á að gera athugasemdir og bárust svör frá nokkrum þeirra. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 55/2020, sem kveðinn var upp 10. nóvember 2020, var vísað frá kröfu kæranda um að felld yrði úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkja­nefndar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu um að fyrrnefnd við­bygging yrði fjarlægð. Var niðurstaða úrskurðar­­­nefndarinnar á því reist að það væri á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þessa þvingunar­úrræðis og var lagt fyrir hann að taka afstöðu án frekari dráttar til kröfu kæranda.

Krafa kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. apríl 2021 og henni hafnað. Meðal þess sem fært var til bókar var að niðurstaðan grundvallaðist á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum og þeim hagsmunum sem vógust á. Aðrir eigendur Látra hefðu ekki gert athugasemdir við umrædda viðbyggingu og nokkuð væri um liðið frá því að henni hefði verið skeytt við húsið. Þá hefði stækkunin ekki í för með sér nein grenndaráhrif. Er synjun byggingarfulltrúa hin kærða ákvörðun í máli þessu, en kærandi hefur einnig kært höfnun byggingarfulltrúa um að fjarlægð verði fimm smáhýsi í fjörukambinum á Látrum. Er það kærumál nr. 74/2021.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að afgreiðsla byggingarfulltrúa sé hvorki í samræmi við lög né rökstudd með vísan til viðeigandi laga. Ekki hafi verið tekið tillit til lögvarinna og efnahagslegra hagsmuna kæranda. Yfirlýsing um að aðrir eigendur hafi ekki gert athugasemdir við stækkun Sjávarhússins veiti ekki eigendum þess heimild til að byggja og raska friðlandinu eins og þeim þóknist.

Ekki sé haldbært að vísa til þess hversu langur tími sé liðinn frá því að framkvæmdum hafi lokið. Hafi eigendur umrædds húss ekki sótt um tilskilin leyfi hjá þar til bærum aðilum áður en framkvæmdir hafi hafist. Einnig eigi byggingarfulltrúi mikla sök á þeirri töf er orðið hafi á afgreiðslu málsins. Fulltrúar kæranda hafi í áraraðir og ítrekað reynt að fá lausn sinna mála, en án árangurs. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi hvorki gætt meðalhófs eða hlut­leysis við afgreiðslu málsins, né virt ákvæði laga um málshraða. Virðist sem byggingar­fulltrúi geti ekki sætt sig við að kærandi sé eigandi helmings alls lands að Látrum í Aðalvík.

Leyfi allra landeigenda þurfi til að raska friðlandinu. Beri byggingarfulltrúa að leita leiðsagnar Umhverfisstofnunar áður en veitt sé leyfi til framkvæmda. Það hafi aldrei verið gert í máli þessu enda hafi aldrei verið gefið út byggingarleyfi vegna hússins. Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem eigendur Sjávarhússins ráðist í framkvæmdir á húsinu án tilskilinna leyfa og beri þeir ábyrgð á þeirri stöðu sem upp sé komin. Fullyrðing um að engin grenndaráhrif séu vegna fram­kvæmdarinnar sé málinu óviðkomandi, en eigendur þess húss sem sé við hliðina á Sjávarhúsinu hafi lýst því yfir að umrædd framkvæmd hafi ýmis áhrif, t.a.m. á aðgengi.

 Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Niður­staða byggingarfulltrúa hafi grundvallast á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum og þeim hagsmunum sem vegist á í málinu, m.t.t. íþyngjandi eðlis þeirra úrræða sem farið sé fram á að beitt verði. Horft hafi verið til þess að aðrir eigendur að Látrum hafi ekki gert athugasemdir við umrædda viðbyggingu, hvorki almennt séð né þegar eftir sjónarmiðum þeirra hafi verið leitað sérstaklega við meðferð málsins. Hið sama eigi við um eigendur svonefnds Ólafsskála. Jafn­framt sé nokkuð um liðið frá því að viðbyggingunni hafi verið skeytt við svonefnt Sjávarhús og ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um að það verði fjarlægt teljist endanleg á stjórnsýslustigi.

Aðeins sé um að ræða u.þ.b. tveggja metra viðbyggingu í sundi/bili á milli Sjávarhússins og Ólafsskála. Viðbyggingin sé að útliti og byggingarstíl sambærileg nefndum húsum og henni fylgi engin grenndaráhrif, útsýnisskerðing, skuggavarp eða annað slíkt. Litið hafi verið til þess að viðbyggingin uppfylli þau viðmið sem fram komi í h. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjalli um tilteknar viðbyggingar sem undanskildar séu byggingarleyfi. Loks skipti máli að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða teljist verulega íþyngjandi gagnvart við­komandi eigendum og verði ekki tekin nema á grundvelli sterkra raka sem kærandi hafi ekki fært fram. Verði að telja að hagsmunir eigenda viðbyggingarinnar vegi, eins og máli þessu sé háttað, þyngra en hagsmunir kæranda. Einnig sé horft til þess að kærandi teljist ekki hafa rökstutt hvaða hagsmunir séu fólgnir í því fyrir hann og aðra að fá viðbygginguna fjarlægða.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati hverju sinni og við það mat verði að taka tillit til atvika og aðstæðna, sem og til hagsmuna allra viðeigandi aðila. Sé einstaklingum eða lögaðilum ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða, enda eigi þeir kost á að grípa til annarra réttarúrræða til að verja meinta hagsmuna sína. Kærandi hafi um árabil kvartað til Ísafjarðarbæjar vegna meintra óleyfisframkvæmda á svæðinu. Hann virðist hins vegar hvorki hafa beint kvörtunum sínum eða fyrirspurnum til þeirra sem að umræddum ráðstöfunum hafi staðið né nýtt sér þau einkaréttarlegu réttarúrræði sem honum standi til boða til að gæta meintra hagsmuna sinna. Að þessu verði að gæta við meðferð málsins og þá sérstaklega þegar horft sé til þess að umrætt svæði sé í eigu ýmissa aðila. Í því ljósi sé m.a. ekki unnt að líta svo á að þær ráðstafanir sem mál þetta og önnur því tengd geti talist það viðurhlutamiklar að réttlæti að byggingarfulltrúi beiti íþyngjandi þvingunarúrræðum.

Málsrök eigenda: Af hálfu eigenda Sjávarhússins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað eða kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni. Sé öllum kröfum mótmælt, einkum ósönnuðum og röngum staðhæfingum um meintar óleyfisframkvæmdir.

Kæran uppfylli ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Á engan hátt sé með skýrum hætti gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli kæran byggi eða til hvaða framkvæmda hún taki. Ekki komi fram hvernig hin kærða ákvörðun snerti hagsmuni kæranda og verði því ekki séð hvort og hvaða hagsmuni hann hafi. Af framan­greindu leiði að hverjum þeim sem kunni að hafa hagsmuna að gæta sé gert erfitt um vik að koma að sjónarmiðum er máli kunni að skipta. Málatilbúnaður kæranda hafi verið með þessum hætti frá upphafi málsins og sé varla hægt að ætlast til þess að eigendur Sjávarhússins þurfi að sætta sig við það öllu lengur að svara órökstuddum fullyrðingum og dylgjum.

Tekið sé undir rökstuðning byggingarfulltrúa sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Að auki hafi Ísafjarðarbær verið upplýstur um allar framkvæmdir við húsið, m.a. með bréfum, dags. 20. janúar og 24. febrúar 2015. Fulltrúar eigenda hafi átt fund með bæjarstjóra og starfsmönnum bæjarins í apríl 2015 þar sem farið hafi verið yfir allar framkvæmdir við húsið, þ. á m. þá minni­háttar stækkun þegar inngangi og salerni hafi verið skeytt við það á árunum í kringum 1990. Eigendum sé ekki kunnugt um að landeigendur að Látrum hafi nokkurn tíma amast við tilvist Sjávarhússins, nema þá kærandi, líkt og sjá megi í linnulausum kærumálum undanfarin ár. Hann sé ekki eigandi fasteigna í nágrenni við Sjávarhúsið og það sé því óskiljanlegt hvernig hin meinta óleyfisframkvæmd geti verið kæranda til svo mikils ama. Megi í raun ráða að hann telji sig hafa einhvers konar alræðisvald á svæðinu.

Allar framkvæmdir við Sjávarhúsið hafi verið gerðar í góðri trú. Tilgangur þeirra hafi verið að bæta ásýnd hússins og byggðarinnar að Látrum. Fyrir liggi að mál er varði leyfi til bygginga á Látrum hafi ekki verið í föstum skorðum fram til þessa. Áréttuð séu áður framkomin sjónarmið vegna eldri kærumála, einkum bréf til úrskurðar­nefndarinnar í ágúst og október 2020, auk fyrri samskipta við Ísafjarðarbæ. Verði fallist á kröfur kæranda sé farið gegn sjónarmiðum um meðalhóf, jafnræði og réttmætar væntingar eigenda hússins. Tekin hafi verið ákvörðun um að hafna kröfu um niðurrif Sjávarhússins og eðli máls samkvæmt taki hún einnig til hinnar umdeildu viðbyggingar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að eigendur Sjávarhússins reyni að afvegaleiða málið með ýmsum rangfærslum. Húsið hafi t.d. verið endurbyggt og stækkað á árunum 2010-2014 en ekki árið 1990 líkt og haldið sé fram. Athugasemdir sveitarfélagsins beri með sér yfirgripsmikla hlutdrægni til kærumálsins þar sem halli á kæranda. Settar séu fram kunnugar rangfærslur og hreinn skáldskapur, auk alls óskyldra atriða til að reyna að ljá athugasemdunum alvöruþunga. Slíkur málflutningur sé ekki svaraverður enda hafi þau sjónarmið áður verið hrakin.

Á undanförnum áratugum hafi kærandi ítrekað bent aðilum þeim sem að óleyfisframkvæmdum standi á ólögmæti þeirra og að þær séu gerðar í óþökk kæranda og án hans leyfis. Erfitt sé að koma að eftirliti sökum þess hversu afskekkt friðlandið sé. Hafi framkvæmdirnar ávallt hafist án vitneskju kæranda sem hafi komist að þeim síðar. Það að kærandi hafi ekki nýtt sér einka­réttarleg réttarúrræði sé málinu óviðkomandi og leysi ekki Ísafjarðarbæ undan lögbundnum starfs­skyldum sínum. Rangt sé að kærandi hafi ekki rökstutt hagsmuni sína í málinu. Tilraun Ísafjarðarbæjar til að heimfæra umdeildar framkvæmdir undir byggingar­reglugerð nr. 112/2012 sé valdsmannleg og yfirgengileg. Hvoru tveggja gangi gegn fjöl­mörgum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, t.d. um meðalhóf, jafnræði og andmælarétt. Viðurkenni sveitarfélagið að það hafi tekið sér vald sem það hafi ekki og sé það grafalvarlegt. Beri Ísafjarðarbær ábyrgð á þeim töfum sem orðið hafi í málinu. Losi það sveitarfélagið hvorki undan ábyrgð né geti leitt til þess að óleyfisframkvæmdin fái að standa. Ef svo væri þá væru það skýr skilaboð til annarra um hvernig búa megi um hnútana til að óleyfisframkvæmdir fái að standa óáreittar.

                                                                                                                                                    —–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki þykja efni til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau sjónarmið.

Niðurstaða: Í kæru er tekið fram að kærð sé afgreiðsla byggingarfulltrúa í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 55/2020, en eins og fyrr greinir var í því máli lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu án frekari dráttar til kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús yrði fjarlægð. Jafnframt segir í kæru að kröfur sem settar hafi verið fram í því máli séu endurteknar og vísað heildstætt í öll málsgögn máls nr. 55/2020. Verður með vísan til þessa og forsögu málsins að öðru leyti að telja að kæran uppfylli skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og að ekki leiki vafi á hver sé hin kærða ákvörðun og hvaða kröfur séu gerðar. Jafnframt að kærandi hafi hagsmuni af úrlausn málsins sem einn sameigenda lands þess sem um ræðir. Verður máli þessu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni.

Látrar í Aðalvík teljast hluti af Hornstrandafriðlandi skv. auglýsingu nr. 332/1985 um friðland á Hornströndum. Á svæðinu eru nokkur hús, þeirra á meðal Sjávarhúsið og Ólafsskáli er standa hlið við hlið. Samkvæmt lið 1 í auglýsingunni er öll mannvirkjagerð, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum frá stórstraumsfjöruborði, háð leyfi Umhverfis­stofnunar. Einnig liggur fyrir samkomulag frá árinu 2004 milli stofnunarinnar, Ísafjarðarbæjar, og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps um vinnureglur við úthlutun byggingar­leyfa í friðlandinu. Í því samkomulagi er tekið fram að nýbyggingar eða breytingar á byggingum í friðlandinu á Hornströndum séu háðar byggingarleyfi og leyfi Umhverfis­stofnunar, sbr. framangreinda auglýsingu. Þá er í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 að finna ákvæði um byggingu húsa á Látrum, svo sem um þann fjölda íbúðarhúsa og þjónustuhúsa sem heimilt er að endurbyggja og um ásýnd svæðisins og útlit húsa.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðar­bæjar frá 15. apríl 2021 að synja kröfu kæranda um að fjarlægð verði viðbygging við Sjávarhúsið á Látrum. Mun húsið hafa verið stækkað án þess að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa fyrir þeim breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Upplýsti Umhverfis­stofnun úrskurðarnefndina um í bréfi, dags. 22. október 2020, við meðferð máls nr. 55/2020 fyrir nefndinni að hvorki hefði verið veitt umsögn eða leyfi af hálfu stofnunarinnar fyrir framkvæmdinni. Jafnframt hefur Ísafjarðarbær veitt nefndinni þær upplýsingar að ekki hafi heldur verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, en að stofnunin sé upplýst um viðkomandi mannvirki að Látrum og hafi óformleg samskipti átt sér stað við stofnunina vegna þeirra.

Í kröfu kæranda felst að beitt verði ákvæðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur byggingarfulltrúi krafist þess ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og er tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almanna­hagsmunum svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunum, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis, líkt og endranær, að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Sú niðurstaða byggingarfulltrúa að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða var studd þeim rökum að hún grundvallaðist á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum og þeim hagsmunum sem vógust á, m.t.t. íþyngjandi eðlis þeirra úrræða sem farið væri fram á að yrði beitt. Horft væri til þess að aðrir eigendur jarðarinnar Látra hefðu ekki gert athugasemdir við umrædda viðbyggingu auk þess sem nokkuð væri liðið frá því að henni hefði verið skeytt við húsið. Aðeins væri um að ræða u.þ.b. tveggja metra viðbyggingu á milli tveggja húsa og henni fylgdu engin grenndaráhrif, útsýnisskerðing, skuggavarp eða annað slíkt.

Viðbygging sú sem um ræðir mun hafa verið reist undir lok síðustu aldar en mun hafa verið endurbyggð árið 2012. Hefur kærandi allt frá árinu 2014 farið fram á að hún yrði fjarlægð, auk þess sem eigendur Ólafsskála beindu erindi vegna skráningar viðbyggingarinnar til Þjóðskrár á árinu 2016 þar sem fram komu mótmæli eigendanna vegna byggingarinnar. Var afrit þess bréfs sent sveitarstjóra Ísafjarðarbæjar. Við meðferð máls þessa leitaði byggingarfulltrúi eftir sjónar­miðum eigenda lands og mannvirkja á svæðinu, m.a. eigenda Ólafsskála, eins og rakið er í málavöxtum. Bárust engar athugasemdir á þann veg að fjarlægja bæri viðbygginguna. Lagði byggingarfulltrúi tilhlýðilegt mat á framangreind atvik málsins og var niðurstaða hans reist á meðalhófi, enda hefði öndverð niðurstaða leitt til íþyngjandi niðurstöðu fyrir eigendur mann­virkisins. Sá ágalli er þó á afgreiðslu byggingarfulltrúa að ekki verður séð að hann hafi við ákvörðun sína lagt mat á eldhættu sem þó hefði verið ástæða til að teknu tilliti til nálægðar hinnar umdeildu viðbyggingar við Ólafsskála. Verður þó ekki talið að af viðbyggingunni sem slíkri stafi slík aukin eldhætta frá því sem fyrir var að nauðsyn hafi borið til vegna brýnna öryggishagsmuna að hlutast til um að hún yrði fjarlægð, en viðbyggingin er aðeins um tveggja metra breið og lokar nánast jafnstóru sundi sem áður var á milli Sjávarhússins og Ólafsskála. Þá vísaði byggingarfulltrúi til þess að niðurstaða hans væri grundvölluð á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum þótt ekki hafi verið vikið að öryggis- eða skipulagshagsmunum með berum orðum. Að framan­greindu virtu verður að telja að mat byggingarfulltrúa og ákvörðun um að beita ekki úrræði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga hafi verið studd viðhlítandi efnisrökum.

Þá er rétt að benda á að Umhverfisstofnun hefur ekki látið málefni Sjávarhússins og umræddrar viðbyggingar til sín taka, en í bréfi stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. október 2020, kemur fram að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir af hálfu stofnunarinnar vegna framkvæmda sem falist hefðu í lagfæringum, stækkunum og breytingum á húsum innan friðlandsins þegar þau hefðu komið til kasta stofnunarinnar. Er og til þess að líta að þótt leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til allrar mannvirkjagerðar á Látrum hefur hún ekki nýtt sér þau þvingunarúrræði sem lög nr. 60/2013 um náttúruvernd kveða um á til að knýja á um úrbætur vegna framkvæmda við Sjávarhúsið.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið eru ekki efni til að ógilda þá matskenndu ákvörðun byggingarfulltrúa að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna títtnefndrar viðbyggingar, þótt hún kunni að lúta með óbeinum hætti jafnframt að hagsmunum kæranda. Eru honum enda önnur úrræði tiltæk til að gæta þeirra hagsmuna, svo sem áður er komið fram. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í kærumáli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitar­félaginu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 15. apríl 2021 um að synja kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum í Aðalvík í Ísafjarðarbæ verði fjarlægð.