Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 121/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 11. október 2017, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Birkigrund 14, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. október 2017.
Málavextir: Hinn 24. júní 2016 sendi embætti byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ bréf til lóðarhafa Birkigrundar 12 og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14. Bréfið varðaði deilu lóðarhafa um grindverk á lóðamörkum. Í bréfinu kom fram að samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Af því leiddi að allar þegar hafnar framkvæmdir á lóðamörkum sem ekki hefðu verið samþykktar af báðum lóðarhöfum væru óheimilar og þyrfti því að færa lóðirnar aftur í fyrra horf. Sáttafundur vegna deilunnar var haldinn 12. ágúst 2016 með starfsmönnum Kópavogsbæjar en án árangurs.
Byggingarfulltrúi sendi lóðarhafa Birkigrundar 12 bréf, dags. 7. febrúar 2017, og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14 vegna kvörtunar sem borist hafði frá kæranda vegna timburpalls og skjólveggjar sem byggður hafði verið á lóðamörkum. Þar kom fram að vettvangsskoðun starfsmanna byggingarfulltrúa hefði leitt í ljós að undirstöður vegna þessara framkvæmda næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Áréttaði byggingarfulltrúi það sem fram hafði komið í bréfi hans, dags 24. júní 2016, um að samþykki beggja lóðarhafa hefði þurft áður en hafist var handa við framkvæmdina, sbr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð. Jafnframt benti hann á að samkvæmt gr. 2.3.5. í reglugerðinni mætti pallur úr brennanlegu efni ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Byggingarfulltrúi hvatti deiluaðila til að ná samkomulagi og tók fram að annars yrði að fjarlægja skjólveggi og timburpalla sem ekki uppfylltu fyrrgreind ákvæði gr. 7.2.3. og 2.3.5.
Hinn 4. september 2017 barst kæra frá fasteignareigendum Birkigrundar 14 til úrskurðarnefndarinnar þar sem farið var fram á að framkvæmdir á lóðamörkum yrðu stöðvaðar af þeirri ástæðu að þær brytu í bága við byggingarreglugerð og að ekki hefði verið veitt samþykki fyrir þeim. Erindið var framsent byggingaryfirvöldum Kópavogsbæjar 14. september s.á. þar sem kæruefnið ætti undir embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hafnaði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna umdeildra framkvæmda og tilkynnti honum þær málalyktir með bréfi, dags. 20. september 2017.
Málsrök kæranda: Kærandi álítur að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi ekki fylgt eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 122/2012, svo sem honum hafi verið skylt að gera, er hann synjaði beitingu þvingunarúrræða. Samkvæmt bréfi, dags. 7. febrúar 2017, hafi starfsmenn byggingarfulltrúa staðfest eftir vettvangsskoðun að undirstöður framkvæmda lóðarhafa Birkigrundar 12 næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Jafnframt hafi þar verið tiltekið að pallur úr brennanlegu efni mætti ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m til að vera undanþeginn byggingarleyfi.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að hvorki hafi verið gefið út byggingarleyfi né um það sótt. Byggingarfulltrúi sjái um eftirlit með mannvirkjagerð og geti t.a.m. stöðvað framkvæmdir ef byggt sé á annan hátt en leyfi standi til. Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé byggingarfulltrúa veitt heimild til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 42/2016 komi fram að ákvörðun um beitingu umræddra þvingunaraðgerða sé háð frjálsu mati stjórnvaldsins hverju sinni. Í frumvarpi sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðisins sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verði fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim sem búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Einstaklingum sé hins vegar ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.
Starfsmenn embættis byggingarfulltrúa hafi farið á staðinn og skoðað aðstæður. Ekki hafi verið að sjá að umræddur skjólveggur hefði áhrif á umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu eða hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Því væri ekki að sjá að gengið væri svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta hefði mátt beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða í málinu.
Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar er samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni.
Kópavogsbær rökstuddi synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að skjólveggurinn gengi svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta mætti beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða. Hvorki væri að sjá að hann drægi úr umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu fólks né að hann hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Verður ekki annað séð en að það mat byggingarfulltrúa, að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum, sé stutt efnisrökum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14.