Fyrir var tekið mál nr. 120/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 um að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulaginu Hnoðraholt – Smalaholt er varðar Þrymsali 1.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2014, er barst nefndinni 27. s.m., kæra A, Þrymsölum 1, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulagi er varðar Þrymsali 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. apríl 2015 og 6. september 2016.
Málavextir: Með erindi, dags. 30. janúar 2014, óskuðu kærendur eftir breytingu á skráningu húss nr. 1 við Þrymsali í Kópavogi úr einbýlishúsi í tvíbýlishús. Því var hafnað af hálfu skipulagsnefndar bæjarins 18. febrúar s.á., þar sem breytingin væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Bæjarstjórn Kópavogs hafnaði erindinu 25. s.m. Kærendur óskuðu eftir því að erindi þeirra yrði tekið fyrir á ný og staðfesti skipulagsnefnd bókun sína frá því í febrúar á fundi sínum 20. maí s.á. Bæjarráð samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 22. s.m. og 27. s.m. hafnaði bæjarstjórn erindi kærenda.
Sumarið 2014 sóttu kærendur á ný um að erindi þeirra yrði tekið fyrir. Á fundi skipulagsnefndar 28. júlí s.á. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi og var það gert með bréfi, dags. 28. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og voru þær allar neikvæðar. Meðal annars kom fram að svæðið hefði verið skipulagt fyrir einbýli, úthlutun lóða hefði byggst á þeim forsendum og að samþykki á erindi kærenda myndi fela í sér óæskilegt fordæmi. Breytingin hefði í för með sér aukna umferð og ekki væru næg bílastæði fyrir hendi. Enn fremur hefði breytingin í för með sér verðfellingu fasteigna á svæðinu.
Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 20. október s.á. var beiðni um breytingu á deiliskipulagi synjað á grundvelli innsendra athugasemda og bæjarstjórn hafnaði erindinu á fundi sínum 28. s.m.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að húsið að Þrymsölum 1 hafi verið teiknað og hannað með tveimur íbúðum og notkun hafi verið samkvæmt því. Teikningar og úttektir hafi verið samþykktar athugasemdalaust. Breyting á notkun hússins yrði því engin. Einnig telji kærendur að umferð um götuna muni ekki aukast, enda verði engin breyting á notkun hússins frá því sem verið hafi frá upphafi. Í mesta lagi gæti umferð aukist meðfram húsum nr. 2 og 3, en athugasemdir hafi borist frá nágrönnum sem séu á öðrum stað í götunni. Kærendur fallist ekki á röksemdir um að breyting á skipulagi Þrymsala 1 sé til þess fallin að verðfella hús við götuna, enda séu þær órökstuddar. Að lokum bendi kærendur á að á árinu 2013 hafi verið samþykkt að skipta húsinu við Þorrasali 27 í tvö fastanúmer og því sé komið fordæmi fyrir breytingunni.
Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt deiliskipulagi fyrir Hnoðraholt-Smalaholt skuli í húsi á lóðinni Þrymsölum 1 vera ein íbúð. Svo heimilt sé að breyta húsinu í tvær íbúðir þurfi að koma til breyting á deiliskipulagi og um málsmeðferð breytinganna fari samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Það sé í höndum skipulagsyfirvalda að taka ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. Slík ákvörðun verði einungis tekin á fundi að undangenginni málsmeðferð skv. 43., sbr. 44. gr., skipulagslaga. Deiliskipulagi verði hvorki breytt með samþykki byggingarfulltrúa á teikningum og úttektum né með því að lóðarhafi byggi húsið með ákveðnum hætti, þ.e. sem tvær íbúðir.
Við meðferð málsins hjá Kópavogsbæ hafi verið farið með erindi kærenda sem beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni hafi verið hafnað á grundvelli neikvæðra athugasemda nágranna sem hafi borist við grenndarkynningu.
Varðandi þá athugasemd kærenda að heimilað hefði verið að breyta einbýlishúsi við Þorrasali 27 í tvær íbúðir þá hafi sú breyting verið grenndarkynnt í samræmi við ákvörðun skipulagsnefndar frá 18. desember 2012. Kynningu hafi lokið 1. febrúar 2013 og hefðu engar athugasemdir borist. Breytingin hefði því verið heimiluð. Málin séu ólík varðandi þann fjölda athugasemda sem borist hefði við grenndarkynningu vegna Þrymsala 1.
Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn kærenda um að breyta einbýlishúsinu að Þrymsölum 1, sem er á tveimur hæðum, í tvíbýlishús, þannig að hvor hæð teljist sérstök fasteign. Var ákvörðunin tekin að undangenginni grenndarkynningu á tillögu að nefndri skipulagsbreytingu.
Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald í sínu umdæmi og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að taka mið af því markmiði c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi.
Eins og uppdráttur umrædds deiliskipulags fyrir Hnoðraholt – Smalaholt ber með sér hefur byggðin fastmótað yfirbragð, með tveimur afmörkuðum einbýlishúsahverfum og fimm litlum fjölbýlishúsum á milli þeirra. Fasteign kærenda er í botni Þrymsala. Eingöngu eru einbýlishús við götuna og bárust mótmæli nágranna við umbeðinni breytingu þegar hún var grenndarkynnt. Með tilliti til þessa, og þar sem byggðarmynstur hverfisins er svo einsleitt og fastmótað sem raun ber vitni, verða málefnaleg rök talin búa að baki þeirri ákvörðun skipulagsyfirvalda að hafna því að breyta húsi kærenda úr einbýli í tvíbýli. Það haggar ekki þeirri niðurstöðu þótt áður hafi verið fallist á breytingu úr einbýli í tvíbýli fyrir eitt hús í annarri götu á skipulagssvæðinu, en engin andmæli bárust við kynningu tillögu að þeirri breytingu. Verður yfirvöldum ekki talið skylt að fylgja því fordæmi.
Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er þeirri kröfu kærenda að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 um að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulaginu Hnoðraholt – Smalaholt er varðar Þrymsali 1.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson