Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2023 Þórisstaðir

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af Þórisstöðum 2, lóð 19, verði sinnt.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þórisstaða 2, lóðar 19, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af lóðinni verði sinnt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 24. október 2023.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. skoðaði hinn 23. ágúst 2023 sumarhúsalóðina nr. 19 á Þórisstöðum 2. Kom í ljós að stöðuhýsi hefði verið sett á lóðina, en ekki hafði verið veitt leyfi fyrir þeirri framkvæmd. Sama dag sendi byggingar­fulltrúi kæranda bréf í gegnum pósthólf vefsíðunnar island.is, þar sem farið var fram á að stöðuhýsið yrði fjarlægt af lóðinni. Í bréfinu var kæranda bent á að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi ráðstafanir fyrir 1. október s.á. mætti kærandi búast við að lagðar yrðu á dagsektir þar til tilmælum byggingarfulltrúa yrði sinnt. Að lokum var kæranda bent á andmælarétt skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. október 2023, voru lagðar dagsektir á kæranda að upphæð kr. 20.000 frá 1. nóvember s.á., þar sem kærandi hefði ekki orðið við tilmælum byggingarfulltrúa og andmæli hefðu ekki borist. Var bréf þetta sent kæranda bæði með bréfpósti og hins í gegnum pósthólf vefsíðunnar island.is.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi fyrst vitað af bréfum byggingar­fulltrúa 9. október 2023, en þann dag hafi hann komið frá útlöndum. Kærandi hafi ekki verið meðvitaður um áskorun byggingarfulltrúa sem einungis hafi borist í gegnum vefsvæðið island.is. Kærandi tekur fram að á svæðinu sé fjöldi vinnuskúra, en sveitarfélagið bjóði ekki upp á stöðuleyfi. Kærandi sé allur af vilja gerður til að sækja um tilskilin leyfi en dagsektir muni reynast honum þungbærar.

Málsrök Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.: Af hálfu byggðasamlagsins er bent á að það sé fortakslaust skilyrði að mannvirkjagerð sé í samræmi við deiliskipulag og að leyfi fyrir henni hafi verið veitt. Á svæðinu sé í gildi deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í landi Þóris­staða, Grímsneshreppi. Í skipulaginu sé ekki gert ráð fyrir lausafjármunum eins og stöðuhýsum á sumarhúsalóðum.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í því felist m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt sé fyrir um í 55. og 56. gr. laganna. Heimilt sé að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur vegna þeirra atriða sem talin séu upp í nefndum lagagreinum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi lagt sig allan fram við að leysa málin í samráði við embætti byggingarfulltrúa og hafi sótt um stöðuleyfi, sent teikningar til embættisins og fundið byggingarstjóra. Umsóknin sé þó enn óafgreidd.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. að leggja dagsektir að upphæð kr. 20.000 á kæranda vegna stöðuhýsis á lóð hans.

Kærandi telur að honum hafi ekki verið mögulegt að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðun byggingarfulltrúa, þar sem áskorunarbréf hans, dags. 23. ágúst 2023, hafi einungis verið birt í pósthólfi kæranda á vefsíðunni island.is.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 105/2021 um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt er markmið laganna m.a. að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að í stafrænu pósthólfi skuli birta hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar. Þá er kveðið á um í 7. gr. laganna að þegar gögn eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda. Þar sem í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sé kveðið á um að gögn skuli birt á ákveðinn hátt, svo sem með auglýsingu, símskeyti, ábyrgðarbréfi, stefnuvotti eða öðrum sannanlegum hætti, skuli birting í stafrænu pósthólfi metin fullgild.

Í 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um andmælarétt og tilkynningu um meðferð máls. Þannig segir í 13. gr. að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því og í 14. gr. er mælt fyrir um að stjórnvald skuli vekja athygli aðila máls á því að mál hans sé til meðferðar, svo fljótt sem því verði við komið, eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skv. 13. gr.

Verður að líta svo á að með því að birta tilkynningu um að mál kæranda hafi verið til meðferðar og honum væri heimilt að koma andmælum að um pósthólf kæranda á island.is hafi byggingarfulltrúi birt slíka tilkynningu með réttum hætti, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 105/2021. Þá verður að skýra 13. gr. laga nr. 37/1993 og 7. gr. laga nr. 105/2021 svo að kærandi hafi átt þess kost að koma andmælum að eftir að honum barst tilkynning í pósthólf sitt á island.is hvort sem hann hafi í reynd séð þá tilkynningu eða ekki.

Samkvæmt 87. tölul. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er stöðuhýsi skilgreint sem: „Tímabundnar og lausar byggingar sem ekki eru tengdar lagna- eða veitukerfum og ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað svo sem húsvagnar og tjaldhýsi úr léttum byggingarefnum“. Þá eru stöðuhýsi sem skulu standa lengur en fjóra mánuði talin upp í c-lið 1. mgr. gr. 2.3.6. þar sem fjallað er um mannvirkjagerð sem er undan­þegin byggingarheimild og -leyfi, en skal tilkynnt leyfisveitanda. Skal hún vera í samræmi við deiliskipulag.

Í gildi er deiliskipulag Þórisstaða, frístundabyggð. Samkvæmt skilmálum þess er heimilt að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús, þó ekki stærri en 10–15 m2. Verður af ljósmyndum af hinu umdeilda stöðuhýsi ekki litið svo á að um geymslu, svefnhús eða gróðurhús sé að ræða. Er því ekki að finna heimild í deiliskipulagi fyrir stöðuhýsi kæranda.

Sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sama gildir ef notkun mannvirkis brýtur í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka samkvæmt lögunum og reglugerðum eða láta af ólögmætu athæfi. Verður í ljósi framangreinds fallist á með byggingarfulltrúa að uppi sé ólögmætt ástand og að honum hafi því verið heimilt að beita dagsektum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun voru dagsektir ákveðnar frá og með 1. nóvember 2023. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 37/1993 þykir rétt, eins og atvikum þessa máls er háttað, að dagsektir sem hafa verið lagðar á frá og með 1. nóvember 2023 til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af lóð nr. 19 á Þórisstöðum 2, verði sinnt.